Punktar

Morðið á stjórnarskránni

Punktar

STUNDIN birtir ýtarlega úttekt á svikum flokkanna við nýju stjórnarskrána. Frá upphafi voru bófaflokkarnir tveir andvígir henni. Svo og sjálfhverfir lögmenn, sem töldu sig hafa átt að koma þar að verki. Á öllum stigum var reynt að bregða fæti fyrir plaggið. Verst voru þar landráð Hæstaréttar. Sjálft morðið var svo framið á þingi. Fyrst linaðist núverandi Björt framtíð, sem dreymdi samstarf við bófana. Síðan sprakk Árni Páll og á hans vegum hálf Samfylkingin. Það var sjálft morðið. Naut aðstoðar Ástu Ragnheiðar þingforseta, sem á öllum stigum reyndi að tefja. Að lokum var svo hrygglaus Katrín Jakobs kúguð til hlýðni. Þannig stóð loks allur fimmflokkurinn að morðinu. Og mun ævinlega gjalda þess.

Sýndarveruleiki í hagtölum

Punktar

Landsframleiðsla hér mælist yfir meðallagi Evrópuríkja. Samt reiknast ekki, að hluti hennar hverfur í hafi, þegar fiskur er seldur utan. Kvótagreifar selja nefnilega sjálfum sér fiskinn, taka tugmilljarða framhjá landsframleiðslu, eins og álverin. Samt mælist hún há, en laun eru hins vegar mun lægri. Stafar af, að stjórnin lækkar auðlindarentu, afnemur auðlegðarskatt, skuldaleiðréttir hjá auðgreifum, setur lög á verkföll og ræðst með hörku á lífskjör aldraðra og öryrkja, rústar líka Landspítalanum. Greiningadeildir banka og ráðuneyta segja þér svo, að þú hafir það frábært. Líka skrípakallinn frá OECD. Þetta er galið.

Hrokinn er að drepa Má

Punktar

Hrokinn er að drepa Má Guðmundsson seðlabankastjóra. Hrokinn beinlínis lekur niður kinnar, er hans náð tjáir okkur: „Og síðan bara gerist það í framhaldinu, að það, sem þarf að gerast, mun gerast“. Var að reyna að útskýra gegnsæið í undirbúningi minnkunar fjármagnshafta. Ég fyllist alltaf vantrú á bankann, þegar ég sé hvernig Már getur ekki rökstutt nokkurn hlut. Um 800 milljarða stöðugleikaskattinn, sem pólitíkin lofaði okkur, þá segir Már nú: „Þetta verða einhverjir mörg hundruð milljarðar, það er náttúrulega algjörlega ljóst“. „Einhverjir“, já, það er “algjörlega ljóst“. Hrokagikkurinn leynist ekki.

Fólkið strækaði á ISS

Punktar

ISS sérhæfir sig í að bjóða niður mötuneyti og hreingerningar -og lækka laun í þeim geirum. Veldur fólki miklum hremmingum, einkum konum á miðjum aldri. Eitt af græðgisfyrirtækjum nútímans, gersamlega án tilfinninga fyrir lífi og líðan starfsfólks. Því er gleðilegt, að viðskiptafólk mötuneytis ISS í Borgartúni 21 neyddi það til að afturkalla brottrekstur vinsælla kvenna. Þær höfðu neitað að sætta sig við launalækkun. Fólk hætti bara að skipta við  bófana. Starf ISS er liður í tilraunum auðgreifa til að koma á samhlaupi alþýðunnar niður á botninn. Þjóðin þarf að fara að taka af hörku á ógeðslegum fyrirtækjum á borð við ISS.

Undirbýr næsta hrun

Punktar

Ríkisstjórnin er byrjuð að efna í næsta hrun. Sala Landsbankans er skref í átt til stefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun. Eigendur flokksins eru lítið fyrir að byggja upp rekstur og vilja fá hann afhentan fullbúinn frá ríkinu. Engir eru meiri kommar en pilsfaldakommar Flokksins. Ekki er vitað, hverjir verða Bjöggar hins einkavinavædda Landsbanka að þessu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í hryðjuverkastjórninni verið ötull við að rústa ríkisstofnunum og koma opinberum rekstri í hendur einkavina í okri. Flokkurinn hefur nákvæmlega ekkert lært af síðasta hruni. Spurningin er bara, hvort hann nær hruninu sínu fyrir kosningar.

Bratt fylgishrun

Punktar

Aðeins ein ríkisstjórn í sögu skoðanakannana hefur fallið brattar en núverandi stjórn Sigmundar og Bjarna. Stjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar hrundi. Fallið var ekki svona bratt hjá Jóhönnu og Steingrími. Við höfum þrjár ríkisstjórnir í röð, sem hafa valdið þjóðinni vonbrigðum. Kannanir sýna, að hálf þjóðin hefur gefizt upp á hefðbundnum pólitíkusum og flokkum þeirra. Fall Bjartrar framtíðar er af sama toga. Fólk fattaði allt í einu, að sá nýi flokkur var í raun einn af gömlu flokkunum, gamall frá fæðingu. Allt þetta stefnir kjósendum eindregið til flokksins, sem sýnir í verki gerólík vinnubrögð, einkum gegnsæi og lýðræði.

Öfgar og hóf múslima

Punktar

Öfgar múslima eru einkum upprunnir meðal wahabíta/salafista á Arabíuskaga og kostaðir af olíuprinsum skagans. Ræktunarstöðvar öfga eru einkum í madrössum í Pakistan, á Vesturlöndum og ríkjum, sem Bandaríkin hafa rústað. Flóttafólk frá Sýrlandi er tiltölulega hófsamt og vestrænt í hugsun og háttum, lagast að nýju landi. Vandinn byrjar síðar. Gettó eru fyrsti vandinn, aðskilin hverfi fólks í fátæktargildru. Þar lenda iðjulaus ungmenni á glapstigum eða í klóm öfgaklerka kostaðra frá Arabíuskaga. Þar er uppspretta hryðjuverkamanna, er ganga til liðs við Isis. Gestgjafaríki þurfa að hindra fátæktarhverfi og öfgaklerka wahabíta.

Hröð öldrun flokka

Punktar

Píratar hafa helming alls fylgis kjósenda undir fertugu. Bófaflokkarnir tveir halla sér einkum að fólki yfir sextugt. Fylgi þeirra gufar upp hjá yngri hópum. Ferlið bendir til, að Flokkurinn og Framsókn verði fyrr en síðar útdauðir eftir fremur hraða öldrun. Raunar er fylgi Bjartrar framtíðar að falla í enn hraðari farveg öldrunar. Gamla fólkinu finnst líklega þar vera kurteist fólk, sem sé flott í tauinu. Unga fólkið kærir sig hins vegar ekkert sérstaklega um slíkt. BF er skrítið dæmi um bráða öldrun. Fátt bendir heldur til, að Vinstri græn og Samfylkingin geti selt þá hugmynd, að þau muni efna það, sem þau sviku síðast.

Skrípakarlinn mættur

Punktar

Skrípakarlinn frá Mexikó sló sér upp á Íslandi. Samkvæmt Economist er hann þó frægastur fyrir að reyna að troða dóttur sinni og tengdasyni í æðstu stöður hjá Efnahags- of framfarastofnuninni, OECD. Angel Gurría vill, að almenningur fái sem lægst kaup, svo að „hagvöxtur“ verði sem mestur. Sjálfur leggur hann mesta áherzlu á að fá sem mest fríðindi og koma kostnaði við himinháan einkarekstur sinn á herðar stofnunarinnar. Neyðarfundur var kallaður saman í OECD vegna furðuferlis mannaráðninga hans. Um dýrðina má lesa nánar í ECONOMIST. Við hæfi er, að Gurría forstjóri klappi Bjarna Benediktssyni á öxlina. Báðir eru skrípó.

Flestir fagna flóttamönnum

Punktar

Skoðanakönnun DV bendir til, að einn af hverjum fimm Íslendingum vilji ekki fá flóttamenn. Færri en þeir, er vilja fá 5000 eða fleiri. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill efla móttöku flóttamanna. Þeir eru virkir í fésbók og þvinguðu auma ríkisstjórn upp að vegg með hennar 50 hausa. Könnunin sýnir, að um 20% þjóðarinnar hneigjast að rasisma. Borgarfulltrúar Framsóknar höfðuðu til þessa hóps með góðum árangri í síðustu kosningum. Davíð og Mogginn reka gríðarlegan áróður fyrir rasisma og vilja þvinga honum upp á Flokkinn. Litlum jaðarflokkum kann að finnast þetta girnilegt fylgi, en tæpast gagnast það kjölfestuflokkum.

Ljón á vegi pírata

Punktar

Svo mikið er af ljónum á vegi pírata til valda, að ég held þeir verði móðir af sárum. 1: Tilboð fyrir kosningar um stjórnarsamstarf við einhvern fimmflokkinn er hættulegt. Margir kjósendur vilja ekki nudda sér utan í gamla skítinn. 2: Sumt er svo flókið, að ekki hentar að fara út í smáatriðin of snemma, það gefur höggstað á sér. 3: Svo mikið er komið af væntingum, að veruleiki kosningatímans getur valdið fólki vonbrigðum. 4: Fólki lízt ekki á, að eftir kosningar hefji píratar langvinna úttekt á stjórnsýslunni. Sú vinna á að byrja núna. 5: Frávik frá stefnu gegnsæis munu valda sumum kjósendum vonbrigðum. 6: Og svo framvegis.

Stjórnarskrá bófaflokkanna

Punktar

Bófaflokkar ríkisstjórnarinnar hafa eigin stjórnarskrárnefnd, sem er í leyni að semja nýja stjórnarskrá. Stefnt til höfuðs stjórnarskrá okkar, sem samin var í opnu gegnsæi. Ferlið náði frá þjóðfundi gegnum stjórnlagaráð, sem varð einróma sammála um niðurstöðuna, yfir í þjóðaratvæði, sem sagði já. Fór mjög í taugar eigenda þjóðfélagsins og lagatækna, sem telja stjórnarskrá vera sitt prívatmál. Og að orðhenglar hennar eigi að vera þjóðinni óskiljanlegir. Þessi stjórnarskrá þjóðareigenda og lagatækna á að vera tilbúin í árslok. Meiningin er að knýja hana fram á þingi í lok kjörtímabilsins, svo að stjórnarskrá okkar komist ekki á dagskrá. Þetta eru þjóðníðingar.

Eitt sumarþing nægir

Punktar

Ekki á að þurfa 6-9 mánuði til að ná nýju stjórnarskránni gegnum nýtt alþingi og fá samþykkt þjóðaratkvæði um aðild að Evrópu. Fimmflokkurinn mun að vísu beita málþófi aldarinnar gegn stjórnarskránni og tefla fram tugum lagatækna utan þings. Píratar þurfa bara að standa af sér þann storm og keyra á þetta eina mál. Auðvitað þarf jafnframt að leggja fram ýmis önnur þingmál og þar eru fjárlög mikilvægust, svo og uppboð á kvóta og upprisa Landspítalans. En ekki má láta slík mál tefja fyrir stjórnarskránni. Strax eftir kosningar þarf að hefja sumarþing og leggja fram stjórnarskrána, sem nú þegar bíður tilbúin og staðfest í þjóðaratkvæði. Síðan þarf duglega verkstjórn, sem takmarkar samanlagðan ræðutíma við 100 klukkutíma. Eitt sumarþing nægir, kosningar að hausti og nýtt þing fjallar um fjárlagafrumvarpið.

Okkar stjórnarskrá

Punktar

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar munu allir andmæla hugmynd pírata um upptöku okkar stjórnarskrár, sem stjórnlagaráð varð einróma um. Allir vilja krukka í þá stjórnarskrá, enda hafa þeir hagsmuna að gæta. Svo sem hagsmuna kvótagreifa og lokaðrar stjórnsýslu. Lagatæknar munu líka andmæla, enda vilja þeir ekki sjá stjórnarskrá samda af fólkinu án lagakróka og orðhengilsháttar lagatækna. Á loft verður hafin tilgáta Líndals um, að þjóðareign sé ekki til. Píratar þurfa engar áhyggjur að hafa. Fólkið skilur sína stjórnarskrá og vill hana. Píratar þurfa svo eftir kosningar líklega að díla um lausnina við samstarfsflokk/a. Það eru bara leikreglurnar.

Þjóðin tók völd

Punktar

Eygló Harðardóttir og ríkisstjórnin runnu glæsilega á rassinn með eymdarhugmynd sína um móttöku 50 flóttamanna. Meðan hefðbundnir fjölmiðlar sváfu helgasvefni, lék allt á reiðiskjálfi á fésbók. Sjálfboðaliðar buðu fram vinnu, aðstöðu, fé, húsnæði og hvaðeina. Sveitarfélög tilkynntu vilja til aðildar að þjóðarátaki. Í helgarlok var búið að skjóta 50 manna nízku Eyglóar í kaf. Hærri tölur voru nefndar, 500 manns og jafnvel 5000. Að frumkvæði stjórnarandstöðunnar verður líklega samið um 500 manna millileið. Rasistar liggja orðlausir til kojs. Jafnvel Framsókn svíkur þá. Hin frábæra fésbók sýndi um helgina, að þjóðin er fólk, ekki rasistar. Hún færir þjóðinni valdið, bravó.