Punktar

Heiðursvörður lögmanna

Punktar

Senn mun duglegur og einkar hæfur starfskraftur efla stétt lagatækna. Atli Helgason hefur fengið uppreista æru hjá forseta og sótt um endurheimt réttinda sem lögmaður. Aldrei hefur hann sýnt neina iðrun eftir morðið, sem hann framdi fyrir 16 árum. Sýnir, að hann er vel hæfur til að sinna íslenzkri lagatækni. Lögmannafélagið mun vafalaust mynda heiðursvörð við afhendingu skírteinis. Mikil eftirspurn er hér að siðblindu í sölum auðs og valda. Uppreist æra er hins vegar flóknara mál. Skrítið, að stofnun stýri æru manna, hlýtur frekar að ráðast af virðingu af hálfu almennings. En það er allt önnur og flóknari saga.

Velkomið flóttafólk

Punktar

Í dag er fyrsta flóttafólkið frá Sýrlandi boðið velkomið. Rétt hefur verið staðið að vali ágætra fjölskyldna, sem koma úr flóttamannabúðum við landamæri Sýrlands. Mun skynsamlegra er að fá slíkt fólk en karlkyns landhlaupara. svo sem dæmin sýna frá Þýzkalandi. Við vonum, að við getum fengið miklu fleira fjölskyldufólk til að auðga íslenzkt samfélag. Brýnt er að finna sem fyrst störf fyrir gestina. Störf eru miklu betri tæki til aðlögunar en fyrirlestrar, áfallahjálp, talkennsla og ríkisstyrkir, þótt slíkt sé líka nauðsynlegt. Með aðild að daglegu lífi heimafólks sjá gestir bezt, hvað er að vera Íslendingur.

Galin gjöf í spilum

Punktar

Stéttaskipting vex hratt um heim allan. Þeir allra ríkustu raka saman fé út á ranga spilagjöf. Miðstéttir síga og fátæklingar hrapa. Í tölum: 62 menn eiga eins mikinn auð og hálft mannkynið. 1% fólks á meira en hin 99% til samans (OxFam). Þetta er galið. Afleiðing af græðgistefnu síðustu áratuga, þjónkun ríkisins undir þá ríku, sem kosta framgang pólitískra bófa. Hér á landi hefur allur hagvöxtur í aldarfjórðung runnið til hinna gráðugu. Þetta er tímabilið, sem kennt hefur verið við Davíð Oddsson, tímabil brauðmolastefnunnar. Erlendis eru fjölþjóðastofnanir farnir að fatta þetta, OECD og IMF. Og nú síðast OxFam.

Tvöföldun týndist

Punktar

Tvöföldun á framleiðni Bandaríkjanna síðustu þrjá áratugi skilaði sér að engu leyti til almennings. Allur gróðinn fór á toppinn. Láglaunafólk býr við verri afkomu og því er sagt að halda kjafti, annars verði það rekið. Skakkt er gefið í markaðshagkerfinu. Hlýtur að enda í blóðugri byltingu. Sama sagan er hér á landi, sjáið ríkisstjórnina, sem skóflar undir auðgreifa og sparkar í fátæka. Verkalýðshreyfingin er lömuð, sjáið hvernig Rio Tinto hagar sér. Auðvitað er þetta fávísum kjósendum að kenna. Í næstu kosningum hafa þeir síðasta tækifæri til að varpa skrímslinu af herðum sér. Og skapa samfélag fyrir alla borgarana.

ÞRÓUNIN

Spillingin er dagljós

Punktar

Fáránlegasta fullyrðing nútímans er sú tilgáta Gunnars Helga Kristinssonar, að vandamál spillingar felist í að trúað sé, að hún sé til. Hann hunzar daglegar fréttir og álitsgjafir um tiltekin, áþreifanleg atriði. Taktu höfðið upp úr sandinum, líttu í blöðin, horfðu á Kastljós, lestu álitsgjafana. Alls staðar sést spillingin daglega. Vandamálið felst ekki í sendiboðunum og skilaboðum þeirra. Vandamál spillingar felst í sjálfri spillingunni. Gunnar Helgi magnar hana með „blaming the bearer of bad tidings“, með því að skjóta sendiboðann. Glórulaust bull í prófessor í stjórnmálafræði kann ekki góðri lukku að stýra.

Allan fisk á markað

Punktar

Þegar píratar og fleiri hafa knúið í gegn uppboð á veiðileigu eftir kosningar, þarf að gæta að nokkrum atriðum. Leyfa þarf frjálsar handfæraveiðar að vissu hámarki, kannski með lægri kröfu um auðlindarentu. Hindra þarf samráð greifa um tilboðsupphæðir í útboðum á togveiðileigu. Setja þarf lágmörk og endurtaka uppboð, ef tilboð reynast of lág. Þá með frjálsum aðgangi útgerða á evrópska efnahagssvæðinu til að brjóta innlendu bófana á bak aftur. Ef við fáum næga auðlindarentu, má okkur vera sama um, hver veiðir. Allur fiskur fer á frjálsan markað innanlands. Þannig hindrum við núverandi rentusvik með „hækkun í hafi“.

Heimur minn er 15 ára

Punktar

Wikipedia er ótrúleg bylting, sem á núna fimmtán ára afmæli. Í þessari stærstu alfræðibók heims eru 40 milljónir greina á 250 tungum, þar á meðal á íslenzku. Risabókin er að mestu leyti rétt, á svipuðu róli og hin gamalfræga Britannica. Nota Wikipedia mikið og hún hefur aldrei brugðizt mér. Sannfærður um, að hún hefur gerbreytt vefskrifum ótal notenda. Skrifuð af áhugafólki, er þiggur ekki greiðslur. Partur af nýjasta hagkerfi heimsins, skiptihagkerfinu, þar sem fólk vinnur hvert í þágu annars. Öfugt við deyjandi græðgis-hagkerfi vesturlanda með sínum stjórnlausu bankakreppum. Wikipedia er nýtt og æðra menningarstig.

Marklaus lofthernaður

Punktar

Bandaríkin segjast vera í rosalegum lofthernaði gegn ISIS í Sýrlandi og Írak. Frakkland segist vera það einnig. Rússland er komið í sama slag. Tyrkland er líka í þessari þykjustu. Allir birta myndir af sprengingum og rústum. Þetta er allt tóm lygi. ISIS er í stórsókn í Sýrlandi, þrátt fyrir þetta meinta stríð helztu hervelda heimsins. Enda eru það næstum bara almennir borgarar, sem líða fyrir loftárásir Bandaríkjanna, Frakklands, Rússlands og Tyrklands. ISIS fer samt sínu fram. Sýrland er nýjasta dæmið í langri röð ósigra Bandaríkjanna í lofthernaði gegn fátæku fólki í Asíu. Allt í þágu olíu og óðra hergagna-framleiðenda.

Frjáls handfæri

Punktar

Handfæraveiðar þurfa að verða frjálsar af ýmsum ástæðum. Lyfta sjávarplássum, sem fara halloka. Varðveita gamlan og flottan lífsstíl. Hlífa sjávarbotninum. Höggva minna í fiskistofna en kvótaveiðar gera. Að þær séu frjálsar þýðir samt ekki, að þær eigi að vera ókeypis og án takmarkana. Fela í sér álag á stofna eins og allar veiðar samanlagt. Enda mun frelsið fela í sér mikla aukningu sóknar. Því þarf að setja veiðunum takmörk og varðveita rétt ríkisins til að grípa í tauma við tilgreindar aðstæður. Auðlindagjald kvótaveiða þarf að gilda um handfæraveiðar, kannski með afslætti vegna tilgreindra aðstæðna. Markmið ríkisins er að fá fulla rentu af auðlindinni, af handfærum sem öðrum veiðum.

Með hendur í vösum

Punktar

Fólk verður hissa á, að stjórnarandstaðan taki þátt í viðleitni bófaflokkanna til að stinga undan stjórnarskrá fólksins. Nefnd flokkanna hefur lengi unnið í leyni að útfærslu nokkurra greina, er stinga í stúf við svæfðu stjórnarskrána. Stjórnarandstaðan á að nota aðildina að nefndinni til að leggja fram svæfðu stjórnarskrána sem tillögu og halda fast við hana. Annars verður hún sökuð um aðild að samsærinu. Það getur ekki verið hlutverk minnihluta að sitja á fundum með hendur í vösum meðan meirihlutinn vinnur og kemur með sínýjar tillögur um frávik frá svæfðu stjórnarskránni. Stjórnarandstaðan verður að taka frumkvæði.

