Punktar

Boðorðin tíu

Punktar

Boðorðin tíu úr rökfræði til bloggara og fésbókara:

1. Ekki hafna skoðun af að þú teljir viðkomandi hafa haft rangt fyrir sér í öðru máli. (Ad hominem)
2. Ekki ýkja skoðun andmælanda þíns og búa þannig til strámann til að finna höggstað á honum. (Straw Man Fallacy)
3. Ekki nota fáar tölur sem dæmi um stóra heild. (Hasty Generalization)
4. Ekki gefa þér, að ein af forsendum þínum sé sjálfgefin. (Begging the Question)
5. Ekki gera ráð fyrir, að tímaröð feli í sér orsakaröð. (Post Hoc/False Cause)
6. Ekki gera ráð fyrir, að bara tvær andstæður komi til greina og engin millileið. (False Dichotomy)
7. Ekki gera ráð fyrir, að eitthvað standist, þegar á því eru sáralitlir möguleikar. (Ad Ignorantiam)
8. Ekki flytja sönnunarbyrðina af þér yfir á andmælandann. (Burden of Proof Reversal)
9. Ekki gera ráð fyrir tiltekinni orsakaröð í meintu orsakasamhengi. (Non Sequitur)
10.Ekki gera ráð fyrir, að vinsælar skoðanir séu endilega réttar. (Bandwagon Fallacy)

Ég beini þessu ekki að neinum sérstökum. Við höfum öll gott af að rifja upp boðorðin.

Sussað á skoðanakúgun

Punktar

Hæstiréttur hefur staðfest, að opinber starfsmaður megi tjá skoðanir sínar á opinberum vettvangi. Atvinnurekandinn getur ekki rekið hann úr starfi fyrir að tjá sérstæðar skoðanir. Akureyri mátti ekki reka Snorra í Betel fyrir að hafa lýst andstöðu við samkynhneigð. Hann gerði það utan veggja skólans. Hann hefur málfrelsi. Minnir á, að skoðanastjóri Reykjavíkur lagði kennara í heilaþvott fyrir tjáningu óvinsælla skoðana. Ég hef ekki tekið eftir, að borgin hafi áminnt hana um skoðanakúgun. Félagslegur rétttrúnaður er fyrir löngu kominn út yfir allan þjófabálk hjá krötum. Gott var að Hæstiréttur sló á þessa vitleysu.

Píratar farnir að bila

Punktar

Ásta Guðrún Helgadóttir: „Við erum aldrei að fara að koma stjórnarskrá gegnum þingið nema með þverpólitískum stuðningi allra flokka.“ „Stjórnarskrábreytingum hefur alltaf verið komið í gegnum þingið með þverpólitískum stuðningi. Það er ákveðið prinsipp mál og að mínu mati kurteisi.“ Þingmaður pírata fer gegn því, að næstu kosningar snúist um að ná fram stjórnarskrá fólksins. Í stað sáttar við þjóðina vill hún sátt við pólitísk rándýr á alþingi. Reynslan segir, að breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar með tveimur þriðju gegn einum þriðja. Ekki er unnt að taka tillit til flokka, sem eru beint í þjónustu hagsmunaaðila.

Hvar er okkar Bernie?

Punktar

Íslendinga vantar sinn Bernie Sanders. Árni Páll er enginn Bernie og Katrín Jak er enginn Bernie. Hér er enginn sterkur umbi smælingjanna gegn yfirgangi hinna ríku. Þeir komast upp með að hirða alla aukningu þjóðartekna. Auðlindarentan rennur nánast öll til hinna fáu, sem telja sig eiga land og þjóð. Píratar einir hugsa út fyrir gamla rammann og reikna út borgaralaun. Heilsukerfi okkar er rjúkandi rúst, frá heilsugæzlu yfir í hátækni. Skólarnir líka farnir að grotna. Allt um kring sveima hræfuglar einkaframtaksins. Sannleikurinn blómstrar í miðlum fólksins, en fær enga forustu. Engan sem gæti sogað fólk á Austurvöll.

Svo einfalt er það

Punktar

Samkvæmt skattaframtölum eru kynslóðaskipti við 40 ára aldur. Algengast er þar fyrir ofan, að fólk hafi það sæmilegt. En algengast er þar fyrir neðan, að fólk hafi það skítt. Unga fólkið hefur ekki efni á séreignastefnu, sem gerði eldra fólkinu kleift að eignast húsnæði. Og leigumarkaður er sprunginn í loft upp á Reykjavíkursvæðinu. Unga fólkið á þann kost skástan að flýja til Noregs. Svo einfalt er það. Tilraunir til að klastra í húsnæðismálin munu mistakast. Málið er, að lífskjör hafa bilað. Í aldarfjórðung hafa auðgreifar hirt ALLA aukningu landsframleiðslu. Með réttlátri skiptingu tekna væri hins vegar nóg fyrir alla.

