Fjallgarður 2

Frá Ytra-Álandi í Þistilfirði til Raufarhafnar á Melrakkasléttu.

Nýr bílvegur yfir sléttuna liggur þvert á slóðina og rýfur kyrrð hennar. Frá Raufarhöfn liggja einnig reiðslóðir austur í Kópasker og að Efri-Hólum í Núpasveit, svo og norðaustur að Blikalóni. Falleg leið undir fjallarana á Melrakkasléttu austanverðri. Meðfram Bláskriðu og Fjallgarði. Nokkur skörð á fjallgarðinum tengja sléttuna við austurströndina. Svalbarðsskarð tengir Melrakkasléttu við Þistilfjörð.

Förum frá Ytra-Álandi í Þistilfirði eftir heimaslóð vestur að Sandá og suður með ánni upp að þjóðvegi 85 um Þistilfjörð. Förum norðvestur með þjóðveginum um Skerþúfuás og yfir Svalbarðsá, þar sem við beygjum norður að Sævarlandi. Þaðan förum við gamla þjóðveginn til vesturs upp á Öxarfjarðarheiði norðan Hermundarfells. Þar förum við norður yfir þjóðveg 867 og förum hátt yfir Stóra-Viðarvatni sunnan- og vestanverðu og austan við Óttarshnjúk og áfram inn í Svalbarðsskarð í 280 metra hæð. Förum bratt niður úr skarðinu vestanverðu og fylgjum síðan fjallgarðinum norður Melrakkasléttu. Hér heitir hann Fjallgarður. Við förum framhjá Kollavíkurskarði, Bjarnaskarði og Hófaskarði, um garða á eyðibýlinu Krossavíkurseli. Þar heitir fjallið Bláskriða. Þar undir komum við að Ormarsá og förum norður yfir hana, fylgjum veiðivegi langleiðina til byggða. Áður en kemur að flugvelli Raufarhafnar, beygjum við norður af veginum og norður fyrir flugvöllinn. Komum niður á þjóðveg 85 við Höfða og höldum til norðurs með þjóðveginum til Raufarhafnar á Melrakkasléttu.

49,1 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Fjallgarður 1, Klíningsskarð, Blikalónsdalur, Öxarfjarðarheiði, Laufskáli, Álandstunga.
Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur, Hólsstígur, Beltisvatn, Grasgeiri, Sléttuvegur, Krossavík, Hófaskarð, Hólaheiði, Kollavíkurskarð, Biskupsás, Súlnafell, Búrfellsheiði, Ferðamannavegur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Sæmundur Eiríksson