Fljótast og dýrast

Greinar

Í frostum undanfarinna daga hafa greinilega komið í ljós afleiðingarnar af þriggja ára aðgerðaleysi fyrrverandi ríkisstjórnar í öflun raforku. Víða úti á landi er rafmagnsskömmtun daglegt brauð, þótt dísilstöðvar séu látnar brenna rándýrri olíu dag og nótt.

Tveggja ára töf er orðin á undirbúningi gufuaflsvirkjunar við Kröflu. Sú virkjun átti að leysa í bili orkuvanda Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna og færa þjóðinni dýrmæta reynslu í virkjun gufuafls til rafmagnsframleiðslu. Töfin stafar af því, að vinstristjórnin og þingmeirihluti hennar neituðu tvö ár í röð um fjárveitingar til að hraða rannsóknum og undirbúningi þessarar virkjunar.

Athuganir á öðrum girnilegum virkjunarstöðum á Norðurlandi eru enn skemmra á veg komnar. Enginn veit, hvort hentugast væri að byrja á Dettifossi, Skjálfandafljóti, Jökulsá í Skagafirði eða Blöndu, svo að dæmi séu nefnd.

Allt hefur verið látið reka á reiðanum í stað þess að fjármagna samanburðarrannsóknir á þessum mörgu möguleikum norðan heiða. Ef slíkum rannsóknum væri nú lokið, væri nú verið að hanna og undirbúa þá virkjun, sem heppilegust væri.

Þessi óskemmtilegi viðskilnaður Magnúsar Kjartanssonar orkuráðherra veldur því, að um það bil þrjú ár verða enn að líða áður en Krafla kemst í gagnið og enn lengri tími, áður en vatnsaflsvirkjun á Norðurlandi byrjar framleiðslu. Samt er nú þegar orðið neyðarástand í orkuöflun á þessu svæði.

Vegna þessa neyðast stjórnvöld nú til að fara dýrustu leiðina og ótryggustu – leggja raflínu norður í land. Eins og málum er nú komið er slík lína eina leiðin til að afla innlendrar raforku handa Norðurlandi fyrir veturinn 1976-1977. En hún kostar hvorki meira né minna en 1427 milljónir króna samkvæmt nýjustu áætlunum.

Nær hefði verið að geta notað þetta fé til að virkja á Norðurlandi og láta línuna koma síðar til að jafna milli orkuveitusvæða. En þess er ekki kostur eftir aðgerðaleysi undanfarinna ára. Velja verður.þann kost, sem fljótlegast er að framkvæma, þótt hann sé dýrastur.

Raflínan á að liggja með byggðum fram á Vestur-og Norðurlandi, þar sem rannsóknir hafa magnað efasemdir um rekstraröryggi Sprengisandslínu. Á línan að liggja frá Grundartanga í Hvalfirði til Andakíls og Varmahlíðar í Skagafirði og tengja þannig Landsvirkjun og Laxárvirkjun.

Línan frá Varmahlíð til Akureyrar hefur þegar verið lögð, en lítið hefur verið hægt að nota hana enn, því að afgangsrafmagn er við hvorugan enda hennar. Hún kemur því ekki að gagni fyrr en öll línan milli landshluta er komin. Frekari undirbúningur hefur tafizt, þar sem fráfarandi ríkisstjórn skar lántökuheimild vegna línunnar úr 300 milljónum króna í 25 milljónir króna.

Nú er undirbúningur framkvæmda hins vegar kominn á fulla ferð. Pantaðir hafa verið 1300 staurar í línuna og hún á að geta orðið fullbúin haustið 1976. Skýrði Gunnar Thoroddsen orkuráðherra frá þessu á þingi í fyrradag.

Það er dýrt spaug að hafa lélega ráðherra, þótt ekki sé nema í þrjú ár.

Jónas Kristjánsson

Vísir