Það er gömul hefð úr mafíuheiminum, að á hættustundu standa fjölskyldurnar saman. Þessa hefur orðið vart síðustu dagana, er ríkisblöðin fjögur, Alþýðublaðíð, Tímínn, Vísir og Þjóðviljinn, hafa veitzt að Dagblaðinu með ýmiss konar slúðri, sem framleitt er í sagnamaskínu flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins.
Upplýsingar Dagblaðsins um Grjótjötunsmálíð eru meðal þeirra atriða, sem hafa þjappað fjölskyldunum saman. Fjármálamenn Framsóknarflokksins og Vísisdeildar flokkseigendafélagsins óttast mjög, að þetta sé aðeins byrjunin á frekari uppljóstrunum, sem Dagblaðið muni birta um leið og allar heimildir um málsatvik eru komnar í höfn.
Fjölskyldurnar vita, að ýmsir heiðarlegir menn í kerfinu, embættismenn, lögfræðingar og rannsóknamenn, eru orðnir þreyttir á því lastabæli fjármálanna, sem magnazt hefur í samtryggingarkerfi stjörnmálanna. Þær vita líka, að sumir þessara manna hafa staðið í sambandi við Dagblaðið.
Þessi ótti blandast almennri óbeit stjórnmálamanna á Dagblaðinu vegna óþægilegrar afskiptasemi þess af meðferð þeirra á þjóðmálunum. Þannig hefur myndazt víðtækt hræðslubandalag, sem nær neðan frá Skuggasundi og upp á Skólavörðustíg 10.
Nýjasta atlagan að Dagblaðinu er veikari en hinar tvær fyrri og ber flest einkenni örvæntingar. Í fyrstu atlögunni var reynt að hindra prentun Dagblaðsins og munaði stundum raunar ekki nema hársbreidd, að það tækist, eins og mörgum er enn í fersku minni.
Menn vita minna um þá atlögu, sem var önnur í röðinni og fólst í tilraunum til að loka bankakerfinu gagnvart Dagblaðinu. Fór þar fremstur bankaráðsmaður Tímans. Árangurinn varð sá, að Dagblaðið hefur nær enga fyrirgreiðslu í viðskiptabönkunum, þótt það velti um milljón krónum á hverjum virkum degi. En Dagblaðið gat bætt sér þetta upp með eigin rekstrartekjum.
Þaó var sem sagt komið í ljós, aö hræðslubandalagið gat ekki klekkt á Dagblaðinu með tæknilegum eða fjármálalegum aðgerðum. Þá var flúið út í slúðrið og beitt gamalkunnri aðferð, sem felst í því, að hvert ríkisblaðið étur upp eftir öðru.
Einni sögunni er ýtt á flot í Þjóðviljanum. TÍminn vitnar í hana. Síðan vitnar Vísir í Tímann og Þjóðviljann og loks litli Vísir í hin þrjú blöðin. Aðrar sögur fara aðrar leiðir gegnum slúðurkerfið.
Meðan upplag Dagblaðsins er komið upp í 23.000-27.200 og fer sívaxandi, heldur hræðslubandalagið því fram, að það sé um 16.000. Sölubörn og söluturnamenn vita betur.
Meðan Dagblaðið á inni tæpar þrjár milljónir króna hjá Blaðaprenti, heldur hræóslubandalagið því fram, að blaðið skuldi Blaðaprenti sjö milljónir. Dagblaðið birti í gær ýtarlegar vitnanir í stjórnarbókanir Blaðaprents til að leiða hið sanna í ljós.
Skemmtilegust er saga Vísis um, að Dagblaðið hafi íengið lánaðan pappír Tímans til að selja Blaðaprenti, svo að það gæti prentað Tímann. Þessa sögu hefur Tíminn ekki þorað að endurprenta til að kasta ekki rýrð á fjármálavit framkvæmdastjóra síns.
Hinar sameinuðu mafíur rembast án árangurs.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið