Punktar

Fávísi samningamaðurinn

Punktar

„Eruð þið virkilega að bera ykkur saman við viðskipta- og hagfræðinga?“ Þannig talaði fávís samningamaður ríkisins niður til samningamanns lífeindafræðinga. Telur að þriggja ára nám í aumustu fræðigrein heims sé merkara en fjögurra ára nám í alvörufagi. Líklega stafar það af, að samningamaðurinn telur peninga æðri en fólk. Mjög dæmigert fyrir ráðamenn í þjóðfélaginu. Hafa ekki hugmynd um æðri gildi. Finnst í lagi, að menn, sem koma okkur á hausinn, séu betur launaðir en þeir, sem halda okkur á lífi. Ofan á fáfræðina í yfirlýsingu samningamannsins leggst heimskan og hrokinn að halda, að yfirlæti frá 2007 stuðli að samningum.

Lögregluógnin mesta

Punktar

Víða á Vesturlöndum er lögreglan orðin mesta ógnin við öryggi borgaranna, ríki í ríkinu. Í Danmörku lýgur njósnalöggan meira að segja ítrekað að ráðherranum. Í Þýzkalandi stundar njósnalöggan iðnaðarnjósnir í kyrrþey fyrir Bandaríkin gegn þýzkum hagsmunum. Á Ítalíu er verið að dæma lögguna í Genúa fyrir ofbeldi á götum úti. Óeirðir nútímans eru mestmegnis lögregluóeirðir. Raunar er löggan víða orðin helzti terroristi þjóðfélaga. Í þriðja heiminum er ástandið enn verra. Þar forðar fólk sér, ef það sér löggu. Bandaríkin eru hluti af þriðja heiminum og sums staðar þar skýtur löggan svertingjana nánast að gamni sínu.

Ærandi þögn fimmflokks

Punktar

Björn Valur Gíslason heldur uppi merki Vinstri grænna í umræðunni. Lætur höggin dynja daglega á ríkisstjórninni. Væri ekki Björn Valur, væri flokkurinn dauður. Latir þingmenn flokksins telja sér ekki skylt að sinna umræðunni í samfélaginu, nema úr ræðustól á alþingi. Þegar ekki er þingfundur, er alger þögn í flokknum. Þögn um allar helgar, allar nefndavikur, öll frí, öll sumur. Sama er að segja um Samfylkinguna, nema þar er enginn Björn Valur. Fyrir nokkrum árum hömuðust menningarvitar flokksins á fésbók. Nú er öll umræðan á blogginu og fésbókinni í höndum flokkslausra, sem daðra helzt við Pírata. Þögn fimmflokksins er ærandi.

Bíll á hvern hjólamann

Punktar

Christchurch í Nýja-Sjálandi hefur sinn Savonarola í borgarstjórn eins og okkar Reykjavík. Leggur þar hundruð milljóna í hvern götustubb til að þrengja hann, fækka akreinum og leggja hjólreiðabrautir. Eins og á Hofsvallagötu, Borgartúni og Grensásvegi. Að því er virðist til að hindra slysin, sem þó höfðu þar engin orðið. Í Christchurch er háskóli og þar er prófessor Glenn BOYLE, sem kannaði kostnaðinn við hugsjón Savonarola. Fann út, að þessi aukning reiðhjólaumferðar þar í borg kostaði svo mikið, að ódýrara hefði verið að gefa öllum hjólamönnum bíl af tegundinni Suzuki Altos. Einn bíl á hvern. Margir hefðu frekar þegið bílinn.

Næsti bær við himnaríki

Punktar

Með hjálp fjölmiðla básúna umbar ríkisstjórnarinnar velsæld þrælanna. Skuldir þeirra minna í sífellu, þeir hafa það næstum bezt í heimi, eru hamingjuríkastir allra. Svo ekki sé minnst á ljúfu launin, sem eru nærri bezt í heiminum. Þessu er ekki beint að þeim helmingi þjóðarinnar, sem veit á eigin skinni, að þetta passar ekki. Því er beint að yfirstéttinni, svo að hún hafi ekki samvizkubit af kúgun þrælanna. Greifarnir eru að þétta raðirnar í vörn sinni gegn kröfum um bætt lífskjör. Og greifarnir trúa þessu enn, þótt þrælarnir sæki kröfur fast með verkfalli tugþúsunda. Veruleikinn sækir að sýndarveruleika blaðurfulltrúa.

Vísitölubindið launin

Punktar

Í kjarasamningum stéttarfélaga nægir ekki að ákveða lágmarkslaun. Vísitölubinda þarf 300.000 krónurnar. Annars hafa íslenzk fáokunarfyrirtæki bara samráð um að hækka verð á vöru og þjónustu. Og kenna kjarasamningunum um, að gömlum sið. Við höfum oft farið gegnum þetta á undanförnum áratugum. Stéttarfélög eru ævinlega gerð að blóraböggli. Það er að vísu erfiðara núna en áður var, því að til sögu hafa komið vefmiðlar einstaklinga. Þeir láta hefðbundna fjölmiðla ekki komast óáreitta upp með að dreifa ranghugmyndum frá samtökum atvinnurekenda, samtökum kvótagreifa og Alþýðusambandinu. Tímarnir eru nýir og vísitölubinding er málið.

Jón er ekki séra Jón

Punktar

Skondið er, hversu mikil stéttvísi er í skoðunum læknaforstjóra. Landlæknir og forstjóri Landsspítalans voru lítt sýnilegir, þegar læknar fóru í verkföll í vetur. Landlæknir og forstjóri heimtuðu ekki lög á verkföll þeirra, enda báðir læknar. Nú vill Landlæknir hins vegar ólmur fá sett lög gegn verkföllum annars starfsfólks Landsspítalans. Og forstjóri Landsspítalans gælir við sömu hugsun. Svo stéttvísir eru þessir tveir læknar, að þeir láta sig litlu varða samræmi í eigin skoðunum. En rökhyggja hefur aldrei verið sterka hliðin á Íslendingum. Að minnsta kosti ekki þegar þeir telja sig þurfa að gæta hagsmuna „sinna manna“.

Svindlað í spilunum

Punktar

Í tvö ár hefur ríkisstjórnin einbeitt sér að stuðningi við auðbófana. Byrjaði strax að afnema auðlegðarskatt og lækka auðlindarentu. Bjó til „leiðréttingu“ fyrir vel stæða á kostnað skattgreiðenda. Breytti vaskinum til að hækka verð nauðsynja og lækka verð á lúxus. Bjarni Ben talar um jöfnuð sem „vandamál“ og gerir hróp að stéttarfélögum. Reynt er að gefa kvótagreifum makrílkvótann. Stéttarfélögin hafa loksins fattað, að Gylfi Arnbjörnsson og frjálshyggju-hagfræðingar hans í Alþýðusambandinu eru hafðir að fífli. Þess vegna er allt á hvolfi í kjarasamningum og ekki lengur hlustað á Gylfabull um verðbólguáhrif.

Stolið frá aðalþjófi

Punktar

Einokunarstöðvar búvöru sérhæfa sig í að stæla staðbundnar, erlendar afurðir og stela vörumerkjunum. Mest í osti, svo sem feta, mozzarella, brie og camembert. Mjólkursamsalan kemst lengst í stuldi, stælir til dæmis jógúrt og selur hér sem skyr. Leita þarf til framleiðenda sérvöru til að finna hér alvöru skyr eftir hefðbundnu, íslenzku aðferðinni. Þessa dagana eru varðhundar Mjólkursamsölunnar í öngum sínum út af útlendri afurð, sem þykist vera skyr. Arla er dansk-sænskt fyrirtæki, sem framleiðir stælingu á skyri í Þýzkalandi og selur um heim allan. Kemur vel á vondan, að Mjólkursamsalan sé slegin út á eigin sérsviði, í stuldi.

Moska hjá Hallgrími

Punktar

Gerum Hallgrímskirkju að mosku á fjögurra vikna fresti, viku í senn. Þá taki við vika fyrir Ásatrúarmenn og vika fyrir Mammon. Ein vika auðvitað líka fyrir kristna. Trúartáknum þessara fjögurra merku trúarbragða mætti koma fyrir á snúningshringjum. Einu sinni í viku væri dýrðinni snúið um fjórðung úr hring með klukkuspili og bænakalli. Flottara en í Grafarkirkjunni í Jerúsalem, þegar söfnuðir skiptast þar á völdum. Og flottara en sjónarspilið í klukkuturninum í Prag. Hálfur heimurinn mundi flykkjast hingað til að vera viðstaddur þessa dramatísku sýningu um, hvernig einn söfnuður tekur við af öðrum í guðs friði eða þannig.

Klofningur meðal greifa

Punktar

Meðan greifarnir í Reykjavík sitja pikkfastir í þvermóðsku eru minni greifar að semja við stéttarfélagið á Húsavík. Einn í einu, tveir á dag. 24 greifar á svæðinu hafa skrifað undir samninga, þeir mikilvægustu á svæðinu. Samningarnir fela í sér, að kröfur stéttarfélaga eru samþykktar, enda ótrúlega hófsamar. Þær snúast mest um þessi margfrægu 300.000 króna lágmarkslaun, sem eru samt undir framfærslukostnaði. Húsavík sýnir, að ekki eru allir sáttir við, að greifarnir í Reykjavík geti tekið allt þjóðfélagið í gíslingu þvermóðskunnar. Þeim ber nú að hætta að rífa hár sitt og skegg og fara að skrifa undir. Strax um helgina.

Báru áður höfuð hátt

Punktar

Lækkað hefur risið á Feneyingum frá fyrri öldum. Þá sögðu þeir páfa að fokka sér, er hann amaðist við kaupum þeirra á kryddi af múslimum. Byggðu fátæklega dómkirkju í borgarjaðri, en gerðu einkapellu síns kjörna forseta að einu af undrum heims, Markúsarkirkju. Háðu ótal stríð við kalífa og soldán Miklagarðs til að víkka svigrúm til viðskipta. Nú læðast þeir með veggjum um sundin mjó og vilja hvorki móðga páfa né kalífa. Eru ekki mönnum sinnandi út af Christoph Büchel á Seyðisfirði, sem innréttaði mosku innan í kirkju. Annað eins og líka þveröfugt hefur þó verið gert þúsund sinnum og bjargað miklum menningarminjum.

Leitin að Frelsaranum

Punktar

Á dánarbeði Samfylkingar ákalla menn Katrínu Jakobs um að koma og bjarga leifum flokksins. Samt er ólíklegt, að formaður 10% smáflokks geti bjargað öðrum 10% smáflokki. Katrín er fín, en smalar ekki köttum eigin flokks. Þar er Ögmundur að spöglera og finna sérstöðu. Þar er Steingrímur að varðveita ryktið um feril sinn. Lífsmark er varla með Vinstri grænum, ekki frekar en með Samfylkingunni. Þetta er jafn dauðvona og Björt framtíð. Þegar menn geta ekki grætt fylgi á andstöðu við heimska og vonda bófa ríkisstjórnar, geta þeir fátt í pólitík. Kistuberar Samfylkingarinnar ættu að leita í hógværð að Frelsaranum utan garða.

Enska veikin geisar

Punktar

Fótbolti er betri á Spáni og Ítalíu og Þýzkalandi heldur en í Bretlandi. Samt er nærri öllu fótboltapúðri á Íslandi sóað í enska boltann. Menn flagga jafnvel fyrir enskum fótboltafélögum. Í sjónvarpinu eru langvinnar hringborðsumræður um brezkar kosningar, þótt þær séu ekkert meira spennandi en spánskar, ítalskar, þýzkar eða franskar. Við lifum enn í ensku andrúmslofti, þótt England sé orðið jaðarland, viðhengi við Bandaríkin. Erlendar fréttir hér á landi eru meira eða minna ættaðar frá Bretlandi, þótt þær gefi fremur einhliða birtu. Við höfum þó ferðast svo mikið á meginlandinu, að við vitum, að það stendur eyríkinu framar.

Illa dulbúnir lagakrókar

Punktar

Formaður dómarafélagsins segir, að með makrílfrumvarpi ríkisstjórnarinnar sé reynt „að klappa kvótann í berg með illa undirbúnum lagakrókum“. Frumvarpið sé illa meint og illa dulbúin tilraun til að festa kvótaeign í sessi. Með öðrum orðum sagt, þá er ríkisstjórnin bófaflokkur, sem reynir að sölsa almannaeign undir nokkra kvótagreifa. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hefur viðurkennt, að „það eru einhvern veginn allir á móti þessu“. 30.000 manns hafa undirritað áskorun til forsetans um að hafna þessum lögum. Samt hamast stjórnin við að koma þessu ógeðsmáli gegnum alþingi. Þetta eru heimskir og illir bófar.