Piazza San Marco
(C2) Fyrsta gönguleið okkar um Feneyjar er stutt. Hún liggur um Piazza San Marco = Markúsartorg og mannvirkin umhverfis það. Þetta er þungamiðja Feneyja, glæsilegt torg framan við Markúsarkirkju, 175 metra langt og 58-82 metra breitt, lagt stórum marmaraflísum með reitamynztri, að jafnaði fjölskipað ferðamönnum.
Þar leika hljómsveitir fyrir kaffihúsagesti og þaðan er gengið inn í Markúsarkirkju, Campanile, Torre dell’Orologio og nokkur söfn að auki. Í bogagöngunum, sem umlykja torgið, eru tízkuvöru- og minjagripabúðir. Þar eru frægustu kaffihús borgarinnar, Florian og Quadri. Rétt hjá torginu eru matstaðirnir Al Conte Pescaor, La Colomba, Do Forni, Harry’s Bar and Rivetta.
Í flóðum rennur sjór inn á torgið. Þá eru settar upp göngubrautir kruss og þvers, svo að fólk geti gengið um þurrum fótum. Þá er líka beztur friður fyrir þúsundum útbelgdra dúfna, sem eru helzta myndefni ferðamanna í Feneyjum.
Við byrjum á því að skoða Markúsarkirkju.
San Marco
(Piazza San Marco. Opið mánudaga-laugardaga 9:45-17, sunnudaga 14-17. C2)
Ævintýrahöll úr Þúsund og einni nótt, austræn kirkja í vestrænni kristni, reist 1063-1094 í býzönskum stíl, jafnarma kross að grunnfleti, með fimm hvelfingum á þaki. Hún er bezta dæmi Feneyja um hin miklu og aldalöngu sambönd borgríkisins við hinn gríska eða býzanska heim, löndin um austanvert Miðjarðarhaf og Miðausturlönd.
Öldum saman var hún hlaðin skarti og dýrgripum að innan sem utan. Þó varð hún ekki dómkirkja Feneyja fyrr en 1807, en hafði fram að því verið einkakirkja hertogans, oft notuð við móttöku sendiherra og annarra borgaralegra athafna. Í henni var val nýs hertoga kynnt fyrir borgurunum og frá henni var farið í skrúðgöngur um víðáttumikið Markúsartorg.
Steinfellumyndir einkenna kirkjuna að utan og innan, í veggjum, lofti og jafnvel gólfi. Þær eru frá ýmsum tímum, en flestar þó frá miðöldum, yfirleitt eftir óþekkta listamenn. Núverandi útlit fékk kirkjan á síðari hluta 15. aldar og fyrri hluta 16. aldar. Fræg eru bronzhrossin, sem voru áður yfir aðalinngangi, en eru nú geymd í hliðarsal að baki núverandi eftirlíkinga.
Gengið er inn í kirkjuna um miðdyrnar að framanverðu.
San Marco interior
(San Marco. C2)
Markúsarkirkja breytist að innan í sífellu eftir því, hvaðan birtan fellur á steinfellumyndirnar. Bezt er að skoða þær af kirkjusvölunum. Hvelfingin, sem sést bezt þaðan er Hvítasunnuhvelfingin með elztu steinfellumyndunum, frá 12. öld. Upprisuhvelfingin í kirkjumiðju er frá 13. öld.
Steinfellumyndirnar þekja samtals heila ekru. Þær eru líflegar og sýna samskipti fólks, greina kirkjuna frá hinum stirðnuðu býzönsku fyrirmyndum, þar sem hver persóna lifir í eigin heimi. Þannig marka þær upphaf þeirrar forustu, sem feneyskir listamenn tóku í málaralist Vesturlanda og héldu um nokkrar aldir.
Eftir að hafa skoðað okkur um í kirkjunni förum við inn að kórbaki til að skoða gullbríkina miklu.
Pala d’Oro
(San Marco. C2)
Við kórbak er gullbríkin, altaristafla kirkjunnar, gerð á 10. öld af feneyskum gullsmiðum, þrír fermetrar að stærð, þakin 250 smámyndum, sem hver um sig er skreytt dýrindis eðalsteinum og glerungi. Þessi altaristafla er einstök í sinni röð í heiminum og án efa sú verðmætasta. Napóleon rændi nokkrum eðalsteinum úr henni, en að öðru leyti hefur hún varðveitzt.
Stundum er erfitt að greina á milli sökudólga og fórnardýra í ránum og gripdeildum veraldarsögunnar. Glerungnum í gullbríkinni rændu Feneyingar í Miklagarði 1204, þar sem þeir rændu líka hrossunum á kirkjuloftinu. Napóleon rændi síðan hrossunum af þaki Markúsarkirkju 1797, en þeim var síðan skilað, þegar hann hafði hrökklazt frá völdum.
Helgustu minjum kirkjunnar, jarðneskum leifum Markúsar guðspjallamanns, rændu Feneyingar raunar í Alexandríu 828 og voru stoltir af. Raunar gilti um þá eins og Víkinga og fleiri siglingaþjóðir, að oft var skammt milli kaupsýslu og gripdeilda á sjóferðum þeirra. Feneyingar sneru til dæmis fjórðu krossferðinni upp í að rústa og ræna keppninaut sinn í Miklagarði.
Við höldum áleiðis úr kirkjunni. Sunnan við innganginn innanverðan eru tröppur upp á kirkjusvalirnar. Þaðan er gengið inn í fjársjóðastofuna og í bronzhrossastofuna og út á svalirnar fyrir ofan anddyri kirkjunnar. Við lítum fyrst út á svalirnar.
Equini San Marco
(San Marco. C2)
Hrossastytturnar fjórar ofan við innganginn eru eftirlíkingar þeirra, sem þar stóðu í hartnær sex aldir, frá 1204, þegar Feneyingar rændu þeim úr Miklagarði, og til 1797, þegar Napóleon rændi þeim frá Feneyjum og flutti til Parísar. Af svölunum er ágætt útsýni niður á Markúsartorg og byggingarnar umhverfis það.
Í stofu að baki svalanna eru hinar upprunalegu hrossastyttur úr bronzi varðveittar úti í horni. Þær voru upphaflega við keisarastúku paðreimsins í Miklagarði. Margt hafa þær séð um dagana, en núna á elliárunum hafa þær ekkert útsýni.
Áður en við yfirgefum kirkjuna getum við minnzt þess, að hér varð tónskáldið Monteverdi kórstjóri árið 1613 og varð þar með upphafsmaður forustu Fenyja á sviði tónsmíða, sem náði hámarki á upphafi næstu aldar, þegar Vivaldi varð tónstjóri Pietà kirkjunnar hér í nágrenninu.
Eftir að hafa skoðað fjársjóðastofuna förum við niður tröppurnar aftur og höldum út á torgið. Við förum til vinstri suður fyrir kirkjuna. Á miðri þeirri hlið er lágmynd á kirkjuhorni af rómversku fjórkeisurunum.
Di Tetrarci
(Piazzetta. C2)
Fræg lágmynd úr dílagrjóti, sem talin er sýna fjórkeisarana Díókletíanus, Maximíanus, Galeríus og Konstantíus, sem stjórnuðu Rómarveldi í lok þriðju aldar. Faðmlög þeirra eru hugnæm og í samræmi við raunveruleikann, því að þeir stóðu saman um stjórn ríkisins.
Við lágmyndina er inngangurinn í hertogahöllina.
Palazzo Ducale
(Piazzetta. Opið á sumrin 9-19, á veturna 9-16. C2)
Hertogahöllin er einkennistákn Feneyja, enda nýtur hún þess að vera til sýnis á lónsbakkanum framan við kirkjuna. Hún er mannvirkið, sem heilsar ferðamönnum, sem koma sjóleiðina til Markúsartorgs. Hún var öldum saman stjórnmálamiðstöð Feneyja, heimili hertogans, fundarstaður ríkisráðsins og öldungaráðsins, aðsetur yfirdómstólsins og leynilögreglunnar.
Í núverandi mynd er hún leikandi léttbyggð og leiftrandi fögur gotnesk höll frá 14. öld og upphafi 15. aldar. Hún er afar sérstök, byggð á tveimur hæðum súlnaganga, sem ná eftir öllum torghliðum hallarinnar, þeirri efri í blúndustíl, sem víða má sjá í Feneyjum. Ofan við súlnagöngin eru fagurlega mynztraðir og ljósir veggir úr marmara frá Verona.
Nú á tímum er hún safn. Til sýnis er íbúð hertogans og fundarsalir ríkisráðs og öldungaráðs, svo og ríkisfangelsið. Þessi glæsilegu salarkynni gefa góða hugmynd um stórveldistíma Feneyja, þegar borgin atti kappi við stórveldi á borð við Austrómverska keisaradæmið og síðar Tyrkjaveldi um yfirráð á austanverðu Miðjarðarhafi.
