Skammt er nú stórra högga milli í innflutningi erlends lánsfjár. Á nokkrum dögum hafa nærri fjórir milljarðar króna verið teknir að láni til að styrkja þjóðarbúið og tryggja miklar framkvæmdir og næga atvinnu fram eftir næsta ári. Er þetta með mestu blóðgjöfum, sem þjóðarbúið hefur fengið.
Þetta fé er sennilega allt arabískt olíufé að uppruna. 2,2 milljarðar af því er tekið hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og 1,7 milljarðar hjá frönskum bönkum. Fyrra lánið fer í að bæta gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar og hið síðara fer til ýmissa stórframkvæmda innanlands.
Gjaldeyrisstaða Íslands hefur nánast hrunið á þessu ári. Hún versnaði um hvorki meira né minna en 7,7 milljarða á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Allur gjaldeyrir var að verða upp urinn vegna óhóflegs innflutnings í samanburði við útflutning. Gengislækkun og vísitölubinding hinnar nýju ríkisstjórnar stefndu að stöðvun þessarar óheillaþróunar. Og 2,2 milljarða lánið á að byggja aftur upp gjaldeyrisvarasjóðinn. Meirihluti lánsins eða 1,2 milljarðar fara þá væntanlega í að slétta viðskiptaskuld Íslands við Sovétríkin, sem myndazt hafði.vegna verðhækkana á olíu og benzíni. .
Síðara lánið fer til ýmissa stórframkvæmda, einkum í orkumálum og.samgöngum. Á þeim sviðum eru einmitt að fæðast djarfar ráðagerðir um stórfellda uppbyggingu. Þessi verkefni verða sum fjármögnuð með hinu erlenda láni, en önnur með innlendum sparnaði eða á annan hátt.
Eitt stærsta verkefnið, sem væntanlega hefst af fullum krafti á næsta ári, er lagning varanlegs slitlags á hringveginn um landið. Það er dýrt verk eins og sést af því, að áætlað er, að kaflinn milli Reykjavíkur og Akureyrar muni kosta um sjö milljarða króna. Á Alþingi virðist mikill áhugi á að fjármagna upphafsframkvæmdirnar með innlendu happdrættisláni.
Ætla má, að á næsta ári verði lagðir 25 km við Blönduós,10 km við Akureyri og 8 km í Hvalfirði og að árið 1976 verði haldið áfram á Kjalarnesi, í Borgarfirði, við Hvammstanga, um miðjan Skagafjörð og við Akureyri.
Um svipað leyti eru að hefjast stórframkvæmdir í flugvallamálum. Bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og lagning millilandaflugvallar á Egilsstöðum eru þau verkefni, sem hæst ber á því sviði.
Ekki eru síðri hin fyrirhuguðu verkefni í orku málum. Rafmagnslínan milli Suður- og Norðurlands mun kosta um 1,4 milljarða króna og á að verða tilbúin eftir tæplega tvö ár. Hin mikla hitaveita Suðurnesja á að kosta um 1,8 milljarða króna og byggjast upp á 3-4 árum.
Hið háa olíuverð í heiminum veldur því, að við verðum að leggja sérstaka áherzlu á framkvæmdir í orkumálum. Olíuverðið er eitt þeirra atriða, sem leikið hafa gjaldeyrisvarasjóð okkar grátt. Sem dæmi um sparnaðinn við notkun innlendra orkugjafa má nefna, að upphitunarkostnaður hitaveitu Suðurnesja verður í fyrstu 80% af olíuhitun og lækkar síðan á 15 árum niður í 50% af olíuhitun.
Upphafsframkvæmdir næsta árs við slík stórvirki munu tryggja mikla veltu í þjóðfélaginu á næsta ári og mikla vinnu. Má því búast við, að ástandið í atvinnumálunum verði áfram ólíkt því, sem gerist í nágrannalöndunum, þar sem atvinnuleysið vex jafnt og þétt.
Jónas Kristjánsson
Vísir