Fjallmannaleið

Frá Kaldbak í Hrunamannahreppi um Hrossatungur, að Laxárgljúfraleið við Flóðöldu, og síðan eftir henni norður Stóraver, um Hrunaheiðar, yfir Leirá, að Helgaskála á Hrunamannaafrétti.

Leiðin er yfirleitt aðeins farin einu sinni á ári og er því víða óskýr, einkum í Hrossatungum, unz komið er að slóðinni meðfram gljúfrum Stóru-Laxá. Í upphafi fimm daga leitar safnast fjallmenn Suðurleitar saman í kaffisamsæti á Kaldbak og fara þaðan þessa leið. Ferðamenn fara yfir ásana að Stóru-Laxá og síðan um Hrunakrók upp á Hrunaheiðar vegna útsýnis niður í Laxárgljúfur. Fjallmannaleið, sem hér er lýst, er styttri og léttari, því að menn og hestar tapa ekki hæð með því að fara upp og niður ásana að Stóru-Laxá.

Förum frá Kaldbak um hlið í heimahagann umhverfis Bæjarás. Með girðingu í átt að Kaldbaksfjalli, síðan um hlið á girðingu upp í úthagann. Þaðan norðaustur með Hömrum, austur og upp í Skál, svo austur um Hrossatungur og komum við Flóðöldu á leiðina meðfram gljúfrum Stóru-Laxár. Síðan norður með gljúfrunum, undir Flóðöldu að vestan og um Stóraver og Laxárklettsver. Þar förum við um hlið á afréttargirðingu og austur brekkur niður að Leirá. Förum hana á vaði og síðan norðaustur yfir Leirártungu, yfir Stóru-Laxá á grófu vaði. Svo yfir Tangaás í Tangahorn og sjáum Helgaskála þar handan ár. Getum farið hér yfir ána eða haldið áfram jeppaslóðina að vaði, sem er austan skála.

19,8 km
Árnessýsla

Skálar:
Helgaskáli: N64 17.182 W19 53.594.

Nálægir ferlar: Laxárgljúfur, Kaldbaksland, Kaldbaksvað, Laxárdalsvað, Fagridalur, Ísahryggur.
Nálægar leiðir: Kaldbakur, Svínárnes, Leirá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson