Fiskurinn við gluggana

Veitingar

Loksins hefur Ostabúðin við Skólavörðustíg opnað veitingahúsið upp á götuhæðina við hlið búðarinnar. Fastakúnnar flykkjast áfram í gluggalausa kjallaraganginn, sem hingað til þénaði sem matsalur. Fiskur dagsins (1700 kr) hefur hér löngum þótt mjög góður, en ég losnaði aldrei við innilokunarkennd. Mér til refsingar var fiskur dagsins að þessu sinni plokkfiskur. Líklega hefur gefið vel á plokkfiskmiðunum við hlið saltfiskmiðanna. Plokkfisk get ég étið í Múlakaffi, svo enn er óreynt, hvort gæði ferska fisksins eru söm og fyrr. Vonandi gefst fljótt færi á því. Ostabúðin á að fara í toppklassa fiskimatstaða með þessum alvöru veitingasal. Ég sakna ekki gömlu innilokunarinnar.