Finndu þungamiðjuna

Ferðir

Viljirðu vera túristi í túristaborg, þarftu að setja þig niður á hagkvæmum stað. Nálægt Lækjartorgi hverrar borgar, staðnum, sem er þungamiðja hennar. Í Kaupmannahöfn er það ekki Ráðhústorgið, heldur Kóngsins Nýjatorg. Þaðan er sama göngulengd norðaustur Breiðgötu að Hafmeyjunni og suðvestur Strikið að Ráðhústorgi og Tívolí. Túristaborgin nær frá Hafmeyjunni að Tívolí, milli múranna, sem áður lokuðu borginni. Á 1 km radíus er 90% af því, sem þú vilt sjá og 90% af matnum, er þú vilt éta. Finndu hótel nærri Kóngsins Nýjatorgi. Angleterre er of dýrt, en þú finnur hótel við hæfi milli torgs og hafnar.