Lítið er um þokubakka í nýútkominni skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins um þróun sjávarútvegs. Framsetning efnisins er ljós og markviss, sem er næsta fátítt í skýrsluiðnaði nútímans. Og niðurstaða þessarar aðgengilegu skýrslu er sú, að frekara fyrirhyggjuleysi í sjávarútvegi geti í bezta falli leitt til fjárhagslegra þrenginga og i versta falli til efnahagslegs hruns.
Í skýrslunni eru skýrar tölur um, hvernig sókn og tilkostnaður hafa aukizt í útgerð án þess að afli hafi vaxið að sama skapi. Árið 1974 gaf hver króna, sem bundin er í fiskiskipum, einungis af sér 55% af þvl, sem hún gerði árið 1062. Það hefur verið fjárfest of mikið í útgerðinni og raunar einnig í fiskiðnaði. Afkastagetan er langt umfram raunverulegan afla.
Gert er ráð fyrir, að árlegur afli botnfiskveiðiflotans geti numið 400 þúsund tonnum á ári næstu árin. Afkastageta þessa flota er hins vegar 90% meiri eða um 770 þúsund tonn. Umframkostnaðurinn við að halda úti óhóflega stórum flota í botnfiskveiðum nemur hvorki meira né minna en sjö milljörðum króna á ári.
Á þessu sviði einu saman virðist vandamálíð vera alvarlegra en allur landbúnaðurinn samanlagður. Allt of mörg skip eru að skarka í takmörkuðum fiskistofnum. Með skynsamlegum vinnubrögðum og minni sókn mætti ná sama afla með sjö milljarða króna minni tilkostnaði. Íslendinga hefur munað um minna.
Í skýrslunni er bent á, að stjórn sjávarútvegsmála hafi fremur en hitt stuðlað að þessari óheillaþróun. Látið hafi verið undan skammtíma sjónarmiðum þrýstihópa í stað þess að hlíta sjávarlíffræðinni og arðsemissjónarmiðum. Sjálfvirkar fyrirgreiðslur óhóflegra hárra lána hafa ásamt ýmsum björgunaraðgerðum og öðrum pólitískum ákvörðunum leitt til óhóflega stórs fiskveiðiflota.
Bent er á ýmsar stjórnunaraðgerðir, sem notaðar hafa verið með raunalegum árangri, þegar syrt hefur í álinn. Leyfisveitingar til veiða framkalla hættu á óhóflegri samþjöppun valds, klíkuskap og pólitískum þrýstingi eins og dæmi Húnaflóarækjunnar sýnir bezt. Kvótakerfi leiðir til óhóflega stuttra vertíða og versnandi nýtingar á skipakosti eins og sést af síldarvertíð þessa hausts.
Höfundar skýrslunnar vilja innleiða nýja aðferð til að stjórna fiskveiðunum og byggist hún á almennum markaðslögmálum framboðs og eftirspurnar. Þeir vilja létta þrýstingnum með þvi að skattleggja auðlindir hafsins. Þeir vilja selja veiðileyfi nógu dýrt til þess, að eftirspurnin falli niður í það mark, að aflamagn og arðsemi verði í samræmi við úthald. Þessi leið léttir ekki aðeins þrýstingnum af miðunum, heldur léttir einnig pólitískum þrýstingi af stjórnmálamönnum og embættismönnum.
Í skýrslunni er einnig eindregið tekið undir gagnrýnina á sjóðakerfið. Þar segir, að með millifærslukerfum sé verið að gera rekstur óhagkvæmra hluta flotans arðbæran frá sjónarmiði einstaklingsins og í þvi skyni skattlagðir hinir hagkvæmari hlutar. Þetta rýri heildarframleiðni sjávarútvegsins og geri hann minna arðbæran.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið