Punktar

Allt sjálfvirkt nema laun

Punktar

Á hálfu ári hafa neyzluvörur hækkað um 5%. Hér ríkir nánast einokun á öllum sviðum, sem plaga almenning. Seljendur gera með sér þegjandi samkomulag um að halda áður samþykktum verðmun. Neytendur eru ofurseldir þessu og geta enga björg sér veitt. Alþýðusambandið gerir þó verðkannanir, sem samtök atvinnulífs rægja sem mest þau mega. Búin hefur verið til láglaunagildra, sem felst í, að allt lífið er fólgið í sjálfvirkum hækkunum. Nema launin. Láglaunafólk getur ekki sótt sér neinar kjarabætur gegn stálvirki atvinnurekenda og ríkisstjórnar. Þegar gerðar eru kröfur um laun, sem þó eru lægri en útgjöld, er blásið á það.

Fínimannsbyltingin

Punktar

Hverfi 101 er að Feneyjast. Eins og þar var svæðið í niðurníðslu, þegar Epal-kommar fluttu inn og endurnýjuðu húsin fagurlega. Smám saman komst hverfið í tízku. Af öðrum ástæðum varð sprenging í ferðaþjónustu. Samanlagt leiddi þetta til óðaverðbólgu í húsnæðisverði í 101. Margir sáu beztan kost í að koma fyrir gistingu í þessum húsum. Enn hækkaði verðlagið og túristar prísuðu Epal-komma út af markaðinum. Hverfið er óðum að breytast í hótel. Feneyingar flúðu upp á land í ódýrara húsnæði og sama er að gerast hér. Gagnaðgerðir hafa mistekizt. Stúdenta-smáíbúðir verða að gistingu. Þetta má kalla fínimannsbyltinguna í 101.

Starfslok áliðnaðar

Punktar

Nú skulum við undirbúa starfslok áliðnaðar á Íslandi. Ómaginn á þjóðinni borgar ekki skatta og varla kostnaðarverð fyrir orku, en enga auðlindarentu. Þeim tíma sé lokið. Framvegis verði orka seld á markaðsvirði. Þá muni aðrir bjóða betur en álbræðslur. Og eru síður líklegir til að svindla með skapandi bókhaldi á borð við hækkun í hafi. Helzt er það tölvuiðnaður og hátækni, sem geta leyst frumvinnslu álbræðslu af hólmi. Til þess þarf ekki fleiri orkuver, bara selja orkuna dýrar. Hugmyndir um ný álver í kjördæmapoti eru pólitískt rugl. Álið er draugur ljótrar fortíðar og framtíðin liggur í hreinleika og náttúrufegurð.

Tillitslaus hótelkassi

Punktar

Í borgarskipulaginu ganga menn berserksgang við að rústa gömlum götumyndum með forljótum steypu- og glerkössum í stíl við Mýrargötu-skrímslið. Hótelið við Lækjargötu tekur ekkert tillit til umhverfisins, sem þar er fyrir. Gróðafíknir verktakar hafa gert borgarstjórn að þrælum sínum. Ömurlegt framhald af fyrri hroka arkitekta, sem hunzuðu allt umhverfið. Þannig varð Morgunblaðshúsið til, Iðnaðarbankahúsið og Nýja Bíó-höllin. Þannig varð bíslag Landsbankans til og Íslandsbanki að skrímsli. Og Landspítalalóðin að furðulegu safni um andsetna arkitekta hvers tíma. Af öllum þeim graut er bara elzti Landspítalinn fagur.

Vinsamleg ummæli gesta

Punktar

Til að sinna ferðaþjónustu þarf hæfni í mannlegum samskiptum. Fólk þarf að vera forvitið og hlýtt í framkomu. Hingað til hefur það tekizt bærilega í aukinni ferðaþjónustu síðustu ára. Við getum séð það af vinsamlegum ummælum hótelgesta og veitingahúsagesta á TripAdvisor. Ef svo heldur áfram, er spurning, hvort hér sé endalaust til nógu mikið hæfileikafólk til að mæta aukningunni. Ég fylgist stöðugt með TripAdvisor og hef ekki enn séð bilunareinkenni. Fólk er almennt ánægt með aðbúnað, þjónustu og matreiðslu. Verði hægt að halda gæðum stöðugum í hraðri aukningu, er þjóðinni vel borgið til framtíðar. Þurfum engar eiturfabrikkur.

Bjarni hrækir á þig

Punktar

„Við höfum öll sama aðgengi að heilbrigðiskerfinu“, segir Bjarni Benediktsson í Fréttablaðinu í dag. Annað hvort er hann forstokkaður eða úti að aka. Fátækir neita sér um tannviðgerðir, því að þeir hafa ekki efni á þeim. Fátækir verða að bíða í tvö plús tvö ár eftir augasteinaskiptum, en Bjarni Ben fær þau fyrir hádegi. Fátækir raða sér á óralanga biðlista á flestum sviðum heilbrigðismála, en Bjarni borgar og fer fram fyrir röðina. Þetta er ógeðslega Ísland í dag, sem Bjarni stendur fyrir. Einkavædd greifaþjónusta leysir Landspítalann af hólmi. Óþarfi er samt fyrir Bjarna Ben að hrækja líka framan í ykkur í Fréttablaðinu.

750 milljarða sporvagnar?

Punktar

Ótrúverðugar eru tölur um kostnað við sporvagnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Hafi slíkt kerfi kostað 25 milljarða króna á kílómetrann í Edinborg, mundi það kosta 750 milljarða króna á 30 kílómetra kortsins í Fréttablaðinu í gær. Tölurnar í tillögunni eru hrikalega vanáætlaðar. Enda er Reykjavík tæplega svo rík, að draumur Dags verði að veruleika. Sennilegra er, að borgarstjórnin sé að flagga loftkastölum frá milljónaborgum til að tregðast við að byggja mislæg gatnamót. Fyrir mér eru þetta nýir órar í röðinni frá Landeyjahöfn til Vaðalheiðarganga. Verkfræðingar og hugljómunarlið eru í eitruðu samstarfi um augljósan galskap.

Nýjasta dellan

Punktar

Aðstoðarmaður húsnæðisráðherra er formaður nefndar um millilandaflug beint utan af landi. Matthías Imsland segir tekjur verða 1,3 milljarðar árlega af tveimur flugferðum í viku til Akureyrar og tveimur til Egilsstaða. Vill nota skattfé til að grýta í þetta, enda er víst talið nóg af slíku til gæluverkefna. Ekkert flugfélag í heiminum hefur viljað skoða flug til Akureyrar eða Egilsstaða. Haft var samband við mörg og alls staðar ypptu menn öxlum. Þetta er nýjasta útspil byggðastefnu af gerðinni „álver í hvern fjörð“. Staðir þessir eru í kjördæmi forsætis og því þarf að kaupa þar atkvæði í tæka tíð fyrir næstu kosningar.

InDefence skammar Sigmund

Punktar

Nú er jafnvel inDefence farið að skamma Sigmund Davíð. Harmar nauðasamningana við hrægamma um skattafslátt. Talsmaður hópsins telur betra að ná 862 milljarða skuldalækkun með 39% stöðugleikaskatti. Ekkert slitabúa föllnu bankanna hafi gert athugasemdir við lögmæti þeirrar prósentu. Nauðasamningar séu hins vegar bara um 400 milljarða. Vekja eigi spurningar, hversu fljótir kröfuhafarnir hafi verið fljótir til að samþykkja samningana. Hópurinn gerir líka athugasemd við vald Seðlabankans til að vinna stöðugleikamatið. Bankinn nýtur ekki trausts. Spurning sé svo, að hve miklu leyti þjóðin vilji borga einhverjar bankaskuldir.

Hefur fengið nóg

Punktar

Helgi Hrafn Gunnarsson flutti í eldhúsi alþingis í gær þá beztu og sönnustu ræðu, sem þar hefur verið flutt í mínu 60 ára minni. Gagnrýndi stjórn þingsins og þingmenn fyrir ömurleg vinnubrögð. Sagði málþófið vera kerfislægan vanda á alþingi. „Ekkert okkar er yfir það hafið. Ekki þegar vantraustið ristir svo miklu dýpra en ágreiningur um einstaka málefni,“ sagði hann. Þegar ekkert traust ríkir, þá þarf að skera á hnútinn og enginn er betur til þess fallinn en þjóðin sjálf. „Ég skil það mætavel, að fólk treysti okkur illa fyrir sínum málefnum, ef við treystum ekki því sjálfu fyrir þeim heldur“.

(Ræða Helga)
(Texti Helga)

Reglur hamla gerræði

Punktar

Eðlilegt er, að meirihluti ráði, en minnihluti ekki. Jafnframt er eðlilegt, að meirihlutavaldinu fylgi reglur um meðferð mála. Á alþingi felast slíkar reglur í aðgreiningu fyrri og síðari umræðu og rannsókn í þingnefnd milli umræðna. Ennfremur í tjáningarfrelsi á öllum stigum máls. Með slíkum reglum er reynt að hindra, að meirihlutavald breytist í gerræði. Því miður koma stjórnarfrumvörp yfirleitt illa undirbúin og alltof seint. Ennfremur reyna nefndaformenn stundum að gerbreyta frumvörpum í ferli alþingis, samanber rammaáætlunina og makrílinn. Slíkt verklag gerræðis breytir alþingi í skotgrafahernað og málþóf í tímahraki.

Ógeðfellt gengi

Punktar

Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna eru illmenni, þegar þeir flytja fé frá fátækum til ríkra við sérhvert tækifæri. Þeir eru bófar, þegar þeir þjónusta eigendur sína, greifana, en ekki kjósendur. Þeir eru bjánar, þegar þeir klúðra hverju málinu á fætur öðru á alþingi. Ljótt er að segja nokkra tugi manna vera illmenni, bófa og bjána, en það er bara staðreynd, sem þarf að básúna. Aldrei í sögunni hafa ráðamenn þjóðarinnar verið eins heillum horfnir og síðustu tvö ár. Sem betur fer átta sumir kjósendur sig á þessu: Fylgi stjórnarflokka er komið í sögulegt lágmark og stuðningur við ríkisstjórn líka komið í sögulegt lágmark.

Einelti framsóknarmanns

Punktar

Hjálmar Árnason hefur verið dæmdur fyrir einelti í garð starfsmanns, sem gegndi skyldu sinni sem trúnaðarmaður stéttarfélagsins. Hjálmar er framkvæmdastjóri ríkisfyrirtækisins Keilis og fyrrverandi þingmaður. Gott dæmi um afleiðingar, þegar tuddar úr gerræðispólitík Framsóknar fá feita sporslu, þegar þeim er ekki lengur stætt í pólitík. Hjálmar brást á óviðeigandi hátt við framgöngu mannsins sem trúnaðarmanns. Í niðurstöðunum segir að Hjálmar hafi „með viðbrögðum sínum … vanvirt hlutverk starfsmannsins sem trúnaðarmanns og eigið hlutverk sem stjórnanda“. Auðvitað heldur tuddinn feitu sporslunni, enda pólitískt kvígildi.

Hjáróma digurbarki

Punktar

Ríkisstjórnin stendur ekki við neitt af digurbarkalegu loforðunum. Leiðrétting skulda var ekki á kostnað hinna svonefndu hrægamma, heldur skattgreiðenda, sem ekkert höfðu af sér gert. Hún stóð ekki heldur við að skattleggja þrotabú gömlu bankanna um 39%, sem Sigmundur Davíð sagði mundu gefa 862 milljarða króna. Í staðinn samdi hún við hrægammana um 450 milljarða stöðugleikaframlög. Auðvitað trylltust þeir af gleði, fengu 400 milljarða, fimm sinnum stærri leiðréttingu en skuldararnir.  Þetta má kalla skjaldborg um hrægamma, ef einhver skjaldborg er til. Ljóst er, að ekki stendur steinn yfir steini af digurbarka Sigmundar.

Rosalegur kostnaður

Punktar

Mér sýnist fyrirhugað lestakerfi borgarinnar munu felast í að mjókka helztu umferðaræðar til að rýma fyrir lestarbrautum. Umferð bíla verður verulega heft með fækkun akreina og aukinna erfiðleika á gatnamótum. Galdralausnin er því á kostnað rafbílanna, sem annars hefðu leyst benzínbíla af hólmi. Ég óttast, að Dagur borgarstjóri sé ekki búinn að bíta úr nálinni með þetta plan. Samkvæmt erlendri reynslu verður lestakerfi tvöfalt eða þrefalt dýrara en áætlanir gera ráð fyrir. Líklega verður kerfið mun dýrara en öll þau mislægu gatnamót, sem annars yrðu byggð. Og reksturinn verður rosalegur á hvern haus í þessu fámenni.