Punktar

Fjórða ríkið í stríði

Punktar

Ljósar eru afleiðingar furðulegs fjármálafundar leiðtoga Evrópu í Bruxelles um Grikkland. Þýzkaland framdi þar byltingu að undirlagi Wolfgang Schäuble. Hann lagði til brottrekstur Grikkja úr evrunni, sem á sér enga stoð í lögum. Útkoma ofbeldisins er, að evran situr eftir í slíkum sárum, að ekkert ríki vill lengur fara þar inn. Þýzkaland hefur stimplað sig sem tuddann í Evrópu, með tilvísun til Þriðja ríkisins. Jafn bæklað Fjórða ríkið hefur tekið við. Ekkert regluverk er um evruna, bara leynifundir ráðherra, sem hafa ekkert umboð til slíks. Þýsku stjórninni tókst á einni helgi að gera að engu sjö áratugi flókinnar diplómasíu eftirstríðsáranna.

Wolfgang Münchau

Paul Krugman

Yanis Varoufakis

Geta borðað kökur

Punktar

Eygló Harðardóttir húsnæðisráðherra hefur bent á þá lausn húsnæðismála, að ungt fólk búi lengur í foreldrahúsum. Noti tímann til að spara. Hefur einnig bent á, að fordómar séu gegn búsetu í gámum. Miklu fljótara sé að spara fyrir gámi en fyrir íbúð. Eygló er snillingur. Framsóknarfólk bendir á hana, þegar það segir sumt framsóknarfólk hafa hjarta. Annar snillingur er nýr þingmaður Sjálfstæðis. Sigríður Andersen bendir á, að matartollar eigi einfaldlega að leiða til, að fólk kaupi minna af mat. Hún er líka snillingur. Þær stöllur keppa við Maríu Antoinette, er á að hafa sagt, að vanti fólk brauð, geti það bara borðað kökur.

Ó jarðýtur vors lands

Punktar

Senn líður að eyðingu Eldvarpa, 10 kílómetra gígaraðar á Reykjanesskaga, skammt vestan Bláa lónsins. Þetta er eins konar smækkuð útgáfa af Lakagígum og hefur hingað til haldizt ósnortin. Í stuttu færi frá Keflavíkurvelli, hefði getað orðið hornsteinn ferðaþjónustu á svæðinu. En Suðurnesjamenn hafa aðrar fíknir. Grindavík og HS Orka þurfa að slétta út gígana til að útbúa fimm risavaxin plön fyrir jarðbora. Þarna á að útvega ótryggan hita fyrir stóriðju þar syðra. Ein mesta aðför þjóðarsögunnar að íslenzkum náttúruminjum. Grindvíkingar eru því miður enn á því sérkennilega plani, sem lýst er í bókum Guðbergs Bergssonar.

Bjartsýni og jákvæðni

Punktar

Sigmundur Davíð segir þjóðina veruleikafirrta. Hún átti sig ekki á, að hér sé það bezta hugsanlega ástand af öllu hugsanlegu ástandi. Landsfeður séu vakandi dag og nótt við að bæta hag fólks, hamingju þess og langlífi. Fólk eigi því að flykkjast um landsfeður sína og bera þá á höndum sér. En því miður vilji fólk bara ekki skilja þessa fegurð. Það sé andsetið af vondum hugsunum og hlusti á neikvætt niðurrif og tortryggni. Líklega undanskilur forsætis þau 10%, sem styðja flokk hans og hann sjálfan. Einfaldari skýring á stöðu mála er þó, að forsætis sé sjálfur veruleikafirrtur og þau 10% þjóðarinnar, sem styðja hann.

Nóg komið af hefndarþorsta

Punktar

Grískur almenningur er sekur um það sama og íslenzkur almenningur. Kusu bófa í áratugi til að fara með stjórn landsins. Samt er ranglátt, að fátækir Grikkir megi deyja drottni sínum. Bófarnir hirtu féð, sem bankar mokuðu í Grikkland. Komu því fyrir í skattaskjólum eins og íslenzkir bófar. Á báðum stöðum sleppa bófarnir, en almenningur situr eftir með sárt ennið. Vissulega hafa Grikkir reynt að svindla á kerfinu og að komast hjá sköttum. Hafa nú þegar borgað það dýru verði. En smámennin í Evrópusambandinu baka sér bara fyrirlitningu með að reyna að kreista blóðdropa úr grísku þjóðinni. Nóg er komið af hefndarþorsta.

Lágkúra rústar Evrópu

Punktar

Ekki hélt ég, að ég mundi lifa, að Þýzkaland rústaði Evrópusambandinu, sem þó virðist hugsanleg útkoma. Samt hefur landið grætt meira á sambandinu en öll hin ríkin til samans. Angela Merkel er því miður enginn Konrad Adenauer, því er nú verr og miður. Evrópusambandið hefur verið á hraðri niðurleið þessa öld Þýzkalands. Þar á ofan með vanhæfum bankavinum við stjórnvölinn, fyrst José Manuel Barroso og síðan Jean-Claude Juncker. Svona hægra öfgalið er ófært um að leysa örlagaríkar uppákomur. Hugsar fyrst og fremst um hag óráðsíu-banka. Er ófært um að skynja neyð almennra borgara. Lágkúran ein ræður þessu hruni.

Fólk þekkist að nýju

Punktar

Fésbók smábæja og hverfa er vanmetið fyrirbæri. Hér á Seltjarnarnesi er fínn
FÉSBÓKARHÓPUR , sem finnur týnda ketti og hunda, farsíma og reiðhjól. Og kemur því til réttra eigenda. Mynd er birt af rytjulegum hundi í óskilum og nágranni upplýsir tveimur mínútum síðar, hvar hann á heima. Allir gleðjast. Svo eru það vandamálin, parkeringar bíla, staðsetning göngubrauta og þess háttar. Eiðistorg er auðvitað eilífðarflopp og þarna birtast tillögur til úrbóta. Ekki alls fyrir löngu bjó fólk hér einangrað. En nýir fésbókarhópar færa fólkið nær hvert öðru. Valda því, að nágrannar eru farnir að þekkjast að nýju eins og í gamla daga.

Enginn kvaddi forsætis

Punktar

Smám saman sést, hvernig heimsókn Sigmundar Davíðs til Bruxelles var háttað. Ferðin var farin, þegar yfirmenn Evrópusambandsins höfðu ekki tíma til neins nema Grikklands. Fundir Juncker og Tusk með Sigmundi stóðu tæpar fimm mínútur. Eitt stykki myndataka, eitt skot og bless. Ekki af því að Sigmundur væri peð, heldur var allt á hvolfi í húsinu. Sigmundur er einn til frásagnar um fundina. Til þess að segja samband Íslands við Evrópusambandið vera gott, þrátt fyrir undarleg bréf Gunnars Braga. Án samráðs við Gunnar. Sýndarmennska án innihalds. Endaði á myndskeiði af forsætis einmana úti í forstofu. Enginn að kveðja hann.

Enginn nær máli

Punktar

Þegar fólk lítur yfir ráðherralista Framsóknar, hristir það bara hausinn og því verður orðfall. Sjálfstæðisflokkurinn er skárri í almenningsálitinu, en á þó engan ráðherra, sem nær máli. Hanna Birna spriklaði heilt ár í hengingarólinni, áður en hún tók pokann sinn. Kristján Þór spilar sig sem saklausan áhorfanda að rústun heilbrigðiskerfisins, reynir enga rústabjörgun. Ragnheiður Elín var með hataða náttúrupassann á heilanum í rúmt ár án nokkurs árangurs. Illugi hefur þá bókstafstrú, að skólakerfið sé færiband, sem hægt sé að stilla á aukinn hraða. Ólöf er gift álinu og Bjarni Ben er uppsóp úr Vafningi. Slík er flokksins dýrð.

Stærsta krabbameinið

Punktar

Hversu mikið haldið þið, að 500 milljarða gróði íslenzkra banka þrengi svigrúm þjóðarinnar til að ná sér eftir hrun? 500 milljarðar eru stjarnfræðileg tala, svo há, að hún skilst ekki. Þetta er uppsafnaður gróði frá endurreisn bankanna eftir hrun og fram á þetta ár. Reikna má gróðann í átta hátæknispítölum. Tekinn út úr þjóðarhag og notaður til að herða heljartök stóru bankanna á pólitíkinni. Vinstri stjórnin tók ekki á vandanum og bófastjórnin heldur sömu stefnu. Þetta er langstærsti efnahagsvandi þjóðarinnar nú á tímum, heldur stærri en kvótinn. Þetta tvennt er efnahagslega krabbameinið, sem rústar innviðum samfélagsins.

Brotavilji löggunnar

Punktar

Lögreglan í Reykjavík gældi árið 2011 við tilraunir til að koma upp ólöglegri hlerun gemsa. Wikileaks hefur birt tvö tölvubréf frá tveimur starfsmönnum hjá tölvurannsóknadeild lögreglunnar. Þeir leituðu til Hacking Team á Ítalíu. Það er fyrirtæki, sem eingöngu selur slíkan búnað. Vildu þeir kynna sér búnaðinn  og verð hans. Einnig vildu þeir komast á póstsendingarlista. Hacking Team sendi upplýsingar til baka, en ekki varð úr frekari samskiptum. Löggan var á þessum  tíma spennt fyrir hinum óleyfilega búnaði. Brotavilji, kannski ekki eindreginn. Embættið hefur upplýst, að framtak bréfritara var með vitund yfirmanna þeirra.

Pólitískur gúmmí-Tarzan

Punktar

Stoðkerfi Samfylkingarinnar er gert úr Epal-kommum, sem hafa fengið sitt lén í millistjórn hjá ríki og borg. Þetta er fólk, sem hefur komið sér fyrir og hefur viðráðanleg fyrsta heims vandamál. Tengslin við alþýðu manna hafa endanlega rofnað. Þetta er hvorki Alþýðuflokkur né Alþýðubandalag. Viðfangsefnið er ekki lífskjör, heldur lífsstíll. Þetta kom inn með Ingibjörgu Sólrúnu, heldur áfram hjá Árna Páli, stundum kallað Blair-ismi. Flokkurinn kiknar í hnjánum, þegar auður er annars vegar. Fyrstur til að bila á örlagastundu, þegar í húfi er ný stjórnarskrá, auðlindarenta eða íbúðir ungra. Samfylkingin er vor gúmmí-Tarzan.

Pólverjar redda þessu

Punktar

Pólskir verkamenn reisa orkuverið á Þeistareykjum, sem á að þjóna stóriðju við Húsavík. Innflutningur láglaunafólks byrjaði við Kárahnjúka og mun halda áfram á Reykjanesi, Blönduósi og í Þjórsá. Ruglið er sett í gang til að efla atvinnu í byggðum landsins, en reynist svo þurfa ódýrara vinnuafl. Verktakarnir taka ekki annað í mál, því að það er ódýrara en leiðinda sveitavargur. Öðrum þræði er þetta aðferð við að koma hér á landi upp þægari verkalýð, sem dansar eftir pípu auðsins. Til þess að búa til atvinnutækifæri fyrir verðuga Pólverja leggur ríkið fram stórfé til framkvæmda og veitir alls konar fríðindi umfram reglur.

Tveggja turna tal

Punktar

Pólitíkin á Íslandi hefur á þessu ári snúist um tvo turna, tvo póla. Ekki þá turna, sem Samfylkingin vonaðist eftir á velmektarárum sínum. Við höfum fengið raunverulegt val, ekki val milli hægfara og snöggrar innrásar auðræðis. Annars vegar eru bófarnir, sem mjólka samfélagið í þágu greifa og auðræðis. Hins vegar er bylting unga fólksins. Hyggst staðfesta stjórnarskrána, ná þjóðarauðlindum til baka úr klóm greifanna. Hyggst líka afnema leyndó, galopna stjórnsýslu og stjórnmál. Vonandi tekst henni líka að snúa niður bankstera og skera krabbamein bankanna. Loks höfum við fengið tveggja turna tal, milli fortíðar og framtíðar.

Hlúð að silfurskeiðungum

Punktar

Allar breytingar Bjarna Benediktssonar á ríkiskerfinu stefna að breiðara bili milli ríkra og fátækra. Aðgerðum, sem almennt miða í rétta átt, er hagað á þann veg, að ríkir fái betri útkomu en fátækir. Þetta gildir um boðað afnám tolla af 1933 vörutegundum. Á listanum eru engin matvæli, þótt fátækir hefðu einmitt mest gagn af lækkun á verði matvæla. Þeir þurfa mat, en hafa síður efni á vörum af öðru tagi. Hugsun Bjarna er, að áður hafi ríkisvaldið gert betur við fátæka. Og nú þurfi að jafna metin og hlúa að silfurskeiðungum. Þessi hugsun er einnig miðlæg í lagfæringu stjórnvalda á „forsendubresti“ þeirra, sem bezt mega sín.