Hestar

Bílarnir eru ódýrari

Hestar

Kristján Kristjánsson hestaflutningamaður:

Fimm hesta kerra kostar meira en milljón krónur. Vextir af þeirri upphæð gætu verið 120.000 krónur á ári, auk rekstrar kerrunnar og eldsneytis á dráttarbíl. Það er alveg sama, hvernig menn reikna, hestaflutningar á bílum eru alltaf miklu ódýrari en flutningar í eigin kerrum, nema kannski hjá atvinnumönnum með mikilli flutningaþörf. Því er þó ekki að leyna, að þeim fjölgar, sem leyfa sér þann lúxus, sem kerrurnar eru. Þess vegna og einnig vegna lágs verðlags á flutningum hefur fækkað þeim, sem reka hestaflutninga, enda gera menn góð með að skipta við bílana.

Hörður Hermanns hestaflutningamaður:

Aðalsamkeppni okkar kemur frá kerrunum. Þegar tíð er góð, nota menn þær mikið, en halla sér meira að okkur, þegar veður og færð spillast. Mönnum finnast vera þægindi í að eiga kerrur til að snatta með, en það er ekki reikningsdæmi, sem gengur upp. Kerra, sem kostar 1,3 milljónir, brennir 104 þúsund krónum í vexti á ári, 195 þúsund krónum í afskriftir og 50 þúsund krónum í viðhald. Þetta gera 349 þúsund krónur á ári og jafngildir 35 ferðum til Hellu. Einnig má líta á, að okkar farmur er tryggður, en ekki það, sem er í kerrunum.

Kerrurnar veita frelsi

Þröstur Karlsson hestakerrusali:

Salan var mest í fimm hesta kerrum, en núna eru tveggja og þriggja hesta kerrur aftur farnar að seljast betur. Fólk velur kerrur alveg eins og það vill fara um í eigin bíl í stað þess að taka strætó. Það kýs frelsið og sveigjanleikann, sem fylgir kerrunum. Þeim, sem finnst kerrur of dýrar, taka sig oft saman tveir eða fleiri um kerru, t.d. þeir, sem eru saman um hesthús og hagabeit.

Hinrik Gylfason hestakerrusali:

Fólk vill hafa frelsi, fara þegar það vill fara og geta stjórnað sínum tíma. Vafalaust er ódýrara fyrir marga að flytja hestana á flutningabíl, en þetta er eins og munurinn á strætó og einkabíl. Hingað komu sextug hjón, sem hafa verið tvo áratugi í sumarferðum. Þau keyptu kerru og hafa síðan verið á flakki um landið eftir veðri og aðstæðum og riðið út frá nýjum og nýjum stöðum. Einn viðskiptavinur sagðist hafa keyrt kerruna sína 20.000 km. á einu ári.

Sigurgeir Þórðarson hestakerrusali:

Mest sala er í tveggja og þriggja hesta kerrum. Kerrueign er orðin afar almenn meðal hestamanna. Þú mætir tuttugu kerrum á leiðinni austur yfir fjall. Fólk hefur meiri frítíma en áður og hefur betri aðstöðu fyrir hrossin, bæði í bæ og sveit. Menn vilja vera sjálfs sín herrar, flytja hesta þegar það hentar þeim sjálfum og þá fyrirvaralaust.

Hestaflutningamenn

Í hestaflutningum eru umsvifamestir tengdafeðgarnir Guðbrandur Óli Þorbjörnsson og Kristján Kristjánsson og síðan kemur Hörður Hermanns. Guðbrandur Óli er sennilega með meira en helminginn af markaðinum og Hörður með meiripartinn af afganginum. Aðrir flutningamenn hafa komið og farið, eru ekki með fastar ferðir og eru meira í tilfallandi flutningum.

Fastar áætlunarferðir

Báðir aðilar reka fastar áætlanir vikulega norður í land og tvisvar í viku austur fyrir fjall. Guðbrandur Óli er þar að auki með þriðju vikulegu ferðina austur fyrir fjall og Hörður með mánaðarlega ferð austur á land. Báðir aðilar fara norður mánudaga og koma aftur þriðjudaga og eru í tengslum við það með ferðir austur fyrir fjall sunnudaga og miðvikudaga.

Flutningskostnaður

Ýmsir afslættir tíðkast í hestaflutningum, yfirleitt miðaðir við viðskiptamagn og greiðslutíma. Staðgreiðslumenn í föstum viðskiptum fá lægra verð en aðrir. Um slíkt verður að spyrja hverju sinni. Samkvæmt algengri gjaldskrá hestaflutninga kostar kostar 3.500 krónur að flytja hest úr bænum austur að Hellu og 9.300 krónur í Skagafjörð, hvort tveggja með vaski. Ef fluttir eru fimm hestar, fæst afsláttur, sem gæti numið 15% og farið upp í 25%, ef fluttur er heill bílfarmur af hrossum, en í slíku tilviki er oft notað kílómetragjald.

Tengivagnar

Tengivagnar eða trailers hafa komið og farið. Um þessar mundir er Benedikt Jóhannsson í Faxaflutningum sennilega einn á markaðinum eða einn af sárafáum. Slíkir vagnar taka oftast um 12 hesta. Gjaldskrá er svipuð og hjá stóru bílunum eða ívið lægri.

Álagstímar

Mest er að gera í hestaflutningum í desember-janúar, þegar fólk tekur á hús og síðan í júní, þegar hross eru flutt í haga. Tamningamenn nota flutninga mikið í marz-apríl fyrir flutninga með stök hross. Á sumrin eru flutningar vegna gangmála og ferðalaga, en lítið vegna sýninga, því að sýningamenn eru mest með eigin kerrur.

Hestakerrusalar

Þröstur Karlsson er umsvifamesti hestakerrusali landsins með Humbaur kerrur. Næstur honum kemur Hinrik Gylfason með Böckman kerrur. Þriðji í röðinni er sennilega Sigurgeir Þórðarson í Víkurvögnum, sem smíðar kerrur að fullu og selur einnig undirvagna til annarra kerrusmiða, sem eru nokkrir, en fæstir umsvifamiklir. Allar þessar kerrur eru hannaðar fyrir íslenzkan markað, en eru misgóðar utan malbiks.

Hestakerruverð

Algengt verð á sex hesta kerru er 1,5-1,6 m.kr., á fimm hesta kerru 1,4-1,5 m.kr., á fjögurra hesta kerru 1,1-1,2 m.kr., á þriggja hesta kerru 0,7-0.8 m.kr. og á tveggja hesta kerru um 0,7 m.kr. Öll eru þess verð með vaski og miðuð við, að kerran sé komin á götuna.

Hestakerruleiga

Hrímfaxi á Heimsenda leigir tveggja og þriggja hesta kerrur á klukkutímagjaldi og sólarhringagjaldi. Fimm klukkustundir kosta 4.000 kr á tveggja hesta kerru og 5.000 kr á þriggja hesta kerru. Sólarhringur kostar 8.000 kr á tveggja hesta kerru og 10.000 kr á þriggja hesta kerru. Allar þessar tölur eru með virðisaukaskatti. Kerrurnar eru kaskótryggðar með sjálfsábyrgð.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Hestamenn orðnir snyrtilegir

Hestar

Hestamenn orðnir snyrtilegir

Eiðfaxi spurði verzlunarstjóra nokkurra hestavöruverzlana um breyttar áherzlur viðskiptavina, tízkustrauma og varanlegar breytingar á vöruvali fólks á vetrarvertíðinni. Svörin voru fjölbreytt, en flestir voru sammála um, að hestamenn verðu sífellt meiri peningum í fatnað og væru mun betur til fara á hestbaki en áður var

Arnar Guðmundsson í Ástund:

