Punktar

Aukinn ójöfnuður

Punktar

Alþingi hefur þrengt svigrúm ríkisstjórna til að leggja fram fjárlög með halla til að mæta sveiflum. Er þó víða góð reynsla af tímabundnum halla, svo sem hjá Franklin Delano Roosevelt í bandarísku kreppunni. Hægri öfl reyna hins vegar að binda hendur ríkisins, svo sem í Suður-Ameríku á Kissinger-tíma. Jafnvel vatnið var einkavætt. Í Bretlandi hefur svigrúm stjórnvalda einnig verið þrengt á tíma Thatcher, Blair og Cameron. Útkoman er laskað heilsukerfi Breta. Vestur-Evrópa hefur forðast slíkar árásir á lífsöryggi fólks. En hér á landi studdu kratar og píratar minnkun svigrúms. Þótt vita megi, að tilgangurinn er að auka misjöfnuð.

Bjarni Ben snappaði

Punktar

Bjarni Benediktsson er farinn að snappa. Ólafur Ragnar Grímsson juðaði honum úr jafnvægi í gær með því að biðja um nýja forgangsröðun stjórnvalda. Bjarni fór á taugum og hótaði að minnka fjárveitingar til embættis forsetans. Bjarni hefur þó lengst af haldið ró sinni. Fullyrt keikur eins og enginn sé morgundagurinn, að svart sé hvítt. Fjandskapur hans við fátæka fer þó ekki leynt í fjárlögum. Taugar hans brustu snögglega, þegar forsetinn fór að hrista hausinn. Bjarni nálgast þannig stíl Sigmundar Davíðs, sem snappar oftast, þá sjaldan hann birtist. Hvorugur kemst þó í hálfkvisti við Vigdísi Hauks, sem lifir í eilífu sísnappi.

Við sígum niður listann

Punktar

Ísland sígur hægt niður lista Sameinuðu þjóðanna um lífsgæði, Human Development Index. Er nú komið niður í 16. sæti, sígur um svona eitt sæti á ári. Lífsgæði eru þarna metin eftir ævilíkum, skólagöngu, landsframleiðslu og ýmsu fleiru. Noregur er í efsta sæti, svo að ekki er skrítið, að Íslendingar streymi þangað. Enn telst þó Ísland til hóps vesturevrópskra ríkja, er ekki enn dottið niður í hóp þróunarríkja. En það gerist auðvitað hratt, ef núverandi stjórnarfar heldur áfram lengi enn. Með skipulögðum árásum á heilsu og menntun. Við gætum á næsta ári fallið niður fyrir Suður-Kóreu og Ísrael. Og svo blasir við brekkan niður.

(HDI)

Undanhald fjölmenningar

Punktar

Fjölmenningasinnar í nágrannalöndunum hafa staðið fyrir þöggun um vanda tengdan sumum einstaklingum og hópum meðal múslima. Þöggun er hætt að virka. Fólk veit núna, að fjölmenning hefur galla. Gildir um þúsundir ofsatrúaðra og karlrembdra múslima. Leiddi til eflingar andstæðinga fjölmenningar víðs vegar um Evrópu. Fá nánast þriðjung alls fylgis og munu fara hærra. Mér sýnist fjölmenningarsinnar munu tapa þessu pólitíska stríði. Nema þeir noti reynsluna til að dempa sig og mæla með hófsamari fjölmenningu. Ekkert bendir til slíks. Ábendingum um aðeins hófsamari fjölmenningu er svarað með skapvonzkulegum upphrópunum um rasisma.

Ríkið er ódýrt

Punktar

Þunn eru svör Viðskiptaráðs við gagnrýni á órökstuddar fullyrðingar þess um of dýran rekstur íslenzka ríkisins á hvern íbúa. Svörin veita engar upplýsingar um samanburð á Íslandi og útlöndum. Ekki orð um slíkt. Gagnrýnin sýndi þvert á móti, að ríkisrekstur er ódýrari hér á hvern íbúa en í flestum löndum Vestur-Evrópu. Sú fullyrðing gagnrýnenda og meðfylgjandi heimildir standa því óbreytt sem góð og gild staðreynd. Ríkisrekstur er ódýr hér á landi. Málinu er lokið. Viðskiptaráð tapaði. Aðild ráðsins að umræðunni sýnir oftast eymd ráðsins sem ónothæfs álitsgjafa um hagfræði. Svar þess byrjar og endar með persónuskætingi.

(WIKIPEDIA)

Drottningin og vígamaðurinn

Punktar

Klassískt er í sögunni, að drottning sitji í hásæti í miðju ríki og vígamaður ólmist gegn óvinum á jaðri þess. Virðist líka vera farsælt hjá vinstri grænum. Fylgið er stöðugra en hjá sumum öðrum gamalflokkum. Katrín Jakobsdóttir situr á friðarstóli drottningar, vel metin af öllum, en varaformaðurinn á vígvellinum er blóðugur upp að öxlum. Björn Valur Gíslason sveik í kvótanum, en nær þó oft upp í efstu sæti á vinsældalista bloggsins. Eini pólitíkusinn, sem þangað nær, aðrir ná ekki máli. Slík verkaskipting gerði Frakkland að heimsveldi mataræðis. Drottning líður um veizlusal, en stríðsmaður hamast bullsveittur í eldhúsi.

Umhverfisböðlarnir

Punktar

Ísland hrundi á fimm árum í samræmdri umhverfisvísitölu YALE-háskóla. Árið 2010 var landið í efsta sæti, en er árið 2015 dottið niður í fjórtánda sæti. Enn erum við efst í hreinleika vatns, en komin niður í fimmtánda sæti í loftgæðum. Þegar kemur að gömlu atvinnuvegunum, er staðan svört. í regluverki um verndun vistkerfa og auðlindastjórnun erum við í 84. sæti í sjávarútvegi og 148. sæti í landbúnaði. Niðurstaðan er, að við njótum hreinustu náttúru í heimi, en förum með hana eins og naut í flagi. Við erum semsagt heimsins mestu umhverfisböðlar.  Þannig fer fyrir græðgisþjóð, sem elskar jarðýtur og hefur asklok fyrir himinn.

Miklir menn erum við

Punktar

Ásmundur Friðriksson þingmaður beitti þremur útgáfum af andstöðu sinni við hag umbjóðendanna í Þroskahjálp. Fyrst greiddi hann atkvæði gegn sömu afturvirkni til þeirra og annarra. Síðan sat hann hjá í annarri umferð. Loks læddist hann úr húsi og greiddi ekki atkvæði. Er svo sem ekki einn þingmanna um að vera breiðari í orði en á borði. Pétur heitinn Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason hafa iðkað sérvizku í orði og hlýtt Flokknum í atkvæðagreiðslum. Hjá Framsókn hefur Frosti Sigurjónsson iðkað sérvizku í orði og hlýtt á borði. „Við erum epli“ sögðu hrútaberin. Um þá alla gildir, að „miklir menn erum við, Hrólfur minn“.

Guðsþakkarverkið

Punktar

Hefðbundið er, að þeir, sem betur mega sín, níðast á þeim, sem minnst mega sín. Þannig hefur meirihluti alþingis verið að níðast á lítilmagnanum í allan vetur. Einnig er hefðbundið, að bófar mildist aðeins á aðventunni og fari að gæta að eigin sálarheill. Þá var og er til siðs að gera eitthvað viðvik fyrir einhvern aumingja. Það heitir guðsþakkarverk, er menn reyna þannig að bjarga sál sinni fyrir horn. Þeir afsaka illvirki sín gagnvart sjúkum, öldruðum og örkumluðum með því að gera lítið góðverk í restina. Í því ljósi er hægt að skilja góðverk á tveimur börnum, er alþingi varð einróma sammála um síðustu helgina fyrir jól.

Hálft fylgið hangir

Punktar

Þegar ég var ungur, taldi Framsókn sig vera miðjuflokk. Var almennt flokkaður þannig fram að formennsku Halldórs Ásgrímssonar. Kominn núna yzt á hægri jaðar undir formennsku Sigmundar Davíðs og í hugmyndamyrkri Vigdísar Hauks. Þegar ég var ungur taldi Sjálfstæðisflokkurinn sig spanna frá miðju yfir til hægri. Oft komu að sögu litlir flokkar hægra megin. Nú er Flokkurinn kominn yzt til hægri í stefnuna Græðgi Er Góð í hugmyndaheimi Hannesar Hólmsteins, spámanns Davíðs. Í hamskiptum flokkanna fylgdi hálft fylgið. Sauðir og úlfar röltu með bófunum. Ekki virðist Viðreisn skafa mikið af Flokknum. Helmingur af fylgi flokkanna tveggja hefur því þolað hamskiptin. Hefðbundna 60% fylgið verður því 30% næst.

Góðafólkið og vondafólkið

Punktar

Samkvæmt tali hægra fólks ríkir pólitískur rétttrúnaður til vinstri. Nýjasta útgáfa kenningarinnar talar um „góðafólkið“ í háðungarskyni. Líklega er hægra fólkið þá vondafólkið. Kjarninn í lífspeki Hannesar Hólmsteins er „Græðgi er góð“. Frægasta afleiðing þeirrar hugsunar er Brauðmolatrúin. Hún snýst um, að velmegun sáldrist frá hinum ríku yfir til hinna fátæku. Þannig birtist ofsinn í verkum núverandi ríkisstjórnar og þingmeirihluta hennar. Og nýtur stuðnings þriðjungs þjóðarinnar, sumpart vegna illmennsku og sumpart vegna heimsku fólks. Því munu völdin færast næst til „góðafólksins“ með „pólitískan rétttrúnað“.

Framsóknarveturinn

Punktar

Öfgahægrið á Íslandi er í Framsókn. Þar er nýtur heimskan jafnaðar við vizkuna. Á þingi vaða uppi verstu subbur hennar, sem kunna hvorki íslenzku né rökfestu. Vigdís Hauksdóttir er skrípamynd af Guðna Ágústssyni. Ekki vottar fyrir mennsku í Framsókn, liðið veður um eins og naut í flagi. Hatar allt, sem lyktar af samhug og umhverfi. Setur syfjað zombie í hlutverk velferðarráðherra. Hún er sviplaus með öllu, stynur mæðulega, skoðar mál og skiptar nefnd um gátlista. Ég hef svo ekki þrek til að ræða undarlegasta fyrirbæri stjórnmálasögunnar, stóra barnið við Lækjartorg. Merki bara við hvern dag, er líður fram að nýrri byrjun.

Þenslugrein með lúsarlaun

Punktar

Ófært er, að mesta þenslugreinin borgi starfsfólki lúsarlaun. Að ferðaþjónusta geti nýtt sér eymd verkalýðsfélaga. Að annars vegar sé kvartað yfir of miklu álagi á ferðastaði og hins vegar séu laun ósæmileg. Í fyrsta lagi þarf að auka menntun í matreiðslu, hússtjórn og móttöku. Í öðru lagi þarf ríkið að taka fram fyrir hendur aumingja verkalýðsfélaga og setja lágmarkslaun. Það er hið bezta mál, ef hærri tekjur leiða til vægari þenslu í greininni. Núverandi þensla er óhófleg fyrir of lélega aðstöðu á helztu ferðamannastöðum. Kapp er bezt með forsjá er það spakmæli, sem Íslendingar hafa átt einna erfiðast með að skilja.

Fylgislaus Viðreisn

Punktar

Evrópusinnaði Sjálfstæðisflokkurinn heitir Viðreisn, hugljúfu nafni, sem minnir á betri tíð Ólafs Björnssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar. Samt mælist flokkurinn ekki með neitt fylgi í skoðanakönnunum. Kannski hefur Benedikt Jóhannesson bannað mælingu Viðreisnar, meðan hann er ekki tilbúinn. En nú er bara hálft annað ár til kosninga, svo væntanlegir fylgismenn eru orðnir óþolinmóðir, séu þeir einhverjir. Gallup segir þá hörðu vera rúm 4%, einkum frá Samfylkingunni, síður frá Sjálfstæðisflokknum. Ekki er það glæsilegt. Allt þetta segir mér, að Evrópuaðild sé ekki innan sjónarsviðs kjósenda. Evrópa er því miður í lægð.

Rauðhálsar og jarðýtuvinir

Punktar

Útreikningar Ágústs Einarssonar prófessors sýna, að listir og menning eiga 5% landsframleiðslunnar. Í samanburði á sjávarútvegur 9% og stóriðja 1%. Að auki eiga listir og menning stóran þátt í byltingu ferðaþjónustu. Ætli Björk ein jafngildi ekki allri stóriðju á Íslandi. Segið svo að menning sé bara „eitthvað annað“. Aðeins rauðhálsar á borð við þingmennina Gunnar Braga og Jón Gunnarsson trúa því. Umhverfisvernd, menning og listir skila sjálf og í ferðaþjónustunni meiru í landsframleiðslu en öll stóriðja landsins og sjávarútvegur. Íhaldsmenn og aðrir rauðhálsar og jarðýtuvinir alþingis skilja hins vegar ekki nútímann.