Punktar

Án fortíðar og framtíðar

Punktar

Elska að rúlla á eftir mér ferðatösku af stærð handfarangurs áleiðis að hóteli. Koma upp á herbergi, þar sem er einungis það, sem nauðsynlegt er, rúm, borð, stóll, bað, ljós, innstunga, þráðlaust netsamband. Gæti verið hvar sem er í heiminum. Tína upp úr töskunni þetta litla, sem ég þarf til skiptanna. Hér er ekkert til að halda í mig, engar minningar, hvorki fortíð né framtíð, ekkert nema núið. Jú, hér er eitt, rakvél frá því fyrir stríð, sem ég erfði eftir föður minn. Svo og síminn og tölvan, sem eru sambandið við umheiminn. Tengslin við Google og Wikipedia, sem koma í stað dofnaðs og brenglaðs minnis míns.

Flýr af hólmi

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Framsókn lofuðu afnámi verðtryggingar fyrir kosningar. Var eitt stærsta kosningamál þeirra. Sigmundur Davíð sagði þá afnám verðtryggingar vera einfalt og auðvelt. Eftir kosningar bregður svo við, að hvenær sem afnám verðtryggingar er til umræðu á alþingi, hleypur forsætis af fundi. Er ekki einu sinni viðstaddur. Vill alls ekki taka þátt í umræðu um sitt helzta loforð. Ekki bólar heldur á afnámi verðtryggingar og er þó liðið hálft þriðja ár frá kosningum. Dæmigert fyrir siðblindan tækifærispólitíkus, sem svífst einskis og lofar öllu fögru, ef hann telur lygina munu ganga í lýðinn.

Skjal án höfunda

Punktar

Deildar meiningar eru um, hver stendur að þremur tillögum til breytinga á stjórnarskránni. Fjölmiðlar kalla þær tillögu stjórnarskrárnefndar og sama gerir Páll Þórhallsson nefndarformaður. Aðalheiður Ámundadóttir, fulltrúi Pírata, segist ekki standa að plagginu. Aðrir nefndarmenn hafa ekki fríað sig af þessu skjali og aðild sinni að því. Þótt þetta sé bara vinnuplagg í höndum ráðuneytis og alþingis, er meira en lítið undarlegt, ef tillagan hefur dottið af himnum ofan eða hún hafi skrifað sig sjálf. Einhver ber ábyrgðina og hún er vægast sagt þungbær. Þetta skrítna skjal leitar enn að ábyrgðarfólki sínu.

Stríð gegn eigin íbúum

Punktar

Það segir átakanlega sögu, að þjóðin, sem nánast fann upp mannréttindi, hafi lýst stríði gegn íbúum í eigin landi. Og að stjórn krata hafi frumkvæði að herlögum. Frakkland er orðið svo þjakað af aðkomu múslima, að ríkisstjórn og þing telja brýnt að ganga hús úr húsi til að leita að hryðjuverkatækjum. Hafa áttað sig á, að vandinn liggur ekki í þúsund ofstækismönnum, heldur í hundruðum þúsunda meðreiðarsveina. Eru þá meðtaldir múslimar, sem mundu fela terrorista. Frakkar vilja ekki endurlífga miðaldir í ríkinu, sem hafði frumkvæði að frelsun Vestur-Evrópu úr myrkri miðalda. En endurvekja sjálfir miðaldir í leiðinni.

Misheppnuð aðlögun

Punktar

Samkvæmt Europol, löggæzlusambandi Evrópu, eru litlar líkur á, að terroristar leynist í hópum flóttafólks, sem streymir til Evrópu. Hins vegar séu komnir til baka 3000-5000 evrópskt fæddir vígamenn, sem fengið hafi hryðjuverkaþjálfun í miðausturlöndum. Þeir eru ekki flóttamenn eða hælisleitendur, heldur önnur og þriðja kynslóð múslima, sem þegar hafa ríkisborgararétt í Evrópuríkjum. Þeir kynntust öfgunum í moskum og fangelsum, fóru til að berjast í Írak og Sýrlandi. Eru nú komnir til baka til að fremja ógnir í Evrópu. Athyglisverðast við þetta er, að ógnir koma að innan, úr Evrópu sjálfri, en ekki frá hópum flóttafólks.

Torsótt bandalag

Punktar

Undanfarið hefur verið talað fyrir eins konar kosningabandalagi vinstri flokka í næstu kosningum. Þetta er eingöngu fólk úr Samfylkingunni og Bjartri framtíð, þeim flokkum, sem liggja við dauðans dyr. Vill skiljanlega ná sér í far fyrir framhald á þægilegri innivinnu eftir kosningar. Væntanlega eiga píratar að vera burðarklárinn. Ég efast um, að þar sé áhugi fyrir slíku bandalagi. Jafnvel ekki áhugi á málefnasamningi. Píratar hafa lagt fram tvö alkunn og ófrávíkjanleg skilyrði fyrir samstarfi í ríkisstjórn. Aðrir flokkar geta fallizt á skilyrðin eða látið það vera. Geta einnig sett fram sín skilyrði, ef einhver skyldu vera.

Minn bíllausi lífsstíll

Punktar

Ég get verið bíllaus á hóteli í miðborg hvar sem er í heiminum. Gengið út að kvöldi að fá mér eplasafa fyrir svefninn. Hitt á kaffihúsi bílstjóra, sem er að ljúka vaktinni og get spurt hann út í Erdoğan og Kúrda. Svipað geri ég alls staðar í heiminum. Nema í Reykjavík. Prófaði að gista á hóteli í miðborginni. Gat varla gengið fyrir svellbunkum, rigningu og hvassviðri. Hér eru ekki taxar á hverju strái eins og í útlandinu. Strætó er eitthvað, sem gæti flutt mig í úthverfi, þar sem ég á engin erindi. Ég bretti upp kragann, set undir mig hausinn og feta varlega svellin að næsta kaffihúsi. Þakka bílunum, sem víða hafa spænt upp svellin. Reykjavík hentar ekki bíllausum lífsstíl.

Hún er samt einkaeign

Punktar

Bull stjórnarskrárnefndar um auðlindir skýrist í greinargerð: „Tekið skal fram, að ákvæðið mun ekki sjálfkrafa raska þeim óbeinu eignarréttindum, sem kunna að felast í afnota- eða hagnýtingarrétti, sem þegar kann að hafa verið stofnað til gagnvart landsréttindum og auðlindum, sem samkvæmt frumvarpinu munu teljast í þjóðareign, sbr. það sem segir um réttarvernd slíkra heimilda í köflum 4.5 og 4.6.“ Þarna hafið þið það. Allar tilraunir til að endurheimta auðlindir okkar eru marklausar. Lagatæknar sáu til þess, að bullið raskar ekki eign kvótagreifa á auðlindinni. Ef ég hefði setið í nefndinni, væri ég flúinn af landi brott.

Og hér er lýsing Ómars Ragnarssonar á endemis textanum um náttúruna.

Langavitleysa

Punktar

Sit fyrir mistök í nefnd. Formaður er kontóristi úr ráðuneyti. Skýrir, hverjar séu vinnureglurnar. Ég segi: Hver segir það? Hann segir: Það hefur alltaf verið svona. Leggur fram texta. Ég segi: Hvaða endemis rugl er þetta, stríðir gegn því, sem áður var gert. Hann segir: Komið með tillögur. Hundrað tillögur koma. Á næsta fundi leggur hann skjalið aftur fram. Ég segi: Af hverju ertu með sama bullið áfram. Hann segir: Við skulum ræða málin. Endurtekið hundrað sinnum á 30 mánuðum. Ég segi: Hvernig getur kontóristi ráðuneytis lagt hundrað sinnum fram sama bullið og sóað tímanum. Hann segir: Þetta eru vinnureglur. Þú ert fáviti, segi ég. Og kveð. Endir.

Martröð í augsýn

Punktar

Ferðafólki til Íslands fjölgaði 30% í fyrra eftir mikla fjölgun fyrri ára. Í ár eykst sætaframboð flugfélaga 40%. Engar aðgerðaáætlanir eru tilbúnar, ráðherra er lamaður. Vandinn er ekki nýr í heiminum. Í Feneyjum eru komnir aðgöngumiðar og sama er að gerast í Cinque Terre. Í báðum tilvikum gera farþegar risaskipa útslagið. Þeir valda gífurlegu álagi og skilja lítið eftir. Ráðherra okkar þarf að sætta sig við að náttúrupassinn floppaði. Einföldust eru lendingargjald og gistináttagjald og fullur vaskur á alla ferðaþjónustu. Gefur meira en nóg til gagnaðgerða. Gæti kannski líka haft hemil á aukningunni, sem verður að martröð.

Víðtækar undanþágur

Punktar

Nýr samningur Evrópusambandsins og Bretlands markar tímamót, sem eru freistandi fyrir Ísland. Svo sem ekki fyrsti undanþágulistinn. Flest ríki hafa langa bunu af slíkum. En þarna koma til sögunnar nýjar og stórar undanþágur. Viðurkenndar eru fleiri myntir en evra. Ríkjum heimilað að taka ekki þátt í frekari samruna. Og þeim gert kleift að hafa eigin reglur um flóttafólk. Áður var búið að ákveða að taka upp landamæraeftirlit þrátt fyrir Schengen. Líklega tekur það gildi um mánaðamótin. Samningurinn við Breta er líka hæfileg lexía fyrir andlýðræðislega forstjóra í Bruxelles. Þeir verða að sætta sig við að fara að sigla með löndum.

Vafasöm vinnubrögð

Punktar

Stjórnarskrárplagg nefndar á vegum alþingis er komið fram, kallað „tillögur nefndarinnar“ í fjölmiðlum. Það er samhljóða texta, sem lekið hafði fyrr í vikunni. Engir fyrirvarar einstakra nefndarmanna fylgja. Fulltrúi pírata segist ekki hafa samþykkt plaggið. Ekki er ljóst, hver ber ábyrgð á textanum, kannski samdi hann sig sjálfur eða datt af himnum ofan. Textinn varð í öllu falli til á lokuðum leynifundum í tvö og hálft ár. Enginn mátti leka neinu. Eins og í TISA, allt á bak við tjöldin í reykfylltu bakherbergi. Gamaldags, vafasöm vinnubrögð, sem þola ekki dagsins ljós, varla til þess fallin að vekja traust almennings.

Ábyrgð á ferðamönnum

Punktar

Erlend stjórnvöld taka ekki ábyrgð á Íslendingum, sem fara sér að voða í rauðum hverfum þriðja heimsins. Hver er ábyrgur fyrir sjálfum sér á ókunnum slóðum. Einnig þeir útlendingar, sem fara sér að voða við Gullfoss eða Reynisfjöru. Við getum sett upp skilti á ýmsum tungumálum, en við getum ekki vaktað Bjargtanga. Að einhverju marki getum við reynt að hamla gegn ábyrgðarlausri hegðun. En við getum aldrei tekið fjárhagslega eða siðferðilega ábyrgð á henni. Við erum ekki í Bandaríkjunum, þar sem er Mekka lagatækna í skaðabótarétti. En við megum ekki koma óorði á öryggi í ferðamennsku hér með því að trassa eðlilegar viðvaranir.

Ekkert Plan C

Punktar

Bezt er að velja orðrétt þá stjórnarskrá, sem fór um flott ferli þjóðfundar, stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðis um meginlínurnar. Hún er Plan A. Plan B er svo túlkun alþingisnefndar á síðasta kjörtímabili. Tekið var tillit til kvartana lögmanna, sem töldu sinn hlut rýran í fyrra verki. Útkoman var sögð efnislega samhljóða Plani A. Ég efast um, að það sé fyllilega rétt, en gæti sætt mig við hana, fæli það í sér víðari sátt. Hef þó ekki séð, hver væri sú víkkun á sátt. Það plan kom aldrei til atkvæða. Ekkert plan C er til. Ekki koma til greina þær nýju þrjár stjórnarskrárbreytingar, er gæta hagsmuna kvótagreifa og orkugreifa.

Mildi og mannúð

Punktar

Gunnar Smári segir engin dæmi þess í sögunni, að mildi og mannúð geti brotið niður samfélög og leyst þau upp. Mildi og mannúð hafa samt aldrei ráðið ríkjum í sögunni og því eru engin dæmi. Á hvorugan veginn. Kenningin sannar ekkert. Fyrst í kjölfar byltingar frelsis-jafnstöðu-bræðralags fara mildi og mannúð að skipta einhverju máli. Síðustu 200 árin. Á allra síðustu árum hefur sú kenning komið fram, að vesturlönd verði of mild og mannúðleg. Þau missi hæfileikann til að verjast árás illskunnar úr heimi miðalda. Við sjálf erum fyrstu tilraunadýr kenninga um, hvort mikil mildi og mannúð leysi upp eða leysi ekki upp samfélög.