Punktar

Einkavæðing úr hófi

Punktar

Sátt um heilbrigðiskerfið fór að bila á síðasta áratug síðustu aldar. Vikið var frá norrænni velferð með greiðsluaðild í lyfjum og einkastofum sérfræðinga. Var talið mundu efla „kostnaðarvitund“ sjúklinga. Smám saman var aðild aukin, unz fólk neitaði sér um lyf og þjónustu. Eftir hrunið varð kostnaðaraðildin þungbær vegna aukinnar fátæktar. Einnig var þrýst á einkavæðingu. Græðgi jókst, svo sem frægt varð í sjúkrahóteli Albaníu-Ásdísar. Heilar heilsugæzlur voru einkavæddar með misjöfnum árangri. Einkavæða á nýtt sjúkrahótel Landsspítalans. Nú er reynt að kyrkja Landspítalann og bráðadeildir og framleiða þannig biðlista til að rýma fyrir einkarekstri. Kröfur magnast því um endurreisn norrænnar velferðar. 80.000 manns krefjast þess. Ríkisstjórnin er dauðadæmd.

Sýna þjóðinni fingurinn

Punktar

Tillaga stjórnarskrárnefndar á að vera sátt. Ekki sátt þjóðar við sjálfa sig eins og tillaga stjórnlagaráðs. Þetta nýja plagg á að vera sátt milli þjóðar annars vegar og auðbófa hins vegar. Kvótagreifa og orkugreifa, sem telja sig eiga landið. Vikið er frá skýrum orðum stjórnlagaráðs yfir í moð, sem lagatæknar munu teygja og toga bófum í vil.
1. Í stað „fulls“ gjalds fyrir nýtingu auðlinda kemur „eðlilegt“ (!) gjald.
2. Þröskuldur í þjóðaratkvæði er hækkaður um helming, úr 10% í 15%.
3. Í stað orðalags Ríó-sáttamálans um „sjálfbæra þróun“ við „nýtingu auðlinda“ með „almannahag að leiðarljósi“ er komið „að gengið sé um náttúruna á sjálfbæran hátt.“
Þessi tillaga er hreinasta ógeð. Henni er ætlað að draga úr fylgi við alvörubreytingar, sem legið hafa í skúffu allt kjörtímabilið. Bófarnir sýna þjóðinni fingurinn.

Gestapó að næturlagi

Punktar

Einkennilegt er að hafa hælisleitendur í óvissu árum saman. Þeir festa rætur, eru komnir í vinnu og þannig orðnir góðir borgarar. Þá þylur Gestapó: Tölvan segir nei. Sendir löggur að næturlagi eins og í bíómynd til að handsama fólkið og sturta því upp í flugvél. Vel getur verið, að svona sé prógrammið í tölvu Kristínar Völundardóttur gestapó-foringja. En svona gerir maður bara ekki. Það hlýtur að vera hægt að afgreiða málin, áður en þeir eru orðnir Íslendingar. Að vísu er Útlendingastofnun full af lögfræðilærðum íhaldskerlingum, sem aldrei gera handtak. Krafan er: Vísum Útlendingastofnun úr landi. Að næturlagi.

Skítur og kanill

Punktar

Niðurstaða stjórnlaganefndar alþingis snýst um skít og kanil, eins og við var búist. Þjóðaratkvæðagreiðslur erfiðari en í frumvarpi stjórnlagaráðs. Eðlilegt gjald í stað fulls gjalds fyrir nýtingu auðlinda. Alls eru það bara þrír liðir af heilli stjórnarskrá. Þeim er ætlað að draga úr fylgi við alvörubreytingar, sem legið hafa í skúffu allt kjörtímabilið. Athyglisvert er, að fulltrúi pírata samþykkir tillögurnar. Sameinaða árás á allt ferli þjóðfundar, stjórnlagaráðs, þjóðaratkvæðagreiðslu og yfirferðar alþingis á síðasta tímabili. Raunar höfðu tveir af þremur þingmönnum pírata þegar opnað á aðild að samsæri bófaflokkanna.

Banksterar á útopnuðu

Punktar

Bankarán bankstera ganga fram af öllum, sem ég hitti. Sama taumleysið og var í aðdraganda hrunsins. Ráðamenn ALMC, áður Straumur-Burðarás, afhenda sjálfum sér hundrað milljónir króna á mann í bónus. Svo virðist, sem það sé á kostnað stöðugleikaframlags til ríkissjóðs. Þessi sjálfsgjöf er þá beinlínis á kostnað okkar allra. Áfram heldur leðjuslagur Landsbankans og Borgunar. Þar segist bankinn hafður að fífli og Borgun hlær upp í opið geðið á allri þjóðinni. Allir veina, jafnvel stjórnarþingmenn. En Bjarni Ben gerir auðvitað ekki neitt gegn svínaríi og Sigmundur Davíð hefur ekki gripsvit. Banksterar ganga enn lausir.

Tveggja ára þing

Punktar

Mér er til efs, að rétt sé að hafa næsta kjörtímabil til eins árs, þótt píratar sigri í kosningunum. Fólk vill afgreiðslu á fleiru en stjórnarskrá og framhaldi viðræðna við Evrópusambandið. Afgreiða þarf fjárlög, það tekur tíma. Setja þarf þar inn fyrri auðlindarentu, auðlegðarskatt, tryggingagjald og fullan ferðavask. Ógilda þarf ólöglegan búvörusamning og trixið gegn Rammaáætlun. Píratar þurfa að sýna fram á, að þeir bretti upp ermar. Geti til dæmis endurreist heilsumál með áðurnefndum tekjum. Þing þarf þá að standa tvö ár í stað eins, að inniföldu heilu fjárlagaári. Slíkt skiptir máli, þegar hæfni stjórnarinnar verður metin.

Keyptu miða – keyptu heilsu

Punktar

Ljóst er, hvað þjóðin telur vera rétt. 75.000 manns mótmæla fjársvelti heilsu. Á sama tíma segir Kögunarbarnið þjóðina eiga að gleðjast yfir þeim viðsnúningi sem orðið hafi í heilbrigðiskerfinu. Lengra er ekki hægt að komast í firringu, þótt forsætis hafi löngum verið úti á túni. Fólk veit um biðraðir og biðlista, veit um ofurálag á starfsfólk sjúkrahúsa, veit um markvisst fjársvelti. Raunar veit Happdrætti háskólans um hrun heilsukerfisins. Auglýsir happdrættismiða sem lausn á heilsuvanda fólks. Vinnir þú í happdrættinu, heldurðu heilsu, annars ekki! Sigmundur Davíð kemst því ekki upp með að ljúga, að helvíti sé himnaríki.

Leðjuslagur bankstera

Punktar

Forstjóri Borgunar og bankastjóri Landsbankans vönduðu hvor öðrum ekki kveðjur í gærkvöldi. Steinþór Pálsson segir Erlend Magnússon og félaga hafa logið um stöðu Borgunar. Erlendur segir Steinþór ljúga þessu. Báðir tapa. Steinþór rekur risabanka með hjálp ótal silkihúfna. Samt tekst þeim ekki að sjá það, sem allir áttu að sjá. Eða þá, að þeir vildu ekki sjá það, vegna þess að Engeyingar áttu í hlut. Bankastjórinn og ofurlaunahirðin segjast raunar vera fífl. Erlendur kann svo ekki að skammast sín, hafði milljarða af bankanum, líklega með broti á upplýsingaskyldu. Leðjuslagur bankstera á okkar kostnað endar svo í Hæstarétti. Dæmigerð einkavæðing, grillað og grætt.

Rimpaðu í klofninginn

Punktar

Með 21 atkvæði gegn 18 felldu píratar tillögu um að hafna fjórum breytingum þingnefndar á stjórnarskrá. Varpa skugga á samþykkta og alkunna stefnu pírata um að halda fast við efnisatriði frumvarps stjórnlagaráðs. Nefnd alþingis hefur starfað í leyni í hálft þriðja ár. Án árangurs. Formaður nefndarinnar hefur samt jafnan fullyrt, að stutt væri að landi. Nefndarmaður pírata, Aðalheiður Ámundadóttir, gæti rimpað í klofning pírata. Gæti lýst andstöðu við núverandi uppkast nefndarinnar, kvartað yfir seinagangi í störfum hennar og óviðeigandi bjartsýni formannsins. Það mundi væntanleg rimpa í klofninginn í röðum pírata.

Í öllum efnisatriðum

Punktar

Í stefnuskrá pírata segir um stjórnarskrána: „Píratar vilja samþykkja frumvarp til stjórnskipunarlaga sem er SAMHLJÓÐA frumvarpi Stjórnlagaráðs í ÖLLUM efnisatriðum.“ Hugsanlega nær þetta líka til þeirra textabreytinga, sem gerðar voru á alþingi í lok síðasta tímabils. Uppkast stjórnarskrárnefndar alþingis fjallar ekki um slíkt. Snýst um fjögur atriði, efnislega frábrugðin niðurstöðu Stjórnlagaráðs. Samt hafa píratar ályktað, 21 gegn 18, að það hindri ekki aðild sinna manna að nefndarstörfum. Tekin verði afstaða til tillagna, er þær birtist formlega. En þær verða áfram í salti og klofningur fer vaxandi í röðum pírata.

