Flatnavegur

Frá Kolviðarnesi í Hnappadal til Litla-Langadals á Skógarströnd.

Forn og fjölfarin alfaraleið Hnappdælinga norður í Stykkishólm. Þetta var fjögra tíma lestagangur og var talað um að fara um Flatir. Þetta er þurr og sléttlend leið, greiðfær með hesta. Hér fór Aron Hjörleifsson 1224 á flótta frá Valshamri á Skógarströnd undan Sturlu Sighvatssyni og mönnum hans, huldist þeim í þoku. Eftir að byggðinni sleppir í Hnappadal norðan Ytri-Rauðamels eiga engir jeppar að geta verið hér á ferð. Fleiri reiðvegir liggja frá Skógarströnd suður yfir fjöll, svo sem Fossaleið, Svínbjúgur og Sópandaskarð. Bæjarstæðið að Ytri-Rauðamel var þannig valið að sögn Landnámabókar, að þar sem bærinn stendur lagðist hryssan Skálm undir birgðum sínum. Þetta tók Sel-Þórir sem ábendingu um að þarna skyldi hann setjast að.

Förum frá Kolviðarnesi norður heimreiðina frá bænum um Laugagerðisskóla, yfir þjóðveg 54 og áfram beint norður með afleggjara að Ytri-Rauðamel. Síðan norður í skarðið milli Rauðamelsfjalls og Ytri-Rauðamelskúlna og áfram norður með fjöllunum, um Hæringshól og Rjúkandafoss. Beygjum síðan til vesturs og förum með Flatnaá undir Sátu í norðri og Flatnahrygg í suðri, um Innri-Flatir í 220 metra hæð. Þar heitir Flatnavegur. Síðan niður í Litla-Langadal og norður hann að bænum Litla-Langadal.

30,8 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Kvistahryggur, Haffjarðará, Haffjarðareyjar, Heydalur, Rauðamelsheiði.
Nálægar leiðir: Sátudalur, Litli-Langidalur, Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag