Fjölmiðlun

Dómar gegn lýðræði

Fjölmiðlun

Nokkrir dómar benda til, að Evrópudómstóllinn hafi vikið af réttri braut. Hann hefur úrskurðað, að samskipti fyrirtækja og utanhúss-lögfræðinga séu einkamál. Hann hefur úrskurðað gegn afskiptum verkalýðsfélaga af högum innflutts verkafólks. Hann hefur úrskurðað gegn myndatökum af frægðarfólki á opinberum stöðum. Þessir dómar eiga það sameiginlegt að vera andsnúnir gegnsæi í samfélaginu. Þeir auðvelda slúbbertum að stunda iðju sína án þess að hægt sé að varpa ljósi á hana. Gegnsæi er samt undirstaða lýðræðis. Það virkar ekki nema gegnsæi sé í heiðri haft. Dómarnir eru því ósigur Evrópu.

Stíflað internet

Fjölmiðlun

Internetið er að stíflast. Notkun á þungum skjölum hefur aukizt, til dæmis á bíómyndum. Myndskeið eru þyngri en hljóðskeið, sem eru margfalt þyngri en texti. Rúmlega 63 milljónir manna horfðu á Evolution of Dance á YouTube. Fólk er farið að nota sjónvarp á netinu og tala í síma á netinu. Þetta er að leiða til samgöngutruflana. Til að bæta stöðuna þarf að leggja fleiri og stærri ljósleiðara. Hver á að borga samgöngubæturnar? Fólk borgar núna flatt gjald fyrir ótakmarkaðan aðgang að internetinu. Líklega verður reynt að leggja aukagjald á notkun YouTube og aðra þungaflutninga myndmiðla.

Skammtíma greiningar

Fjölmiðlun

Knight Ridder dagblöðin í Bandaríkjunum hlóðu upp Pulitzer-verðlaunum fyrir rannsóknir og fína blaðamennsku. Sérfræðingunum í Wall Street líkaði það illa. Töldu það draga niður svörtu tölurnar í afkomunni. Hal Jurgensmeyer forstjóri sagði hins vegar, að fyrirtækið væri ekki í fjölmiðlun. Það væri áhrifamiðlum, í félagslegum áhrifum og í söluáhrifum, en einkum þó í langtímaáhrifum. Hann þyrfti ekki 25% hagnað, heldur dygðu tölur innan við 10%. Knight Ridder dagblöðin héldu áfram að vera góð dagblöð. Af því að þau tóku ekkert mark á skammtímahugsun greiningarfræðinganna í Wall Street.

Fyrirlestur verður samtal

Fjölmiðlun

Blaðamennska er ekki lengur fyrirlestur blaðamanns, heldur samtal hans við fólk. Í tvær aldir voru blaðamenn milligöngumenn þjóðfélagsins gagnvart valdinu. Það var fulltrúaræði. En í raun var prentfrelsi frelsi þeirra, sem áttu prentvél eða sjónvarpssenda. Viðskiptahagsmunir réðu að tjaldabaki, ekki lögmál blaðamennsku. Með tilkomu vefsins eiga allir prentvél, sem eiga tölvu. Borgaraleg blaðamennska eða þáttöku-blaðamennska er í burðarliðnum. Það er upplýsingabylting. Blog, podcast, wikinews, digg og googlenews fylla upp í eyður hefðbundinnar blaðamennsku, sem er úr samhengi við samfélagið.

Traustið búið 2015

Fjölmiðlun

Samkvæmt nýjustu bandarískum tölum horfir illa fyrir dagblöðum. Traust á þeim verður upp urið árið 2015 og síðasti kúnninn hverfur fyrri hluta ársins 2043. Þau hafa gengið kaupum og sölum undanfarin ár. Gæði þeirra hafa verið minnkuð til að spara fé. Dreifingu hefur verið hætt í fátækum hverfum. Laun þar hafa verið lækkuð og góðir starfsmenn hafa horfið annað. Slíkt hafði í för með sér skammtímagróða og gífurlegar árangursgreiðslur til forstjóranna, meðan gróðinn hélzt. Þeir hurfu síðan hljóðlega á braut með sjóðina, er þeir höfðu étið upp góðvildina. Þetta vilja hluthafarnir.

Þjóðin er galin

Fjölmiðlun

Kærendur þurfa að sanna mál sitt í lýðræði, líka þeir, sem kæra fjölmiðla. Þannig er það í Bandaríkjunum. Menn þurfa að sanna, að fjölmiðill ljúgi. Í Bretlandi er sönnunarbyrði öfug. Þar þurfa fjölmiðlar að sanna að þeir segi satt. Þannig var það áður hér á landi. En nú hafa lög um persónuvernd verið sett ofar málfrelsi. Nú dugar ekki lengur fjölmiðlum að segja satt. Móðgist kærandi, er fjölmiðillinn sjálfkrafa dæmdur. Því fylgja engar smárefsingar. Meðalfjölmiðill sætir hærri sektum en samanlagðir ofbeldismenn og nauðgarar þjóðarinnar. Það er snargalið. Þjóðin vill þetta raunar, enda er hún galin.

Jaðar verður miðja

Fjölmiðlun

Vefurinn er enn hliðarafurð hefðbundinna fjölmiðla, stundum rekinn meira af vilja en mætti. Með aukinni samþættingu hinna ýmsu tegunda fjölmiðlunar mun vefurinn hætta að vera jaðaratriði, dýr lúxus. Verður miðlægur í fjölmiðlun framtíðarinnar. Í náinni framtíð mun fjölmiðlun líkjast smokkfiski, þar sem vefurinn er í miðju. Frá honum munu liggja armar i allar áttir. Í einum er prentið, i öðrum sjónvarp, útvarp í hinum þriðja, síminn í fjórða arminum. Menn standa andspænis þessu ferli í Bandaríkjunum. En eru ekki farnir að átta sig á því enn hér á landi. Eru of uppteknir af krónum líðandi stundar.

Opinberir vellir

Fjölmiðlun

Deilur magnast milli alþjóðlegra íþróttasambanda og fjölmiðlasambanda um greiðslur fyrir kappleiki. Íþróttasamböndin þrengja að fréttum og myndum til að fá aukið svigrúm fyrir sýningar á leikjum. Það stríðir gegn hefðum blaðamennsku um, að ekki sé greitt fyrir fréttir. Íþróttasamböndin eru einnig farin að krefjast greiðslna fyrir myndir og texta frá íþróttavöllum. Til dæmis fyrir myndir í bókum og meðfylgjandi texta. Þau telja sig eiga íþróttagreinarnar og geta selt þær. Fjölmiðlasamböndin segja, að vellirnir séu að miklu leyti greiddir af almannafé og séu því opinberir staðir.

Útvarpsmenn trylla

Fjölmiðlun

Símaspjallmenn í útvarpi eiga að vita, að bezt er að dempa óþverra þeirra, sem hringja inn. Flestir eru þeir meira eða minna froðufellandi og þurfa róandi samtöl. Gissur Sigurðsson og Heimir Karlsson á Bylgjunni ákváðu hins vegar að fara á götuvígin í fararbroddi sjúklinganna. Réðust á DV fyrir skúbbið um sveitarstjórann í Grímsey. Ég hneykslaðist á þeim félögum við það tækifæri. Nú hefur sannleikurinn smám saman verið að koma í ljós og er miklu alvarlegri en DV sagði á sínum tíma. Rétt er að endurtaka það, sem ég sagði þá: Fagmenn í blaðamennsku mega ekki trylla geðsjúklinga í símanum.

Vangeta í blaðamennsku

Fjölmiðlun

Þótt sumt sé gott um blaðamennsku á Íslandi að segja um þessar mundir, er annað í tæpu lagi. Ég hef áður nefnt, að textastíll fjölmiðla dregur dám af háskólaritgerðum og þvælu fagstétta. Íslenzka er líka slæm. Menn skrifa rangt mál dag eftir dag, eru leiðréttir fyrir birtingu, en læra samt aldrei neitt. Nýleg athugun mín á ljósmyndum segir mér, að þær séu á lágu plani. Noktun grafa nánast óþekkt. Vangetan stafar af mikilli þenslu í greininni, þar sem nánast allir hafa fengið vinnu. Ýmis svið eru þó sambærileg við útlönd, svo sem fréttaval, meðferð frétta og rannsóknir, sem kosta vinnu.

Kennslubók í smíðum

Fjölmiðlun

Útskrifaði í gær tvo tugi yfirmanna á fjölmiðlum af námskeiði í ritstjórn við símenntadeild Háskólans í Reykjavík. Það stóð þrjá mánuði og var bezta námskeiðið af nokkrum, sem ég hef verið með við deildina. Töluvert lærði ég í faginu af námskeiðunum. Einkum þessu síðasta, því að umræður jukust þar dag frá degi. Svo mikið lærði ég, að nú hef ég heitið mér að skrifa digra handbók í blaðamennsku. Ætla að gefa mér tvö ár í það. Á þegar um 200 fyrirlestra, sem ég þarf að sníða til og bæta. Ætlunin er að setja þetta efni smám saman á vefinn í formi uppkasts og biðja um athugasemdir.

Framtíðin bíður

Fjölmiðlun

Enn er framtíðin ekki komin. Enn les ég ekki bækur á skjá. Sony reyndi að selja lestölvu, en salan var treg. Amazon er farin að selja sína útgáfu, Kindle. Það hefur gengið betur, lestækið er uppselt í búðum vestra. Mér lízt samt ekki á það. Það er klunnalegt, þykkt og stíllaust. Framtíðin er loks komin, þegar skjárinn er orðinn svo linur, að vefja má honum upp. Þá kaupi ég reyfara í Amazon á 550 krónur og fæ hann beint á vefnum. Án þess að stunda samskipti við Tollmiðlun og greiða 450 krónu tollmeðferðargjald fyrir utan vask. Þá fer ég ekki aftur í Stórhöfðann í biðröð. Aldrei aftur.

Þögn um tímasprengju

Fjölmiðlun

Ungir og einhleypir karlar eru tímasprengja. Þeir valda flestum vandræðum í samfélaginu. Þeir ættu ekki að hafa ökuskírteini, þeir drekka sig fulla, þeir nauðga konum. Slíkir eru auðvitað fjölmennir í hópi innflytjenda. Þess vegna eru útlendingar fyrirferðarmiklir í eiturlyfjasölu, nauðgunum og ölvun við akstur. Sumir koma raunar frá ofbeldishneigðum samfélögum í Austur-Evrópu. Það leysir engan vanda að þegja um ætlaða aðild innflytjenda að stórglæp eins og barnsdrápinu við Vesturgötu í Keflavík. Slíkt verður ekki þagað í hel. Leiðir bara til vantrausts á kerfinu og fjölmiðlunum.

Furðufrétt vikunnar

Fjölmiðlun

Furðulegasta frétt vikunnar fjallaði um læknisvottorð Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa. Fjölmiðlum tókst samt ekki að upplýsa, hvort einhver hafi beðið um óþarfa vottorðið og þá hver. Fréttin var eins konar afturhvarf til gamals kerfis Prövdu og Izvestia. Þá þurftu lesendur að túlka texta blaða milli lína. Frétt um læknisvottorð er ekki frétt, nema fjölmiðlar upplýsi, af hverju hún sé frétt. Það mistókst þeim frækilega að þessu sinni. Vel getur verið að fjölmiðlungar séu innvígðir í eitthvert brandarakerfi hjá borginni. En notendur fjölmiðlanna eru ekki í því bandalagi brandarakarla.

Hræsni leiðarans

Fjölmiðlun

Hræsni er algeng í skoðunum á Íslandi, samanber leiðara Morgunblaðsins í gær. Þar er hvatt til, að ríkið borgi dýrt lyf fyrir hrörnunarsjúklinga. Blaðið talar eins og ríkið borgi sjúkrageirann að öðru leyti. Svo er ekki. Ríkið borgar ekki tannlækningar nema fyrir börn og hluta til hjá öldruðum. Flestir borga hluta í lyfjakostnaði sínum. Þeir, sem ekki eru lagðir inn á sjúrkahús, heldur fá þar gönguþjónustu, þurfa að borga. Því má spyrja Moggann: Ef ríkið á að borga dýru lyfin, á þá ríkið ekki að borga annan sjúkrakostnað? Vill Mogginn mæla með, að hér sé tekin upp almenn velferð?