Fjölmiðlafælni

Greinar

Lítið hefur birzt í fjölmiðlum af upplýsingum um rannsókn bryggjumorðsins í Neskaupstað. Annað hvort gengur rannsókn lögreglunnar nánast ekkert eða þá að lögreglan telur ekki heppilegt, að almenningur viti, hvað sé að gerast, nema hvort tveggja sé. Sögusagnir fylla svo tómarúm upplýsinga.

Yfirvöld hafa á undanförnum árum í auknum mæli tekið upp þá stefnu við rannsókn mála, að láta lítið vita um efnisatriði hennar. Oft er því borið við, að birting upplýsinga skaði rannsóknina, en það er ekki rökstutt og enginn óháður aðili utan lögreglunnar getur staðfest ágæti kenningarinnar.

Þetta er ekki sama vinnulag og sjá má af fréttum annars staðar á Vesturlöndum. Hvort sem um er að kenna ljósfælni lögreglu eða vangetu fjölmiðlunga, nema hvort tveggja sé,

þá er hér á landi almennt minna vitað um framvindu lögreglurannsókna í stórum málum, sem almenning varðar.

Þótt fjölmiðlafælni lögreglunnar á Íslandi eigi sér fáar hliðstæður annars staðar á Vesturlöndum, á hún hliðstæður meðal annarra valdahópa hér á landi. Ýmsir aðilar reyna markvisst að halda upplýsingum frá almenningi. Til dæmis er líðan sjúklinga að sögn lækna oftast “eftir atvikum”.

Með samanburði á fjölmiðlum hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum má sjá ýmsan mun. Ljósmyndir af sakborningum eru minna birtar hér á landi og minna sagt frá nöfnum grunaðra manna. Þetta hefur verið stutt heldra fólki, sem er í siðanefnd á vegum blaðamannafélags í fínimannsleik.

Athyglisvert er, að snemma á síðustu öld stóðu íslenzkir fjölmiðlar nær vestrænum fjölmiðlum þess tíma, en þeir gera nú. Mynd- og nafnbirtingar voru þá ekki sömu bannorðin og þau urðu á síðari hluta aldarinnar. Til dæmis má minnast áhrifaríkrar ljósmyndar af líkum skipverja á Pourqui Pas.

Einhvern tíma á síðustu öld náðu hræsni og yfirdrepsskapur fastari tökum á þjóðinni. Sjálfsvíg urðu þá bannorð og eru enn. Prestar fengu nánast sjálfdæmi um, hve langan tíma mætti taka að hafa samband við skyldmenni, sem leiddi oft til meira en sólarhrings tafar á birtingu nafna og mynda.

Hugsanlegt er, að tök stjórnmálaflokka á fjölmiðlum hafi smitað þá þá af hræsni og yfirdrepsskap, sem stjórnmálum er eiginlegur. Nú hafa tök stjórnmála linast, svo að fjölmiðlar ættu að geta gengið vestrænu götuna fram eftir vegi.

Jónas Kristjánsson

DV