Hatrið á ríkinu

Punktar

Margt frjálshyggjufólk hatar ríkið og þvinganir þess. Samt hafa öll samfélög í sögunni haft strúktúr og þvinganir. Ríkið er hvorki gott né vont í eðli sínu, bara staðreynd. Í raun nota auðmenn ríkið til að skara eld að eigin köku. Það er vandinn í Bandaríkjunum og á Íslandi. Sú frjálshyggja leiðir ætíð til tjóns. Frjáls markaður regúlerar sig ekki sjálfur. Þarfnast regluverks og eftirlits, svonefnds eftirlitsiðnaðar. Hrunið varð hér vegna skipulegs eftirlitsleysis. Einkageirinn fer ætíð út fyrir allt velsæmi. Skrítið er að sjá valdshyggjufólk veifa þvingandi helgiritum, jafnvel „grunnstefnu“ pírata, til að lofa „frelsi“.

Árni Páll játar allt

Punktar

Árni Páll hefur lítillega lagað stöðu sína sem formaður Samfylkingarinnar. Í bréfi til flokksmanna játar hann mistök forustunnar síðustu árin. Flokkurinn hafi metið rangt stöðuna í IceSave. Misst samband við verkafólk. Farið of geyst í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Látið undir höfuð leggjast að standa með almenningi gegn fjármálakerfinu. Gefizt upp fyrir sérhagsmunum á kröfunni um breytta fiskveiðistjórnin. Gefizt upp á að knýja fram nýju stjórnarskrána. Það er langt syndaregistur og kom rosalega seint, en kom þó. Bréfið gefur flokknum færi á að hætta að hætta að róa fram í gráðið og muldra úr dauðs manns gröf.

Hjartahrein siðblinda

Punktar

Gunnar Bragi Sveinsson hefur ráðið sér ungan kosningastjóra úr flokknum til að stjórna baráttunni fyrir endurkjöri í kosningunum. Gerir það á kostnað ríkisins eins og sannra framsóknarmanna er siður. Gauti Geirsson kosningastjóri hefur ekkert vit á utanríkismálum, enda mun hann ekki sinna þeim í ráðuneytinu. Hefur einu sinni komið til útlandsins. Sér auðvitað ekkert athugavert, enda borinn og barnfæddur framsóknarmaður. Fær tvöfalt kaup listamanna fyrir hálfa vinnu, sem hvorugum finnst neitt óeðlilegt, enda brýnt að verja ráðherrann eftir ár. Vita, að menn eiga ekki endilega að gjalda fyrir að vera framsóknarmenn. Seiseinei.

Svona gerir maður ekki

Punktar

Þessi fjögur orð urðu fræg, er Davíð Oddsson setti ofan í við Friðrik Sófusson. Sá hafði reynt að níðast á blaðburðarbörnum út af einhverri reglugerð. Nú er það Dagur B. Eggertsson, sem setur ofan í við Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur skólastjóra. Hún hafði neitað barni um að fá að kaupa pizzusneið á 500 krónur út á, að barnið þyrfti að vera í föstu fæði. Ýmis slík tilvik hafa komið upp í millitíðinni. Stundum vantar eitthvað í hausinn á valdafólki. Það kemur sér í þá stöðu að standa eins og fífl fyrir ósiðlega framgöngu. Skilur ekki takmörk reglugerða, þegar kemur að helztu grundvallaratriðum í mannlegum samskiptum.

Ofbeldishneigð helgirit

Punktar

Í Independent er sagt frá innihaldsrannsókn þriggja gerða heilagrar ritningar, Gamla og Nýja testamentinu og Kóraninum. Í ljós kom, að Gamla testamentið var áberandi ofbeldishneigðast þeirra og Nýja testamentið örlítið ofbeldishneigðara en Kóraninn. Mælt var í tíðni orða um ofbeldi og eyðileggingu. Svo virðist sem engin hinna heilögu ritninga sé tiltakanlega uppbyggileg, siðferðislega séð. Kristni hefur að vísu þolað að slípast í veraldarhyggju nútímans. Hefur siðast í átt frá fyrri öldum. Íslam hefur aftur á móti á síðustu áratugum flúið til baka í átt til miðalda. Á því erfitt með að lagast að veraldlegum nútíma.

Ábyrgð á stjórnarskrárleysi

Punktar

Í lok síðasta kjörtímabils skrapp allur vindur úr stuðningi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við nýju stjórnarskrána. Í ljós kom, að meirihlutann skorti innan raða stjórnarflokkanna. Þeir reyndu málamiðlun með stjórnarandstöðunni, sem auðvitað tókst ekki. Málið féll á tíma og stjórnin mátti sæta vantrausts-tillögu Hreyfingarinnar. Aldrei var upplýst, hvaða þingmenn vildu svíkja lit. Það hefði þurft að komast upp á yfirborðið. Svik Samfylkingarinnar og Vinstri grænna fólust í að knýja ekki fram atkvæðagreiðslu, sem hefði staðsett ábyrgð tilgreindra þingmanna. Ábyrgðin situr því enn á herðum valdaflokka þess tíma.

Þeir elska fáfræðina

Punktar

Við þurfum ítrekað að láta menn í Bruxelles segja okkur, hver sé samningastaða umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Hér heima fáum við eingöngu véfréttir. Við þurfum að lesa í Stars & Stripes um viðræður um hugsanlega komu bandarísks hers. Hér heima hefur bara ríkt þögnin alger. Við þurfum að lesa í Wikileaks um landráð utanríkisráðuneytisins í málum TISA. Ef við hefðum orðið að treysta á innlendar fréttir, vissum við ekki, að TISA væri til. Ítrekað rekum við okkur á, að pólitíkusar og kontóristar telja brýnast af öllu, að skríllinn hér frétti ekki neitt af neinu. Engin furða þótt fólk trúi ekki einu orði frá valdafólki.

Höfnum stríðsmönnum

Punktar

Bandaríski herinn undirbýr endurkomu til Íslands. Hefur sótt um fjármagn til að lagfæra flugskýli á Keflavíkurvelli fyrir komu Poseidon kafbátaleitarvéla. Einnig eiga bandarísk yfirvöld í leyniviðræðum við Ísland um aukna og kannski varanlega viðveru bandarískra hermanna. Fráleitt mál. Við erum búin að ná tökum á fyrra atvinnuleysi í kjölfar brottfarar hersins á Keflavíkurvelli. Við höfum ekki mannskap í endurnýjaða þjónustu. Getum heldur ekki tekið á okkur óbeinan stuðning við stríðsæði Bandaríkjanna utan Evrópu og utan verkahrings Nató. Né heldur við stríðsrembu gegn Rússlandi, því járntjaldið er fyrir löngu fallið.

Aumingjavæddir bankar

Punktar

Nánari upplýsingar hafa smám saman leitt Borgunarmálið í ljós. Annað hvort eru ráðamenn Landsbankans fífl eða bófar, nema hvort tveggja sé. Þar verða hausar að fjúka, bankastjórinn, lögfræðideildin og aðrir, sem að málinu komu. Bjarni Benediktsson getur ekki lengur haldið verndarhendi yfir gerningi í þágu Engeyinga. Mál þetta er enn ein staðfesting þess, að enn er allt við það sama í bönkunum og fyrir hrun. Hrokafullir undirmálsmenn telja sig geta komizt upp með allan andskotann. Þannig er ástandið í öllum bönkunum. Rekstur þeirra byggist á siðblindu. Hreinsa þarf út þetta aumingjalið í eitt skipti fyrir öll.

Þöggun hefnir sín

Punktar

Í bardagamálinu við Skeifuna kom í ljós, að íslenzk lögregla beitir sams konar þöggun og fræg er orðin í Svíþjóð og Þýzkalandi. Og að fjölmiðlar sætta sig að mestu leyti við þöggunina, eins og fjölmiðlar í Svíþjóð og Þýzkalandi. Þöggunin virkaði árum saman í Svíþjóð og Þýzkalandi, en er sprungin í loft upp. Einkum vegna kærumála þúsund kvenna út af massífu áreiti í Köln og víðar í Þýzkalandi. Snögglega kom í ljós, að árum saman hefur verið þagað um ofbeldi flóttamanna og hælisleitenda. Lögregla og fjölmiðlar hafa rýrt traust sitt. Færri trúa þeim en áður. Og það skar í augu, þegar þagað var um gerendur. Eins og núna gerist hér.