Fjórðungsalda

Nyrðri hluti jeppavegarins um Sprengisand. Sjá syðri hlutann undir heitinu Sprengisandur.

Sprengisandur, Nýidalur og Fjórðungsalda er eystri leiðin um Sprengisand. Hestamenn kjósa frekar að fara um gróðursælli Gnúpverjaafrétt í Arnarfell og þaðan austur um Þjórsárver og norður í Laugafell. Sú leið er hér kölluð Háöldur.

Tómasarhagi er þekktastur fyrir erindi Jónasar Hallgrímssonar: “Tindrar úr Tungnajökli / Tómasarhagi þar, / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar.” Hafi einhvern tíma verið hagi í Tómasarhaga, er orðið lítið um slíkt núna. Þar eru mest mosateygingar með lækjum.

Förum frá Mýri í 300 metra hæð á Sprengisandsveg og fylgjum honum alla leið í fjallaskálann í Nýjadal. Fyrst förum við á brú austur yfir Mjóadalsá og síðan til suðurs á heiðina. Framhjá Aldeyjarfossi og síðan hjá norðausturenda Íshólsvatns, þar sem Hrafnabjargavað er á Skjálfandafljóti. Slóðin liggur nokkuð beint suður fjallið, nokkuð vestan við brúnina ofan Skjálfandafljóts. Förum í 700 metra hæð framhjá afleggjara til vesturs í fjallaskálann í Ytri-Mosum. Skammt er suður í Fossgilsmosa, þar sem er hestagirðing. Við förum áfram suðvestur utan í Kiðagilshnjúk og áfram til suðvesturs framhjá afleggjara norður í Bleiksmýrardal. Síðan yfir Kiðagilsdrög og áfram suðvestur, förum í 820 metra hæð og komum að stuttum afleggjara að fjallaskála í Sandbúðum. Þaðan áfram að Fjórðungsvatni norðvestan við Fjórðungsöldu. Áfram suður yfir Tómasarhaga undir Tungnafellsjökli og loks yfir jökulkvíslina við fjallaskálann í Nýjadal í 800 metra hæð.

99,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Ytri-Mosar: N65 11.634 W17 29.492.
Fossgilsmosar : N65 05.864 W17 36.452.
Sandbúðir: N64 55.920 W17 59.239.
Nýidalur: N64 44.103 W18 04.323.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Nýidalur, Víðiker, Engidalur.
Nálægar leiðir: Hrafnabjargavað, Íshólsvatn, Bleiksmýrardalur, Kiðagil, Suðurárhraun, Biskupaleið, Gásasandur, Miðleið, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort