Punktar

Verðlag að geðþótta

Punktar

Gallinn við krónuna er, að atvinnurekendur nota hana til að lækka laun. Hér er hvorki frjáls markaður né bremsa á verðhækkunum. Atvinnurekendur hafa einokun eða samráð um fáokun. Að loknum kjarasamningum hækka atvinnurekendur verð að geðþótta, krónan fellur og málið er dautt. Kjarasamningar valda ekki verðbólgu, heldur ákvarðanir atvinnurekenda. Við þessu er bezta ráðið að framkalla markað með aðkomu erlendra fyrirtækja. Afnema ber dulda vernd, sem ónýtir pilsfalda-kapítalistar njóta, kvóta og fríðindi, höft og tolla. Kjarasamningar verði hér eftir eingöngu skráðir í evrum og sett verði lög um lágmarkslaun í sömu mynt.

Orðin vísa á rökþrot

Punktar

Takið ekki mark á fólki, sem flaggar áróðursorðum á borð við „hagvöxtur“ eða „framleiðni“. Mælikvarðarnir að baki eru oft ónothæfir eða villandi. Að baki orðsins hagvöxtur er aukin viðskiptavelta, sem kemur efnahag lítið eða ekkert við. Orðið er notað til að gefa í skyn, að brask sé þjóðhagslega hagkvæmt. Enn verra er orðið framleiðni. Það er notað til að gefa í skyn, að launafólk vinni of lítið. Í rauninni mælir orðið, hvað borgað er fyrir vinnuna. Orðið er aðeins mælikvarði á launagreiðslur. Nánast daglega er það notað á einhverjum vettvangi til að gera lítið úr launafólki. Samtök atvinnurekenda nota svona áróðursorð.

Samstillt gáfnaljós

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir, að vel gangi að afnema verðtryggingu. Degi síðar segir Bjarni Benediktsson, að ekki sé verið að vinna að afnámi hennar. Ekki er amalegt að hafa svona vel samstillt gáfnaljós við völd að efna loforð sín. Og sízt er amalegt að hafa kjósendur, sem færðu okkur þessa skemmtikrafta. Hófu ferilinn á að lækka ríkistekjur um 100 milljarða á hverju ári með afnámi auðlegðarskatts, lækkun auðlindarentu og lækkun hátekjuskatta. Allt í þágu örfárra gæludýra undir pilsfaldi þeirra. Segja svo ævinlega að ekki sé svigrúm til að greiða almenningi mannsæmandi laun. Framleiddu sjálfir skort á svigrúmi.

Tilgangslaus vegur

Punktar

Vegagerðin hefur sem betur fer blásið af í bili hálendisveg yfir Sprengisand. Hún sér, að enginn hljómgrunnur er fyrir rafmöstrum, er vegurinn átti að þjóna. Hálendisvegurinn mundi ekki gagnast samgöngum til Austfjarða. Yrði lokaður mikinn hluta ársins vegna veðurofsa og snjóþyngdar. Mundi ekki heldur gagnast ferðaþjónustu. Hún treystir á upplifun útlendinga af að vera í fjórhjóladrifs farartækjum, sem henta núverandi aðstæðum. Engar standast af forsendum Trausta Valssonar fyrir hálendisvegi um Sprengisand. Hefur stagast á þessu í mörgum smáritum, sem einkennast almennt af trúarofsa, en alls ekki neinum vísindum.

Heiladauður krataflokkur

Punktar

Samfylkingin og Björt framtíð hafa glatað fótfestu. Verndun víðerna hefur skjól hjá Vinstri grænum og lágstéttir hafa skjól hjá Vilhjálmi Birgissyni. Formaður Samfylkingarinnar varð frægur af Árnalögum í þágu banka gegn skuldurum. Hálfu frægari er hann af svikum við stjórnarskrá fólksins. Árna Páli er vantreyst meira en Sigmundi Davíð og Bjarni Benediktssyni. Sem ég hélt, að væri bara alls ekki hægt. Endurkjör hans sýnir firrtan flokk Blair-isma, eins konar „Thatcher light“. Flokkurinn er heiladauður krati. Örlítið lífsmark finnst með Bjartri framtíð, sem áður var helzt þekkt af að vera fínt í tauinu að pósera í þinginu.

