Feneyjar inngangur

Ferðir

Jónas Kristjánsson ritstjóri

Feneyjar engu líkar

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Bókarstefna

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda komi heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson

Feneyjar eru einstæðar. Helzta umferðaræðin er stórfljót með röðum glæsihalla á bakkanum. Bátar eru farartæki allra vöruflutninga og almenningssamgangna. Að öðru leyti er umferðin fótgangandi. Engin hávaða- eða loftmengun er frá bílum, sem engir eru. Hressandi sjávarloftið í borginni fyllist ölduniði náttúrunnar og orðaniði mannlífsins. Streita nútímans á hér hvergi heima.

Þótt borgin sé orðin að safni um stórveldistíma liðinna alda, búa þar enn tugir þúsunda, um helmingur af því, sem mest var. Annað eins kemur af fólki af landi til starfa á morgnana og hverfur heim til sín á kvöldin. Þar við bætast ferðamennirnir. Feneyjar eru lifandi borg, þótt henni hafi hnignað á síðustu öldum. En hún er ekki fjörug, heldur bæði morgunsvæf og kvöldsvæf.

Borgin er samfellt listaverk og samfelld listasaga. Hver kirkja er full af dýrgripum gömlu meistaranna. Sumar gömlu hallirnar eru orðnar að listasöfnum og önnur að hótelum. Hún er full af veitingahúsum, sem bjóða gott sjávarfang úr Adríahafi. Hún er full af bátum, allt frá einærum gondólum yfir í hraðskreiða leigubáta. Hún er menningarsinnuðum ferðamanni samfelld slökun.

Saga

Feneyingar eru að stofni afkomendur Veneta, sem bjuggu á óshólmum Pó-dals á valdatíma Rómverja. Árásir þjóðflutningatímans hröktu fólkið út á fenjamiðju, þar sem borgin var stofnuð á rúmlega hundrað hólmum, árið 421 samkvæmt bókum Feneyinga. Þeir ráku staura niður í leðjuna, reistu hús sín á þeim og tengdu smám saman tugi hólma með skurðum og brúm, sem æ síðan hafa einkennt borgina.

Feneyingar horfðu út á hafið og urðu smám saman miklir sjómenn og kaupsýslumenn. Ófærir óshólmar vörðu borgina landmegin og skipakostur þeirra sjávarmegin. Þeir hófu snemma viðskipti við Miklagarð, helztu stórborg þess tíma og urðu fyrir miklum áhrifum frá býzanskri list. Á miðöldum juku þeir sæveldi sitt um austanvert Miðjarðarhaf og unnu sigur á Miklagarði 1204.

Meðan aðrar borgir Ítalíu sættu borgarastyrjöldum á endurreisnartíma, bjuggu Feneyingar við vel skipulagt lýðveldi um það bil 2000 höfðingja, sem kusu sér hertoga. Þetta höfðingjaveldi stóðst áfallalítið í ellefu aldir, unz Napóleon batt enda á það án vopnaviðskipta í lok 18. aldar. Feneyjum byrjaði að hnigna á 16. öld, þegar Atlantshafið tók við af Miðjarðarhafi sem heimshafið.

Verndun

Feneyjar hafa verið að síga í sæ, aðallega á síðustu áratugum. Stafar það einkum af uppþurrkun lands vegna útþenslu iðnaðar í nágrannaborgunum Mestre og Porto Marghera og vegna óhóflegrar notkunar á tilbúnum áburði í Pó-dal. Þá hefur notkun vélbáta valdið ókyrrð í síkjum og veikt undirstöður húsanna. Með ýmsum aðgerðum hefur landsigið hægt á sér, en alls ekki stöðvazt.

Eldhætta er mikil í borginni vegna hins takmarkalitla kæruleysis, sem einkennir borgarstjórnina eins og fleiri slíkar á Ítalíu. Ómetanleg listaverk, margra alda og þúsund ára gömul eru í stöðugri hættu vegna afleitra eldvarna í borginni. Þetta kom vel í ljós, þegar óperuhúsið Fenice brann í ársbyrjun 1996.

Hallir

Hundruð halla þekja síkisbakka Feneyja. Þær snúa yfirleitt fögrum framhliðum að vatninu og einföldum bakhliðum að göngugötum. Oftast eru þær fjórar hæðir. Neðst voru vörugeymslur og skrifstofur. Þar fyrir ofan voru stofur á helztu glæsihæðinni, piano nobile. Þriðja hæðin var íbúðarhæð fjölskyldunnar og á fjórðu hæð bjuggu þjónarnir.

Elztu og fegurstu hallir Feneyja eru frá 13. öld. Þær eru í býzönskum stíl með léttum og háum bogariðum á grönnum súlum, sem ná þvert yfir veizlustofuhæð framhliðarinnar. Palazzo Loredan er gott dæmi. Flestar eru gotnesku hallirnar, frá 13.-15.öld og einkennast of oddbogum, oddmjóum gluggum og blúndugluggum. Palazzo Foscari er gott dæmi um þennan stíl.