Við seljum meira af ópottuðum skeifum en áður og gjarnan með uppslætti. Fleiri tegundir loftpúðahnakka eru komnar til sögunnar og hnakkar eru aftur farnir að sækja á dýnurnar, sem voru í tízku á tímabili. Undirdýnur seljast betur en áður og yfirbreiðslur eru farnar að seljast. Amerísku mélin með koparflögum og þriggja málma mél eru vaxandi hluti af sölu méla. Sala á græjum fyrir hringtaum og frumtamningar hefur aukizt. Skór og skóbuxur hafa leyst stígvél og hefðbundnar reiðbuxur af hólmi. Vatnsgallar hafa meira eða minna vikið fyrir vatnsheldum öndunarefnum á borð við goritex. Hjálmar seljast vel, eru öruggari en áður, efnismeiri, en hafa ekki þyngzt. Hestamenn kaupa meira af fatnaði en áður, eiga meira til skiptanna og eru mun betur til fara við útreiðar og þjálfun.

Birgir Skaptason í Ístölti:

Mesta breytingin er fólgin í því, að fólk gerir betur við sig í fatnaði og reiðtygjum en áður. Það er snyrtilega klætt, þegar það ríður út á veturna. Aukizt hefur sala á sérhæfðum fatnaði fyrir hestamenn. Einnig er meira um, að menn hafi sérstök reiðtygi fyrir hvern hest, einkum sérstakan beizlabúnað. Þetta fylgir reiðskólunum og aukinni fagmennsku. Hirðingarvörur á borð við hestasjampó seljast líka miklu meira en áður, hugsanlega vegna þess að hitaveita er komin í hesthús og þau eru loftbetri og lykta ekki lengur. Þá eru hjálmar orðnir betri en áður og nú eru nær eingöngu í boði hjálmar samkvæmt Evrópustaðli.

Bjarni Þór Sigurðsson í Hestum og mönnum:

Uppsláttarskeifur seljast í auknum mæli. Einföld höfuðleður án kverkólar og ennisbands eru í aukinni sölu. Sívöl höfuðleður eru að koma inn í vaxandi mæli. Hirðingarvörur hafa stóraukizt í sölu, ef til vill vegna þess að fólk heldur hrossunum betur til í húsum, þar sem búið er að leggja hitaveitu. Fólk gerir meira við sig í fatnaði en áður, á til dæmis meira til skiptanna. Almennt er fólk næmara fyrir verði en áður og leitar að vöru á sanngjörnu verði. Við reynum að bregðast á réttan hátt við þeirri breytingu á markaðinum.

Gunnar Már Gunnarsson í MR-búðinni:

Við seljum meira en áður af vandaðri höfuðleðrum og höfuðleðrum án kverkólar. Hringamél breiðast út á kostnað stanga. Stígvél eru að víkja fyrir reiðskóm og gegningaskóm og þar af leiðandi eru skóbuxur að ryðja stígvélabuxum til hliðar. Sala á hnökkum er farin að aukast á kostnað sölu á dýnum, enda er verðmunur ekki mikill. Stóraukizt hefur sala á magnesíumblokkum, sem ekki renna og henta því fyrir gerði. Að flestu öðru leyti eru innkaupavenjur hestamanna svipaðar í vetur og þær hafa verið undanfarna vetur. Við höfum tekið inn fleiri vörutegundir eftir að Töltheimar hættu og erum ánægðir með söluna, sem er jöfn og góð.

Ragna Gunnarsdóttir í Baldvin & Þorvaldi:

Þrískipt mél seljast núna miklu meira en hefðbundin mél, sömuleiðis einföld höfuðleður eða höfuðleður með ennisól. Menn kaupa meira en áður sérsmíðaða hnakka, sem við framleiðum eftir óskum hvers og eins. Sala í skálmum, saumuðum eftir máli, er stöðug, leðurskálmum fyrir útlendinga og rúskinnsskálmum fyrir Íslendinga. Fólk er snyrtilegra til fara en áður, þegar það ríður út og kaupir meira af sérhönnuðum reiðfatnaði. Stígvél eru að hverfa úr sölu og leðurskór með teygju, með eða án stáltár, eru farnir að yfirgnæfa gegningaskó, sem eru úr gúmmí að neðan. Sala á pottuðum skeifum eykst á kostnað ópottaðra og uppsláttarskeifur er sífellt meira keyptar.

Nýtt í búðunum

Ástund er farin að bjóða Eyjólfs-stangir, hannaðar af Eyjólfi Ísólfssyni. Stangirnar kosta 19.000 og 20.000 krónur.

Hestar og menn eru komnir með samtvinnaða þverbakstösku með hliðartöskum úr vatnsheldu og níðsterku næloni, framleiddar af Top Reiter eftir amerískri fyrirmynd. Verðið er 6.900 krónur.

Ístölt er búið að fá í sölu Body Guard öryggisúlpur úr næloni frá Mountain Horse. Þetta eru léttar úlpur með árekstrapúðum í fóðrinu. Púðarnir eru fyrirferðarlitlir og þá má fjarlægja. Tilboðsverð er 19.900 krónur.

MR-búðin er farin að selja Jacson fatnað fyrir hestamenn. Meðal annars eru komin Lyx regnföt, jakki og buxur úr sérstaklega styrktu og vatnsþéttu næloni með soðnum saumum og rennilásum upp skálmarnar, svo og bandi undir iljar. Verðið er 8.900 krónur fullorðinsstærð.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Lærdómsríkar ferðasögur

Hestar

Reyndir hestaferðamenn hafa flestir lent í lærdómsríkum aðstæðum, sem geta verið fróðlegar fyrir aðra hestaferðamenn, svo að þeir geti komizt hjá því að lenda í svipuðum vanda. Hér birtast tvær fyrstu smásögurnar af þessu tagi:

Á lausgirtu í Kýlingum

Valdimar K. Jónsson:

Einu sinn vorum við að fara austur Fjallabaksleið og beittum hrossunum í Kýlingum. Ég var á ungum og hörðum hesti, tafðist við að hjálpa manni á bak og átti síðan eftir að fara sjálfur á bak, þegar allir voru farnir af stað og ég stóð einn eftir. Gjörðin reyndist þá vera of laus og hesturinn fór að hrekkja með flugstungum, þegar ég hoppaði í hnakkinn. Eftir lítið hlé byrjaði hesturinn aftur og jók síðan hrekkina með vindingum í stungunum, svo að ég flaug af og lenti harkalega á bakinu. Hesturinn sleit hins vegar ítökin og setti hnakkinn af sér. Hesturinn náðist þó fljótlega, en ég mátti rölta nokkurn spöl til hópsins. Síðan hef ég reynt að muna að herða gjörðina áður en farið er af stað. Sumir hestar belgja sig mikið út, þegar girt er.

Áttaviti og GPS

Þormar Ingimarsson:

Einu sinni lenti ég í villu í góðu skyggni á leið úr Skaftárdal í Holtsdal. Einn maður í hópnum hafði farið þetta áður. Ég var í eftirreið þennan daginn, en var með áttavita og skildi ekki, af hverju var alltaf farið í norður, en ekki í austur. Í áningu kom svo í ljós, að maðurinn hafði hvorki áttavita né kort og fór bara eftir gloppóttu minni. Eftir skoðun á korti var ákveðið að fara til austurs og þannig komumst við að lokum í efstu drögin á réttum dal. Áður en svona dagleið er farin, þarf að fá nákvæma leiðsögn um, hvar er farið inn á sérleið, því að annars getur maður farið framhjá og lent í tómri vitleysu. Þetta minnir líka á mikilvægi áttvita og GPS-tækja.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2003

Hesturinn minn

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Hesturinn minn

Á bak Álmi kom ég fyrst við hraunréttina í Kleppahrauni norðvestan við Strútinn. Það var sumarið 1991 í Tvídægruferð með Reyni Aðalsteinssyni á Sigmundarstöðum. Fjögurra vetra unghesturinn byrjaði að dansa dúnmjúkt tölt um leið og ég var kominn á bak og renndi sér á fulla ferð í átt til öræfanna.

Álmur leyfði mér að stýra, en vildi sjálfur ráða hraða og gangi. Aldrei fataðist honum taktvisst töltspor, þótt yfirferðin væri svipuð öðrum hestum á stökki. Þegar hann var kominn um það bil 20 metra fram úr samferðahestunum, slakaði hann á sér og valsaði áfram á góðri milliferð, reistur og stoltur.
Álmur leit ekki við Surtshelli, en fékkst loks til að stanza í Vopnalág.

Síðan tók við grýttur og seinfarinn áfangi yfir Þorvaldsháls að Helluvaði á Norðlingafljóti. Hann fékkst til að slá örlítið af hraðanum í grjótinu, en var ekki til viðtals um að gera sér hlaupin léttari með því að færa sig úr taktföstu danstölti yfir í traust brokk eða skeiðlull.

Álmur var kominn í mínar hendur fyrir tilviljun. Af Þorkeli Steinari Ellertssyni á Ármótum hafði ég keypt hest, sem ég var ekki viss um, að ég kynni við. Þorkell sagði mér að prófa hestinn betur á ferðalagi og taka með mér annan hest frá sér til viðbótar. Gæti ég þá að loknu ferðalagi valið hvorn, sem ég vildi heldur. Fyrri hesturinn heltist raunar og fór aldrei í ferðina. Síðari hesturinn er Álmur.

Hann er rauðglófextur og faxmikill, svipfríður og nettbyggður, ættaður úr Landeyjum. Föðurafi hans er lítt þekktur Kirkjubæingur, Reginn 866, sem er á ýmsa vegu út af Ljúfi 353 frá Hjaltabakka. Móðurafinn er þekktur skeiðgarpur, Fönix 903 frá Vík, af Svaðastaða- og Stokkhólmaættum. Móðuramman er Sunna, hryssa af hinu óstýriláta Stórulágarkyni, undan Hrafni 583 frá Árnanesi.

Frá Regin hefur Álmur sennilega litinn og fegurðina, frá Fönix teygjuna í vöðvunum og frá Hornfirðingunum í Árnanesi og Stórulág hefur hann örugglega óbeizlaðan kraftinn og úthaldið.

Álmur sá um, að gera mér ferðina ógleymanlega norður Tvídægru og Grímstunguheiði og síðan suður aftur um Haukagilsheiði. Ég sé hann enn fyrir mér eða finn frekar, hvernig hann fer reistur og stoltur fyrir hópnum góða götu létta á fótinn fram eftir Haukagilsheiði. Alltaf dansandi og alltaf áreynslulaust.

Snemma þótti fólki ráðlegt, að ég gluðaði ekki út og suður á þessum hesti, heldur riði settlega eins og góðborgara sæmir, sérstaklega í fjölmenni um helgar að vetrarlagi í Víðidal. Ekki gekk það vel, því að Álmur vildi enn ráða ferðahraða og skeytti engu, hvort hestar yrðu í vegi hans. Hann hljóp bara aftan á þá og hratt þeim til hliðar. Urðum við af þessu óvinsælir að makleikum.

Leitaði ég þá ráða hjá einum þekktasta tamningamanni og reiðkennara landsins. Réð hann mér að fara með hestinn í þröngt hringgerði og láta hann hamast þar, unz ofsinn rynni af honum. Prófaði ég þetta, en gafst fljótlega upp, því að Álmur varð hálfu trylltari af þrengslunum, gnísti tönnum og ólmaðist.

Stefán Pálsson bankastjóri hefur dálæti á Hornfirðingum og mikla reynslu af þeim. Hann sagði mér að reyna ekki að kúga Álm til hlýðni, ekki þrengja að svigrúmi hans og ekki fara mikið á honum í fjölmenni að sinni. Við skyldum heldur fara einir saman langar ferðir upp í heiði og gefa okkur góðan tíma. Helgi Leifur Sigmarsson tamningamaður bætti við, að ég skyldi fara nokkrum sinnum af baki, ganga með hestinum góðan spöl og tala við hann.

Ég fór að ráðum Stefáns og Helga Leifs. Smám saman róaðist Álmur nógu mikið til þess, að við urðum okkur ekki til skammar í fjölmenni. Hann hefur hins vegar aldrei sætt sig við að vera ekki fremstur í flokki, þar sem margir fara saman. Hann sættir sig þó við að hafa annan sér við hlið í hópreið. Við rekstur er hann enn ónothæfur í eftirreið.

Lengi vel var tölt eini gangur Álms. Hann byrjaði meira að segja að dansa tölt í kyrrstöðu, þegar farið var á bak. Helgi Leifur kom honum þó á brokk með ærinni fyrirhöfn, en ráðlagði mér að vera ekki að eyða mikilli orku í það. Hann sagði, að þessi hestur væri bara til í einu eintaki og ég skyldi láta mér það vel líka.

Til að sýna mér ganghæfni Álms lagði Bjarni Eiríkur Sigurðsson skólastjóri hestinn á tilþrifamikið flugaskeið fyrir hrifna áhorfendur við Brennistaði í Flókadal sumarið 1992. Síðan hefur hesturinn ekki verið skeiðlagður, enda hef ég ágætan hest til þess, rólegan, traustan og kraftmikinn skeiðara.

Tilraunir okkar til stökks enduðu með skelfingu meðfram Suðurlandsvegi andspænis Rauðhólum. Á ofsahraða rak Álmur hófinn í stein og kútveltist. Ég lá óvígur eftir í vegkantinum. Á Slysadeild kom ég með hægra lærið tvöfalt af innri blæðingu og var sett í það frárennslislögn. Ekki hefur sú gangtegund verið prófuð frekar.

Síðan lærði Álmur að feta, sérstaklega í upphafi reiðar. Nú er svo komið, að hann er sáttur við að feta af stað frá hesthúsi og hita sig þannig upp fyrir dansinn. En hann kærir sig ekki um að vera truflaður af öðrum hestum. Þá fer hann fljótlega að dansa innra með sér og leita eftir tölti.

Smám saman höfum við Álmur sætt okkur hvor við annan eins og við erum. Ég fæ að ráða mestu um, hvort fetað sé eða tölt. Hann fær að ráða mestu um hraðann. Ég fæ að ráða áttinni og hafa hófleg áhrif á hraðann. Við erum ekki vinsælir í eftirreið, en erum góðir í að ná upp hraða í forreið.

Við höfum séð mikið af landinu á sumrin, Kjöl og Sprengisand, allar húnvetnsku heiðarnar og Tvídægru, Gnúpverjaafrétt og Arnarfell hið mikla. Alltaf er Álmur jafn léttur og fimur, reistur og stoltur, ör og harðfenginn. Alltaf er hann svo mjúkur í gangi, að hann er hvíld frá öðrum hestum, þótt góðir séu.

Álmur er ekki líkur neinum hesti, sem ég hef kynnzt. Í eigu okkar hjóna eru fjórir úrvals töltarar, sem hafa vel við honum á yfirferðinni, og er einn þeirra einnig vakur og annar flugvakur. En eðli þeirra er annað og rólegra, þeir dansa ekki í kyrrstöðu og þeir taka tillit til aðstæðna og ábendinga.

Álmur er styggur og fer undan í flæmingi, þegar á að beizla hann. Svo ákveður hann skyndilega, að hann hafi sýnt nægt sjálfstæði að sinni og stendur grafkyrr, meðan hann er beizlaður. Það er meira að segja hægt að setja hnakkinn á, áður en hesturinn er beizlaður.

Í fyrstu var Álmur einrænn og lítill fyrir sér í hesthúsi, vék fyrir öðrum hestum og vildi fá að vera í friði. Smám saman hefur hann þó fetað upp goggunarröðina og er nú, tíu vetra gamall, orðinn leiðtogi hópsins án þess að vera með nein læti við aðra hesta. Yfirleitt líður honum vel á húsi, er hreinlátur og glansar á feldinn, en beinir oft höfðinu til fjalla og bíður eftir sumri.

Raunar held ég, að Álmur sé af öðru hestakyni, sennilega af því kyni, sem þjóðsögur segja, að sé með álfum. Kannski fæ ég að fara með honum, þegar hann langar til að leita á slóðir upprunans. Ég reyni því að koma mér í mjúkinn hjá honum.

Úrval 3. hefti 1997