Hádegisverðartími er 12:30-14, kvöldverðartími 19:30-22. Yfirleitt skilur eigandinn eða einhverjir þjónar ensku. Feneysk veitingahús eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanalega innréttuð. Þau hafa yfirleitt lín á borðum og línþurrkur, oftast hvítar.
Hvergi í heiminum er þjónusta betri en á Ítalíu. Þjónar eru yfirleitt fljótir og afkastamiklir. Þeir fylgja vel eftir með nýjum réttum, þangað til þú ert kominn í síðasta rétt. Þá hægir á öllu. Ítalir virðast vilja snæða hratt og fara sér síðan hægt yfir vínglasi eða kaffi. Snör þjónusta þýðir ekki, að þjónninn vilji losna við þig.
Matarvenjur
Ítalir borða ekki mikið á morgnana. Þeir fá sér espresso eða cappucino og cornetto smjördeigshorn á kaffihúsi götuhornsins. Hádegismatur í Feneyjum hefst oftast kl. 13 og kvöldverður kl. 20. Bæði hádegisverður og kvöldverður eru heitar máltíðir og jafn mikilvægar. Ítölum geðjast að mat og innbyrða hann svikalaust.
Þeir fara hins vegar varlega með vín og sumir drekka aðeins vatn. Kranavatn er drykkjarhæft í Feneyjum. Í veitingahúsum drekka samt flestir vatn af flöskum, aqua minerale, kallað frizzante, ef það er sódavatn.
Matreiðsla
Útlendingar halda oft, að ítölsk matreiðsla felist aðallega í pöstum á pöstur ofan. Í rauninni er málið flóknara. Ítalir tala ekki um ítalska eldamennsku, heldur feneyska, toskanska, lígúrska, latneska og svo framvegis. Feneyska eldamennskan leggur mikla áherzlu á hrísgrjón og sjávarfang og er undir meiri austrænum áhrifum en önnur eldamennska á Ítalíu.
Matseðlar
Dæmigerður ítalskur matseðill er í fimm köflum: Antipasti = forréttir; pasti eða asciutti eða primi piatti = pastaréttir eða hrísgrjónaréttir; secundi piatti = fiskur eða kjöt; contorni eða verdure = grænmeti og salöt; dolci og frutti og formaggi = eftirréttir, ávextir og ostar.
Engar reglur eru um fjölda eða röð rétta á matseðli. Sumir fá sér forrétt og síðan tvær pöstur, hverja á fætur annarri. Venjulegastir eru þrír réttir. Er þá til dæmis byrjað á forrétti eða pöstu og endað á síðari rétti með hliðarrétti. Eða byrjað á pöstu og endað á síðari rétti með hliðarrétti. Eða byrjað á pöstu, farið í síðari rétt og endað á eftirrétti.
Verð forréttar, pöstu eða flösku af víni hússins er yfirleitt nálægt því að vera tvöfalt verð hliðarréttar eða eftirréttar; og verð aðalréttar er venjulega þrefalt verð þeirra rétta. Verðið hér er yfirleitt miðað við forrétt, aðalrétt, hliðarrétt, eftirrétt, flöskuvatn og kaffi. Allt verð er gefið upp fyrir tvo.
Sérgreinar
Sjávarfang er merkilegast í matreiðslu Feneyinga. Að öðru leyti er ein helzta matarsérgreinin Polenta = maísþykkni, oft skorið í sneiðar og grillað. Önnur er Fegato alla veneziana = pönnusteikt kálfalifur með lauk. Vinsælt er Carpaccio = næfurþunnar sneiðar af hráu nautakjöti með olífuolíu og salati. Sígilt er Insalata mista = blandað hrásalat, yfirleitt frábært.
Frægasti eftirréttur Feneyja er Tiramisù, eins konar ostatertubúðingur, kryddaður með kaffi og súkkulaði. Hann kemur frá Miklagarði og hefur breiðst frá Feneyjum út um Evrópu. Ostar frá héraðinu eru Asiago, Fontina og Montasio. Flest veitingahús hafa líka Grana, Taleggio og Gorgonzola á boðstólum.
Sjávarréttir
Mörg feneysk veitingahús leggja áherzlu á Antipasto di frutti di mare = blandaða sjávarrétti í forrétt. Þar er hægt að bragða ýmislegt frábært, svo sem Aragosta = humar; Calamari og Seppie = smokkfisk; Cappe og Vongole = skelfisk; Cappesante = hörpufisk; Folpi og Polipo = kolkrabba; Gamberi = mjög stórar rækjur; Granceola = kóngulóarkrabba; og Scampi = stórar rækjur.
Vinsæll af heimamönnum er Baccalà mantecata = plokkaður saltfiskur, vel útvatnaður og blandaður olífuolíu, steinselju og hvítlauk.
Algengir fiskar úr Adríahafi eru Branzino = barri; Rospo = skötuselur; Orata = brassi; Rombo = þykkvalúra; San Pietro = Pétursfiskur; Sogliola = koli; og Spigola = barri. Yfirleitt eru þeir beztir grillaðir.
Kaffi
Ítalir eru fremstu kaffimenn heims. Þeir drekka kaffið nýmalað úr espresso vélum. Oftast drekka þeir það espresso eða caffé = mjög sterkt, eða doppio = tvöfalt magn af mjög sterku kaffi. Á morgnana drekka sumir þeirra cappucino = espresso blandað loftþeyttri mjólk. Slæmt kaffi fyrir ferðamenn er kallað americano. Ítalir drekka kaffið standandi við barinn.
Vín
Vín hússins eru yfirleitt vel valin og hagkvæm, annað hvort bianco eða rosso, hvít eða rauð. Vínáhugafólk getur litið í vínlistann til að leita að einhverju nýstárlegu, því að ekkert land í heimi hefur eins mörg mismunandi merki. Ítalskt vín er yfirleitt gott, heilbrigt og einfalt, en nær sjaldnast frönskum upphæðum. Ítalir taka vín ekki eins alvarlega og Frakkar.
Vínhéruðin norðan og vestan Feneyja eru Veneto og Friuli. Beztu vínin tilgreina vínsvæði og þrúgutegund á flöskumiða. Á Colli Euganei svæðinu er ræktað mikið af Merlot. Önnur góð svæði í Veneto eru Breganze, Gambellara, Pramaggiore, Conegliano-Valdobbiadene og Piave. Í Friuli eru Aquileia, Collio Goriziano, Colli Orientali, Grave del Friuli, Isonzo og Latisana.
Aðeins vestar, í hæðunum við Verona eru enn þekktari vínsvæði, svo sem Bardolino, Valpolicella, Soave og innan þeirra enn þrengri og betri svæði, kölluð Superiore og Classico, þar sem bezt er.
A la Vecia Cavana
(Rio terra SS. Apostoli, Cannaregio 4624. Sími: 523 8644. Lokað þriðjudaga. Verð: L.116000 (4907 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Vandaður matgæðingastaður um 600 metra frá Rialto-brú. Frá austurenda brúarinnar er farin merkt leið í átt til Ferrovia (brautarstöðvar). Eftir 500 metra er komið að kirkjunni Santi Apostoli. Þar er beygt til hægri meðfram vinstri hlið kirkjunnar eftir götunni Salizzada del Pistor. Þegar komið er að Giorgione hóteli, er beygt til hægri götuna á enda og þar beygt til vinstri.
Farið er framhjá forréttaskenki, þar sem leiðir skiptast um rómanskan múrboga til tveggja bjartra matsala. Innréttingar eru vandaðar, með miklum viði í veggjum og nútímamálverkum, þéttum trébitum í lofti, stórum gluggum, flísagólfi, blómum, kertaluktum og gulu líni á borðum. Auk sérrétta er hér boðið upp á fjögurra og fimm rétta máltíðir af ýmsu tagi.
• Antipasto misto di pesce Vecia Cavana = rauðar rækjur litlar og gráar rækjur stórar, hálfur kolkrabbi og sneiddur smokkfiskur. • Insalata di polipi e sedano = blaðselju- og kolkrabbasalat. • Penette di grancio = krabbakjöts-pasta. • Insalata mista = blandað hrásalat með miklum kaffifífli. • Gamberi imperiali alla griglia = grillaðar fjórar risarækjur með haus og hala. • Filetto di San Pietro = grillaður Pétursfiskur. • Parmigiano e gorgonzola = tveir ítalskir ostar, annar harður og hinn blár. • Macedonia di frutta fresca = ferskir ávextir sneiddir, með þeyttum rjóma.
Agli Alboretti
(Rio Terra Sant’Agnese. Dorsoduro 882. Sími: 523 0058. Lokað í hádegi og miðvikudaga. Verð: L.150000 (6345 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Matgæðingastaður tilraunamatseðla í gömlu og brakandi húsi við hlið aðalsafnsins í Feneyjum, Accademia. Frá bátastöðinni framan við safnið er farið hliðargötuna vinstra megin við það. Veitingahúsið er við götuna, við hlið samnefnds hótels, um 100 metra frá stöðinni.
Salurinn er tiltölulega einfaldur matsalur hótels, með þéttum bitum í lofti, frekar vönduðum innréttingum, þar á meðal renndum stólbökum, hvítum þiljum, listsýningaplakötum á veggjum, flísagólfi og ljósbláu líni. Þegar við vorum þar síðast, var þar Ísraelsvika með gömlum hebreskum uppskriftum úr bókinni: “La cucina nelli tradizione ebraica”.
• Uova ripiene de avocado = soðnar eggjahvítur, fylltar með lárperumauki í stað rauðu, bornar fram með smásöxuðum tómati og gúrku. • Falaffel con houmus e theina = snarpheitar, kringlóttar baunabollur, harðar utan, mjúkar innan, með heilsoðnum lauk og sesamfræjamauki. • Zuppa di pesce = fiskisúpa. • Mazzancolle in salsa verde = stórar rækjur í grænni sósu. • Avocado gratinado con scampi e curry = Ostbökuð og karríkrydduð lárpera með stórum rækjum. • Carciofi alla giudia = olíudjúpsteiktir ætiþistlar að hætti gyðinga. • Gnochi de zucca con ricotta affumicata = graskerjabollur með reyktum ricotta osti. • Arista di aiale al latte = bakaður svínabógur með mjólkursósu. • Manzo a la greca = nautasmásteik með graskeri og ætiþistlum. • Selvaggina di valle in salme = villibráðarpottur lónsins. • Frutta di stagione = epli, pera og kiwi. • Golosità al Muffato della Sala = harðar og vínvættar Feneyjakökur. • Kaffi hússins í glasi.
Ai Gondolieri
(Fondamenta Zorzi Bragadini, Dorsoduro 366. Sími: 528 6396. Lokað þriðjudaga. Verð: L.170000 (7191 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Skemmtileg veitingastofa í gömlu húsi á fallegum stað í Dorsoduro, á leiðinni milli Accademia og Santa Salute, um 300 metrum frá Accademia. Frá bátastöðinni er farið vinstra megin við Accademia og beygt þar til vinstri eftir vegvísum til Cini og Guggenheim safna. Um leið og komið er að skurðinum Rio della Torreselle er farið til hægri yfir brú að dyrum veitingastofunnar.
Frá barnum frammi við dyr eru nokkur þrep upp í lítinn og annasaman matsal með terrazzo-gólfi og listrænum plakötum á alþiljuðum veggjum, kertaljósum og blómaskreytingum. Fremst er borð með girnilegum tertum. Víður glervasi, fullur af hráu og fallegu grænmeti ósneiddu er borinn á borð meðan beðið er eftir matnum. Hópar eru settir í þröngan hliðarsal.
• Sformati = hrátt grænmeti, tvenns konar pipar, gúrka, kaffifífill, seljustönglar og fleira. • Petto de pollo tartufo con radiccio = kjúklingabrjóst með svartsveppum, kaffifífli og örlitlum tómötum. • Tagliere de polenta con funghi freschi = maísgrautar-pasta með sveppum. • Risotto di secole = smásaxað nautakjöt á hrísgrjónabeði að Feneyjahætti. • Verdure freschedi stagione = fjölbreytt hrásalat. • Specialità del giorno = léttsöltuð lambalærissneið þykk með léttsýrðu súrkáli og tærri grænmetissósu. • Filetto de angus ai ferri = ofnsteikt nautahryggsneið. • Scelta di formaggi freschi = þrír harðir ostar, grana og taleggio. • Varietà di dolci della casa = tertur af vagni hússins.
Al Campiello
(Calle dei Fuseri, San Marco 4346. Sími: 520 6396. Fax: 520 6396. Lokað mánudaga. Verð: L.180000 (7614 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Leikhúsgestastaður milli Markúsartorgs og Rialto brúar, um 300 metra frá torginu, nálægt Fenice og enn nær Goldoni leikhúsinu, heitir raunar eftir þekktasta gamanleik Goldoni. Frá vesturenda Markúsartorgs er gengið að verzlunargötunni Frezzeria, hún farin til hægri, áfram yfir brú og beint áfram eftir Calle dei Fuseri, þar sem beygt er til vinstri inn í húsasund.
Nútímalegur veitingastaðurinn er í þremur hlutum með opnunum á milli. Ljósrautt og ljósbrúnt veggfóður er á tómlegum veggjum og sums staðar nútímamálverk. Með veggjum eru vel fóðraðir bekkir og á grænu terrazzo-gólfi eru þægilegir og vandaðir stólar með bogadregnu baki. Þjónar í svörtum reykjökkum kunna vel til verka.
• Polenta con porcini e gorgonzola = sveppir með maísgraut, blönduðum gorgonzola-osti. • Mazzancolle con porcini all’aceto balsamico = stórar rækjur með porcini sveppum og kryddediki. • Crépes ai formaggio = ostur í eggjaköku. • Risotto di seppie = smokkfiskur á hrísgrjónum. • Fegato alla veneziana con polenta = kálfalifur með lauk og maísgraut að Feneyjahætti. • Insalata capricciosa = blandað hrásalat. • Coda di rospo alla siciliana = pönnusteiktur skötuselur með pönnusteiktu grænmeti, tómati, olífum og kartöflum. • Rombo alla griglia = grilluð þykkvalúra. • Frutta fresca di stagione = niðursneiddar melónur og perur. • Dolci al carrello = eftirréttir af vagni.
Al Conte Pescaor
(Piscina San Zulian, San Marco 544. Sími: 522 1483. Lokað sunnudaga. Verð: L.120000 (5076 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. C2)
Skemmtilega rómantískur fiskréttastaður rétt við Markúsartorg, 200 metra frá torginu. Farið er meðfram Markúsarkirkju norðanverðri og beygt til vinstri í Calle dei Specchieri, farið framhjá bakhlið San Zulian kirkju og beint áfram, unz komið er að veitingastaðnum. Hann er í tveimur húsum og á stétt fyrir framan annað húsið. Við förum í húsið, þar sem stéttin er ekki fyrir framan.
Innan við anddyrið eru freistandi forréttaskenkir. Innra er snyrtilegur, vinkillaga salur með ljósum veggjum, fagurlega skreyttum miklum fjölda fornra nytjagripa. Yfir borðum hanga fallegar smíðajárnsluktir niður úr dökkum bitum í lofti. Fagurlitar flísar eru í gólfi og hvítt lín á borðum. Gestir sitja á bekkjum við veggi eða í renndum stólum á móti, sums staðar í básum.
• Gamberetti olio e limone = rauðar rækjur í olíu og sítrónusafa. • Cicale di mare e cappesante = stórar rækjur og hörpufiskur. • Zuppa di pesce e crostini = fisk- og skelfisksúpa. • Risotto con gli scampi = stórar rækjur á hrísgrjónum. • Insalata verde = grænt hrásalat. • Orata ai ferri = pönnusteiktur brassi. • Scampi alla griglia = grillaðar rækjur stórar. • Fegato alla veneziana con polenta = kálfalifur með lauk og maísgraut að feneyskum hætti. • Macedonia di frutta fresca = ferskir ávextir niðurskornir.
Al Graspo de Ua
(Calle Bombaseri, San Marco 5094. Sími: 520 0150. Fax: 523 3917. Lokað mánudaga og þriðjudaga. Verð: L.160000 (6768 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Annasamur fjörstaður nokkur skref frá Rialto-brú. Frá suðurhlið brúarinnar er gengið yfir á austurbakkann, beint inn í sundið Bembola og svo beygt strax til hægri inn í næsta sund. Innan við innganginn er skenkur með soðnu grænmeti í hitakössum, sem við þurfum ekki að panta. Í stóru kæliborði er fallegt grænmeti og ávextir annars vegar og hins vegar ýmsir eftirréttir.
Opið er inn í eldhúsið. Veitingarýmið er á þrjá vegu handan skenksins, að hluta á upphækkuðum pöllum. Hangandi vínflöskurekkar og stórir svartir bitar í lofti einkenna staðinn, málaðir gylltum spakmælum. Parkett er á tveimur veggjum, lítil málverk mörg og þétt saman á einum vegg, annars staðar málverk og tilviljanakenndar ljósmyndir. Þjónar eru duglegir og óformlegir.
• Avocado con gamberetti in salsa rosa = lárpera og rækjur í kokkteilsósu. • Granceola de bragoseto al limone = sítrónuvætt krabbakjöt. • Tagliolini alla pescatora = skelfisk-pasta. • Insalatina = hrásalat. • Coda di rospo al forno = ofnsteiktur skötuselur með hvítum kartöflum og bökuðum tómati. • Sogliola di porto ai ferri = ofnsteiktur koli í portvíni. • Frutta del bosco = hindber og brómber. • Sacher mandorla = austurrísk súkkulaðiterta.
Alla Madonna
(Calle della Madonna, San Polo 594. Sími: 522 3824. Fax: 521 0167. Lokað miðvikudaga. Verð: L.115000 (4864 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Afar góður og annasamur matstaður, mikið sóttur af heimafólki, aðeins um 100 metra frá Rialto-brú. Gengið er frá vesturenda brúarinnar til vinstri eftir Riva del Vin og síðan beygt inn í sund, þar sem veitingastofan er á vinstri hönd.
Þröngt og þétt er setið í mörgum litlum herbergjum. Staðurinn er einfaldur að sniði, með miklum fjölda málverka á ljósum veggjum, þægilegum stólum og hvítu líni á borðum. Fljótvirkir og kunnáttusamir þjónar verða að þræða í króka milli borðanna, þar sem hávaðasamir gestir masa út í eitt. Stemmningin er lystaukandi.
• Gamberetti = rauðar rækjur í olíu og sítrónusafa. • Zuppa di pesce = fiskisúpa. • Sarde in saor = sýrðar sardínur. • Risotto pescatore = sjávarréttir á hrísgrjónum. • Pasta e fagioli = baunapasta. • Insalata mista di stagione = blandað hrásalat árstíðarinnar. • Rospo alla griglia = grillaður skötuselur. • Rombo alla griglia = grilluð þykkvalúra. • Macedonia di frutta = sneiddir ávextir ferskir.
Antica Bessetta
(Calle Savio, San Polo 1395. Sími: 72 1687. Lokað þriðjudaga og miðvikudaga. Verð: L.95000 (4018 kr) fyrir tvo. Greiðslukort ekki tekin. A1)
Eitt bezta og viðkunnanlegasta veitingahús borgarinnar er á afskekktum stað í San Polo, um 200 metra frá bátastöðinni Riva del Biasio. Frá stöðinni er farið eftir bakkanum til vinstri á enda, beygt þar til hægri og gengin Rio Terrà á enda, þar beygt aftur til hægri og síðan strax til vinstri inn í Salizzada Zusto. Matstofan er þar sem gatan endar í vinkli við Calle Savio.
Volpe-hjónin reka staðinn, hún í eldhúsinu og hann í hreinlegum og látlausum salnum, þar sem tugir margs konar málverka hanga á veggjum. Hún eldar hefðbundna sjávarrétti Feneyja. Matseðill er ekki á staðnum, heldur segir herra Volpe, sem talar litla sem enga ensku, frá því, sem er á boðstólum hverju sinni.
• Antipasto misto di pesce = tvær tegundir skelfisks, stór rækja, tveir litlir kolkrabbar, smokkfisksneiðar og sardína. • Risotto al pesce = skelfiskur á hrísgrjónum. • Moleche = djúpsteiktir fjörukrabbar. • Insalata mista = blandað hrásalat. • Rospo ai ferri = ofnsteiktur skötuselur. • Brizzola alla griglia = grillaður bassi. • Tiramisù = feneysk, kaffivætt ostakaka með stráðu súkkulaði. • Frutta fresca di stagione = ferskir ávextir árstíðarinnar.
Antica Carbonera
(Calle Bembo, San Marco 4648. Sími: 522 5479. Lokað þriðjudaga. Verð: L.125000 (5287 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Líflegt og alþýðlegt veitingahús 200 metra frá Rialto brú. Frá austurenda brúarinnar er farið suður bakkann Riva del Ferro og síðan beygt til vinstri í sundið Calle Bembo, þar sem staðurinn er hægra megin.
Innan dyra er skenkur, hlaðinn mat og víni. Að baki hans og vinstra megin eru borðin, sum í básum á pöllum við veggina og önnur á miðju gólfi. Básabökin eru lóðrétt og ekki þægileg, en stólbökin eru góð. Vönduð viðarþil ná upp á miðja veggi með ljósmyndum af frægu fólki á staðnum og tilviljanalegum málverkum. Gamlir, haltir og góðir þjónar eru afslappaðir og fjölskyldulegir.
• Granceola = kóngulóarkrabbakjöt borið fram í krabbaskel með sítrónu og rauðkáli. • Gamberetti alla limone = rauðar rækjur með sítrónu. • Scampi alla griglia = risarækja í skelinni. • Risotto di pesce = skelfiskréttir á hrísgrjónum. • Spaghetti alla seppie = smokkfiskur á spaghetti. • Legume di stagione = pönnusteikt grænmeti fjölbreytt. • Coda di rospo alla griglia = grillaður skötuselur. • Rognoncino trifolato = söxuð nýru í víni. • Fegato alla veneziana = kálfalifur og laukur. • Parmigiano = grana-ostur frá Parma. • Frutta fresca = epli og pera og klementínur.
Antica Locanda Montin
(Fondamenta di Borgo, Dorsoduro 1147. Sími: 522 7151. Fax: 520 0255. Lokað þriðjudaga og miðvikudaga. Verð: L.120000 (5076 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. A2)
Gamalkunnugt og afskekkt, en samt ekki nema 400 metra frá höfuðlistasafninu Accademia. Frá bátastöðinni við Accademia er farin merkt leið til vesturs í átt til Piazzale Roma. Eftir um 300 metra er merkt leið til vinstri um sund, sem farið er til skurðarins Rio della Eremite, þar sem beygt er til vinstri meðfram skurðinum.
Viðkunnanlegur veitingasalurinn er langur. Að baki innri enda hans er bakgarður, þar sem matast er í góðu veðri. Ljósir veggir ofan viðarþilja eru þétt setnir hverju málverkinu upp af öðru. Bleikt lín er á mörgum smáborðum, sem raðað er saman eða sundur eftir stærð gestahópa. Þjónusta er góð, en fjölskylda eigandans hangir aðgerðalítil við fremsta borðið upp við barinn.
• Granceola all’olio e limone = rifið krabbakjöt, blandað grænmeti, borið fram í krabbaskel. • Insalata di gamberoni e rucola = rækjusalat. • Rigatoni ai quattro formaggi = riffluð pastarör með ferns konar osti. • Insalata mista = blandað hrásalat í miklu magni. • Branzino ai ferri = pönnusteiktur barri. • Orata della corona ai ferri = pönnusteiktur brassi. • Bocconcini di pollo al curry con riso = smásaxaður kjúklingur í karrí á hrísgrjónum. • Formaggi = ostarnir gorgonzola, taleggio og grana. • Macedonia di frutta fresca = epli, vínber og kiwi. • Tiramisù = feneysk ostakaka kaffikrydduð.
Arcimboldo
(Calle dei Furlani, Castello 3219. Sími: 528 6569. Lokað þriðjudaga. Verð: L.190000 (8037 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. C2)
Skemmtilega innréttað og afskekkt fiskréttahús í rúmlega eins kílómetra fjarlægð frá hertogahöllinni. Genginn er lónsbakkinn Riva degli Schiavoni um 600 metra leið, unz komið er að Pietà kirkjunni. Handan hennar er beygt til vinstri og haldið norður ýmis sund, unz komið er að Calle del Lion, þar sem beygt er til hægri og haldið áfram yfir brú á Calle dei Furlani.
Á veggjum eru stórar eftirprentanir málverka eftir Arcimboldo, sem gerði mannsandlit í líki grænmetis og ávaxta á 16. öld. Grænir og bólstraðir sófar eru meðfram veggjum og stólar úti á flísagólfi. Loftið er grænt og línið er bleikt. Í miðju er langborð með forréttum og eftirréttum. Við salarenda er fallega útskorinn skenkur. Þjónusta er skóluð og góð og gestir ítalskir.
• Scampi in saor = legnar rækjur stórar með súrkáli. • Folpetti alla veneziana = kolkrabbi í súpu. • Zuppa di cozze e vongole in crosta = skelfisksúpa með brauðskorpu. • Insalata verde = grænt hrásalat. • Branzino alla griglia = grillaður bassi með grilluðu eggaldini, graskeri og rauðpipar. • Sogliola ai ferri = pönnusteiktur koli. • Sorbetto alla frutta = ávaxta-kraumís. • Frutti = ferskir ávextir í skál.
Cipriani
(Isola della Giudecca 10. Sími: 520 7744. Fax: 520 3930. Verð: L.340000 (14381 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. 92 herbergi. C2)
Eitt bezta veitingahús borgarinnar, á hóteli úti á eyjunni Giudecca, sem er handan San Marco lónsins andspænis borgarmiðjunni. Frá bátastöðinni Zitelle er gengið til vinstri lónsbakkann nánast alla leið á enda og þar beygt til hægri inn í húsasund að hótelinu, sem er á austurenda eyjarinnar, andspænis eyjunni San Giorgio Maggiore. Einnig er hægt að panta hótelbátinn.
Hótelið lætur mjög lítið yfir sér að utanverðu, en er glæsilegt að innan. Á kvöldin er borðað í virðulegum og spegilklæddum matsal í suðurenda hótelsins, en í hádeginu á opnum palli við friðsælan sundlaugargarðinn. Andrúmsloftið er rólegt og þjónustan kurteis með afbrigðum.
• Crespelle ai asparagi e taleggio = pönnukaka með ferskum spergli og osti. • Cozze in salsa piccante = hörpufiskur í ansjósu- og hvítvínssósu. • Tagliatelle con salsa di noci = pastaræmur með valhnetusósu. • Sogliole al marsala = smjörsoðinn koli í marsala rauðvíni. • Nocette di agnello = pönnusteikt lambakjöt. • Sorbetto di frutta = ávaxtakraumís. • Fragole di bosco con panna = skógartínd jarðarber með rjóma.
Corte Sconta
(Calle del Pestrin, Castello 3886. Sími: 522 7024. Lokað sunnudaga og mánudaga. Verð: L.170000 (7191 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. C2)
Látlaust matargerðarmusteri fyrir heimamenn á afskekktum stað um einn kílómetra frá hertogahöllinni. Farinn er lónsbakkinn Riva degli Schiavoni framhjá Pietà kirkjunni, yfir næstu brú, framhjá langri siglingahöllinni, síðan beygt til vinstri inn sundið Calle del Forno og framhald þess í Calle del Pestrin, sem gengið er alla leið til veitingahússins á hægri hönd.
Fyrir innan barinn eru nokkur borð, enn fleiri í hliðarherbergi samsíða barnum og flest í sal innan þess. Staðurinn er alþýðlegur, en hreinlegur. Öldruð borðin eru ber, með pappírsmottum og -þurrkum. Svartar veggþiljur eru neðan við nakta og skrautlausa veggi. Enginn er matseðillinn, en húsfreyja lætur strax bera húsvín á borð og segir frá helztu réttum dagsins.
• Zuppa di vongole = skeljar í súpu. • Antipasto misto di pesce = grillaðir sjávarréttir, tvenns konar sardínur, risarækja, rauðar rækjur, smokkfisk- og kolkrabbabitar. • Gnochi di gamberetti e asparagi = pasta með rækju og spergilbollum. • Insalata mista = blandað hrásalat. • Secundo = risarækjur, koli og skötuselur, allt grillað. • Triglie alla griglia = grillaður sæskeggur. • Tiramisù = feneysk ostakaka. • Grana = harður, ítalskur ostur með rifsberjum. • Kaffi hússins í glasi.
Da Silvio
(Calle San Pantalon, Dorsoduro 3748-3818. Sími: 520 5833. Lokað sunnudaga. Verð: L.80000 (3384 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. A2)
Látlaus hverfismatstofa matgæðinga í hópi heimafólks er á leiðinni milli kirknanna Santa Maria Gloriosa dei Frari og San Pantalon. Frá Frari er farið annað sundið vinstra megin við Scuola Grande di San Rocco og gengin 100 metra leið næstum alla leið að San Pantalon. Staðurinn er vinstra megin sundsins.
Fremri matstofan er einföld, lítil og notaleg, en hin innri til hliðar er fremur berangursleg. Í fremri stofunni er vönduð veggklæðning. Aftan við salina er bakgarður með nokkrum borðum. Hvítt lín er á borðum og munnþurrkur úr pappír.
• Sfilacci di cavallo = rauðir kryddpylsuþræðir með salatblöðum. • Breasola con scaglie di parmigiano = þurrkað saltkjöt með parma osti. • Spaghetti alla vongole = skelfiskur á spaghetti. • Insalata capricciosa = ferskt hrásalat. • Sogliola ai ferri = pönnusteiktur koli. • Braciola ai ferri = pönnusteikt rifjasteik. • Scaloppe parmigiana = kálfasneiðar undir bráðnu ostþaki. • Frutta di stagione al pezzo = tvenns konar epli, mandarínur og vínber. • Parmigiano = parma ostur.
Do Forni
(Calle dei Specchieri, San Marco 457/468. Sími: 523 7729. Fax: 528 8132. Lokað fimmtudaga. Verð: L.170000 (7191 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. C2)
Vel þekkt veitingahús í tveimur sölum rétt við Markúsartorg. Gengið er meðfram norðurhlið Markúsarkirkju og síðan beygt til vinstri sundið Calle dei Specchiere, sem liggur að veitingahúsinu.
Salirnir eru misjafnir, annar sveitalegur, með fornum nytjahlutum á veggjum, og hinn nútímalegur, einfaldur í sniðum. Þjónustan er hröð og nokkuð góð, en líður fyrir, hversu stór staðurinn er. Fordrykkur er gefinn í upphafi máltíðar og sætar kökur með kaffinu.
• Prosciutto San Daniele = hráskinka frá San Danieli. • Baccalà mantecato con polenta = plokkaður saltfiskur með maísgraut. • Risotto di frutti di mare = sjávarréttir á hrísgrjónum. • Tagliolini all’astice = pasta með humarsósu. • Insalata verde = grænt hrásalat. • Scampi giganti alla griglia = grillaðar rækjur stórar. • Branzino al forno con patate = ofnsteiktur brassi með kartöflum. • Lamponi = hindber
Fiaschetteria Toscana
(San Crisostomo, Cannaregio 5719. Sími: 528 5281. Lokað þriðjudaga. Verð: L.140000 (5922 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Góður og skemmtilegur matstaður á gönguleiðinni milli Rialto og Ferrovia, um 300 metra frá Rialto brú. Gengið er frá austurenda brúarinnar merkta leið til Ferrovia. Eftir um 300 metra er komið að kirkjunni San Crisostomo, sem er nokkurn veginn andspænis veitingastofunni við götuna.
Bezt er að vera á jarðhæðinni, þar sem innréttingar eru skemmtilegar. Innan við dyrnar er forrétta-, eftirrétta- og borðvínsskenkur að ítölskum hætti. Borðin eru til beggja hliða og fyrir innan. Röð sívalra marmarasúlna skiptir staðnum í tvennt. Á veggjum er mörgum smámyndum raðað saman í ramma. Þjónar eru misjafnir, sumir ekki yfir það hafnir að koma með aðra en umbeðna rétti.
• Moscardini con polenta = litlir kolkrabbar í sósu á maísgraut. • Schie condite con polenta = gráar rækjur með maísgraut. • Rombo al burro nero e capperi = pönnusteikt þykkvalúra með svartsmjöri og kapers og kartöflum. • Caparozzoli alla marinara = skelfiskur með steinselju og hvítlauk. • Tagliolini con la granzeola = krabbakjöt á pasta. • Anguilla alla griglia = grillaður áll. • Filetto al barolo = rauðvínskryddaður nautahryggvöðvi. • Formaggi = gorgonzola, taleggio og montasio ostar. • Tiramisù = feneysk ostakaka með kaffidufti.
Galuppi
(Via Galuppi, Burano. Sími: 73 0081. Lokað fimmtudaga. Verð: L.116000 (4907 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. )
Fjörugur og vinsæll veitingastaður við aðalgötuna á Burano. Frá bátastöðinni er genginn götustúfur að megingötunni, sem liggur til vinstri í átt til kirkjunnar. Staðurinn er miðja vega á þeirri leið, hægra megin götunnar.
Langur og mjór, snyrtilega innréttaður og mikið skreyttur málverkum upp um alla veggi. Gestir sitja mest í plastklæddum básum. Þrátt fyrir ferðamannaflauminn er mest af heimamönnum hér.
• Gamberi = rækjur í olíu og sítrónusafa. • Scampi e calamari fritto = djúpsteiktar rækjur stórar og smokkfiskur. • Risi e bisi = þykk Feneyjasúpa með skinku, lauk, baunum, hrísgrjónum og grana osti. • Tagliatelle verdi con funghi = grænar pastaræmur með sveppum. • Polenta e fontina in torta = ofnsteikt lög af maísgraut og osti. • Polipo alla luciana = soðinn kolkrabbi. • Tiramisù = feneysk ostakaka með kaffidufti.
Gritti
(Campo Santa Maria del Giglio, 2467. Sími: 79 4611. Fax: 520 0942. Verð: L.280000 (11843 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. 93 herbergi. B2)
Eitt bezta veitingahúsið er í gömlu hallarhóteli við bakka Canal Grande, um 100 metra frá bátastöðinni Santa Maria del Giglio. Farið er sundið frá bakkanum, beygt til hægri við fyrsta tækifæri og síðan aftur til hægri.
Meðfram endilangri jarðhæðinni eru breiðar kaffisvalir við Canal Grande. Að baki þeirra er virðulegur matsalur í hreinum svifstíl. Stólar, rammar og vegglampar eru í sama stílnum. Í lofti eru skrautmálaðir burðarbitar og í gólfi gljáandi marmari. Djúpar sessur eru í hægindastólum við borðið. Hvítt lín er á borðum. Þjónusta er afar fáguð. Reyktur lax léttir skoðun matseðils.
• La breasola con rucoletta e cetriolo = loftþurrkað nautakjöt með rucola salati og litlum gúrkuteningum. • Il capricio di mozzarella con pomodoro e basilic fresco = mozzarella ostur með tómati. • Il risotto al nero di seppia = kolkrabbi í svartri sósu á hrísgrjónum. • Le insalate preparate del carello = hrásalat blandað af vagni. • Gli scampi al forno con carciofi = smjörsteiktar rækjur á pönnu með hvítum kartöflum, strengbaunum og ætiþistli. • I calamari al vapore con sedano, cetrioli e crema di melanzane = gufusoðinn kolkrabbi með seljustönglum, gúrku og eggaldinkremi. • La pescatrice alla brace con verdure e salsa tatara = grillaður skötuselur með steiktu grænmeti og tartarsósu. • Frutti di bosco = villijarðarber, ræktuð jarðarber og kirsuber með rjóma. • Semifreddo alle zabaione = ís með þeyttum eggjarauðum rauðvínsblönduðum.
Harry’s Bar
(Calle Vallaresso, San Marco 1323. Sími: 528 5777. Fax: 520 8822. Lokað mánudaga. Verð: L.360000 (15227 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Frægasti bar heimsins er einnig veitingahús, steinsnar frá suðvesturhorni Markúsartorgs. Farið er inn götuna Salizzada San Moisè og beygt inn fyrsta sund til vinstri. Barinn er þar frammi á bakka vinstra megin. Stemmning staðarins byggist annars vegar á stöðu hans í bókmenntasögu aldarinnar og á yfirstétt Feneyja, sem hefur gert hann að stefnumótsstað sínum.
Vel stæðir Feneyingar eru hér fjölmennari en bandarískir ferðamenn, sem eru að endurlifa skáldsögu Hemingways, “Yfir ána og inn í skóginn”. Bezt er að borða við sófaborðin niðri á einföldum og látlausum barnum á jarðhæðinni, fremur en í hversdagslegum og þéttskipuðum veitingasölum á efri hæð. Vel er tekið á móti tilviljanagestum og þeim er ekki skipað í óæðri flokk.
• Spremuta di pesce = pressaður fiskisafi. • Asparagi = grænn spergill með eggjasósu. • Carpaccio alla Cipriani = kryddlegið nautakjöt. • Tagliolini con prosciutto = pastaræmur með reyktu svínakjöti. • Tagliatelle seppie = pastaræmur með smokkfiski. • Tournedos rossini = nautaturnbauti með gæsalifrarkæfu.
Hemingway: “Then he was pulling open the door of Harry’s bar and was inside and had made it again, and was at home” (Across the River and Into the Trees).
La Caravella
(Calle larga 22. Marzo, San Marco 2396. Sími: 520 8901. Verð: L.200000 (8460 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Glæsilegur veizlusalur á bezta stað í bænum, við aðalgötuna, sem liggur frá suðvesturhorni Markúsartorgs í áttina til Accademia-brúar. Veitingastofan er hægra megin aðalgötunnar, þar sem hún er breiðust og hátízkuverzlanirnar dýrastar. Ráðlegt er að panta með góðum fyrirvara.
Eftirlíking veizlusalar í feneyskri galeiðu, með eðalviði í hólf og gólf, með sjóminjum á veggjum, steindum gluggum, stýri og mastri á miðju gólfi, kompási, bjöllu og öðru slíku. Staðurinn er jafnan sneisafullur og fólk á barnum að bíða eftir plássi. Þjónar þjóta fram og aftur í þrautskipulögðu kerfi, sem hvergi ber skugga á. Þetta er fínn staður og ekki mjög dýr.
• La zuppe di pesce alla peccatora = tær sjávarréttasúpa með skelfiski, rækju og fiski. • La breasola della valtellina con rucola = þurrkað saltkjöt með salati. • Le linguine alle cappesante = hörpufiskur á pastaþráðum. • I gnochette al gorgonzola = gráðostbollur. • Insalata servita con crostacei e pesce = hefðbundið hrásalat. • Gli scampi giganti ai ferri salsa lucifero = bakaðar risarækjur. • Il rombo ai ferri al burro fuso e capperi = þykkvalúra með hvítum kartöflum. • Il filetto di bue all’arancio alla bigarade = nautahryggsneið með appelsínubarkarsósu. • Formaggi = gorgonzola, taleggio og bel paese ostar. • Il sottobosco di stagione = fimm tegundir af skógartíndum berjum. • Il gelato allo champagne = kampavínsís.
La Colomba
(Piscina di Frezzeria, San Marco 1665. Sími: 522 1175. Fax: 522 1468. Lokað miðvikudaga. Verð: L.270000 (11420 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Virðulegt veitingahús með listaverkum þekktra nútímamálara rétt hjá Markúsartorgi. Frá vesturenda torgsins er gengið 50 metra vestur að Frezzeria, beygt þá götu til hægri og síðan til vinstri í Campo di Piscina, sem fljótlega heitir Piscina di Frezzeria, þar sem staðurinn er á hægri hönd.
Húsbúnaður er vandaður, smekklegur og þægilegur. Málverk eru um alla veggi í nokkrum björtum stofum. Fyrir framan eru allmörg borð úti á stétt. Þjónusta er vel skóluð og vel klædd.
• Baccalà mantecato con polenta = plokkaður saltfiskur, blandaður eggjum og jurtum, borinn fram með pönnusteiktum maísgraut, skornum í ferninga. • Seppioline alla griglia con polenta = grillaður smokkfiskur með maísgraut. • Tagliolini con scampi e zucchine = pastaræmur með stórum rækjum og graskeri. • Legumi di stagione = hrásalat árstíðarinnar. • Coda di rospo alla Colomba = pönnusteiktur skötuselur. • Tagliata di bue con verdure alla griglia = grilluð nautahryggsneið með grilluðum sneiðum af kartöflum, eggaldini, graskeri og tómati. • Frutta di stagione = ferskir ávextir árstíðarinnar. • Macedonia di frutta fresca = sneiddir ávextir ferskir.
La Fenice
(Campiello de la Fenice. Sími: 522 3856. Lokað mánudagshádegi og sunnudaga. Verð: L.250000 (10574 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Inni- og útiveitingastaður á litlu torgi við hlið Fenice óperuhússins, í sama húsi og samnefnt hótel, um 500 metra frá suðvesturhorni Markúsartorgs. Þaðan er farin Salizzada San Moisè og síðan Calle larga 22. Marzo, þaðan sem beygt er til hægri eftir sundinu Calle delle Veste inn á Campo San Fantin framan við leikhúsið. Loks er farið hægra megin við leikhúsið.
Veitingahúsið er gamalkunnugt, nokkuð stórt og fremur venjulegt að búnaði. Mikill hluti rýmisins er úti á stétt, þar sem er rýmra og þægilegra að vera. Þjónusta er dálítið skipulagslítil, en allir eru alténd á þönum að reyna að gera sitt bezta.
• Gamberetti di laguna = rækjur í olíu og sítrónusafa. • Contorni insalate = blandað hrásalat. • Tournedos all’americana = nautahryggsteik vafin með skinku. • Dolci dal carrello = tertur af vagni.
La Furatola
(Calle lunga Santa Barnaba. Dorsoduro 2870a. Sími: 520 8594. Lokað miðvikudaga og fimmtudaga. Verð: L.110000 (4653 kr) fyrir tvo. Greiðslukort ekki tekin. A2)
Afar góður hverfismatstaður heimamanna í Dorsoduro, í næsta nágrenni Ca´ Rezzonico bátastöðvar, tæplega 400 metra leið. Frá stöðinni er farin gatan Calle dei Traghetto til torgsins Campo San Barnaba og beint áfram eftir Calle lunga Santa Barnaba, þar sem staðurinn lætur lítið yfir sér á hægri hönd.
Skemmtilegar ljósmyndir frá gömlu Feneyjum hanga á veggjum innan um safngripi af ýmsu tagi. Fyrir enda salarins er opið inn í eldhús, þar sem Bruno sér um matreiðsluna og þaðan sem góða matarlykt leggur um salinn. Sandro er í salnum og sér um, að gestir fái sitt og þeim líði vel. Gult lín er á borðum. Frammi við dyr eru forréttir á borði og Sandro sýnir okkur þá fiska, sem í boði eru.
• Canoice, gamberetti, polpielle = stórar rækjur, rauðar rækjur, kolkrabbi og fiskur, borið fram kalt. • Spaghetti con salsa di pesce = smábitar af fiski í brúnni fisksósu á spaghetti. • Insalate miste di stagione = grænt hrásalat árstíðarinnar. • Orata alla griglia = grillaður brassi, seldur eftir þunga. • Branzino alla griglia = grillaður bassi, seldur eftir þunga. • Il formaggio delle colline venete = úrval osta frá upphéruðum Feneyja og Friuli. • La frutta di stagione = ávextir árstíðarinnar.
Locanda Cipriani
(Torcello. Sími: 73 0150. Fax: 73 5433. Lokað þriðjudaga. Verð: L.220000 (9306 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. )
Heimsfrægur og lágreistur matgæðingastaður í gróðursælu umhverfi á gönguleiðinni frá bátastöð Torcello-eyjar að hinni ævafornu Santa Maria dell’Asunta. Veitingastaðurinn sendir hraðbát eftir þér til bátastöðvarinnar við Markúsartorg og tekur ferðin þá 35 mínútur. Áætlunarbáturinn er mun lengur á leiðinni, en hentar vel, ef um dagsferð er að ræða.
Þetta er fyrst og fremst hádegisverðarstaður. Mest er snætt í stórum bakgarði, sem liggur aftan eldhússins við hlið þekkts grænmetisgarðs hússins. Framan við eldhúsið er bar fyrir þreytta ferðamenn, er hafa verið að skoða fornmenjar eyjarinnar. Frá veitingagarðinum er gott útsýni til kirknanna tveggja, sem eru aðdráttarafl eyjarinnar.
• Fritto misto = blandaðir sjávarréttir djúpsteiktir. • Risotto alla Torcello = grænmeti úr garðinum á hrísgrjónabeði. • Scampi alla griglia = grillaðar rækjur stórar. • Rombo ai ferri = pönnusteikt þykkvalúra. • Crostata di frutti = ávaxtabaka.
Poste Vecie
(Pescheria di Rialto, San Polo 1608. Sími: 72 1822. Fax: 91 3955. Lokað þriðjudaga. Verð: L.160000 (6768 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Sameinar vinsældir og gæði, afar vel í sveit sett, beint fyrir framan fiskmarkað borgarinnar. Til markaðarins Pescheria er um 400 metra leið frá vesturenda Rialto brúar eftir markaðsgötunni Ruga degli Orefici og Ruga degli Speziali í framhaldi af henni. Frá Pescheria er farið yfir einkabrú að dyrum veitingastaðarins.
Borðað er í tveimur snyrtilega innréttuðum stofum. Heljarmikill arinn er í fremri stofunni. Viðarþiljur eru langt upp eftir veggjum og veggmálverkalengjur þar fyrir ofan. Þjónusta er ágæt.
• Fritto misto di mare = blandaðir sjávarréttir djúpsteiktir. • Vongole alla marinare = skelfiskur með steinselju og hvítlauk. • Tagliolini di pesce = sjávarrétta-pasta. • Baccalà alla vicentina = ofnbakaður saltfiskur með lauk, tómati, gúrku, kapers og olífum. • Rombo al forno = ofnsteikt þykkvalúra. • Dolci al carrello = eftirréttir af vagni.
Rivetta
(Ponte San Provolo, Castello 4625. Sími: 528 7302. Lokað mánudaga. Verð: L.80000 (3384 kr) fyrir tvo. Greiðslukort ekki tekin. C2)
Einn skemmtilegasti og vinsælasti hverfismatstaður heimamanna er falinn undir brú að baki Danieli hótels. Frá lónsbakkanum Riva degli Schiavoni er gengið vinstra megin við gömlu aðalbyggingu hótelsins inn sundið Calle delle Rasse og beygt til hægri við fyrsta tækifæri í Salizzada San Provolo. Þegar sú gata mætir fyrstu brú, er staðurinn hægra megin við brúna.
Borð eru ekki tekin frá og oft er þröng á þingi í anddyrinu, þar sem fólk bíður eftir sæti og sýpur hvítvín, sem vertinn býður. Staðurinn er þétt skipaður borðum og stólum, en snyrtilegur, með ljósum viði í veggjum og töluverðu af málverkum. Marglitar ungstílskrónur varpa ljósi á staðinn. Verðið er eitt hið lægsta í borginni af matstöðum með hágæða matreiðslu.
• Antipasto di pesce = kryddlegnir sjávarréttir, tvenns konar rækjur, síld, sardínur, kolkrabbi, smokkfiskur og tvenns konar fiskur. • Pasta e fagioli = bauna-pasta. • Spaghetti al nero di seppia = svart spaghetti með kolkrabbasósu. • Insalata mista = blandað hrásalat. • Gamberoni ai ferri = stórar rækjur grillaðar á teini. • Scampi griglia = grillaðar rækjur stórar. • Costata di bue alle griglia = grilluð nautasteik. • Scaloppe di vitello al marsala = kálfalærissneið í marsala-rauðvíni. • Formaggi = taleggio, gorgonzola og grana ostar. • Tiramisù = feneysk ostakaka kaffikrydduð.
Terrazza
(Riva degli Schiavoni, Castello 4196. Sími: 522 6480. Fax: 520 0208. Verð: L.270000 (11420 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. C2)
Virðulegur útsýnismatstaður á efstu hæð hins sögufræga Danieli-hótels, tæplega 100 metra frá sjálfri hertogahöllinni.
Einfaldur og glæsilegur vinkillaga salur, með stórum gluggum og svölum fyrir framan, er hvítur og bjartur. Þykkt teppi er á gólfi og feneysk svifstílsljós í lofti. Hér er í boði lúxusmatur og lúxusþjónusta og lúxusverð að hætti hússins.
• Medaglioni di astice su soncino all’olio di tartufo = humar á salati með svartsveppaolíu. • Insalatina di carciofi rucola e code di scampi = ætiþistils-salat með stórum rækjum. • Vermicelli alle vongole veraci = skelja-spaghetti. • Tagliatelle alla buranella = eggja-pasta með kolaflaki, rækjum og hvítri sósu. • Risotto del pescatore = sjávarréttir á hrísgrjónabeði. • Tortino caldo di verdure e ricotta su salsa di pomodoro = soðin grænmetisterta með ricotta osti og tómatsósu. • Varietà di insalate miste = blandað hrásalat. • Scampi giganti al profumo di prezzemolo = risarækjur með steinselju. • Grigliata di pesci e crostacei dell’Adriatico = grillaður fiskur og skelfiskur úr Adríahafi. • Ventaglio di manzo al dragoncello = þunnar nautahryggsneiðar með tarragon-sósu. • Carrello di formaggi assortiti = ostavagn. • Carrello dei dolci = tertuvagn. • Crespelle del doge alla fiamma = eldsteiktar pönnukökur.
Tiepolo
(Calle larga 22. Marzo, San Marco 2159. Sími: 520 0477. Fax: 523 1533. Verð: L.240000 (10152 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B2)
Virðulegur matsalur Europe e Regina hótels með útsýnisgluggum út að Canal Grande. Frá suðvesturhorni Markúsartorgs er farið eftir Salizzada San Moise, yfir brúna og til vinstri ómerkta leið framhjá gondólaræðurunum til að komast að hótelanddyrinu. Andspænis móttökunni er reyksalur og úr honum er gengið í matsalinn.
Salurinn er stílhreinn og bjartur, plöntum skrýddur. Þjónusta er afar góð, svo sem við er að búast í þessum háa verðflokki. Hægt er fá matseðil dagsins á mun mildara verði, L. 150000 fyrir tvo.
• Affettato di cervo e cinghiale affumicato = reykt hjartar- og villisvínakjöt. • Breasola della valtellina con rucola e spicchi di pompelmo = saltað nautakjöt með salati og greipaldini. • Bigoli in salsa = feneyskt spaghetti með lauk og ansjósusósu. • Tagliolini verdi al granchio = grænt pasta með krabbakjöti. • Insalatine degli orti veneti = grænt Feneyjasalat. • Filetti di orata al tartufo nero = brassaflak með svartsveppum. • Tagliata de manzo ai profumi di stagione = nautahryggvöðvi með grænmeti árstíðarinnar. • Scelta di formaggi tipici del carrello = ostaval héraðsins af vagni. • Assortimento di frutta di stagione = ávextir árstíðarinnar.
Vini da Gigio
(Fondamenta di Chiesa, Cannaregio 3628a. Sími: 528 5140. Lokað mánudaga. Verð: L.116000 (4907 kr) fyrir tvo. Öll helztu greiðslukort. B1)
Skemmtileg og heimilisleg hverfismatstofa í Cannaregio-hverfinu, steinsnar frá breiðgötunni milli Ferrovia og Rialto, Strada Nova, um 1 km. frá Rialto. Þegar komið er að kirkjunni San Felice er beygt til hægri meðfram kirkjunni og verður þá strax fyrir veitingastofan.
Staðurinn er svo vinsæll, að hann fyllist um leið og opnað er í hádeginu. Flestir gestir virðast þekkja starfsfólkið og heilsa með ítölskum fagnaðarlátum. Staðurinn er í nokkrum stofum, einföldum og snyrtilegum. Opið er inn í eldhúsið. Í lofti eru fornir bitar og steinflísar eru á gólfi, eins og víðast hvar í veitingahúsum Feneyja.
• Baccalà mantecato con polenta = plokkaður saltfiskur með grillaðri maísgrautarköku að feneyskum hætti. • Cappesante alla veneziana = hörpudiskur borinn fram í skeljum með kryddsmjöri. • Antipasto di verdure = grænmetisforréttur. • Insalata mista = blandað hrásalat. • Anguilla alla griglia = grillaður áll með sítrónu og maísgraut. • Fegato alla veneziana con polenta = kálfalifur og laukur með maísgraut. • Filetto di manzo = nautahryggsneið. • Castelmagno con miele di Corbezzolo = hunangsterta hússins. • Fantasia di formaggi = fimm ostar.
Florian
(Lokað miðvikudaga. B2)
Elzta kaffihús borgarinnar, frá 1720, frægast í heimi næst á eftir Caffè Greco í Róm. Það er í nokkrum samhliða smástofum við suðurhlið Markúsartorgs. Innréttingarnar eru frá 19. öld, óteljandi speglar og veggmyndir undir gleri í veggjum og lofti. Gestir sitja á fremur slitnum, rauðbólstruðum bekkjum við marmaraborð á marmarafæti á parkettgólfi og sötra 300 króna kaffi.
Fyrrum var þetta samkomustaður menningarvita hvaðanæva að úr heiminum, sem margir dvöldust langtímum saman í Feneyjum. Utan ferðamannatímans er notalegt að kaupa sér dagblöðin í nágrenninu og fá sér morgunhressingu með lestrinum á Florian. Andrúmsloftið er þá friðsælt og aldagamlir straumar liggja í loftinu. Þetta er bezti letistaður borgarinnar.
Quadri
(Lokað mánudaga. B2)
Annað af hinum tveimur heimsfrægu kaffihúsum við Markúsartorg. Þetta er fínlegra og ódýrara kaffihúsið, við norðanverða torghliðina, með dúkuðum borðum og stólum um allt gólf, en bólstruðum og dúnmjúkum bekkjum með veggjum. Sívalar súlur skipta stofunni í tvennt. Einkenni staðarins eru skrautmálaðir veggir og veggspeglar. Þjónusta er afar góð inni, en síður úti.
1996
© Jónas Kristjánsson
