Punktar

Flugusuð þingmanna

Punktar

Tómt mál er að tala um samkomulag allra um nýja stjórnarskrá. Bófaflokkarnir hafna stjórnarskrá fólksins. Óttast, að hún hindri yfirtöku kvótagreifanna á auðlindum sjávar. Framhjá þeirri staðreynd verður aðeins komizt með að útvatna ákvæðin um þjóðareign auðlinda. Þetta er ekkert flókið mál. Búið er að ræða það út og suður í nefndum alþingis og setja í gang ferli, sem varð svo frábært, að allt Stjórnlagaráð varð einróma um skrána. Meginlínur hennar voru staðfestar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hjal svikara um samstöðu við bófaflokka er flugusuð í ljósi samstöðu þjóðarinnar. Nauðsynlegt verður að valta yfir báða bófaflokkana.

Lágu launin eru vandinn

Punktar

Dæmigerð fyrir slappa þjóðargreind er umræðan um að erfitt sé að koma sér upp húsnæði. Umræðan snýst um verðtrygginguna sem Óvininn. Pólitíkusar finna upp hinar skrautlegustu „mótvægisaðgerðir“. Vandinn er samt allt annar, lágu launin eru einfaldlega of lág. Þau duga ekki fyrir húsnæði. Mundu duga, ef launin væru hér svipuð og í nálægum löndum. Hagsmunaaðilar reka harðan áróður gegn launum og segja þau valda verðbólgu. Það er bara lygi. Launahækkanir grisja fyrirtæki og hreinsa út aulana, sem standa í rekstri, oft undir pólitískum pilsfaldi. Rík fyrirtæki fela arðinn að mestu á Tortóla, svo að hann kemur ekki til skiptanna.

Martröðinni að ljúka

Punktar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur skipt um skoðun á drögum fjölþjóðlegra viðskiptasamninga eins og TISA, TTP og TTIP. Hún hefur loksins áttað sig á, að Evrópubúar hafna yfirtöku risafyrirtækja á valdi yfir viðskiptum heimsins. Áður var stjórnin búin að afneita ábyrgð á pappírum, sem urðu til í þessum drögum. Hún fékk taugaáfall fyrir viku, er 200.000 Þjóðverjar söfnuðust saman í Berlín til að mótmæla valdaafsalinu. Hin illræmda Cecilia Malmström, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, hafði áður sagt, að hún sækti ekki umboð sitt til fólks! Nú segist hún hlusta á fólk. Heyrðu það, Gunnar Bragi, þetta TISA þitt og Martins Eyjólfssonar sendiherra er flopp.

REUTERS

Botna ekki neitt í þessu

Punktar

Af hverju gengur Höskuldur H. Ólafsson laus? Fjármálaeftirlitinu ber að kæra hann fyrir markaðsmisnotkun og innra bankarán. Hann á að vera í gæzluvarðhaldi meðan fundið er, hvernig honum datt í hug að gefa sérvöldum gæðingum eignir bankans. Þessi bankster hagar sér eins og forverarnir gerðu fyrir hrun, þeir sem nú eru á Kvíabryggju. Af hverju eru nýir bankar byggðir upp á sama hátt og gömlu tryllingsbankarnir? Af hverju eru einmitt siðblindir banksterar valdir til að stjórna þeim? Og hvers vegna gera Bankasýslan og Fjármálaeftirlitið aldrei neitt af viti? Er getuleysið beinlínis ráðningarskilyrði forstjóranna?

Erdoğan er úrþvætti

Punktar

Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, er eitt ógeðfelldasta úrþvætti heims. Sprengir upp mótmælafundi Kúrda og segir svo, að Kúrdar hafi sprengt. Af hverju ættu Kúrdar að sprengja sitt fólk? Úrþvættið segir Kúrda gera þetta í samstarfi við íslamista. Staðreyndin er samt, að Kúrdar eru helztu andstæðingar Íslamista í Sýrlandi og Írak. En Erdoğan er sjálfur íslamisti og helzti þröskuldur í vegi baráttunnar gegn íslamistum í Sýrlandi. Svo fær úrþvættið beinlínis stuðning Bandaríkjanna og Evrópu, sem er þyngra en tárum taki. Allt er svínaríið þáttur í kosningaundirbúningi, þar sem Erdoğan hyggst svindla á vængjum þjóðrembunnar.

Þjóðin er „klíka“

Punktar

„Við eigum ekki að loka það af hjá afmörkuðum klíkum og láta þær ráða því hvernig stjórnarskráin lítur út.“ Þetta segir Árni Páll Árnason um hakkavélina, sem hann lenti í vegna svika hans við stjórnarskrána. Telur Þjóðfundinn, kjörið Stjórnlagaráð, afreksverk ráðsins og staðfestingu þjóðaratkvæðis á meginlínum nýrrar stjórnarskrár vera klíkuverk. Að mati hans er þjóðin bara klíka, einkum píratar. Þykist vera talsmaður hinnar sönnu þjóðar, hinna ýmsu hagsmunaafla, einkum óvina þjóðareignar á auðlindum. Og sármóðgaðra lagatækna, sem telja sig hafa misst spón úr askinum og eru nú að reyna að teygja og toga stjórnarskrána.

Svörin svara engu

Punktar

Sagt er, að fyrirtæki í eigu Spilluga hafi þegið greiðslur frá Orku Energy árið 2012. Hann svarar með því að sýna meint afrit af sinni skattskýrslu, sem er allt önnur Ella. Þannig hefur öll framganga Spilluga verið í mútumálum sínum. Svör hans svara engu og kalla á frekari spurningar. Að þessu leyti er hann vitgrennri en Hanna Birna. Fálkaleg undanbrögð magna grunsemdir um fúlan pytt spillingar. Eins og Hanna Birna hyggst hann þreyja þorrann. Með þessum aðferðum er hætt við, að þorrinn verði andskoti kaldur og napur, áður en upp er staðið. Spillugi hefur einfaldlega ekki greind til að standa í svona sjónhverfingum.

Ofsatrúuð sjálfsvígssveit

Punktar

Erfitt er að skilja styrjaldir ríkisstjórnarinnar við alla, sem minna mega sín. Allt frá gamlingjum um öryrkja yfir í þá, er vinna neyðarþjónustu í verkföllum. Samkvæmt umræðu almennings skefur þetta fylgið utan af ríkisstjórninni. Heldur þó áfram af stjórnlausum ofsa eins og andsetin sé. Fattar ekki framtíðina, til dæmis ekki kosningar 2017. Þetta er nefnilega ofsatrúarflokkur spámannsins Hannesar Hólmsteins. Hann sagði „græðgi er góð“ og allt valdagengið fellur fram froðufellandi og tilbiður spámanninn. Þannig urðu ríkið, fyrirtæki, stofnanir og samtök óstarfhæf af völdum óseðjanlegrar græðgi, sem jaðrar við sjálfsvíg.

Þeir sleikja allir valdið

Punktar

Stuðningur bandarískra stórblaða við auð og völd leynir sér ekki. Álitsgjafar þeirra eru einum rómi sammála um, að Clinton hafi staðið sig betur en Sanders á umræðufundi forsetaefna. Aftur á móti eru allir vísindalega valdir fókushópar einum rómi sammála um, að Sanders hafi gengið betur. Þetta sýnir, að hefðbundnu fjölmiðlarnir gefa allir sem einn falsaða mynd af veruleikanum, þar á meðal New York Times og CNN. Þessir fjölmiðlar eru allir sammála um, að Sanders sé utan við rammann, öfgafullur sósíalisti, sem muni koma þjóðinni á kaldan klaka. Sömu sögu er að segja frá Bretlandi, þar sem Guardian heldur uppi árásum á Corbyn.

Sjá Business Insider

Dularfullur Kauphallarstjóri

Punktar

Fátt veit ég um forstjóra Kauphallarinnar, en varla getur hann komið fyrir sig orði. Í sjónvarpinu í gær virtist hann halda fram, að aðferð Arion við sölu á Símanum sé alvanaleg. Og þá væntanlega frambærileg. Hann virtist líka halda fram, að umræðan um græðgina og spillinguna kringum Arion og Símann væri dæmi um heilbrigði. Dálítið óvarlega orðað, kannski er hann á lyfjum. Loks virtist hann halda fram, að spillingin í Arion veikti ekki skráningu Símans á markaði. Kannski er hann eins og fleiri embættismenn ráðinn til að sjá fátt, heyra fátt og segja fátt af viti. Ekki lyftist gengi Kauphallarinnar við þessa framgöngu.

Þrjúhundruð úr takt

Punktar

Þrjúhundruð löggur gengu fylktu liði í morgun í kröfugöngu vegna lágra launa. Auðvitað ekki í takt, það kann enginn Íslendingur. Sumir voru jafnvel feitari en ég og allir í þessum ömurlegu pokaklæðum, sem minna á þurfalinga. Væri ég lögga, mundi ég vilja setja almennilega reffilegan búning efst á kröfulistann. Eins og löggurnar í mínu ungdæmi, svona eins og Sæmi rokk, höfðingjabragurinn lýsti af þeim. En 300 löggur, hvað gera þær á venjulegum dögum, þegar ekki eru kröfugöngur? Eru þær geymdar inni í skáp til brúks í neyð? Þegar passa þarf, að skríllinn geri ekki aðsúg að landsfeðrunum við alþingishúsið eða stjórnarráðið?

Heimsins bezta velferð

Punktar

Eygló Harðardóttir velferðarráðherra segir Ísland hafa heimsins öflugustu velferð. Endurómar tungutak Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem segir heimsmetin falla hvert af öðru. Samt lengjast biðlistar ört eftir læknisaðgerðum. Samt borga sjúklingar sífellt stærri hluta af sjúkrahjálp og lyfjum, sem eru ókeypis hjá nágrönnum. Samt geta öryrkjar og láglaunafólk hvorki keypt né leigt sér íbúð. Staðreyndir stinga í stúf við ofskynjanir Eyglóar og Sigmundar Davíðs. Einnig er einstætt hér, að bófarnir tala tóma óra í fjölmiðlum, án þess að fréttamenn vísi í staðreyndir. Lítil furða, að firrtir kjósendur velji firrta fulltrúa.

Banksterar ganga lausir

Punktar

Mestu mistök fyrri stjórnar voru að sleppa tökum á nýju bönkunum og leyfa þeim að leika lausum hala. Ráðnir voru nákvæmlega eins banksterar og þeir, sem settu gömlu bankana lóðbeint á hausinn í kreppunni. Banksterarnir réðu sér við hlið sams konar siðleysingja og gömlu banksterarnir. Eftirlitið var í skötulíki hjá Bankasýslu og Fjármálaeftirliti. Þyngsta ábyrgð báru Steingrímur og Árni Páll bankaráðherrar. Sá síðari leitaði jafnvel ráða hjá banksterum. Bófastjórnin fremur nú sama dauðadansinn. Lætur allt reka á reiðanum, leyfir banksterum að byggja upp skrímsli, er mergsjúga landið. Sjáið sölu Arion á hlutafé í Símanum.

Pútín var að verki

Punktar

Hollenzkir rannsakendur komust að raun um orsökina, sem grandaði 298 manns í MH17 farþegaþotunni 17. júlí 2014. Það var rússnesk eldflaug, sem skotið var frá yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Úkraínu. Hátæknivopn, sem aðeins er beitt af sérfræðingum, er án efa hafa verið Rússar. Ófyrirleitnasti glæpur nútímans er því verk Pútíns einræðisherra. Hann er að því leyti skæðari en bandarískir, að hann svífst einskis. Obama er samt líka skæður, því hann lét sprengja upp spítala í Afganistan. Grimmdin er komin út yfir allan þjófabálk. Hún kemur nú niður á saklausum flugfarþegum, sjúklingum og læknum á fjölþjóðlegu sjúkrahúsi.

Hugverkaþjófnaður

Punktar

Margir hafa þá eðlilegu skoðun, að þjófnaður sé þjófnaður, þótt stafrænn sé. Skipta ekki um skoðun, þótt stafræn öld sé sögð vera ósnertanlegt himnaríki. Fólk telur þjófa vera þjófa, þótt þjófar segist vera margir saman og ekki finna til sektar. Er vandi pírata, þegar þeir útskýra skoðun sína á hugverkarétti. Ekki dugir að segja vandann vera eigenda réttar, en ekki notenda. Menn kaupa stafrænar bækur, en stela ekki. Rafbók kostar þó 10$. Hingað til hefur pírötum ekki tekizt að sækja málið skiljanlega. Mun koma þeim í koll, þegar kemur að alvörunni í kosningum. Ekki er seinna vænna að leysa vandann en einmitt núna.