Punktar

Ísland er stjórnlaust

Punktar

Ríkisstjórnin hefur ekki tök á neinu, lætur reka á reiðanum. Þar er ekki að finna neinn stjórnmálamann, sem getur leitt þjóðina. Þar vantar reisn, greind, heiðarleika og góða siði. Ráðherrarnir allir sæta skelfilegu vantrausti. Fáir trúa orði, sem þeir segja, traustið er upp urið. Þeir hafa engar hugmyndir um lausn yfirvofandi verkfalla, stinga bara haus í sand. Forsætis er meira eða minna týndur, sennilega undir sæng. Þruglar samhengislaust, þá sjaldan er hann birtist. Fjármála er í hans stað á skjánum, þungbrýnni með hverri vikunni. Á alþingi leikur freki karlinn lausum hala. Ríkisstjórnin er á síðustu dropunum.

Galinn magnar deilur

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur einstæða hæfileika til að koma illu af stað. Í reiðilestri gærdagsins magnaði hann verkfallsátök. Lýsti beinlínis yfir, að ríkið mundi ekki semja við starfsfólk að sinni. Játaði þannig, að ríkisstjórnin bæri sjálf ábyrgð á hörmungunum á Landspítalanum. Lýsti beinlínis yfir, að hann mundi leggja skatta á alþýðuna upp á móti því, sem hún næði í samningum. Þannig gulltryggði hann, að ekki verður samið, fyrr en ríkið lofar upp á rest af æru að forðast framkvæmd hótana. Galinn siðblindingi fékk útrás, en skynsamlegt var það ekki. Silfurskeiðungurinn er freka barnið, gargar, þegar það fær ekki nammið.

Vindar blása á tindi

Punktar

Píratar eru í beztri stöðu til að ná forustu fyrir næstu ríkisstjórn. Þeir eru vinsælastir, enda hreinir af þjóðníði fjórflokksins. Leggja einir áherzlu á þá þætti, sem skipta mestu máli fyrir þjóðina, opna stjórnsýslu, stjórnarskrá og auðlindarentu. Þurfa að koma sterkar inn í baráttumál undirstétta, svo sem lágmarkslaun og velferð. Aðrir flokkar sviku stjórnarskrána, lyppuðust niður fyrir kvótagreifum og skilja ekki opna stjórnsýslu. Samfylkingin er þar á ofan með Evrópusambandið og Blair-isma á heilanum. Mogginn áttar sig á alvörunni og er farinn í herferð gegn pírötum. Það blása vindar, þegar komið er á tindinn.

Auðgreifar sækja fram

Punktar

Á öllum sviðum sækja auðgreifar fram gegn þjóðinni og skófla þjóðarauði í sínar Tortólur. Kvótakerfið er skýrasta birtingarmynd þessa þjófræðis. En greifarnir sækja að öðrum auðlindum landsins. Vilja leggja kapal til Bretlands og þar með stórhækka orkuverð til neytenda. Vilja líka leggja víðerni landsins í rúst í þágu verksmiðja, sem valda mikilli mengun í byggð. Tveir stjórnmálaflokkar eru á framfæri greifanna og sömuleiðis flestir fjölmiðlarnir. Standa að samkomulagi annarra auðræðisþjóða um nýja réttarstöðu fyrirtækja sem jafnoka þjóðríkja. Grafa undan heilsugæzlu ríkisins og öðrum innviðum norræna velferðarkerfisins.

Tilvistarkreppa krata

Punktar

Blair-istarnir í Verkamannaflokknum sættu afhroði í brezku þingkosningunum. Mun róttækari Skozki þjóðarflokkurinn var sigurvegari í Skotlandi. Segir mér, að Thatcher light er engin framtíð. Verkamannaflokkurinn þarf að breyta um stefnu. Ekki til að líkjast Íhaldsflokknum enn meira, heldur til að nálgast sinn eigin uppruna. Brezkir kratar geta lært af Skotum. Eins og Samfylkingin þarf að hætta Thatcher light. Sjáið bara þessi massífu verkföll, sem hér bresta á. Fólkið er farið að fatta, að gegn bófum við völd dugir fátt nema harkan sex. Bankavinir eins og tanaður Árni Páll eiga engan séns. Þetta vita raunar flestir kratar.

Sá veruleikafirrti víki

Punktar

Skoðanakannanir sýna almennt vantraust í þjóðfélaginu á forsætisráðherranum. Sigmundur Davíð skýrir útkomuna svo: „Að einhverju leyti skýrist þetta kannski á þessu rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar.“ Að hans mati felst vandinn í veruleikafirringu þorra þjóðarinnar. Annars vegar telur einn maður þorra þjóðarinnar veruleikafirrtan og hins vegar telur þorri þjóðarinnar einn mann vera veruleikafirrtan. Forsætis vantreystir veruleikafirrtri þjóð og þjóðin vantreystir veruleikafirrtum forsætis. Þessi þverstæða er svo sérstæð, að hún er ósjálfbær. Einföld lausn: Sá eini segi af sér, en fjöldinn ekki.

Skilur ekki þjóðina

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur þjóðina geðveika. Kvartar yfir „rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar“ hjá þjóðinni. Þetta er gagnkvæmt, þjóðin telur Sigmund Davíð veruleikafirrtan. Vantraustið á honum jafngildir Íslandsmeti. Slík er gjáin milli hagsmunagæzlumanns auðgreifa og borgaranna, það er þrælanna, sem standa undir þjófræði og auðræði ríkisstjórnarinnar. Vantraustið á honum er ekki tízkufyrirbæri. Stafar öllu heldur, að þjóðin er að átta sig á, að harðdræg ríkisstjórn Sigmundar Davíðs er afar andvíg hagsmunum almennings, einkum fátækra. Fylgisaukning pírata er því alls ekki „ótrúleg“.

Í klóm bófa og bjána

Punktar

Allt er á hvolfi í samfélaginu vegna gripdeilda stjórnvalda í þágu kvótagreifa og annarra auðgreifa. Tugþúsundir eru á leið í verkfall og vantraust fólks á ráðherrunum slær Íslandsmet. Hálf þjóðin á varla eða ekki fyrir nauðsynjum, hvað þá húsnæði. Fólk er að átta sig á, að vitlaust er gefið í spilunum. Samt leyfist freka karlinum að taka alþingi í gíslingu vikum saman. Hann vill ólmur eyðileggja auðlindir víðerna til að niðurgreiða rafmagn til mengunar. Dag og nótt er tíma alþingis sóað í þetta glóruleysi. Á hliðarlínunni rífast ráðherrar um óljós húsnæðismál. Fólk áttar sig á, að það hefur glutrað landstjórninni í klær bófa og bjána.

Þyngist brún á Bjarna

Punktar

Síðan í vetur hefur Bjarni Benediktsson sífellt komið önugur fyrir í sjónvarpi. Var það ekki áður. Hefur uppgötvað, að lífið er þraut, allt gengur tífalt verr en áætlað var. Semsagt allt í steik. Ráðherrar eru hver á fætur öðrum jafnrúnir trausti og hann sjálfur, samkvæmt mælingum. Björn Bjarnason, fyrrum menntamála, snuprar Illuga Gunnarsson núverandi fyrir fáráð plön um styttingu menntaskóla. Ragnheiður Elín, við skulum ekki nefna hana frekar, svo hræðileg er hún. Og svo þarf Bjarni stöðugt að fást við galinn Sigmund Davíð, hvílík örlög. Og á þingi er samvalinn hópur bófa, sem út fyrir sig er þolandi, en þeir eru bjánar líka.

Íslenzk-ameríska martröðin

Punktar

Íslenzk-ameríski draumurinn er búinn. Fólkið er vaknað og sér veruleikann. Það er dæmt til þrældóms. Ekki dugir að vinna til velmegunar eins og skepna, þú færð frostpinna að launum hjá Granda. Ekki dugir að mennta sig til velmegunar, þú færð kostnaðinn aldrei til baka. Stiginn milli stétta hefur verið tekinn burt. Fólk fæðist, lifir og deyr í sömu stétt. Velmegun byggist ekki á vinnu, dugnaði eða menntun. Hún byggist á samböndum fjölskyldna, misnotkun á aðstöðu, pólitískum pilsfaldi. Stéttaskipting er föst, fyrst í Bandaríkjunum, síðan hér. Sértu fæddur í undirstétt, eignastu enga íbúð og hefur ekki efni á að leigja.