Rörsýn menntaráðherrans

Punktar

Styttri framhaldsskóli er árátta, er stafar af heimskri rörsýn ráðherra. Illugi Gunnarsson telur milljarða sparast við styttingu um eitt ár. Hvað mætti spara með að stytta um tvö ár eða jafnvel stytta um þrjú ár? Unglingar þroskast ekki hraðar með lögum og reglugerðum. Nú þegar koma nemendur illa undirbúnir upp í háskóla og eru þar til vandræða. Endar rörsýn ráðherrans með, að farið verður að kenna lestur og skrift í háskólanum? Og hvernig varð til sú firra, að nám sé eins konar færiband á forsendum atvinnulífsins. Nám er þroski, ekki færiband. Í menntaskóla hafði ég mest gagn af hangsi á kaffihúsum. Tíminn tekur sinn tíma.

Íslenzk hallærislausn

Punktar

Hefðbundin er aðkoma ríkisstjórnar að kjarasamningum, venjulega á lokastigi. Þá eru skattgreiðendur látnir niðurgreiða kjarasamninga, sem atvinnurekendur vilja ekki standa við. Dæmigerð íslenzk hallærislausn til að tempra verðbólgu. Hún stafar af, að hér á landi er lítil eða engin samkeppni. Atvinnurekendur hækka verð í kjölfar samninga og komast upp með það. Hér gilda engin markaðslögmál, bara einokun og makk um fáokun. Þar á ofan grýtti stjórnin mörgum milljörðum í eigendur sína, ofurgráðuga kvótagreifa. Kjarni vandans leynist í tröllheimsku kjósenda. Vandinn linast fyrst, þegar bófunum er komið varanlega frá völdum.

Sjálfdauð auðhyggja

Punktar

Auðhyggja nútímans temprast helzt af félagshyggju. Þannig hafa Norðurlönd og Þýzkaland fundið millileið, sem reynist vel. Annars staðar er auðhyggjan meira eða minna stjórnlaus. Það leiðir óhjákvæmilega til dauða hennar. Komið hefur í ljós, að mikið vill meira. Græðgi auðhyggjufólks eru engin takmörk sett. Einkum er auðhyggjuflokkum á borð við Sjálfstæðis og Framsókn illa við eftirlit hins opinbera. Í háði kalla þeir það eftirlitsiðnað, atvinnu fyrir aumingja. Með sama áframhaldi tekst auðhyggjunni að gera meirihluta almennings svo fátækan, að hann getur ekki keypt afurðir auðhyggjunnar. Þannig verður hún sjálfdauð.

Óþekkjanlegir flokkar

Punktar

Kynntist Eysteini Jónssyni fyrir nærri hálfri öld, þegar hann hafði afskipti af Tímanum. Hann var góðmenni, sem hugsaði minnst um eigin hag. Mest unni hann ósnortnum víðernum, sem hann þekkti vel. Gerólíkur framsóknarmönnum nútímans, sem hata ósnortin víðerni. Ég kynntist einnig Birgi Kjaran, sem á þeim tíma var í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins. Unni ósnortnum víðernum eins heitt og sjálfstæðismenn nútímans hata þau. Í þá gömlu daga rúmuðust Pétur sjómaður og Guðmundur í VR í þingliði flokksins. Nú eru þessir tveir flokkar óþekkjanlegir. Hafa tapað sér í græðgi og sérhagsmunum, yfirgangi og lygum. Orðnir skrímsli.

Hugtök án innihalds

Punktar

Ásgeir Jónsson var fyrrum þekktur sem spámaður Kaupþing-bankans. Þekktur fyrir rök, sem byggðust á röngum hugtökum. Slíkt kallast peningafræði eða auðfræði. Í þeim hugarheimi varð aukin viðskiptavelta að fínu orði, „hagvexti“. Þannig gat Kaupþing aukið hagvöxt með því að selja sápukúlur fram og aftur á síhækkandi verði. Unz allt sprakk. Nú er Ásgeir aftur upp vakinn og beitir öðrum hugtökum auðfræðinnar á sama hátt. Um helgina fjallaði hann um framleiðni, sem er fínt orð yfir vinnulaun. Kvartaði yfir lítilli framleiðni hér. Sagði það orsaka lágu launin. Veruleikinn er þveröfugur, þú eykur „framleiðni“ með því að hækka laun.

