Punktar

Starfsfólk flýr spítalann

Punktar

Í fyrramálið mun rúmlega helmingur hjúkrunarfræðinga hjarta- og lungnadeildar Landspítalans segja upp störfum. Á mörgum öðrum deildum munu hjúkrunarfræðingar líka segja upp. Þung reiði er í garð ríkisstjórnarinnar og meirihluta hennar á þingi vegna nýrra laga gegn verkfallinu. Þessir pólitíkusar hafa gengið fram af hjúkrunarfræðingum og tæknilegum sérfræðingum spítalans. Allir geta léttilega fengið vinnu í Noregi á tvöföldu kaupi. Stjórnin hóf herferð gegn ríkisrekstri spítalans til að rýma fyrir einkarekstri að bandarískum hætti. Sú blóðuga aðför Sigmundar og Bjarna að heilsu þjóðarinnar er núna að springa í andlit okkar. En bófunum er alveg sama.

Borg lundabúðanna

Punktar

Í miðbæ Reykjavíkur tekur einn niðurrigndur plast-hvítabjörn við af öðrum til að gleðja túrista. Samt má fárveikur hvítabjörn ekki sjást í útskerjum án þess að blóðþyrst lögga æði á vettvang með morðvopn. Inn á milli eru lundabúðir, er selja plastlíki af nær útdauðum fugli. Kvosin er seld sem leifar víkingaþorps, þótt hér hafi aldrei verið víkingar. Firringuna drekka túristar í sig, þegar þeir hafa farið í skítugt Bláa lónið. Þar sem ég þyrði aldrei að útbía mig. Rútur stunda vinsælan utanvegaakstur afturábak fyrir túrista í Þingholtunum. Þeir flykkjast í byggðir huldufólks. Við erum fljót að fatta, að firring selur bezt.

Ótrúlega vitgrannir

Punktar

Flestir ráðherrarnir eru ótrúlega vitgrannir. Frægust Ragnheiður Elín riðlaðist í tvö ár á náttúrupassa, sem allir fyrirlíta. Mest er hlegið að Illuga í Orku, sem bannar tónlistarfræðslu utan 101. Gunnar Bragi er loks hættur dulmálsbréfum til Bruxelles og sakar hjúkkur um að kjósa rangt, sakar þingmenn um að skorta kjark til að hjóla í þær. Eygló gerir ekkert, en hyggst byrja að hugsa á næsta ári. Sigurður Ingi reyndi án árangurs að skáka kontórum út og suður og gefa kvótagreifum makríl. Kristján Þór stútaði Landspítalanum. Fólk skildi, að Hanna Birna var ógeð, þegar hún hékk heilt ár á fingurgómunum í ráðuneytinu. Bjarni titrar af hræðslu við reiði Davíðs. Sigmundur Davíð er svo ruglaða drottningin hjá Lísu í Undralandi, hann er einsdæmi í heiminum.

Verksmiðjubeyglaðir

Punktar

Bílaframleiðendur flestir eru farnir að framleiða verksmiðjubeyglaða bíla. Að fyrirmynd gallabuxnagerða, sem rífa og tæta buxurnar áður en þær eru settar á markað. Til mikillar fyrirmyndar. Ekki er lengur hægt að sjá, hvort bílar eru beyglaðir af ásettu ráði í verksmiðju eða af völdum síðari árekstra. Sparar boddíviðgerðir, sem kosta mikið fé. Ýmsar fleiri nýjungar eru í nýlegum bílum. Til dæmis er ljósadýrðin þanin út, einkum að aftan. Víða eru heilar jólaseríur í ljóma. Gerir umferðina mun fjörlegri. Sýnir, að framleiðendur hafa puttann á hagsmunum og pyngju kaupendanna. Auka verðgildi vörunnar fyrir engan pening.

Biblíusögur hagfræðinnar

Punktar

Margir hagfræðingar ímynda sér, að tilgátur séu vísindi. Telja peninga vera upphaf og enda alls. Bjáni með excel getur extrapólað verð hálendisins í 80 milljarða króna. Hagfræði notar brenglaðar forsendur, til dæmis að viðskiptavelta mæli hagvöxt. Margir hagfræðingar nota löngu úreltar tilgátur á borð við brauðmolahagfræði, sem reynzt hefur marklaus. Þeir trúa enn á frjálsan markað, þótt hann sé ófrjáls með öllu. Um hagfræðinga má segja það sama og um predikara: Sá, sem lýgur að sjálfum sér, verður ófær um að greina sannleikann, hvorki hjá sjálfum sér né neinum öðrum. Hagfræði er hliðstæð bókstafstrú, órafjarri veruleikanum.

Bófar Bilderberg funda

Punktar

Bófar Bilderberg halda þessa dagana árlegan leynifund á hótelinu Interalpen í Austurríki. Kunnustu bófar heims eru mættir. Svo sem Douglas Flint, forstjóri mesta glæpabanka heims, HSBC, margdæmdur fyrir svindl „beyond shame“ að mati Guardian. Þar er brottrekinn forstjóri CIA, David Petraeus. Henry Kissinger stríðsglæpamaður er mættur. Og svo framvegis. Stofnandi Bilderberg er Bernhard prins af Hollandi, einn mesti mútuþegi heims, frægur af Lockheed og Northrop. Á Bilderberg-fundum eru í leyni skipulögð samsæri á borð við TISA gegn lýðræði, fullveldi og gegnsæi vesturlanda. Engir Íslendingar eru mættir. Sem betur fer.

Rétthugsandi fólkið

Punktar

Forsjárhyggjufólk hneykslast á fólki með jaðarskoðanir. Telur ekki þolandi, að jaðarfólk hafi aðrar skoðanir en rétthugsandi fólk. Slík forsjárhyggja er víðtæk á Norðurlöndum. Hér gætir hennar líka í atvinnuofsóknum á vegum hreppa. Á Akureyri var Snorri í Betel ofsóttur af rétthugsandi fólki fyrir rangar predikanir á trúarsamkomum. Var rekinn úr kennarastarfi, en Akureyri tapaði svo málaferlunum með glæsibrag. Nú hefur rétthugsandi fræðslunefndarmaður í Garðabæ lagt til, að Páll Vilhjálmsson verði rekinn úr kennarastarfi fyrir rangt blogg. Samkomur og blogg koma skólum ekki neitt við. Lækkum hinn rétthugsandi rosta.

Ég hvet mig

Punktar

Ríkisstjórnin og samninganefnd ríkisins eru einn og sami hlutur. Stjórnin hefur frá byrjun viðræðna við ríkisstarfsmenn og hjúkrunarfólk ákveðið að gera engin tilboð og vera ekki til viðræðu um neitt. Furðulegur heilbrigðisráðherra kemur af og til grátbólginn í sjónvarp og hvetur „deiluaðila“ til að semja. Af hverju hvetur hann ekki bara sjálfan sig, „ég hvet mig til að semja“? Fjármála talar ítrekað um alvöru málsins. Eins og stjórnin og samninganefnd hennar séu tvennt óskylt. Sjónarspilinu lauk með, að ríkisstjórnin fær sett lög á hjúkkur. Hrekur þær í 80% hærri laun í Noregi. Þáttur í markvissri eyðileggingu Landsspítalans.

Hvar er InDefence nú?

Punktar

Ekki veit ég, hvort góður sé óformlegur samningur stjórnarinnar við fyrrverandi „hrægamma“ og núverandi kröfuhafa. Mér sýnist ljóst, að Lee Buchheit hafi þarna dregið Ísland að landi eins og hann gerði í IceSave III. Það eitt ætti að vera eins og rauð dula framan í rembdu InDefence samtökin hans Sigmundar Davíðs. Nú er ráð fyrir Frosta og félaga að heimta kylfur og haglara á loft. Ættu að eiga auðvelt með að fá Sigmund Davíð til fylgis. Færi létt með að vera í andstöðu í stjórn. Hefja undirskriftasöfnun og knýja Ólaf Ragnar til að hafna málalyktum. Þá getur SDG loks siglt inn í þingkosningar undir þöndum seglum þjóðrembunnar. Eins og síðast.

Áður en þau fá krónu

Punktar

Læknar náðu tugum prósenta í kauphækkun og landlæknir sagði ekkert. Forstjórar náðu sér í hundrað prósent kauphækkun og ríkisstjórnin sagði ekkert. Bankar misþyrmdu almenningi upp á hundrað milljarða og seðlabankinn sagði ekkert. Már Guðmundsson hamaðist við að klófesta 300.000 króna kauphækkun á mánuði. Kærði sjálfan bankann sinn, en ríkisstjórnin rak hann ekki. Svo þegar hjúkkur og ríkiskontóristar vilja smotterí, rekur öll hjörðin upp ramakvein: Landlæknir, forstjórar, ríkisstjórn, banksterar og einkum þó seðlabankastjóri. Hann hækkar stýrivexti og kennir hjúkkum og kontóristum um verðbólgu, áður en þau fá krónu.

Grikkir geta ekki meira

Punktar

Grikkir svindluðu sig inn í Evrópusambandið og hafa hagað sér þar eins og fífl. Samt munu þeir ekki verða við kröfum sambandsins um meiri sparnað. Út í hött er að sauma meira að þeim eins og sambandið gerir nú. Viðurkenna verður samábyrgð sambandsins og leggja byrðarnar á það. Evrópusambandinu ber ekki skylda til að vera innheimtustofnun fyrir fjölþjóðlega fjárglæfrabanka. Grikkir hafa skorið ríkið niður og rústað innviðum samfélagsins til að verða við óréttlátum kröfum. Allt hefur komið fyrir ekki, því að hagkerfið hefur dregizt hættulega saman. Framkoma Evrópusambandsins gagnvart Grikkjum verður sambandinu ævarandi hneisa.

Innviðir áfram í rúst

Punktar

Þegar skuldir ríkisins lækka í kjölfar nauðarsamninga föllnu bankanna, sparast mikið í vöxtum. Ríkisstjórnin hyggst ekki nota þann sparnað til að lappa upp á laskaða innviði samfélagsins. Bjarni Benediktsson nefndi hvorki heilsugæzlu né lágmarkslaun í Mogganum í gær. Forgangsmálið verður hins vegar að lækka skatta og að venju einkum skatta hinna allra ríkustu. Við þekkjum lækkun auðlindarentu og afnám auðlegðarskatts, svo og tilfærslur á skattþrepum, allt í þágu hinna ríkustu. Ríkisstjórnin telur sig ekki hafa hamast nóg í að draga úr velferð þjóðarinnar. Hefur enn tvö ár til að sprengja í rústum innviða samfélagsins.

Köld vaxtagusa í dag

Punktar

Köld vaxtagusa felst í, að vextir hækka daginn eftir að tilkynnt er um aðgerðir í frægu afnámsmáli hafta. Kannski stafar það af, að engar slíkar aðgerðir voru boðaðar á fundi Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar. Þvert á móti voru boðuð aukin höft. Í framhjáhlaupi var sagt að ótilgreindar aðgerðir gætu hafizt á næsta ári, það er allt og sumt. Líklegt er, að þarna komi við sögu hin mjög svo heittelskaða, en blýþunga, króna, sem hangir um þjóðarhálsinn. Enn er þó fullyrt, að unnt verði að afnema höftin, þótt krónan hangi enn um ókomna tíð. Samt er líklegt, að lífskjör versni áfram, er Seðlabankinn hækkar stýrivexti.

Reiðikast á lyklaborði

Punktar

Hvað þýðir setningin: „Hetjur hafsins komu líka í land, duttu í það og lömdu konurnar sínar“? Er hér talað um alla sjómenn, flesta sjómenn, marga sjómenn, nokkra sjómenn, einn sjómann? Orð eru hættuleg, séu þau of losaraleg, eins og reyndist vera í þessu tilviki. Hef stundum notað losaraleg orð, sem betur hefðu verið skilgreind nánar. Reyni að forðast slíkt, með misjöfnum árangri. Vilji fólk kveða fast að orði, er mikilvægt að gera það skipulega og markvisst. Ef fólk reiðist snöggt ofsalega, er mikilvægt að forðast lyklaborð, unz reiðin er runnin. Þá fyrst er hægt að rita umbúðalaust án þess að verða sér til skammar.

Dýr verður Sigmundur allur

Punktar

Dýrt er fyrir þjóðina að hafa SDG í ríkisstjórn, þótt hann tapi í hverju málinu á fætur öðru. Brot af sértækri góðvild hans í garð hagsmuna 400 fermetra íbúða kostaði ríkið 80 milljarða. 3-1 þar fyrir BB, sem þumbaðist á móti. SDG tapaði svo aftur í snjóhengjunni. 4-0 fyrir BB, er vildi semja við þá, sem SDG vildi lemja með kylfu. En hálft annað ár tók að þrúkka um það. Sú töf á afnámi hafta kostaði þjóðina 120 milljarða króna að mati Viðskiptaráðs. Alls kostaði SDG þjóðina 200 milljarða í þessum tveimur málum. Það er rosalegur baggi, sem nær langleiðina í tjónið af völdum Davíðs, þegar hann kollsigldi Seðlabankanum.