Punktar

Of erfitt fyrir alþingi

Punktar

Enn hefur ekki náðst samkomulag í stjórnskipunarnefnd alþingis um tæting úr vanefndri stjórnarskrá þjóðarinnar. Umboðsmaður ógreiddra atkvæða hefur ítrekað fengið afgreiðslu málsins frestað. Þvergirðingur Sjálfstæðisflokksins er í stíl við 164 ára misheppnaðar tilraunir okkar að nýrri stjórnarskrá. Við munum því áfram burðast með stjórnarskrá frá tíma danskra arfakónga nítjándu aldar. Unz píratar knýja fram stjórnarskrá fólksins eftir næstu kosningar. Þráteflið í nefndinni sýnir og sannar, að alþingi er um megn að afgreiða stjórnarskrá í samráði við vildarvini í hagsmunasamtökum. Þjóðin á sjálf að fá að ráða þessu.

Andverðleika-löggan

Punktar

Hanna Birna fauti hrakti ágætan Stefán úr embætti lögreglustjóra og setti óhæfa vinkonu sína í staðinn. Og aðrar óhæfar vinkonur henni til aðstoðar. Lögreglan hefur síðan ekki borið sitt barr. Þetta fólk getur hvorki talað né hugsað. Menn eru settir í gæzluvarðhald eftir stuld á farseðli og bolum. En eru látnir valsa af landi brott eftir kærur um svakalegar nauðganir. Lögreglan getur ekki talað við fjölmiðla um slíkt. Birtir heldur á eigin fésbókarvegg torskildar véfréttir um, að fjölmiðlar fari sumpart ekki með rétt mál. Auðvitað getur hún ekki stýrt umræðunni og því fór sem fór. Íslenzkt andverðleika-þjóðfélag á fullu á Hlemmi.

Höfnum miðöldum

Punktar

Á Arabíuskaga og í Afganistan ríkja róttækar miðaldir í trúmálum, wahabismi og salafismi. Þessi sértrú breiðist út um miðausturlönd og er jafnvel komin til Evrópu. Í sértrúnni er grimmasta karlremba. Hafnað er jafnstöðu kvenna og konur nánast taldar vera búfé. Trúarlög eru talin vera æðri landslögum. Sumir klerkar hennar í vestrænum löndum magna trúarofsa, er þeir messa yfir múslimum. Stingur í stúf við ferð vesturlanda úr myrkri miðalda inn í upplýsingu og endurreisn nýrrar aldar. Þetta er að vísu ekki nærtækasti hryðjuverkavandi á Vesturlöndum. En óþarft er að hlaða honum ofan á aðra trúargeðveiki, sem fyrir er í vestrinu.

Næsti megaþjófnaður

Punktar

Enn er stefnt að einkavinavæðingu banka, þótt fyrri tilraun hafi rústað fjárhag þjóðarinnar 2008. Sami skortur er á eftirliti. Forstjórar Fjármálaeftirlits og Bankasýslu eru beinlínis ráðnir til að vinna ekki vinnuna sína. Gæludýrin rotta sig saman í tvo hópa undir pilsfaldi stjórnarflokkanna og raula ástarljóð til lífeyrissjóðanna. Þeir eiga að fjármagna nýja sukkið á kostnað gamla fólksins. Einróma samþykkti alþingi rannsókn á síðasta bankahruni. Samt er enn ekki búið að skipa rannsóknarnefnd, sem átti að skila áliti fyrir tveim árum. Ríkisstjórn græðginnar hindrar, að upplýsingar trufli næsta megaþjófnað Íslandssögunnar.

Græðgi er ekki góð

Punktar

Með degi hverjum fjölgar þeim, sem telja græðgi ekki vera góða. Margir sætta sig við ríkisstjórnina af gömlum vana. Lítill kraftur er samt í mörgum þess háttar stuðningi. Hugmyndafræði einkavæðingar og einkavinavæðingar þekkist varla hjá ungu fólki utan tiltölulega fámenns Heimdallar. Slagorðið um frelsi missir hljómgrunn, þegar í ljós kemur, að það snýst um frelsi fyrirtækja og tudda í þjóðfélaginu. Baráttumenn einkavæðingar og einkavinavæðingar hafa engan áhuga á frelsi fátækra. Stóriðjuást og náttúruhatur er einnig á undanhaldi. Þungavigtin í þjóðfélaginu flýr hin illu öfl og hafnar því, að græðgi sé góð.

Sjávarútvegur pírata

Punktar

Í stefnuskrá pírata styðja þeir óafgreiddu stjórnarskrána. Þar á meðal kaflann um auðlindir, þar sem fjallað er um gjald fyrir kvóta. Í greinargerð pírata er mælt með, að gjaldið innheimtist með frjálsum og opnum uppboðum aflaheimilda. Hvergi er minnst á, að gjaldið eigi að renna annað en í ríkissjóð. Þar er mælt með frjálsum handfæraveiðum. Sem þýðir ekki ókeypis veiðar, heldur opinn aðgang fyrir alla. Frelsi þjóðar og frelsi hópa þýðir ekki skattleysi þjóðar og hópa. Hafa má lægra gjald á handfæraveiðum en á togveiðum. Vegna byggðastefnu fyrir pláss, sem kvótagreifar sviku. Og til að efla lífsstíl, er margir hafa mætur á.

Einkarekstur er hörmung

Punktar

Einkarekstur er ekki bara lakari en ríkisrekstur, heldur leiðir beinlínis til hörmunga. Þau eru ótal dæmin. Frægust var einkavæðing banka, sem fóru lóðbeint á hausinn og tóku þjóðina með sér. Dæmin úr heilsugæzlu eru fræg, til dæmis sjúkrahótel Ásdísar Höllu, sem dáist að þriðja heims Albaníu. Nú hrannast upp svakaleg dæmi úr illri meðferð fatlaðra á einkareknum sumarheimilum. Hvar sem einkarekstur nær að pota sér inn í ríkisrekstur, þar verða sárar hörmungar. Við þurfum ekki frekari tilraunir um ágæti einkarekstrar. Þekkjum Strætó, Isavia og Hraðbraut. Vitum, að einkó er sjúk græðgi. Leiðir til hörmunga þeirra, sem þola þurfa.

Getur ekki neitt

Punktar

Velferðarráðherra gat ekki svarað neinni spurningu fréttamanns í löngu viðtali í sjónvarpinu. Það eina, sem hafðist upp úr henni um aðgerðir gegn einkareknum velferðarheimilum, var orðið Gátlisti. Ein spurningin hófst með orðunum: Hafið þið þá brugðist? Svarið var að við hefðum brugðist við. Út úr ráðherranum fást aðeins útúrsnúningar og rugl. Svona hefur það verið alla ráðherratíð Eyglóar Harðardóttur. Hefur ekkert gert í rúm tvö ár annað en að skoða mál og skipa nefndir. Fólk fer að átta sig á, að einkarekstur leiðir til hörmunga í velferð fatlaðra eins og í velferð sjúklinga. Og eins og raunar einnig í velferð banka.

Trúleysi er siðlegt

Punktar

Börn á trúlausum heimilum eru umburðarlyndari og vinsamlegri en börn á trúuðum heimilum. Börn á kristnum heimilum eru umburðarlyndari og vinsamlegri en börn á heimilum múslima. Kom fram í fjölþjóðlegri rannsókn, sem GUARDIAN segir frá. Kemur mér ekki á óvart, siðferði er ekki trúartengt, þótt kristnir flaggi sínu siðferði. Ofsi er algengur í trú og skaðar siðferði. Í kristni er minni ofsi en hjá múslimum og meiri ofsi en hjá trúlausum. Gildir líka um sértrúarsöfnuðina, þeir eru lakari en þjóðkirkjan. Siðferði er óháð verðlaunum í himnaríki og sízt háð draumum um aðgengi að 72 meyjum. Skólar eiga ekki að þóknast neinni trú.

Kvíðinn nagar þá gömlu

Punktar

Ár er síðan hófst sigling pírata með himinskautum í skoðanakönnunum. Venjulega hrapa nýflokkar, þegar til kastanna kemur. En að þessu sinni nagar kvíðinn bófa og bjána hefðbundinna stjórnmála. Er þetta undantekningin, hvísla þeir. Píratar nota vísindalegar aðferðir til að afgreiða mál. Þar á meðal er „crowdsourcing“, aðild almennings að öllu málsferli. Þeir hafa komizt að frábærum niðurstöðum í tveimur grundvallatriðum, stjórnarskrá fólksins og þjóðareign auðlinda. Eiga þá enn eftir að taka á erfiðum málum, svo sem velferð og hlutverki ríkisvaldsins í samfélaginu. Til þess hafa þeir hálft annað ár og þurfa því að byrja fljótt.