Afturendahjal

Punktar

Undarleg eru viðbrögð Maríu Ólafsdóttur söngkonu við umræðu um ástæður þess, að hún komst ekki upp í söngvakeppni. Sagðist hafa „sungið af mér rassgatið“ og „þeir sem drulla, flott drullið bara yfir mig“. Þetta undarlega afturendahjal minnir á Gillz, sem fyrrum var meðtekinn af þessum líkamshluta. Íslenzka hefur kjarngóð blótsyrði til notkunar, mislíki manni einhver framganga. En rumpulýður kallast þeir, sem komast ekki frá afturenda sínum, þurfi þeir að kveða fast að orði. Það er fremur hvimleið fátækt í orðavali. Ekki það, að hver ræður fyrir sig, hvaðan orðaforðinn kemur. En mér fannst orð Maríu minna fullmikið á Gillz.

Siðferðisgjaldþrotið

Punktar

Í gamla daga börðust stéttarfélög fyrir samstöðu vinnandi manna. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar. Alþýðusambandið fæddist og lífeyrissjóðir fóru að grafa undan siðferðisþreki stéttarfélaga. Hagfræðingar þeirra tala sama newspeak og fræðingar atvinnurekenda. Nú er svo komið, að það eru samtök atvinnurekenda, sem heimta samstöðu vinnandi manna. Vilja fá sinn hugljúfa Gylfa Arnbjörnsson aftur að samningaborðinu. Samt er veruleikinn víðsfjarri brauðmolafræðinni. Hér ríkir einokun og fáokun á flestum sviðum. Engir brauðmolar hrynja af borðum greifanna. Þrælastríðið snýst líka gegn siðferðisgjaldþroti Alþýðusambandsins.

Hagfræðingur gengur laus

Punktar

Sigurður Jóhannesson hagfræðingur lætur sig ekki muna um að gera alla hagfræði hlægilega fyrir alþjóð. Reiknaði frá afar umdeildum dómsúrskurði, að hálendið mundi kosta 80 milljarða. Grínistar hafa farið á kostum út af þessari hagfræði eymdarinnar. Andri Snær Magnason sagði: „Segðu mér hvað kílóið af ömmu þinni kostar, fermetraverð kærustunnar þinnar og reiknaðu svo út besta vin þinn í bílverðum.“ Helzti galli hagfræðinga er, að þeir telja gamlar trúarsetningar, excel, línurit og extrapól vera vísindi, sem megi bera á borð. Ættu að temja sér hógværð annarra sérfræðinga í biblíusögum, sleppa útreikningum á ímyndunum.

Flugdólgur í afneitun

Punktar

Ásmundur Einar Daðason þingmaður hefur ekki beðið fórnardýrin afsökunar á að hafa ælt yfir þau í flugvél. Flugdólgurinn segist hafa verið veikur og „ælt á alla“, en leggur ríka áherzlu á að hafa ekki verið fullur. Honum finnst verra að vera sagður fullur en vera sagður hafa ælt á alla. Skrítin forgangsröðun á siðareglum. Vitni um borð segja hann þó hafa verið dauðadrukkinn. Ýmsir tóku að sér að ljúga þingmanninn úr vanda, einkum þingmennirnir Vilhjálmur Bjarnason og Þórunn Egilsdóttir, sem sagði flugdólginn liggja fárveikan. Í þann mund mætti sá galvaskur á þingfund, ekki sjáanlega veikur. Stundum er betra að segja satt.

Gerið þá ábyrga

Punktar

Þú getur ekki hindrað, að atvinnurekendur hækki verð á vöru og þjónustu eftir kjarasamningana. Þeir búa flestir við fáokun og munu gera samsæri gegn þér. Þú getur heldur ekki hindrað, að þeir kenni þér um glæpinn. Þeir gera það nú þegar og munu áfram gera. Eina leiðin til að verjast er að vísitölubinda laun inni í kjarasamningum. Með vísitölubindingu axla atvinnurekendur ábyrgðina á að halda verðlagi í skefjum. Munu þá sjá, að þeir hafa ekki lengur frítt spil. Það er eina vörn þín gegn ofsóknum sameinaðra bófa; atvinnurekenda, ríkisstjórnar, auðgreifa, greiningardeilda, úreltra peningafræðinga, AGS og eigenda fjölmiðla.