Punktar

Dólgafrjálshyggjan

Punktar

Dólgafrjálshyggja vill minnka ríkisvaldið. Láta það snúast um lög, réttarfar og varnir, ekki um velferð, menningu og heilsu. Eftirláta einkaframtakinu slíka pósta. „Töff og æðislegur“ „markaður“ geri hlutina ódýrari á sjálfvirkan hátt. Það er ritningargrein úr helgiritum trúarbragða Mammons. Veruleikinn er annar. Velferð er lakari í Bandaríkjunum en í Evrópu og heilsa er í senn dýrari og lakari. Allur pakki dólgafrjálshyggju hefur verið prófaður síðustu áratugi víða um vesturlönd. Niðurstaðan er, að „félagslegur markaðsbúskapur“ Þýzkalands og „norræna módelið“ hafa gefizt betur en bandarísk og íslenzk dólgafrjálshyggja.

Samkeppnin er ímynduð

Punktar

Í umhverfi Ríkisútvarpsins er ekki neinn frjáls markaður á grundvelli hugmynda úr bókum trúarbragða Mammons. Einkarekin fjölmiðlun er rekin með tapi. Með eignarhaldinu eru viðskiptahópar að afla sér velvildar. Þeir vilja láta hana leiða til betri efnahags á öðrum sviðum rekstrar, til dæmis í fiskveiðum. Eru að efla aðstöðu sína undir pilsfaldi ríkisins. Með ríkisútvarpi er ekki verið að trufla „töff og æðisleg“ markaðslögmál, þau eru ímynduð, alls ekki til. Með ríkisútvarpi verið að gefa fólki kost á upplýsingum og menningu, sem ekki býðst hjá einkarekstrinum. Annað mál er svo, hvernig ríkisútvarpið stendur sig í því.

Styrkir kaupa velvild

Punktar

Fyrirtæki styrkja ekki flokka af því að þau séu að hvetja til betri stjórnmála. Þau eru ekki að „leita að lýðræðisumbótum“. Þau eru ekki fólk með hugsjónir, heldur rekstur um hagsmuni og hámarksgróða. Styrkir þeirra eru hættulegri en ríkisstyrkir, sem ganga til allra eftir skilgreindum formúlum. Að kalla styrki fyrirtækja „frjáls framlög“ gefur þeim ekkert siðferðilegt vægi. Þegar flokkar taka við styrkjum fyrirtækja, telja stjórnendur fyrirtækja sig vera að kaupa velvild. Því styrkja kvótagreifar Flokkinn sinn, en ekki aðra flokka til jafns. Í augum almennings tapa flokkar trúverðugleika við að þiggja styrki fyrirtækja.

Alltumlykjandi stórfyrirtæki

Punktar

Pólitíkusar og ríkið voru illa aflið í samfélaginu, þegar ég hóf blaðamennsku fyrir hálfri öld. Fjölmiðlar reyndu með misjöfnum árangri að lina heljartökin. Mér fannst það þá vera stóra málið. Um aldamótin voru valdahlutföll orðin allt önnur, „big business“ var illa aflið. Ráðskaðist með pólitíkusa og ríkisvaldið. Tók yfir fjölmiðlana. Hér var þetta hastarlegt, því peningavaldið trúði, að græðgi væri góð. Þessu fylgdi stjórnlaus frekja og yfirgangur. Stéttaskipting magnaðist ört og er orðin óbærileg. Baráttan gegn leynd og með gegnsæi snýst því ekki bara um pólitík og stjórnsýslu, heldur miklu frekar um stórfyrirtæki.

Þegar þarf útskýrara

Punktar

Aumt er, þegar pólitíkus talar eða ritar þannig, að meiningin misskilst. Þegar Helgi Hrafn Gunnarsson þarf að hlaupa til og skýra, hvað hann meinti. Eða hafa sérstakan útskýrara á sínum snærum til að gera meiningu skiljanlega. Þannig eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson, þeir tala í gátum eins og véfréttin í Delfí. Sigmundur Davíð er að því leyti verri, að hann skilst aldrei og kannast sjaldan við eigin orð. Sumum finnst slík hegðun sniðug, til dæmis Ólafi Ragnari. Hann veit, að hálf þjóðin er fífl. Mér finnst hins vegar höfundi framsetningar til skammar, að fólk skilji ekki, hvað hann er að þvæla.

Hógværð Pírata

Punktar

Ef frá eru taldir nokkrir sjálfstæðir bloggarar, eru vefir Pírata eina lífsmark stjórnmálanna. Þar sést löng röð hugmynda og deilt er um hugmyndir. Ítrekaðar sigurtölur í könnunum pumpa ótrúlega litlu lofti í Pírata. Þeir hafa varðveitt hógværðina. Þar efast menn enn og efast. Þar er deigla, ekki fullmótað afl. Að vísu hafa Píratar þegar ákveðið að styðja stjórnarskrá fólksins og þjóðareign auðlinda. Vilja drífa í málunum, sem þingræðinu tókst ekki að leysa í 70 ár. Lifandi pólitíkusar annarra flokka taka þátt í umræðu pírata. Ég sé enn ekki nein merki þess, að Píratar muni bregðast væntingum þriðjungs allra kjósenda.

Norrænt heilsumet

Punktar

Nýlega sagði Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra í sjónvarpinu hér vera besta heilbrigðiskerfi í heimi. Þetta frábæra kerfi lýsti sér þannig í gær, að fólk beið í átta tíma eftir þjónustu á slysdeild Landspítalans. Áreiðanlega norrænt met. Að baki ruglaða ráðherrans eru enn 10% kjósenda eða 20.000 rugludallar. Að baki heilbrigðisráðherra, sem skipulega ofsækir spítalann, eru enn 22% kjósenda eða 45.000 rugludallar. Miklu fleiri bera ábyrgð á þessu, þeir sem síðast kusu bófaflokkana, en hafa gefizt upp. Senn verða settar upp prívat slysadeildir úti í bæ, þar sem fólk fær þjónustu strax. Þá munu pólitískir bófar skála fyrir sigri einkavinavæðingar.

Hringbraut

Þriðja heims draumar

Punktar

Húsvíkingar halda ekki unga fólkinu í bænum út á boð um vinnu við bræðslupotta í kísilbræðslu. Og Blönduósingar halda ekki unga fólkinu í bænum út á vinnu við bræðslupotta í álveri. Skoðanakönnun hefur leitt í ljós, að hugur ungs fólks á landsbyggðinni stendur ekki til slíks. Áburðarverksmiðja Framsóknar freistar ekki heldur unga fólksins. Eigendur slíkra fabrikkna verða að leita til útlanda til að manna þær. Reynslan sýnir líka, að ekki verður til iðnaður, sem byggist á afurðum slíkra verksmiðja. Um tíma var reynd álpönnuverksmiðja í Þorlákshöfn, en hún dó drottni sínum. Allt eru þetta bara draumar fyrir þriðja heims fólk.

Notum skiljanleg orð

Punktar

Ég er gamlingi og það má kalla mig gamlingja, það skilst. Ákveði ég annað, svo sem að orðið þýði aumingi, þá er það minn vandi, ekki þeirra sem deila við mig. Sé ég geðveikur, þá er ég geðveikur. Sé ég vænisjúkur, er ég vænisjúkur. Sé ég sjálfhverfur, er ég sjálfhverfur. Þetta skilst allt. Flókin orðasambönd fela í sér firringu frá veruleika. Einkum þegar sjúkdómarnir eru orðnir ADHD, MS-DOS eða FAAS, þá skilur enginn neitt. Verum jákvæð orðum, sem skiljast. Stundum er ég sagður orðljótur. Er viðurkenning á sjaldséðum kosti, að ég kunni íslenzku. Segi ég pólitíkus vera fífl og fól, er ég ekki að ýkja, hann er fífl og fól.

Alltaf að spöglera

Punktar

Helgi Hrafn Gunnarsson þingpírati minnir á Ögmund Jónasson. Alltaf að spöglera  og komast að sérstæðum og einkum þó flóknum niðurstöðum. Vill fremur þrengja tekjubil að neðan en að ofan. OK. Orðar það þannig, að Viðskiptablaðið fagnar ótæpilega og segir: „að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur milli fólks“. Ha? Helgi þarf svo að hlaupa á píratavefinn til að útskýra í jafnflóknu máli, hvað hann eigi við. Vona, að hann verði ekki eins ráðherra og Ögmundur, alltaf með flóknar skoðanir, ætíð sérvitur upp á kant við félagana. Sem ráðherra átti Ögmundur þátt í að drepa stjórnina. Alltaf að spöglera og alltaf sérvitrastur.

Viðskiptablaðið

Sjúkraskýli í hernaði

Punktar

Landspítalinn er rekinn eins og sjúkraskýli í hernaði, frá einu neyðartilfelli til annars. Biðlistar lengjast og fólk deyr á biðlistum. Tækni er í ólestri og fólk deyr vegna mistaka í geymslu og flutningi sjúkraskráningar. Afleiðing af markvissri stefnu stjórnvalda að fjársvelta spítalann og rústa honum til að auðvelda einkavinavæðingu sjúkdóma. Yfirstjórn spítalans tekur þátt í þessum bófahasar með því að snapa fæting við starfsfólk, allt frá geislafræðingum yfir til ljósmæðra. Þegar óttastjórnun fer ofan í óhóflegt vinnuálag, verður andinn önugur á spítalanum. Hlutverk Páls Matthíassonar er að segja: Nú er nóg komið.

Frestum órum í bili

Punktar

Hugsanlega þurfa Íslendingar ekki ríkisútvarp, þótt aðrar þjóðir Vestur-Evrópu telji sig þurfa ríkisútvarp. Hugsanlega má ekki reka það með tapi, þótt aðrar þjóðir Vestur-Evrópu telji sig mega það. Hugsanlega er hægt að nota áróður, sem einn teboðskarl semur fyrir annan teboðskarl sem eins konar vísindi teboðsins. En þannig standa mál, að einkarekstur fjölmiðla er með allt niðrum sig. Reynir að afskaffa rannsóknablaðamennsku og losa sig við reynslubolta. Er meira eða minna kominn í hendur valdafíkinna sérhagsmuna. Við slíkar aðstæður skulum við laga Ríkisútvarpið, en fresta því um óákveðinn tíma að gæla við óra teboðsins.

Soldáninn sigraði

Punktar

Recep Erdoğan Tyrkjaforseti er Vladímír Pútín, Bashar Assad & Silvio Berlusconi í einum soldán. Ofbeldishneigður íslamisti, andvígur vestrænum mannréttindum og þar á ofan gerspilltur. Undanfarin ár hefur hann verið á ferð með Tyrkland inn í myrkan miðaldaheim miðausturlanda. Er beinlínis að Sýrlandisera Tyrkland. Áður glöð Istanbul er menguð af svörtum ofstækiskuflum. Kosningabarátta hans var ofbeldishneigð. Hefur rekið ríkisstarfsmenn kruss og þvers og sett þæga flokksmenn í staðinn. Lét herinn í vikunni ráðast í skrifstofur fjölmiðla og loka þeim, ef honum líkaði þeir ekki. Í kosningunum í dag fékk hann nýtt umboð.

Lásu bréf greifans

Punktar

Feneyjaborg var sjálfstætt ríki í ellefuhundruð ár og raunar heimsveldi mikinn hluta tímans. Stóð í sjóorrustum við Tyrki öldum saman. Hafði oft betur, þrátt fyrir fámenni. Stóð líka uppi í hárinu á páfanum í Róm. Leiðtoginn var kallaður Doge eða greifi. Fékk að búa í heimsins fegurstu höll, en stjórnskipanin snerist mest um að takmarka völd hans og halda honum í skefjum. Öldungaráðið hafði fulltrúa á öllum fundum greifans og las öll bréfaskipti hans. Aðeins einu sinni reyndi greifi að sölsa undir sig öll völd, var þá snarlega hálshöggvinn. Kosning greifa var flókin blanda hlutkestisvalds og meirihlutavalds, sem hindraði spillingu. Sitthvað má læra af Feneyingum.

Heltekinn af ofsatrú

Punktar

Illugi Gunnarsson fann út, að fækkun skólaára um eitt sparaði ríkinu fé. Gott er, að hann fattaði ekki, að hann gæti sparað enn meira með því að fækka árunum enn meira. Til dæmis leggja skólana niður, þegar hann hefur rústað útvarpinu. Illugi er heltekinn af ofsatrú teboðsins á afnám velferðar og ríkisvalds. Hann er þar á sama báti og Kristján Þór, sem reynir að rústa Landspítalanum. Þetta úrelta trúboð er að deyja út úr sögu Evrópu erlendis. Á sama tíma eru íslenzkir sjálfstæðismenn hugfangnari en nokkru sinni fyrr. Dýrt verður að laga stöðuna, þegar þeir verða loks svældir út eftir eitt og hálft ár. Hefjum niðurtalningu.