„Samráð“, kanntu annan

Punktar

Fyndið er, að Ragnheiður Elín orkuráðherra biður um samráð af hálfu Bjarkar um verndun hálendisins. Hún fékk samráð, þegar hún keyrði áfram náttúrupassa, sem allir höfnuðu. Eftir árs þrjózku varð hún að gefast upp, en sveikst um að setja upp gistináttagjald, klósettgjald og stæðagjald. Fyrir bragðið eru innviðir ferðabransans í rúst af hennar völdum. Ragnheiður Elín er óhæf til góðra verka og alls samráðs. Þar á ofan er tímaeyðsla að hafa samráð við flokk, sem hefur jafn einbeittan náttúruhatara á þingi og Jón Gunnarsson. Yfir þetta súra lið er eingöngu hægt að valta kruss og þvers. Við munum steypa Flokknum úr musterinu.

Líf eftir stjórnarskrá

Punktar

Vandamál þjóðarinnar leysast ekki, þótt píratar nái fram stjórnarskrá fólksins og gjaldskyldri þjóðareign auðlinda. Þetta eru frábær og brýn atriði, en valda ekki sjálfkrafa bata annarra vandamála, sem hrjá okkur. Sjálfvirkni er ofmetið fyrirbæri í pólitík. Píratar þurfa að velja félagslegan markaðsbúskap að hætti Þýzkalands og Norðurlanda eða núverandi dólgakapítalisma stjórnvalda. Ekki er nema hálft annað ár til kosninga og á þeim tíma þarf að taka skýra afstöðu til hversdagsmála. Verið er að rústa menntun, heilsufari og öryrkjum og byggja upp stéttskipt þjóðfélag. Fyrir öllum framförum þarf að berjast skref fyrir skref.

Ofsi virkjanatrúar

Punktar

Ofsatrúarmenn virkjana í Landsvirkjun, Samorku og Orkustofnun reyna öll brögð. Skiptu um nafn á virkjanakosti í verndarflokki til að troða í nýtingarflokk. Líta á kosti sem biðkosti, þótt þeir séu í verndarflokki. Ofsækja vísindamenn, sem hafna ofsatrúnni. Beittu við Kárahnjúka fantabrögðum til að stöðva vantrú. Annað hvort voru fræðimenn við jötuna eða úti í kuldanum. Trúarofsinn líkist Scientology glæpafélaginu. Á fundum í Rammaáætlun góla hrokafullir nöttarar trúarsetningar sínar. Við höfum ekki efni á ruglinu. Rekum þessa landráðamenn út og snúum okkur að sjálfbærum auðlindum, sem ekki eyðileggja fósturjörðina.

Ofsókn ríkissaksóknara

Punktar

Furðuleg þessi réttarhöld yfir hjúkrunarkonu á Landspítalanum. Komið er fram, að ástandið á gjörgæzlu spítalans var eins og á sjúkraskýli á bardagasvæði. Fólk hljóp úr einu verki í annað til að redda málum fyrir horn. Ef einhverjir eru sekir, þá eru það fyrst og fremst hinir sálarlausu pólitíkusar, sem svelta Landspítalann. Og ef aðrir eru flæktir í málið, eru það yfirmenn á spítalanum, sem láta svona styrjöld pólitíkusa yfir sig ganga. Sektarröðin nær aldrei að hjúkrunarkonunni. Ríkissaksóknari eyðir tíma og fé í marklausa ofsókn. Sigríður J. Friðjónsdóttir ætti heldur að reyna að grynna á stafla óafgreiddra mála.

Styrjöld gegn spítala

Punktar

Aðförin að Landspítalanum er orðin mannskæð styrjöld. Samtök atvinnulífsins birta skýrslu um, að ótímabært sé að byggja. Betra sé að fela einkaframtaki úti í bæ aukinn hluta af rekstri spítalans. Magna einkavinavæðingu. Þótt fordæmið frá Bandaríkjunum sýni, að hún er mun dýrari og veitir að meðaltali mun lakari þjónustu. Þegar fátækir eru teknir með í reikninginn. Upphlaupi um betri staði er ætlað að flækja málið og tefja framkvæmdir. Á meðan snapi yfirmenn spítalans fæting við starfsfólk og geri hann að ömurlegum vinnustað. Það muni smitast til sjúklinga, sem fái óbeit á ríkisspítala. Árás bófanna kostar vikulega mannslíf.