Frá 15.-16.öld eru þyngri hallir í endurreisnarstíl, samhverfar og mælirænar, með riffluðum súlum og kórinþskum súluhöfðum. Ca’Grande er gott dæmi. Frá 17. öld eru svo þunglamalegar hlaðstílshallir með ýktu skrautflúri og djúpum gluggum á framhliðum. Ca’Pesaro er gott dæmi um þann stíl.

List

Feneyskir málarar, fæddir þar eða búsettir, voru allar aldir meðal fremstu listamanna Ítalíu. Þeir kynntu ekki nýjungar á borð við gotneskan stíl og endurreisnarstíl, en þeir tóku þær upp og gerðu þær að hefð. Róm og Flórenz eru frægari fyrir einstök tímabil ítalskrar listar, en Feneyjar eiga mikla listamenn frá öllum þessum tímabilum. Og málverk þeirra eru enn í Feneyjum.

Feneysk list fæddist af meiði Miklagarðs og blandaði saman býzönskum stíl og gotneskum. Mósaík og gullinn litur einkennir fyrstu listamenn Feneyja, svo sem frændurna Paolo og Lorenzo Veneziano. Síðan komu Jacopo Bellini, bræðurnir Gentile og Giovanni Bellini, Andrea Mantegna, Bartolomeo Vivarini og Vittoro Carpaccio með skarpar myndir á frumskeiði endurreisnartímans.

Háskeið endurreisnartímans endurspeglast svo í leik ljóss og skugga í málverkum Tiziano, Tintoretto og Paolo Veronese. Helztu fulltrúar Feneyja frá tímum hlaðstíls og svifstíls voru svo Canaletto, Pietro Longhi og frændurnir Giambattista og Giandomenico Tiepolo. Í nánast hverri af hinum mörgu kirkjum Feneyja má finna málverk eftir þessa heimsfrægu meistara.

Gondólar

Gondólar eru eitt helzta einkennistákn Feneyja, smíðaðir í 1000 ára gömlum stíl, breiðari öðrum megin til að vega upp á móti einni ár. Gondólarnir eru allir svartir, 11 metra langir, vandlega smíðaðir úr níu viðartegundum og kosta yfir eina milljón króna hver. Þegar þeir voru helzta samgöngutæki borgarinnar, voru þeir um 10.000, en núna eru þeir 400.

Þegar Feneyjar urðu ferðamannaborg, breyttust gondólarnir úr hversdagslegu samgöngutæki yfir í rómantískan unað, þar sem ræðarinn söng aríur fyrir ástfangin farþegapör. Þriðja stigið kom svo með japönskum ferðamönnum, sem fara fjölmennir saman í gondólum um Canal Grande og hafa með sér harmoníkuleikara og aríusöngvara. Sú er helzt notkun gondóla nú á tímum.

Kjötkveðjuhátíð

Karnívalið í Feneyjum er elzta og sögufrægasta kjötkveðjuhátíð heims og hófst á 11. öld. Framan af var það tveggja mánaða veizla, en stendur núna í tíu daga fyrir föstubyrjun í febrúar. Fólk klæðist grímubúningum, fer í skrúðgöngur og reynir að sleppa fram af sér taumunum. Margir búningarnir eru stórkostlegir og grímurnar eru ein helzta ferðamannavara borgarinnar.

Bankar

Bankar eru opnir mánudaga-föstudaga 8:30-13:30 og 14:30-15:30. Skiptu peningum í bönkum eða gjaldeyrisstofum, cambio, en ekki á hótelum. Sumir bankar skipta gjaldeyri bara á morgnana. Á Marco Polo flugvelli við Feneyjar er gjaldeyrisstofa opin allan daginn.

Ferðir

Uffici Informazioni, Piazza San Marco 71c. Sími: 522 6356.

Flug

Leigubíll er 15 mínútur frá Marco Polo flugvelli til Piazzale Roma í Feneyjum. Áætlunarbíll er 30 mínútur og kostar L. 5000. Almenningsbátur, vaporetto, er 50 mínútur til San Marco og kostar L. 15000. Leigubátur er 25 mínútur til hvaða staðar sem er í borginni og kostar 130000. Síminn á Marco Polo er 260 9260.

Fréttir

International Herald Tribune og brezku blöðin fást í sumum blaðsöluturnum á ferðamannaslóðum í Feneyjum. Helztu blöðin í Feneyjum eru Gazzettino og Nuova Venezia. Þrjár rásir eru í ríkissjónvarpinu, Uno, Due og Tre, og auk þess kapalsjónvarp á mörgum hótelherbergjum, þar með talið CNN. Upplýsingar um atburði í Feneyjum fást í ókeypis bæklingi, Un Ospite di Venezia.

Götunúmer

Engin götunúmer eru í Feneyjum, ólíkt öðrum borgum Vesturlanda. Húsin eru númeruð eftir hverfum, en samstæð númer eru oftast í sömu götu. Þetta getur orðið ókunnugum til vandræða, nema hann hafi við hendina hverfisheiti, götunafn og hverfisnúmer staðarins, sem hann er að leita að. Þetta er svipað kerfi og er í Japan.

Hótel

Ferðamálaskrifstofur á Marco Polo flugvelli við Feneyjar og við Piazzale Roma bílageymsluhúsið í Feneyjum útvega ferðamönnum gistingu. Herbergi með “twin beds” eru oft stærri en herbergi með “double bed”. Herbergi sem snúa út að síki eru oft kyrrlátari og bjartari en þau, sem snúa út að götu. Herbergi í Feneyjum eru dýrari en utan borgar, en þú sparar tíma og flutningskostnað.

Járnbrautarlestar

Ítalskar lestir eru ódýrar og stundvísar. Ferrovia Santa Lucia lestarstöðin í Feneyjum er rétt við Piazzale Roma við vesturenda Canal Grande, sími 71 5555. Þaðan liggja allar bátaleiðir um borgina.

Krítarkort

Krítarkort eru almennt tekin á hótelum, veitingahúsum og verzlunum. Visa og Eurocard eru útbreiddust. Græn neyðarsímalína beggja er 167 82 80 47.

Kvartanir

Það er tímasóun að kvarta á Ítalíu. Reyndu heldur að sjá björtu hliðarnar.

Leigubátar

Leigubátar eru fljótasti og dýrasti ferðamátinn í Feneyjum, sími: 522 2303.

Lyfjabúð

Opnar mánudaga-föstudaga 8:30-12:30 & 16-20, laugardaga 9-12. Í gluggum lyfjabúða er vísað á nálægar lyfjabúðir með helgarvakt. Vaktþjónusta er einnig skráð í Un Ospite di Venezia. Mörg minni háttar lyf fást afgreidd án lyfseðils.

Læknishjálp

Sími: 118.

Löggæzla

Sími: 112.

Borgarlögreglan, Vigili urbani, er í bláum einkennisbúningum á veturna og hvítum á sumrin. Ríkislögreglan, La Polizia, er í bláum búningum með hvítum beltum og húfum. Herlögreglan, Carabineri, er í rauðröndóttum buxum. Þú getur leitað til allra um aðstoð.

Peningar

Líra (L.) heitir mynt Ítalíu. Einkum eru notaðir seðlar, 1000, 2000, 5000, 10000, 50000 og 100000 líru seðlar og fara stækkandi eftir upphæð. 1000 lírur samsvara um 50 krónum. Mynt nemur 50, 100, 200 og 500 lírum.

Póstur

Ítalska póstkerfið er lélegt og seinvirkt. Aðalpósthúsið í Feneyjum er í höllinni Fondaco dei Tedeschi við hlið Rialto-brúar.

Rafmagn

Rafmagnsspenna er sama og á Íslandi, 220 volt, og rafmagnsklær eru eins.

Salerni

Nokkur almenningssalerni eru í miðbænum. Salerni kaffihúsa eru stundum léleg, en yfirleitt í lagi á veitingahúsum. Sum þeirra eru ekki ætluð til setu. Taktu pappír með, ef þú ert ekki á veitingahúsi.

Samgöngur

Einfaldast er að fara fótgangandi um Feneyjar. Borgin er aðeins 5 km á langveginn og 2 km á þverveginn. Kerfi almenningsbáta er það næsteinfaldasta. Leið 1 fer um Canal Grande og stanzar næstum á hverri stöð. Þriggja daga kort með öllum leiðum kostar L. 30000 og sjö daga kort kostar L. 55000. Rómantíska samgöngutækið eru gondólar, sem kosta L. 70000-90000 í 50 mínútur.

Sími

Landsnúmer Ítalíu er 39 og svæðisnúmer Feneyja er 41. Millilandanúmerið frá Ítalíu er 00.

Sjúkrabíll

Sími: 523 0000.

Sjúkrahús

Ospedale Civile, Campo Santi Zanipolo. Sími: 523 0000.

Slys

Sími: 113.

Slökkvilið

Sími: 115.

Vatn

Kranavatn er yfirleitt hreint og gott í Feneyjum. Á veitingahúsum drekka menn þó yfirleitt lindarvatn af flöskum.

Verðlag

Verðlag í Feneyjum er hátt í samanburði við aðra hluta Ítalíu og fer hækkandi í takt við verðlag í Vestur-Evrópu.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar á veturna 9-12:30 & 15:30-19:30, á sumrin 9-12:30 & 16-20. Stundum er þeim lokað fyrr á laugardögum. Margar ferðamannaverzlanir eru opnar allan daginn og einnig á sunnudögum.

Þjórfé

Þjónusta er yfirleitt innifalin í reikningum veitingahúsa. Sumir skilja eftir nokkur þúsund lírur til viðbótar. Ræðarar gondóla búast ekki við þjórfé. Leigubílstjórar reikna með 10% þjórfé frá útlendingum. Burðarmenn gera ráð fyrir L. 1000 á tösku.

Öryggi

Notaðu ekki handtösku. Hafðu peninga innan klæða. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peninga. Skildu ekki eftir verðmæti í læstum bíl. Vasaþjófnaðir eru algengir í Feneyjum, en ofbeldisglæpir fátíðir.

1996

© Jónas Kristjánsson