Fljótsdalsheiði

Frá Sauðabanalækjum ofan við Bessastaði í Fljótsdal um Fljótsdalsheiði til Aðalbóls í Hrafnkelsdal.

Þetta er syðsta leiðin um Fljótsdalsheiði. Þær greinast við Vegufs. Meginleiðin lá nokkru norðar, til Brúar í Jökuldal, hér kölluð Vegkvíslar. Nyrsta leiðin lá svo um Klaustursel og Sænautasel til Möðrudals, hér kölluð Þrívörðuháls.

Hrafnkels saga Freysgoða segir, að utan á Eyvindarfjöllum hafi Eyvindur Bjarnason, bróðir Sáms, fallið fyrir Hrafnkeli Freysgoða við Eyvindartorfu og sé þar heygður. Í Hrafnkelsdal hafa fundizt leifar byggðar á tuttugu stöðum. Talið er, að öll byggðin hafi farið í eyði um langt árabil við eldgos í Veiðivötnum á síðari hluta 15. aldar. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Byrjum hjá vegi 910 við Sauðabanalæk á fjallsbrúninni ofan við Bessastaði. Förum norðvestur um Vegufs. Við förum vestur um Sandskeið að Ytri-Vegakvísl. Suðvestur í Eyvindarkofaver og vestur um Fjallaskarð. Síðan suðvestur með Eyvindarfjöllum. Suðvestur um Sanda á veg 910, norðan Ytra-Kálfafells. Þar förum við beint vestur og niður að Laugarhúsum í Hrafnkelsdal, förum vestur yfir Hrafnkelu og norður að Aðalbóli í Hrafnkelsdal.

34,2 km
Austfirðir

Skálar:
Fjallaskarð: N65 01.685 W15 22.312.

Nálægir ferlar: Sænautasel. Nálægar leiðir: Þrívörðuháls, Vegkvíslar, Eyvindará, Aðalbólsleið, Hölkná, Vesturöræfi, Eyvindarkofaver, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort