Fjalakötturinn feilpústar

Veitingar

*0000
Fjalakötturinn

Frystur, þurr og seigur

Frystur fiskur er einkennistákn lélegra matarhúsa, verður alltaf þurr við eldun. Skötuselur verður þurr og seigur. Þannig var það á Fjalakettinum, nýjum veitingasal á Hótel Reykjavík Centrum. Veitingastjóri, er lætur nota frystan fisk á stað, sem þykist vera fínn og tekur 5200 krónur fyrir þríréttaðan mat, er ekki starfi sínu vaxinn. Staðlað meðlæti staðarins, grilluð kartöflustappa, bætti ekki úr skák, ekki heldur grönnu grænmetisþræðirnir, en risarækjan var nokkuð góð. Í annarri heimsókn var grillaður eldislax ófrystur og í lagi, enda fæst eldisfiskur daglega.

Íslenzk ketsúpa út í hött

Fjalakötturinn bauð upp á ketsúpu í landkynningu. Hún var ekki lík neinni ketsúpu. Fituskorið lambakjöt var léttsoðið og síðan grillað, svo að það var þurrt og nánast seigt. Súpan var tært kjötseyði. Gulræturnar voru þvengmjóar og smávaxnar, auk þess hráar. Engar voru rófurnar. Þetta gaf kolranga mynd af þjóðarrétti og var þar að auki alls ekki bragðgott. Betra var skyrið, sem kom á eftir, enda stendur skyr alltaf fyrir sínu, þótt það sé í þunnum slettum milli breiðra skífna af stökku kexi. Skyrið sjálft var óvenjulega fínlegt og kremkennt að útliti, semsagt ekki þjóðlegt.

Ýmislegt var samt gott

Annað var gott á Fjalakettinum, einkum þjónusta ungra og lærðra stúlkna. Hvítvín mánaðarins var gott, sömuleiðis olífumauk og hummus með brauði. Hrátt hangikjöt þunnsneitt hafði lítið hangibragð, en var borið fram með sterkkrydduðu ávaxtamauki og mozzarella-osti, sem lét réttinn heppnast í bragði. Karrísúpa dagsins var gul og góð, en rækjurnar í henni voru of þurrar. Krapís úr rabarbara var bragðlítill sem milliréttur, en volg rabarbarakaka með þeyttum rjóma og ís var góður eftirréttur, í hæfilegu jafnvægi súrs og sætu.

Fjalakötturinn er smart

Fjalakötturinn í Aðalstræti er smart veitingastaður í nútíma naumhyggju, að mestu hvítur, en með svörtum stólum og ljósgulu líni. Stórir glugga veita ýtsýni til Aðalstrætis. Mikið stækkaðar Reykjavíkurmyndir frá gömlum tíma skreyta veggi staðarins. Lín er í munnþurrkum jafnt í hádegi sem á kvöldin. Í hádeginu er lítið og álitlegt hlaðborð á 1500 krónur, en ég kaus laxinn, þótt kötturinn heima fussi við öllum eldisfiski. En hann hefur meira vit á fiski en ég og miklu meira vit á fiski en Fjalakötturinn hefur.

DV