Punktar

Hafa ekki kjörþokka

Punktar

Mér skilst, að tíu manns hafi ákveðið framboð sitt til forseta Íslands. Enginn þeirra mun ná kjöri, þótt þetta sé vafalaust ágætis fólk. Við getum orðað það svo, að það hafi ekki kjörþokka til að verða forseti. Óspennandi frambjóðendur, þótt þeir kunni að hafa hagað sér sæmilega á lífsleiðinni. Enn er marz og nægur tími fyrir fólk, sem er að hugsa málið. Enn ítreka ég, að ég vil fá Björk fyrir forseta, en hún vill það víst ekki, því miður. Til vara vil ég, að pírati verði fyrir valinu. Þar er úr nægum mannskap að velja. Ég vona, að núverandi forseti telji sér ekki trú um, að kraðak smáframbjóðenda sé ákall um endurkjör hans.

Einfalt ferðagjald

Punktar

Einfaldast er, að hækka vask í ferðaþjónustu upp í fulla tölu og taka vask af allri ferðaþjónustu. Nægi þetta ekki, eru komugjald eða gistináttagjald við hæfi. Allt er þetta er einfalt í innheimtu, ólíkt rukkunum inn á einstök svæði. Vaskur og gistináttagjald útheimta að vísu harðara eftirlit með svartri vinnu. Fyrir löngu varð tímabært að taka á henni af fullri hörku. Gistináttagjald þarf líka að ná til nátta í skemmtiferðaskipum. Farþegar þeirra valda álagspunktum á viðkvæmum stöðum. Komugjaldið þarf vegna fjölþjóðasamninga að ná til Íslendinga sem annarra. Allar þessar einföldu leiðir eru betri en fjárans náttúrupassinn.

Eins tölustafs fylgi

Punktar

Samfylkingin og Vinstri græn eru svipur hjá sjón. Hafa ekki grætt neitt á að vera í andstöðu við langverstu ríkisstjórn Íslandssögunnar. Einstaka þingmenn þessara flokka láta heyra vel í sér á alþingi. En talsmenn flokkanna eru alveg gagnslausir. Árni Páll Árnason er auðvitað út úr kú, en þá kom annar Blairisti og banksteravinur og krefst sætis hans. Samfylkingin getur ekki komið sér út úr ristli Blairismans. Öðru máli gegnir um Katrínu hjá Vinstri grænum. Vel látin af öllum. Hefur þó hvorki þol né kraft til að leiða flokk. Björn Valur berst, en það nægir ekki. Örlög beggja flokka eru frosin í eins tölustafs fylgi.

Matís er einskis virði

Punktar

Matís starfar fyrir bændur, ekki neytendur. Er hún kemst að svikinni matvöru, segir stofnunin ekki frá. Heldur niðurstöðunni leyndri, en sendir bænabréf til framleiðandans um að bæta sig. Enginn tekur mark á þeim bónarbréfum. Frægar eru slíkar rannsóknir á ís með salmonellu úr ísbúðum. Enn er allt leyndó á Matís og kemur neytendum ekki við. Eftirlitið fór í veitingahús og tók 27 sýni af fiski. Átta tilvik sýndu aðra fisktegund en þá, sem pöntuð var. Ekki var talin ástæða til að segja fólki frá þeim stöðum. Enda væri þá hætt við, að kokkurinn mundi bæta ráð sitt í snarhasti. Áhugamál neytenda eru hvergi í myndinni hjá Matís.

Húsnæði er launavandi

Punktar

Húsnæðisvandi unga fólksins verður stærsta kosningamálið að ári eins og síðast. Þar er stóra stéttaskiptingin, munur þeirra, sem hafa það gott eða skítt. Sá vandi verður ekki leystur með niðurgreiðslum og uppbótum úr ótal nefndum og hugarfylgsnum velferðarráðherrans. Vandinn stafar einfaldlega af, að laun ungs fólks eru of lág. Obbinn af þjóðararðinum fer í klær auðgreifa. Samofin samtök vinnumarkaðarins leysa ekki vandann. Eru læst í úreltri brauðmolafræði. Alþingi þarf að ákveða lágmarkslaun, er brjóta upp ranga tekjuskiptingu. 400 þúsund til 500 þúsund krónur á mánuði. Krukk á kostnað skattgreiðenda er bara piss í skó.

Bótasjóðir eru hugtak

Punktar

Fjármálaeftirlitið ímyndar sér, að lagatæknar geti ákveðið, að hugtak sé ekki lengur til. Ef því sé laumað úr lögum, sé það ekki til. Ég fullvissa eftirlitið um, að lagatæknar stjórna ekki íslenzkum hugtökum. Bótasjóðir eru hugtak. Nær yfir fé, sem tryggingafélög taka af viðskiptafólki til að tryggja greiðslugetu bóta í náinni framtíð. Þannig eigi gjaldþrota tryggingafélag fyrir bótum. Sem reyndist þó rangt í hruninu, sjóðunum var stolið. Fylgt er evrópskum reglum um bótasjóði. Nú datt bófum í hug, að kjörið væri að lauma hugtakinu úr lögum, svo aftur sé unnt að stela sjóðunum. Eigi að síður er bótasjóður fullgilt hugtak.

Nytsamir sakleysingjar

Punktar

Samræðustjórnmál koma að gagni í vissum aðstæðum, þegar málsaðilar vilja komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þau eru hins vegar hættuleg, þegar hluti hópsins gætir eindreginna sérhagsmuna. Ögmundur Jónasson vildi kjafta bófaflokkana inn á meginatriði stjórnarskrár Stjórnlagaráðs. Reyndar voru bófarnir bara að tefja málið og eyða því. Enn sjáum við nytsama sakleysingja ímynda sér, að orðalag bófanna í Sigmundarnefnd sé spor í rétta átt. Þvert á móti er orðalagið svona til að gera Hæstarétti kleift að túlka stjórnarskrána út og suður. Þetta ferli allt er samsæri gegn þjóðarviljanum. Bófar eru eitraðir í samræðustjórnmálum.

Fjármálaeftirlit villist

Punktar

Fjölmiðlar rjúfa ekki bankaleynd, því þeir eru ekki gæzlumenn þeirrar leyndar. Þeir eru aðilar úti í bæ að segja fréttir, ekki starfsmenn í banka. Samt telur Fjármálaeftirlitið sér kleift að kæra Morgunblaðið fyrir brot á bankaleynd í Sparisjóði Vestmannaeyja. Er þó slæm reynsla þess af fyrri kæru þess árið 2013 á hendur Kjarnanum fyrir brot á bankaleynd í alræmdum Sparisjóði Keflavíkur. Kærum eftirlitsins var auðvitað vísað frá dómi. Ný kæra þess er því merki um eindreginn brotavilja. Á kantinum sker svo í augu, að aumasta stofnun landsins telur sér brýnna að verja bankaleynd en halda uppi góðum siðum hjá banksterum.

Límdi sig við stólinn

Punktar

Steinþór Pálsson bankastjóri á langa hrakfallasögu. Frægastur varð hann fyrir ítrekaðar tilraunir til að hanga á martröðinni um montkastala Landsbankans við hlið Hörpu. Lét svo Borgun plata sig. Síðasta útspil hans eru tilraunir til að hanga í starfi þrátt fyrir tilmæli Bankasýslu ríkisins um brottför. Meirihluti bankaráðsins hefur sagt af sér, en Steinþór límdi sig við stólinn. Einn af banksterunum, sem hafa byggt upp bankana í þeirri mynd, sem þeir voru í hruni. Þeir eru Las Vegas spilavíti fyrir brask og siðvillu. Leggja mesta áherzlu á að okra á fólki í skjóli fáokunar. Guðfeður í kerfi, sem liggur í rjúkandi rústum.

Eitt sameinar þó hjónin

Punktar

Það, sem sameinar forsætisráðherrahjónin, er, að þau hafa sama aðstoðarmanninn, Jóhannes Þór Skúlason. Að öðru leyti talast þau ekki við. Að minnsta kosti ekki um þá, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kallar hrægamma. Það eru þeir, sem hann sagðist mundu berjast við með kylfu og haglabyssu. En gafst svo upp fyrir, með svo athyglisverðum hætti, að þeir dönsuðu af ofsagleði. Milljarðurinn í skattaparadísinni Tortola er meira en Jóhannes Þór megnar að útskýra. Þetta er eðlilegt sálarkýli á því fólki, er kaus siðvillinga til ræningja fyrir þremur  árum. Lét selja sér þá firru, að siðvillingurinn væri þjóðfrelsarinn sjálfur.

Eindreginn brotavilji

Punktar

Þegar Árósasamningurinn um lögaðild samtaka umhverfisverndar var staðfestur hér á landi, var merkingu breytt í þýðingu. Fölsunin gerði Hæstarétti kleift að úrskurða með eindregnum brotavilja, að samtökin ættu ekki lögaðild. Hæstiréttur framdi landráð, þegar hann ógilti kosningu til Stjórnlagaþings á furðulegum forsendum. Var eindreginn og ítrekaður brotavilji. Enn er slíkt mál í gangi, þegar Sigmundarnefnd þriggja breytinga á stjórnarskrá læðir inn loðnum orðum. Það á að gera Hæstarétti kleift að úrskurða með eindregnum brotavilja í þágu greifa gegn almenningi. Lagasmiðir og Hæstiréttur eru bófaflokkur afturhalds.

Svona gerir maður ekki

Punktar

Innanríkisráðuneyti Ólafar Nordal braut ógeðslega á tveimur vinnuþrælum í Vík í Mýrdal. Aðgerðaáætlun ráðuneytisins í mansalsmálum var ekki virkjuð. Konurnar fengu aðeins 5.200 krónur á viku til að halda sér á lífi. Þær fengu ekki heldur atvinnuleyfi. Enginn vissi, hve lengi málaferlin gegn þrælahaldaranum mundu standa. Þær áttu bara að svelta á meðan. Auðvitað höfðu þær samband við kúgara sinn á meginlandinu og flúðu á náðir hans. Þær geta nú skrimt í öðru þrælahaldi í öðru landi. Svona gerir maður einfaldlega ekki. Ólöf Nordal hefur orðið okkur til mikillar svívirðu með framgöngu sinni í þessu máli. Hún niðurlægði Ísland.

Hæstiréttur er öfgaflokkur

Punktar

Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, niðurlægði Hæstarétt Íslands í gær á fundi Lögfræðingafélagsins. Sagði, að Hæstiréttur væri eini dómstóllinn, sem hefði hunzað ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Ennfremur, að fólk ætti að höfða skaðabótamál vegna grófs brots Hæstaréttar í úrskurðinum um ólöglega kynnta verðtryggingu neytendalána. Viðstaddir lögfræðingar supu hveljur. En þannig er Hæstiréttur. Allt réttlæti á Íslandi kemur frá Evrópu. Skemmst er að minnast þess, að Hæstiréttur refsaði þjóðinni fyrir handvömm formanns Landkjörstjórnar. Hæstiréttur er öfga-afturhalds stjórnmálaflokkur, sem ítrekað ræðst á lýðræðið.

Stjórnarsambúð stirðnar

Punktar

Sambúð stjórnarflokkanna hefur stirðnað. Hvorugur kemur sínum málum fram gegn andspyrnu hins. Húsnæðismálin eru gott dæmi, síðbúin frumvörp Framsóknar njóta lítillar gleði Sjálfstæðis. Verðtryggingin er annað dæmi, Sjálfstæðis stendur í vegi yfirgengilegra loforða Framsóknar. Framsókn vill ekki selja bankana, sem er hjartans mál Sjálfstæðis. Fæðingarorlof er annað ágreiningsefni. Loks er Sigmundur Davíð á sérleið gegn Sjálfstæðis um staðsetningu Landspítala, þótt flutningur rýri mikilvægi Flugvallarvina. Því magnast núningur og ýfingar á fjölmörgum sviðum. Flokkarnir tveir eru að setja sig í kosninga-stellingar.

Feitum líður vel

Punktar

Hross mega ekki vera svöng í veðrabrigðum frosts og þíðu í útigangi á veturna. Það spillir einangrunargetu húðarinnar og veldur vanlíðan þeirra. Ill meðferð er svo sem ekki ný af nálinni. Hefðbundið var, að þau fengu það, sem kálfarnir vildu ekki éta. Nú er öldin önnur. Þau eru ekki lengur dráttarklárar, heldur góðhestar og fjölskylduvinir. Flestir fara vel með hross sín. Víða á útigangi standa þau í heyi allan veturinn glansandi feit. Þau vilja vera feit, þá finnst þeim þau muni lifa af veturinn og þá líður þeim vel. Meira en nóg er til af ódýru heyi. Herða þarf aðgerðir gegn þeim sárafáu, sem enn vanrækja hross sín.