Fjölbrautir fyrir alla

Greinar

Gert er ráð fyrir, að framhaldsskólar á Íslandi verði fjölbrautaskólar á borð við þá, sem teknir eru til starfa í Breiðholti og Keflavík. Þetta er einn helzti kostur lagafrumvarpsins um framhaldsskóla, sem alþingi hefur til meðferðar.

Í greinargerð frumvarpsins er talað um námsbrautir á sviði búfræða, heilbrigðismála, hússtjórnar, lista, tækni, uppeldis og viðskipta, auk almenns bóknáms. Til dæmis er á viðskiptasviðinu talað um verzlunarbraut, skrifstofu- og stjórnunarbraut, almenna viðskiptabraut, banka- og tryggingabraut og loks póst- og tollabraut. Þannig má einnig rekja brautir á öðrum sviðum.

Augljóst er, að upp á slíka fjölbreytni verður aðeins unnt að bjóða í fjölmennustu skólunum á Reykjavíkursvæðinu og ef til vill Akureyri. Orð frumvarpsins eru því gagnslítil, þótt sagt sé: “Stefnt skal að því, að í hverjum landshluta verði eins fjölbreytilegt val námsbrauta og við verður komið”.

Fyrir Patreksfirðinga er lítil huggun í, að þar megi hafa fyrsta bekk framhaldsskóla með 24 nemendum. Úr því verður engin fjölbreytni í námi. Það gagnar þeim ekki heldur að eiga kost á framhaldsnámi í 120 nemenda árgöngum á Ísafirði. Úr því fæst varla nema val á þremur af ótal mörgum sviðum, auk þess sem kostnaður af heimavist kemur til sögunnar.

Bezt væri að reyna að komast hjá þessum vanda með því að færa framhaldsskólana að verulegu leyti inn í sjónvarp og útvarp og á myndsegulbönd. Í rauninni ætti hér á landi, þar sem fjarlægðir eru miklar, að vera starfandi kennslusjónvarp allan daginn.

Fyrirlestrar gætu sumpart farið fram í sjónvarpi og sumpart í útvarpi. Sýnikennsla sem þáttur í verknámi gæti farið fram í sjónvarpi. Æfingar og úrlausn verkefna mætti senda bréflega til sérmenntaðra kennara á viðkomandi sviði.

Hlutverk kennaranna heima fyrir væri þá einkum fólgið í almennri handleiðslu án sérfræðikunnáttu. Þeir yrðu milligöngumenn nemenda og sérfræðikennara. Þeir hefðu til dæmis umsjón með æfingum og úrlausnum verkefna og önnuðust sendingar á þessu efni.

Hið hreina verknám gæti svo farið fram í heimavistarskólum, sem væru einstaklega vel búnir tækjum og mannafla á viðkomandi sviði. Þessir skólar sérhæfðu sig í að taka á námskeið nemendur úr nálægum eða fjarlægum landshlutum, tvær til átta vikur á vetri, eftir því hversu umfangsmikið verknámið væri.

Þetta mundi spara nemendum og skattgreiðendum verulegan hluta heimavistarkostnaðar. Jafnframt mundi þetta jafna aðstöðu nemenda um land allt. Ennfremur mundi þetta nýta betur þá fáu kennara, sem þekkingu hafa á sérsviðunum. Þá mundi þetta létta verulega á kennurum heima fyrir í héraði, því að þeir gætu einbeitt sér að námsráðgjöf og námseftirliti. Loks mundi þetta spara byggingakostnað skóla.

Þótt verulegur kostnaður yrði af kennsluútvarpinu og kennslusjónvarpinu, segir það lítið á móti ávinningnum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið