Eðlilegt er, að um þessar mundir vakni spurningar um, hve langt stjórnmálaflokkarnir og fyrirtæki tengd þeim gangi í fjáröflun sinni og hvaða freistingum þessir aðilar lendi í, þegar þeir eru að afla fjár.
Allir stjórnmálaflokkarnir nema Alþýðuflokkurinn og Frjálslyndir hafa að undanförnu staðið í miklum byggingaframkvæmdum. Sumpart er þessi fjárfesting á vegum flokkanna sjálfra og sumpart á vegum fyrirtækja, sem stofnað er til af velunnurum flokkanna.
Að sjálfsögðu þurfa stjórnmálaflokkarnir þak yfir höfuðið eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins, svo og fjármagn til að heyja stjórnmálabaráttu samkvæmt kröfum nútímans. Það er marklaust að gera þær kröfur til stjórnmálaflokkanna, að þeir lifi eingöngu á lágum félagsgjöldum flokksmanna.
Hinsvegar ber þjóðinni að setja ýmsar skorður við fjáröflun flokkanna, svo að hún sé í samræmi við lýðræðislega hugsun og hefðir og sé ekki til þess fallin að magna spillingu í þjóðfélaginu. Um þetta þarf að setja lög og reglur, ef til vill í líkingu við það, sem Bandaríkjamenn hafa verið að gera hjá sér á undanförnum árum.
Slíkar reglur eiga ekki eingöngu að ná til stjórnmálaflokkanna sjálfra, heldur einnig til félaga, velunnarafyrirtækja og útgáfufélaga, sem eru í pólitískum tengslum við stjórnmálaflokkana. Annars gætu flokkarnir skotið sér undan eftirliti með því að mynda sérstök fyrirtæki eða félög um rekstur sinn og eignir.
Þessar reglur þurfa að tryggja, að öll fjármagnsnotkun flokka og hliðarstofnana þeirra komi fram í dagsljósið, svo að unnt sé að sjá, hver greiðir hverjum hversu mikið fé.
Jafnframt þarf að gera gjafir til stjórnmálaflokka skattfrjálsar að vissu marki, svo að stjórnmálastarfsemi í landinu sitji nokkurn veginn við sama borð og margvísleg góðgerðastarfsemi og menningarstarfsemi. Slíkt skattfrelsi mundi auðvelda stjórnmálaflokkunum nauðsynlega fjáröflun.
Þetta mundi jafnframt hindra margvíslegan skattafeluleik, sem menn gætu freistazt til að iðka við núverandi aðstæður.
Setja þyrfti hámark, bæði á framlög einstakra aðila, svo og á heildarupphæðir, sem stjórnmálaflokkar megi þiggja að gjöf á ári hverju. Þessar upphæðir mættu þá breytast sjálfkrafa eftir verðbólgunni á hverjum tíma.
Þessar hámarksreglur þyrftu vitanlega að ná einnig yfir sérstök félög og fyrirtæki, sem rekin eru beint eða óbeint til stuðnings stjórnmálaflokkunum.
Jafnmikils er um vert, að dregið verði sem mest úr möguleikum stjórnmálaflokka til að skammta velunnurum sinum hlunnindi,sem þýðir, að draga verður úr þeim sósíalisma, sem hér ríkir og felur í sér skömmtun stjórnmálaflokka á fjármagni, lóðum og leyfum, svo og öðrum hlunnindum.
Allar þær úrbætur, sem hér hafa verið nefndar, miða að heilbrigðara stjórnmálalífi, minnkun spillingar og betri þekkingu þjóðarinnar á rekstri stjórnmálaflokka.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið