Punktar

Sýndarveröldin þín

Punktar

Greifarnir og þjónar þeirra segja þér, að þér líði vel. Íslendingar séu þjóða bezt settir. Samkvæmt ótal mælikvörðum, sem mæla ekki neitt. Þeir segja barninu með tannpínu, að því líði vel, þótt pabbi hafi ekki efni á að borga tannlækni. Þeir segja sjúklingi á biðlista, að honum líði vel, þótt biðlistinn hafi lengst upp í nokkur ár. Segja þig fá lyf við öllu, þótt þú hafir ekki efni á að leysa út lyfin þín. Segja, að framboð á félagsstarfi barna sé flott, þótt ekki sé til peningur til að borga það. Segjast hafa gert glæsilega kjarasamninga fyrir þig. Þótt þú sért alls engu nær því að geta eignast íbúð eða tekið íbúð á leigu.

Heimsmet í hamingju

Punktar

Þótt flói út af gullkistum fyrirtækja, hyggjast stjórnvöld láta skattgreiðendur borga kauphækkun launafólks. Skattgreiðendur eru sjaldnast spurðir. Ekki voru þeir spurðir, þegar Sigmundur Davíð lét þá borga „leiðréttingu forsendubrests“, sem hrægammar áttu að borga. Síendurtekna sjónhverfingin minnir á karlinn, sem skar rófuna af svöngum hundi sínum og gaf honum að éta. Bót er þó, að þjáning skattgreiðenda rýrnar í takt við gleði launafólks, þegar verðbólgan étur utan af krónutölunum. Við búum áfram í Undralandi, þar sem allir ljúga að öllum og einkum þá að sjálfum sér. Þannig tekst Íslendingum að slá heimset í hamingju.

Árlega 90 milljarða renta

Punktar

Vegna mismunar á framboði og eftirspurn getum við náð auðlindarentu af útgerð, stóriðju og ferðaþjónustu. Getum einfaldlega boðið út afnot þessara auðlinda. Sjávarútvegur getur auðveldlega borgað 30 milljarða á ári í auðlindarentu. Stóriðjan getur eins auðveldlega borgað aðra 30 milljarða á ári. Þarna eru örfáar blóðsugur að sliga þjóðina. Síðan getur ferðaþjónustan borgað enn eina slummuna, 30 milljarða á ári, til dæmis með eðlilegum vaski. Þarna eru tæpir 100 milljarðar á ári, sem geta staðið undir menntun og heilsugæzlu þjóðarinnar. Skatturinn til lífeyrissjóða á svo að geta staðið undir elliárum þjóðarinnar.

Opið þjóðfélag

Punktar

Opið þjóðfélag þýðir ekki, að hugverk verði ókeypis og höfundaréttur sé fótum troðinn. Opið þjóðfélag þýðir, að fólk geti vitað, hvað vondir bralla í leyni. Merkasta framlag pírata til stjórnmála er krafan um opið þjóðfélag. Hún á rætur að rekja til opins hugbúnaðar á borð við Linux. Þróaðist síðan yfir í opið samfélag, þar sem áður leyndar upplýsingar eru opnaðar almenningi. Vitneskja almennings er forsenda þess, að lýðræði sé starfhæft. Auðskrímslið sækir með alls kyns leynd að þjóðum. Til dæmis er Ísland aðili að leyniviðræðum um, að fyrirtæki fái réttarstöðu þjóðríkja. Gegn öllu slíku þarf að berjast af hörku.

Grunaði ekki Gvend

Punktar

Fer eins og mig grunaði í launapistli mínum í gær. Uppkast að kjarasamningi verzlunarmanna og verkafólks við Faxaflóa felur ekki í sér hækkun láglauna á næstu þremur árum. Prósentuhækkun hvers árs mun tæpast halda í við verðhækkanir á sama tíma. Ónýtir eru samningar um krónuhækkanir án tilvísana til gengis hins gerónýta gjaldmiðils eða til vísitöluhækkana á vöru og þjónustu. Vonlaust er að selja vinnu í kerfi, þar sem er allt er vísitölutryggt nema laun. Mér sýnist í rauninni, að greindarskortur einkenni uppburðarlitla samningamenn verkamanna. Og verzlunarmenn verða seint að múrbrjótum í óskum almennings um bætt lífskjör.

Vestræn viðbrögð

Punktar

Ætla má, að um 3.400 af um 30.000 hryðjuverkamönnum múslima komi frá vestrænum löndum (GUARDIAN). Í prósentum eru þetta lágar tölur, allur þorri múslima er eins og fólk er flest. En þessir 3.400 geta orðið hættulegir vestrinu, þegar þeir koma til baka. Því hafa ýmis ríki gripið til þess ráðs að neita þeim um endurkomu. Einfaldara og ódýrara en að setja upp fullnægjandi eftirlit, sem reynist svo ekki nægja. Ekki er vitað um neinn hryðjuverkamann frá Íslandi, en eðlilegt er að gera ráð fyrir, að svo verði. Líka þarf að fylgjast með moskum, er reistar eru af fé Sádi-Araba og hafa þar að auki klerka af sértrú wahabíta.

Grafið undan menntun

Punktar

Auðgreifar landsins sækja ekki aðeins fram gegn fátæklingum, láglaunafólki og fólki, sem þarf á velferð að halda. Þeir sækja líka fram gegn ungu menntafólki. Langskólagengið fólk er við hlið annarra í biðröð eftir matarúthlutum. Eignast ekki húsnæði eins og var hægt í gamla daga. Senn líður að því, að unga fólkið áttar sig á, að menntun er gagnslítil aðferð við að komast í traustan fjárhag. Listamenn og rithöfundar sjá nú þegar, að þjónar auðsins í pólitíkinni hata menninguna og reyna að stöðva styrki hins opinbera. Smám saman eykst skilningur miðstétta á, að þær eiga við sama vanda að stríða og undirstéttir samfélagsins.

Samið um þjóðareymd

Punktar

Í fljótu bragði sýnist mér, að verðlag muni hækka á hverju ári um hærri tölur en felast í fyrirhuguðum kjarasamningi. Væri að vísu í lagi, verði samningurinn vísitölutryggður. Það á eftir að koma í ljós. Hef samt grun um, að þarna séu verzlunarmenn og Flóabandalagið að semja af sér. Kröfurnar voru að vísu aldrei tiltakanlega háar, svo að ekki er úr háum söðli að detta. Mér sýnist uppkastið staðfesta, að greifarnir örfáu muni hér eftir sem hingað til hirða alla stækkun hagkökunnar á hverju ári. Enn er ekki komið að því, að þrælar verði að gildum borgurum. Líklega er bezt í sögunni að flýja þjóðareymdina aftur til Noregs.

Fótboltinn handtekinn

Punktar

SEX yfirmenn alþjóða fótboltasambandsins, FIFA, voru handteknir snemma í morgun á greifahótelinu Baur au Lac í Zürich. Sakaðir um að hafa þegið verðgildi tíu milljarða króna í mútur. Varforsetinn Jeffrey Webb var einn hinna handteknu. Sepp Blatter forseti var annars staðar í Zürich í morgun og ekki handtekinn. Þetta er í kjölfar uppljóstrana um, að 47 atkvæði í formannskjöri hafi verið boðin til sölu. Reiknað er með, að fjórtán yfirmenn aðrir geti sætt handtöku á næstunni annars staðar í heiminum. Fjör er í spillingunni víðar en í makríl við Íslandsstrendur. Blatter hefur gert FIFA að voldugum glæpasamtökum á heimsvísu.

Ný orkuver eru óþörf

Punktar

Höfum langa og bitra reynslu af stóriðju. Aldrei fékkst nein renta af auðlindum fyrir stóriðju. Brotabrot þjóðarinnar hefur laun í stóriðju, ríkið fær vart upp í virkjunarkostnað, ríkið gefur eftir eðlilega skatta. Vonir hrundu um afleidd störf. Og orkuverð til fólks er ekki lægra en það var fyrir hálfri öld. Nú fer að koma að lokum elztu samninga um stóriðju. Þá má ekki endurnýja, heldur nota tækifærið til að innheimta auðlindarentu. Stóriðja getur borgað tugi milljarða á ári í auðlindarentu. Við eigum ekki að standa í stappi um fleiri orkuver, við höfum þau næg fyrir. Þurfum bara að selja orkuna nýjum aðilum á hærra verði.

Þriðja heims silfurskeiðungar

Punktar

Í stéttskiptu þjóðfélagi þriðja heimsins eru að minnsta kosti tvær stéttir, þau sem eiga og þau sem ekki eiga. Í norðanverðri Evrópu eru mörkin orðin óljósari. Í Bandaríkjunum og nú síðast hér á landi eru þau að harðna. Í Bandaríkjunum er vel stæða fólkið í læstum hverfum og fyrir utan magnar löggan stríð við svarta. Eins og í þriðja heiminum skiptist yfirstéttin í þau sem er sama og þau sem er ekki sama. Hér á landi er kominn hópur silfurskeiðunga, sem er sama um afdrif þess helmings þjóðarinnar, er á ekki neitt. Silfurskeiðungar telja sig vera þjóðina og vilja ekkert um hina vita. Þannig eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð.

Byltingin er hafin

Punktar

Bylting upplýsinga er orðin staðreynd. Hliðverðir hefðbundinna fjölmiðla stýra ekki lengur, hver flytur þér hvaða sjónarmið. Liðin er undir lok sú gamla leið að stjórna þrælum gegnum fjölmiðla. Áhrifalausir hliðverðir horfa ráðalausir á almenning gerast sínir eigin ritstjórar og álitsgjafar. Blogg og fésbók fossa fram til góðs eða ills. Þar er stéttaskipting horfin, þótt hún blómstri á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þangað mun byltingin koma síðar. Þegar þrælarnir eru hættir að láta greifana segja sér fyrir verkum, er næsta skref að kasta út greifunum. Upphafs átakatímans markast af þeim mögnuðu vinnudeilum, sem eru í uppsiglingu.

Birgitta og Katrín

Punktar

Samkvæmt atkvæðagreiðslu notenda EYJUNNAR eru tveir stjórnmálamenn brúklegir. Það eru þær Birgitta Jónsdóttir með einkunnina 6,8 og Katrín Jakobsdóttir með einkunnina 6,6. Rétt er, að þær myndi næstu ríkisstjórn. Þetta er að vísu ekki alvöru skoðanakönnun eftir vísindareglum, heldur bara atkvæðagreiðsla, þar sem þáttakendur velja sig sjálfir. Á botninum eru auðvitað framsóknarmenn, Sigurður Ingi með 2,5, Gunnar Bragi með 2,2 og sjálfur kraftaverkamaðurinn Sigmundur Davíð með 1,9. Hinn pirraði Bjarni Ben er neðarlega með 3,6, skríður upp fyrir flokksfólk sitt, Illuga með 3,5 og Ragnheiði Elínu með 2,7. Dapurlegar tölur.

Píratar eru beztir

Punktar

Fátt getur farið úrskeiðis, ef þjóðin felur pírötum að taka við stjórn. Losnum við bófa og bjána núverandi ríkisstjórnar. Fáum í staðinn fólk, sem ekki er eitrað af hefðbundnum stjórnmálum. Við fáum ferska vinda: Stjórnarskrá fólksins verður afgreidd. Ríkisbáknið verður opnað og gert gegnsætt. Kvótinn verður boðinn upp eins og heiðarleg markaðslögmál heimta. Firring Sjálfstæðis felst í, að hann verður svartur í framan, ef hann sér glitta í frelsi. Framsókn verður bara ruslakista fyrir útlendingahatur. Þótt margt muni mistakast, verður stjórn pírata himnaríki í samanburði við núverandi helvíti illa gefinna þjóðníðinga.

Lítil aðild að himnaríkinu

Punktar

Tíunda hver fjölskylda safnar skuldum og tíunda hver fjölskulda gengur á eignir til að halda sér á floti. Þetta eru samtals 20%. Til viðbótar eru 20%, sem búa við fátækt, án þess að safna skuldum. 15% troða marvaðann á miðjunni. Vel stæð eru innan við 10% Íslendinga og 35% til viðbótar geta lagt smávegis til hliðar. Af þessum tölum má ráða, að hálf þjóðin er utan þess himnaríkis, sem Sigmundur Davíð og Bjarni Ben segja vera hér. Þeir eru enda silfurskeiðungar og þekkja bara silfurskeiðunga í þessu stéttskipta þjóðfélagi. Allur gróði af velgengni þjóðarbúsins frá hruni rennur til auðgreifa, sem reka Sjálfstæðis og Framsókn.

RÚV