Enn tuddast ráðherra

Punktar

Enn tuddast Sigurður Ingi einræðisherra eins og í upphafi ferilsins. Þá tuddaði hann forstjóra Fiskistofu norður, þótt allir aðrir starfsmenn Fiskistofu sætu eftir. Nú gerir hann tíu ára búvörusamning í leyni án aðkomu alþingis. Samningarnir eiga lögum samkvæmt að vera til eins árs og staðfestir af alþingi. Honum þykir ekki þorandi að dagsljós skíni á 130 milljarða. Bindur hendur komandi þingmeirihluta í tvö kjörtímabil til viðbótar. Sennilega er það stjórnarskrárbrot, sem verður afturkallað eftir næstu kosningar. Breytir því ekki, að einræðishneigð tuddans varðveitist á fullu í umboðsmanni vinnslu- og dreifingarstöðva landbúnaðarins.

Allir gegn öllum

Punktar

Ruglið magnast í Sýrlandi. NATÓ-ríkið Tyrkland er í stríði við Kúrda, sem eru sérstakir skjólstæðingar Bandaríkjanna. Rússland styður Assad forseta og hefur snúið stríðsgæfunni honum í vil. Bandaríkin eru andvíg Assad, styðja skæruliða, svo framarlega sem þeir séu ekki ISIS. Meiripartur skæruliða er í ISIS. Vont er að greina milli þeirra, sem eru í ISIS og hinna, sem eru það ekki. Sádi-Arabía er komin í bandalag við Tyrkland og hefur fengið þar bækistöð. Sádi-Arabía er andvíg Assad og ól af sér ISIS. Er samt bandamaður Bandaríkjanna. Í ruglinu eru Sýrlendingar sprengdir aftur á steinaldarstigið. Hefðbundið rugl úr Pentagon.

Lítil saga um andverðleika

Punktar

Baldur Guðlaugsson er eitt af kvígildum Eimreiðarhóps Davíðs Oddssonar. Var gerður að ráðuneytisstjóra. Sem slíkur stundaði hann innherjasvik í hruninu. Var dæmdur fyrir það, en fékk að sitja fangavistina á lögfræðistofu í stað Litla-Hrauns. Svo mikill er máttur Eimreiðarinnar. Hópurinn hefur tugi leiða til að sjá Baldri fyrir lífsviðurværi án þess að stuða þjóðina frekar. En þá var fundið upp á að gera hann að formanni hæfisnefndar um skrifstofustjóra ráðuneytis. Ætli Baldur sé ekki manna sízt hæfur til að hafa skoðun á, hvaða kostum skrifstofustjóri skuli vera prýddur. Lítil saga úr ríki andverðleika.

Sturtum virkjunardólgum

Punktar

Landsvirkjun sætti sig ekki við, að Rammaáætlun setti Norðlingaölduveitu í verndarflokk. Skipti bara um nafn og kallar hana Kjalölduveitu. Hafði þó ritað undir UN Global Impact samfélagssáttmálann um vinnuferli. Landsvirkjun er bara fyrirmunað að fara eftir alþjóðareglum, sem hún hefur sjálf fallizt á. Stjórn Rammaáætlunar fattaði svindlið. En siðblind Ragnheiður Elín virkjanaráðherra breytti þá reglugerðinni í snarhasti. Skyldaði Rammaáætlun til að meta allt að nýju. Auðvitað sekkur það litla álit, sem var á henni og dólgum Landsvirkjunar. Þegar við fáum alvöru ríkisstjórn, þarf að sturta öllum dólgum Landsvirkjunar.

Einkarekinn viðbjóður

Punktar

Einkarekstur mötuneyta er í tízku. Á spítölum, í skólum og á elliheimilum. Við sjáum sýnishornin í stöðugum straumi ljósmynda á fésbók. Við sjáum lambakjöt í fjórum litum, dularfullar kássur og annað ógeð, sem ekki er hundum bjóðandi. Hvað þá börnum, sjúkum og gömlum. Það er nánast lögmál, að einkaaðilar spara gæðin til hins ýtrasta. Einkum þar sem „eftirlitsiðnaður“ hins opinbera er af skornum skammti. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði hljóp þá fyrst upp til handa og fóta, þegar sönnunargögnin birtust á fésbók. Hvet fólk til að birta sem tíðast myndir af einkareknum mat á stofnunum. Leiðin til að lækna fólk af einkafárinu.