Punktar

Gráta sig í svefn

Punktar

Hótel Adam á Skólavörðustíg er eitt þriggja hótela, sem árum saman eru neðst á gæðalista TripAdvisor. Hin eru Tunguvegur og Travel Inn. Harmur gesta þessara gistihúsa væri gott efni í íslenzkan framhaldsþátt að hætti Fawlty Towers. Adam jók frægð sína á að hafa svo vont vatn í krönum, að það ráðleggur gestum frekar að kaupa átappað vatn hússins á 400 krónur flöskuna. Það kallast að þurrvinda gesti. Ég hef áður lagt til, að hótelsamtökin hlutist til um lokun þessara þriggja gistihúsa. Að þeim frátöldum fer almennt gott orð af íslenzkum hótelum. Við þurfum að losna við þau sárafáu hótel, þar sem gestir gráta sig í svefn.

Lífeyrisskrímslið

Punktar

Það kann ekki góðri lukku að stýra, að klúbbar atvinnu- og verkalýðsrekenda stjórni fjárfestingarfé landsins. Lífeyrissjóðir eru orðnir skrímsli, sem gætir hvorki hagsmuna launafólks né eftirlaunafólks. Við sjáum í eigu lífeyrissjóða fyrirtæki, sem beinlínis níðast á starfsfólki sínu. Við sjáum, hvernig lífeyrir hefur hrunið að verðgildi vegna brask-fjárfestinga. Við sjáum til dæmis í eigu lífeyrissjóða risaskip, sem hefur enga borpalla til að þjónusta á Drekasvæðinu. Klúbbarnir, sem reka lífeyrissjóði, eru í ósæmilegu fjárhættuspili. Bezt væri að þjóðnýta sjóðina og reka þá sem sjálfstæðar deildir undir einni fagstjórn.

Samfylkingin er dauð

Punktar

Kannanir sýna, að langflestir Íslendingar eru sósíaldemókratar. Vilja að ríkið reki sjálft heilsu og velferð, en útvisti því ekki til einkarekstrar. Samt vill fólk ekki kjósa Samfylkinguna. Sennilega sér fólk ekki umtalsverð tengsl þar á milli. Enda var Samfylkingin í stjórn fyrir hrun og eftir hrun. Framkvæmdi fátt af áhugamálum sósíaldemókrata. Tók þátt í að rífa sundur eftirlit með bönkum og endurreisa síðan bankana í þeirra fyrri mynd. Árni Páll Árnason formaður kom að öllu þessu. Ég kallaði hann þá „bankavininn bezta“. Hann er hluti vandans. Þar á ofan er Samfylkingin búin að tapa skilningi og áhuga á vanda smælingjanna.

Eitrið fer vel í maga

Punktar

Enn er hafinn áróður hagsmunaaðila gegn innflutningi búvöru. Birt eru skelfileg línurit um eitrið, sem framleitt sé sem búvara í Evrópu. Hvergi er minnst á þá þverstæðu, að íbúum Evrópu líður betur en Íslendingum. Ekkert er minnst á, að íbúar í Evrópu eru smám saman að verða langlífari en Íslendingar. Furðulegt er, að menn telji vænlegt, í ljósi augljósra staðreynda, að fara með firrta lygi. En þannig hefur Ísland alltaf verið, leikvöllur hinnar fullkomnu firringar. Enn er reynt að magna greiðslur skattgreiðenda til landbúnaðar. Styrkir eru komnir í 14 milljarða á ári, innflutningshömlur í 10 milljarða. Dýrt er að vera bjáni.

Þungamiðja lífsins

Punktar

Þótt sagt sé, að Blesugróf sé þungamiðja bæjarsvæðisins, kem ég sjaldan þangað. Raunar að mestu laus við að þurfa að fara austur fyrir Snorrabraut. Nema til að fara upp í sveit, þar sem hestarnir eru, það er í Víðidal. Raunar hef ég komið þrisvar á ári í Mjódd, þar sem hjartalæknirinn minn er, enda talar hann aðeins um hestaferðir. Aldrei hef ég komið í Smáralind, enda mundi ég ekki rata þaðan aftur. Allt svæðið austan Hringbrautar er í mínum huga bara svefnherbergi. Allt lífið sjálft er vestan Hringbrautar, næturklúbbar, veitingahús, sjúkrahúsið, flugvöllurinn, háskólar, ráðuneyti, Kaffifélagið. Það er og verður bara þannig.

Hægri sinnuð frjálshyggja

Punktar

Hættuleg er sú tegund efnahagslegrar frjálshyggju, sem kemur frá hægri sinnuðum „Libertarianism“ í Bandaríkjunum. Leggur áherzlu á heilagan eignarétt, frelsi fjármagns og afskiptaleysi ríkisins. Hefur haft áhrif í fjölþjóðastofnunum. Er hugmyndafræðilegur grunnur TISA, TTIP og TTP viðræðna um frelsi stórfyrirtækja frá þjóðríkjum. Fjölþjóðastofnanir eru almennt að hverfa frá þessu. Taka meira tillit til frelsis fólks, velferðar, starfsmannaréttar og umhverfisréttar. Við þekkjum þann anga, sem fólst í afskiptaleysi ríkisins af bankablöðrunni fyrir hrunið mikla. Og í núverandi afskiptaleysi Bankasýslunnar af nýjum glæpum nýrra banka. Við sjáum annan anga í hugmynd pírata um, að stórir skattgreiðendur geti parkerað sköttum sínum í tilgreindan ríkisrekstur og ekki annan. Friedrich Hayek er helzti páfi þessa „Libertarianism“.

Engin minnihlutastjórn

Punktar

Hef enga trú á, að stjórnarandstaðan muni styðja minnihlutastjórn Framsóknar, ef hún stekkur úr helförinni. Ríkisstjórnarflokkarnir eru rúnir fylgi og geta ekki farið neðar. Fyrir alla andstæðinga hennar er betra, að kosið verði fyrr en síðar. Óðs manns æði væri að gefa Framsókn tíma til að slá sér upp með nýjum sjónhverfingum. Þau verða næst um húsnæði unga fólksins, um fimm milljón króna gáma í þúsundatali. Betra er, að kosið verði fljótlega eftir stjórnarslitin. Svo Framsókn geti ekki galdrað sig frá helstefnu núverandi ríkisstjórnar. Það er raunar furðulegt, að hálf þjóðin sé ekki komin á Austurvöll að berja potta.

„Skítur gerist“

Punktar

Leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa upplýst, að 6000 ISIS-liðar hafi fallið í 10.000 loftárásum hinna viljugu þjóða. Það er hálfur ISIS-liði á hverja árás. Ekki er upplýst, að tíu óbreyttir borgarar hafi verið myrtir í hverri árás. Það hefur því kostað 60.000 óbreytt mannslíf að kála 6.000 ISIS-liðum. Þetta kalla Bandaríkjamenn „collateral damage“ eða „shit happens“. Fólk er einfaldlega svo óheppið að vera á vitlausum stað á vitlausum tíma. Er ekki kominn tími til að slíta hernaðarsamvinnu við geðsjúklingana í Washington. Og koma hér heima lögum yfir þá, sem komu Íslandi að öllum forspurðum í ógeðshóp „hinna viljugu þjóða“?

Fólk eða peningavald

Punktar

Uppkast pírata að efnahagsstefnu birtir slagorð: „Frelsi einstaklinga“, „Frjáls samkeppni“ og „Einstaklingar eiga að geta ákveðið hvert hluti af skattfé, sem þeir greiða, rennur.“ Kunnugleg hægri slagsíða: Peningavald æðra fólki. Þegar ég hugsa um frelsi, sé ég fyrir mér frelsi hins smáa frá oki hins sterka. Sem í dag eru fyrirtæki fremur en ríkisvald. Frelsi til mannsæmandi lífs, þrátt fyrir aðvífandi skell; örorku, sjúkdóma, tjón. Frelsi til að læra það, sem hugur minn girnist, án tillits til fjárhags. Frelsi peningavalds í afgang, ekki í forgang. Því lízt mér illa á drögin. Betra væri: Frelsi fólks umfram frelsi peningavalds.

Neituðu að sjá

Punktar

Net hjúkrunarheimila og elliheimila er að bresta. Einkaaðilar á borð við Grund breyta rekstri elliheimila yfir í gistingu ferðamanna. Sjúkrahótelið í Ármúla kastar út sjúklingum á álagstíma ferðaþjónustu. Biðlistar eftir plássi lengjast eins og allir biðlistar í heilsu- og velferðargeiranum. Ein af skuggahliðunum á útvistun hjúkrunarheimila til einkaaðila. Gróðakrafa einkarekstrar er á skjön við hagsmuni þjóðarinnar. Svipað kom í ljós í Svíþjóð, þar sem heilsugæzla var einkavædd. Einkaaðilar veita einfaldlega verri þjónustu en ríkið fyrir meira fé. Þetta áttu menn allt að vita frá reynslu Bandaríkjanna. En neituðu að sjá.

Pilsfaldur andverðleika

Punktar

Heimsins versta hagkerfi er íslenzki pilsfaldakapítalisminn. Hér græða menn ekki á snilli, heldur á sambandi græðgiskarla við ríkið. Nánast allur auður er orðinn til í þjófnaði græðgiskarla með hjálp eftirlitsleysis ríkisins. Æðstu embættismenn eru flestir valdir með hliðsjón af andverðleikum. Kemur bezt fram í eftirlitsstofnunum ríkisins, sem oftast er stjórnað af aðgerðaleysi. Samspil andverðleika og græðgi er grunnmúrað og breytist ekki við stjórnarskipti. Rót vandans er íslenzkt samfélag andverðleika, er hrekur hæfni og snilli úr landi. Útkoman er pilsfaldakapítalismi, er blómstrar þessa dagana sem aldrei fyrr.

Ritarinn í stóru málunum

Punktar

Nýr ritari Sjálfstæðisflokksins er ekki sáttur við stöðu flokksins. Lætur meira að sér kveða en slíkir hafa áður gert. Vill að hann beiti sér öðruvísi en áður, verði frjálslyndari. Fyrir kosningu varð Áslaug Arna þekkt fyrir að vilja létta fólki að fá sér hvítvín með humrinum. Undanfarið hefur hún nefnt önnur stórmál, sem höfði betur til unga fólksins. Vill lækka eða afnema toll á kartöfluflögum. Hætt verði ríkisafskiptum af nöfnum fólks. Einnig hömlum á bardagaíþróttum. Hætt að tolla vörur, sem fólk kemur með frá útlöndum eða pantar þaðan. Nefndi hins vegar ekki, að gott væri að klukkan gerði fólki kleift að sofa betur út.

Reynsla eða ritning

Punktar

Frjálshyggja hefur víða verið reynd, einkum í Bandaríkjunum. Tekur oftast á sig mynd haturs á ríki og sköttum. Í því skjóli er jagast á ríkiskerfi heilsu og velferðar og reynt að koma óorði á það. Svo sem hér á landi. Hefur ekki tekizt. Þorri þjóðarinnar hafnar einkarekinni heilsu og velferð. Vill mannlegt samfélag að norrænni og norðurevrópskri fyrirmynd. Talsmenn frjálshyggju vilja ekki tala um neina reynslu, bara um heilaga ritningu. Segja Bandaríkin eða Flokkinn ekki nota Sanna Frjálshyggju. Flýja inn í útópíu kirkjufeðra, einkum í rit Hayek eða Rand. Þægilegra er að þylja möntrur en að ræða fjölbreytta reynslu þjóðanna.

Pandóruboxið opnað

Punktar

Þegar Björn Valur Gíslason hrósar pírötum fyrir að draga í land í stjórnarskrá, er hætta á ferðum. Björn var einn höfuðpauranna í samsærinu gegn stjórnarskrá fólksins í lok síðasta kjörtímabils. Þá var lætt inn nýtingarrétti kvótagreifa í fjölda ára. Nú verður aftur reynt að díla niður stjórnarskrá fólksins kringum kosningarnar. Vinstri grænir og Samfylkingin fallast ekki fyrirfram á óbreytta stjórnarskrá fólksins. Ekki þarf að spyrja að viðhorfum bófaflokkanna tveggja. Sjálfstæðismenn segja vænlegt að horfa til samstarfs við pírata í öðrum málum. Píratar hafa opnað sjálft Pandóruboxið, sem hleypir út illskunni og græðginni.

Þúsundáraríki á krossgötum

Punktar

Þúsundáraríki vesturlanda er komið að krossgötum og hugsanlega að leiðarenda. Samfelldur friður í Evrópu og Ameríku er rofinn, sumpart að innan og sumpart að utan. Þrennt stendur upp úr. 1. Að mestu hafnar Austur-Evrópa gildum Vestur-Evrópu og magnar stjórnarfar þjóðrembu. 2. Heimsfyrirtæki valta yfir þjóðríki, samanber TISA, TTIP og TPP, og rupla almenning inn að skinni. 3. Landhlaup múslima um Evrópu setur allt á hvolf og framkallar sigurgöngu þjóðrembinga. Vesturlönd skortir innri þrótt til að mæta þrefaldri ögrun. Of veikgeðja til að verja þúsundáraríkið, rótgróinn arf endurreisnar, þekkingar og mannréttinda.