Auðlindin í alúðinni

Punktar

Hvað sem að öðru leyti má segja um Íslendinga, eru þeir alúðlegir við ókunna. Það sé ég bezt á veitingahúsum. Ég er ekki að tala um ýkta, leikna alúð, heldur eðlilega hlýju í mannlegum samskiptum. Hjá þeim, sem hafa samskipti við kúnna, þjónustufólkinu. Það er stærsta auðlind landsins og mikilvægasti þátturinn í ofurvexti ferðaþjónustunnar. Atvinnurekendur hafa lítinn skilning á þessu og vilja sjálfir éta alla kökuna. Þjónusta er vanmetin og launin eru hneyksli. Hér þarf að koma ríkisstjórn, sem lögfestir 500.000 króna lágmarkslaun. Slíkt mun skipta út óhæfum bossum og treysta ferðaþjónustu í sessi sem mestu auðlindina.

Gamalt ríkishlutverk

Punktar

Landvarnir og löggæzla eru elzta hlutverk stjórnvalda. Síðan komu takmarkanir á meðferð þessa valds. Snemma varð póstvesenið eitt af mikilvægustu hlutverkum stjórnvalda. Nú er verið að einkavæða póstinn, til góðs eða ills. Vel geta aðstæður verið slíkar, að slíkt komi til greina. En hugsa þarf málið vel vegna gróinnar stöðu þjónustunnar hjá sjálfu ríkisvaldinu. Ástæða var fyrir því á sínum tíma, að ríkið tók hana að sér. Nýjar og aðrar ástæður þurfa að vera knýjandi til að geta breytt þeim gömlu forsendum. Ekki nægir þorsti gróðafíkla í aðgengi að einkavinavæddri einokun. Sú hefur hér ætíð reynzt vera ástæðan.

Greifar fá viðbótina

Punktar

Aukinn þorskkvóti á næsta ári verður notaður í þágu kvótagreifanna, sem eiga bófaflokkana í ríkisstjórn. Aukningin verður ekki notuð til strandveiða og ekki boðin til leigu á frjálsum markaði. Bófaflokkarnir hata frjálsan markað. Þeir elska einokun, einkum einkavinavædda einokun. Meirihluti þjóðarinnar skilur, að opna verði fiskveiðarnar með því að bjóða út leigukvóta til skamms tíma. Á þann hátt muni koma í ljós, hver er eðlileg auðlindarenta fyrir aðgang að auðlind þjóðarinnar. Því miður lýsir vitneskjan sér ekki í meðferð kjósenda á dýrmætu atkvæði sínum í kosningum. Því bera kjósendur ábyrgð á ránsferð bófaflokkanna.

Er Guggan ennþá gul?

Punktar

Forstjóri Samherja er frægur fyrir að segja, að Guggan verði áfram gul. Líklega hefur enginn Íslendingur logið eins gróft og Þorsteinn Már Baldvinsson. Segir í fimmdálki í Fréttablaðinu í dag, að launakostnaður sé hæstur hér á landi. Það er bara svona, Guggan er ennþá gul! Ekki veit ég, við hvern gaurinn er að tala, ekki við almenning. Líklega á hann þarna í einkasamtali við stjórnarformann Granda, sem óvart hefur dottið í fjölmiðil. Vandi Íslendinga er, að ofurgnægð auðlinda í sjávarútvegi, vatnsorku, jarðhita og mannauði lendir ekki í vasa almennings. Auðlindarentan lendir öll í klóm Þorsteins og siðblindu bófanna.

Tveim konum er treyst

Punktar

Skoðanakönnun MMR sýnir, að tveir flokksforingjar njóta trausts, báðar konur, Katrín Jakobsdóttir og Byrgíta Jónsdóttir. Þær njóta meira trausts en flokkar þeirra. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar húka í hrútakofa þessarar könnnunar. Hafa ekki einu sinni traust þeirra fáu, sem enn styðja flokka þeirra. Í sama hópi og Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson er Árni Páll Árnason. Hann var nýlega staðfestur sem formaður krata og mun halda þeim flokki í hrútakofanum næstu árin. Þessi könnun vekur vonir um, að næstu kosningar verði pólitískt þrifabað. Þá verði landhreinsun gerð á aflóga pólitíkusum og aflóga bófaflokkum þeirra.