Gnarr er útrunninn

Punktar

Jón Gnarr er útrunnin vara. Minna er óskað eftir leikara, sem getur póserað og leikið rullu og síðan gert framhaldsþætti af sér að leika sig. Gat póserað og leikið rullu borgarstjóra betur en pólitíkus. Gæti líklega póserað og leikið rullu forseta betur en pólitíkus. En tímarnir eru breyttir. Bezti flokkurinn fjaraði út í Bjartri framtíð. Í stað beztaflokks grínara eru komnir einbeittir píratar. Þeir geta fundið alvöru persónu á Bessastaði. Ekki pólitíkus, heldur alvöru persónu, sem yrði leikara þyngri viðfangs en aflóga borgarpólitíkusar. Gnarr skilur örlög og ákvað því að sinna áfram banksterum Jóns Ásgeirs á 365.

Klikkun og öfgatrú

Punktar

Hvað ræður gerðum meirihlutans í borginni? Ekki er það söfnun atkvæða. Svo sem þegar gamlingjar fá tveggja daga gamlan mat á elliheimilum. Stælir þar sadisma stjórnvalda. Hvað með minni þjónustu fyrir hærra verð á sorpi. Eða þegar hann fórnar fé og fyrirhöfn í að gleðja lóðabraskara í Vatnsmýri. Þar á ofan verri en ríkisstjórnin, er hann treður ljótustu húsum lóðabraskara á mest áberandi staði borgarinnar. Sumt er einfaldlega klikkun. Svo sem þegar hann kastar fé í að mjókka götur og torvelda bílaumferð út á öfgatrúarrit um lífsstíl. Getur meirihlutinn ekki líka fengið skráningu sem öfgatrú og grætt sóknargjöld?

Stóriðjan er ómagi

Punktar

Stóriðja notar 80% af íslenzkri orku og skilar samt bara tveimur milljörðum í auðlindarentu á ári til ríkisins. Stóriðjan hefur fáa í vinnu og borgar lágt verð fyrir orku. Hæst verð greiðir Rio Tinto í Straumsvík síðan 2010. Samt er það talsvert lægra en meðalverð orku til álvera í Bandaríkjunum. Verðið er nálægt meðalverði til álvera í Afríku. Mun lægra er orkuverðið til Norðuráls og Fjarðaráls. Að öllu samanlögðu er orkuverð til álvera lægst í heiminum hér á landi. Eftir áratuga reynslu af samskiptum við stóriðju er staðan eins og á botni þriðja heimsins. Það er líklega athyglisverðasta heimsmet Íslands.

Forgangur og afgangur

Punktar

Nóg fé er til að afnema biðlista í heilsufari. Fénu hefur verið komið í klær kvótagreifa og álgreifa. Nóg fé er til að gera Landspítalann að norrænum hátæknispítala. Fénu hefur verið komið í klær kvótagreifa og álgreifa. Nóg fé er til að veita öldruðum og öryrkjum mannsæmandi líf. Fénu hefur verið komið í klær kvótagreifa og álgreifa. Nóg fé er til að reka hjúkrunarheimili. Fénu hefur verið komið í klær kvótagreifa og álgreifa. Nóg fé er til að reka leikskóla fyrir eins árs börn. Fénu hefur verið komið í klær kvótagreifa og álgreifa. Pólitískir bófar hafa greifana í forgangi og velferðina í afgangi.

Einbeitt siðblinda

Punktar

Biðlistar eftir aðgerðum halda áfram að lengjast. Alls bíða 5.987 manns eftir læknisaðgerðum af einhverju tagi. Árásir pólitísku bófaflokkanna valda fólki varanlegum skaða og stytta ævi fólks. Samt segja yfirbófarnir heilsumálin vera í dúndrandi uppsveiflu. Segja líka, að aldraðir og öryrkjar hafi það rosalega gott. Samt er varla hægt að borga laun á hjúkrunarheimilum vegna vangreiðslna ríkisins. Allir þættir velferðar stefna að þriðja heims ástandi. Bófarnir láta um leið ríkið kosta flennistórar auglýsingar í málgögnum sínum um ævintýralega upprisu Íslands. Siðblinda Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben er skýr og einbeitt.