Punktar

Félagslegur rétttrúnaður

Punktar

Að ósk skrifstofu Landlæknis er verið að reyna að rekja feril manns. Hann situr í gæzluvarðhaldi vegna gruns um að hafa eyðnismitað rúmlega tug kvenna. Verið er að leita að fleiri konum, sem hafi lent í honum. Til þess að þær átti sig á, um hvern málið snýst, var upplýst, að þetta væri hælisleitandi frá Nígeríu. Í fjölmiðlum voru birt myndskeið af manninum með teppi yfir höfði. Auðvitað fór félagslegur rétttrúnaður á hvolf. Samkvæmt honum má ekki prófílera fólk. Eins og stundum áður gengur félagslegur rétttrúnaður út í öfgar í þessu máli. Brýnt var að loka hringnum sem fyrst til að kæfa nýja bylgju sjúkdómsins í fæðingu.

Einkavædda einokunin

Punktar

Eins og Strætó er Isavia orðin að auglýsingu um mislukkaða hlutafélagavæðingu opinberra stofnana. Strætó varð sér til skammar í flutningi fatlaðra og frekju bílstjóra gagnvart minni máttar. Isavia rukkaði leigubílstjóra um aðstöðugjald og breytti Leifsstöð úr flugstöð í verzlunarfangelsi með of fáum sætum. Á báðum stöðum láta froðufellandi græðgispúkar sig engu skipta um hag fólks, enda sitja þeir að einokun. Enginn einokun er eins skelfileg og einkavinavædd ríkiseinokun og borgareinokun. Þrátt fyrir reynslu er enn verið að þrýsta opinberum rekstri yfir í hlutafélög og einkavinarekstur. Það er hraðasta leiðin til helvítis.

Ísland einangrast

Punktar

Að undirlagi Bandaríkjanna er Íslandi ýtt skipulega úr samstarfi og samningum um norðurslóðir. Nýlega var undirritaður samningur Bandaríkjanna, Rússlands, Kanada, Noregs og Danmerkur/Grænlands um veiðar og verndun í Norður-Íshafinu. Íslandi var hvorki boðið til fundanna né til undirskriftar samningsins. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra bendir á, að verið sé að frysta Ísland út úr samstarfi um hagsmuni, sem varða Ísland. Allt stafar þetta af bandarískri óbeit á hvalveiðum Íslendinga. Ekki er hlustað á íslenzkar mótbárur, því að andstaðan er orðin að trúarbrögðum. Kristján Loftsson fer að verða fremur dýr í rekstri.

Lágmarkslaun í ferðaþjónustu

Punktar

Ferðaþjónusta er orðin stærsti og mikilvægasti atvinnuvegur landsins. Tíundi hver landsmaður starfar þar. Hún tekur við öllu atvinnuleysi, sem annars yrði til, þegar fólk leitar sér vinnu. Fólk býr við misjöfn kjör í þessari grein sem öðrum. Ástæða er til að ætla, að það eigi erfitt með að gæta hagsmuna sinna í viðræðum um laun. Stéttarfélög eru hrygglaus eins og allir sáu í vor. Samt er mikilvægt, að greinin verði ekki láglaunagildra ungra kynslóða. Ríkið þarf að setja reglur um lágmarkslaun. Einnig þarf ríkið að herja á svarta atvinnu í greininni. Aðeins sem alvörugrein getur ferðaþjónusta haft gildi fyrir þjóðina.

Undir járnhæl braskara

Punktar

Hjörleifur Stefánsson arkitekt bendir í Kjarnanum á, að lög um aðalskipulag heimili skipulagsyfirvöldum að víkja frá deiliskipulagi. Aðalskipulag er æðra deiliskipulagi. Falla má frá mistökum deiliskipulags án skaðabótaskyldu. Þetta virðist Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs, ekki skilja. Í málgagni Samfylkingarinnar grætur hann getuleysi sitt til að verjast skaðabótakröfum verktaka og braskara. Hið rétta er, að aldrei hefur verið borgarskipulagsráð, sem er eins eindregið undir hæl verktaka og braskara. Svo sem að troða turnum í gömul hverfi. Eðlilegt er því að saka ráðið um spillingu og undirlægjuhátt.

(Grein Hjörleifs)

Kristján Þór er kríp

Punktar

Eftir tveggja ára axarsköft Kristjáns Þórs Júlíussonar er heilbrigðisþjónusta á Íslandi ekki lengur sambærileg við Norðurlönd. Reynir Arngrímsson, formaður læknaráðs Landspítalans, bendir á þetta í blaðagrein. Frá landlæknisembættinu berast svo fréttir af feiknaskorti á hæfu starfsfólki í heilsugeiranum um alla Evrópu. Á sama tíma sparkar Kristján Þór ítrekað í hjúkrunarfólk. Reynir af pólitísku trúarofstæki að hrekja það burt til Noregs. Ímyndar sér, að Ásdís Halla í Sinnum geti í staðinn reddað hjúkkum frá Rúmeníu. Kristján Þór er illa innrættur öfgatrúarmaður og þar á ofan óvenjulega vitgrannur, svokallað kríp.

(Um grein Reynis)

(2.000.000 heilbrigðisstarfsmenn vantar)

Bannað að lækna

Punktar

Kristján Þór Júlíusson reynir með gerræði að kippa sjúkdómum úr velferðarkerfi heilbrigðismála. Þessa dagana beitir hann hnífnum á sjúklinga með lifrarbólgu C. Fá ekki að nota nýtt undralyf, sem tekið hefur verið í notkun alls staðar á norðurlöndum. Þeir eiga að fá að deyja í friði, því að Kristján Þór vill láta Ásdísi Höllu sukka með heilbrigðisfé. Og af því að ríkisvaldið neitar sér um tekjur af auðlegðarskatti og auðlindarentu. Sé það meining ráðherrans að fella burt einstaka þætti heilbrigðismála, þarf það að gerast faglega. Illa innrættur ofstækismaður getur ekki ákveðið upp á sitt eindæmi, hvað ekki má lengur lækna.

(Um grein Reynis)

Sturla var angurgapi

Punktar

Árið 1233 fór Sturla Sighvatsson í fræga Rómarferð. Með fylgibréf frá kóngi fór hann milli fursta suður Evrópu á hámiðöldum og riddaratíma. Víða hefur hann séð riddara æfa herstjórnarlist. Séð hvernig liði var skipað, hvar riddarar voru í tíma og rúmi og hvar bogliðar voru í tíma og rúmi. Ekki lærði hann neitt slíkt af flakki sínu. Kunni fátt í herstjórn, reið lötum hesti, kastaði grjóti. Lægst varð gengi hans á Örlygsstöðum. Honum láðist að taka skildi af klökkum, skipaði ekki liði, mætti ekki óvinum berskjölduðum, er þeir ösluðu upp úr Héraðsvötnum. Sturla var glæsimenni, en jafnframt ráðlaus ribbaldi, lítt til forustu fallinn.

Alls konar atvinnuleysi

Punktar

Tölur um atvinnuleysi eru dæmigerðar hagtölur, einskis virði. Ein stofnun segir atvinnuleysi vera 2-3%, önnur segir það 6-7%. Sumar tölur telja bara þá, sem fá bætur. Þær eru nytsamlegar, því að þá geta hagspekingar „minnkað atvinnuleysi“ með því að taka fólk af bótum. Lítur vel út í grafi á excel, sem hagspekingar telja jafngildi vísinda. Sumar tölur mæla þá, sem vilja vinna, ekki hina. Sumar tölur fela í sér svarta vinnu, aðrar ekki. Fyrst ákveður þú, hvaða tölur þú vilt sjá og velur síðan aðferð, sem hentar þeim tölum. Tölur í excel og grafi segja ekkert um atvinnuleysi frekar en um tölur um hagvöxt eða framleiðni.

Heimatilbúinn vandi

Punktar

Til Íslands koma tæpast aðrir en þeir, sem eru vanir vatnssalernum heima fyrir. Hafi þeir hægðir annars staðar, er það ekki af vana. Fararstjórar hópferða eiga að skipuleggja ferðir þannig, að áð sé, þar sem eru salerni. Hegðun farþega er á þeirra ábyrgð. Erfiðara er að fást við þá, sem ferðast á eigin vegum. Vilji fólk, að þeir hægi sér ekki á freistandi stað, þarf að setja þar upp skilti. Vilji fólk, að þeir hafi ekki næturstað á freistandi stað, þarf að setja þar upp skilti. Enginn reiknar með, að notkun salerna sé ókeypis, né að bílastæði og svefnstæði séu ókeypis. Heimatilbúinn vanda á að leysa strax. Semsagt strax.

Einstaklega fávísir menn

Punktar

Rústun heilbrigðiskerfisins hefur varanlega skaðleg áhrif, þótt hægt verði að nudda Landspítalanum upp í fyrsta gír. Framtíðar-hugsandi ungmenni sjá, að hér er helsjúkt þjóðskipulag, gerræði auðræðis. Nokkrir greifar hirða afrakstur þjóðarbúsins og lama uppbyggingu brýnustu innviða. Ungir munu telja sér betur borgið í samfélagi með áherzlu á heilbirgða, opinbera innviði. Sama mun gerast í menntamálunum. Nú er reynt að setja upp einkavætt færibandakerfi í skólunum, stytta nám og búa til skyndibita-fræðinga. Heilbrigðis- og menntaráðherrar okkar eru vangefnir sértrúar-öfgamenn, sem verður sparkað út í næstu kosningum.

Einkavæðing gefst illa

Punktar

Sú tilgáta, að einkarekstur sé ríkisrekstri betri, er bara tilgáta, sem gerir ráð fyrir of einföldum veruleika. Einkarekstur skóla gafst illa í Svíþjóð og Bretlandi, námsárangur varð lakari. Einkarekstur spítala í Bandaríkjunum er margfalt dýrari en ríkisrekstur. Reynslan sýnir líka, að sumir tilboðsgjafar hafa innri upplýsingar umfram aðra. Einkavinavæðing er líka alltaf í myndinni. Séu tilboðsgjafar fáir, myndast fáokun, sem fljótt verður einokun. Í fámenni Íslands verður einkavædd ríkiseinokun oftast miklu verri. Hreinlæti dapraðist á Landsspítalanum og matur sjúklinga stórversnaði. Sjúkrahótel Ásdísar Höllu urðu skandall.

Takið bankana herskildi

Punktar

Ör fjölgun byggingakrana á höfuðborgarsvæðinu bendir til að við séum að láta reka að nýju hruni. Skillitlir braskarar fá lánsfé í opinberu bönkunum, sem mergsjúga hagkerfið með gróða upp á hundruð milljarða. Settu okkur á hausinn haustið 2008 og eru komnir áleiðis við að gera það aftur haustið 2016. Hlutverk ríkisvaldsins er að stöðva þetta. Taka þarf stóru bankana herskildi, reka út banksterana og setja inn eftirlit siðfræðinga. Taka þarf allan gróða bankanna og nota hann til að borga skuldir ríkisins, enda stafa þær allar af bönkum. Samþykkja þarf lög, sem gera bankstera ábyrga fyrir afleiðingum óskiljanlegra útlána sinna.

Allir borgi fullan vask

Punktar

Allur atvinnuvegur á að borga sama vask, fullan vask. Á móti má afnema tolla af mat. Málmbræðslur eiga líka að borga fullan vask og þá að innfalinni hækkun í hafi. Sama gildir um sjávarútveginn, hann á að borga fullan vask að meðtalinni hækkun í hafi. Báðar þessar greinar falsa nefnilega bókhaldið og taka gróðann utan íslenzka hagkerfisins. Að auki eiga málmbræðslur og sjávarútvegur, sem hafa aðgang að takmarkaðri auðlind, að greiða auðlindarentu. Hana má finna með opnu útboði veiðiheimilda og orkuheimilda. Svo einfalt og augljóst, að allir eiga að geta skilið. Ekki sízt þeir, sem láta sig dreyma um frjálsan markað.

Engin miskunn lengur

Punktar

Sá tími er löngu liðinn, að álbræðslan í Straumsvík rækti góða sambúð við sitt fólk. Fyrst þótti gott að vinna þar, ekki lengur. Nú vill hún reka starfsfólk og ráða verktaka á lægri launum, væntanlega úr þriðja heiminum. Sú er krafa þeirra, sem nú eiga bræðsluna, Rio Tinto Alcan. Um allan heim er það markmið risafyrirtækja að brjóta upp stéttarfélög. Komast í aðstöðu til að láta fátæka við sultarmörk undirbjóða í fasta vinnu. Fátt veldur meiri misskiptingu auðs en sveigjanlegt vinnuafl í kapphlaupi niður á botn. Í verkahring ríkisvaldsins er að banna slíka fúlmennsku með lögum og að vernda frelsi samtaka starfsfólks.