Inn í hallargarðinn er farið um gotneskt hlið milli hennar og Markúsarkirkju, Porta della Carta. Þegar komið er inn í portið, er sigurbogi á vinstri hönd, Arco Foscari. Framundan eru miklar tröppur, stigi risanna.
Scala dei Giganti
(Palazzo Ducale. C2)
Tröppurnar miklu inn í höllina voru hannaðar af Antonio Rizzo og reistar á síðari hluta 15. aldar. Nafn þeirra stafar af risavöxnum styttum eftir Sansovino efst í stiganum, af Neptúnusi og Marz, guðum láðs og lagar.
Tröppurnar voru notaðar við hátíðleg tækifæri. Í þeim voru nýir hertogar jafnan krýndir frýgversku húfunni með toppi að aftanverðu, sem minnir dálítið á kórónu Neðra-Egyptalands hins forna.
Við förum inn í höllina og að stiganum, sem liggur upp af Scala dei Giganti innan veggja hallarinnar, gullstiganum.
Scala d’Oro
(Palazzo Ducale. C2)
Logagyllti stiginn liggur upp á þriðju hæð hallarinnar, þar sem voru salir stjórnvalda og íbúð hertogans. Stiginn var gerður af Sansovino 1554-1558, með miklu gullflúri eftir Alessandro Vittoria í bogadregnum hvelfingum. Hann hefur án efa verið tilkomumikil sjón ókunnugum sendiherrum erlendra ríkja.
Við förum um tilkomumikla sali hallarinnar. Meðal annars förum við yfir lokuðu göngubrúna, Ponte dei Sospiri, sem tengir höllina við dómhöllina til hliðar. Hástigi nær hallarskoðunin í sal ríkisráðsins.
Sala del Maggior Consiglio
(Palazzo Ducale. C2)
Risastór fundarsalur tæplega 2000 manna ríkisráðsins og veizlusalur borgarinnar á sjálfstæðistíma Feneyja. Eitt stærsta málverk heims, Paradís eftir Tintoretto, rúmlega 180 metrar að flatarmáli, prýðir hásætisenda salarins. Veggir og loft hans eru þaktir málverkum, meðal annars eftir Veronese.
Hér voru teknar formlegar ákvarðanir um samninga og stríð Feneyinga við Tyrki og við ítalska keppinauta þeirra í Genova. Hér var lagður grundvöllurinn að sjóorrustunni við Lepanto, þar sem Feneyjar, Genova og fleiri vestræn ríki stöðvuðu sigurgöngu Tyrkja á Miðjarðarhafi 1571 undir forustu Feneyinga.
Við yfirgefum höllina, göngum kringum hana og upp á brúna Ponte della Paglia, þaðan sem við sjáum brú, sem tengir höllina við dómhöllina við hliðina. Það er hin fræga stunubrú.
Ponte dei Sospiri
(Palazzo Ducale. C2)
Stunubrúin, sem tengir hertogahöllina við dómhöllina handan síkisins, var reist á síðari hluta sextándu aldar. Nafnið stafar af stunum fanga, sem leiddir voru til dómhallar og sáu gegnum litla glugga til lífsins í Feneyjum í síðasta sinn, eftir því sem sagan segir.
Við höldum til baka meðfram höllinni og komum aftur inn á Piazzetta, torgið milli hallarinnar og Libreria Sansovina. Nálægt lónsbakkanum eru tvær sögufrægar súlur heilags Markúsar og heilags Theódórs.
Colonne di San Marco e San Teodoro
(Piazzetta. C2)
Helzta borgarhlið Feneyja í gamla daga, þegar aðeins varð komizt þangað sjóleiðina. Þeim var eins og mörgu öðru rænt í Miklagarði. Auk þess að vera borgarhlið voru þeir einnig aftökustaður borgarinnar fram á miðja 18. öld.
Á eystri súlunni er bronzlíkan af vængjuðu ljóni heilags Markúsar. Það er aðflutt og talið vera kínverskrar ættar. Á vestari súlunni er marmarastytta af heilögum Theódór, sem var verndardýrlingur Feneyja áður en jarðneskum leifum Markúsar var stolið í Alexandríu og smyglað til Feneyja árið 828.
Vestan styttanna er fornbókasafnið Libreria Sansovina. Þar er einnig inngangurinn í forngripasafnið, sem annars snýr sýningarsölum sínum á annarri hæð inn að Markúsartorgi.
Museo Archeologico
(Piazzetta. Opið 9-14. C2)
Lítið og rólegt safn listmuna frá rómverskum tíma, einkum frá 2. öld, tilvalinn griðastaður, þegar mannhafið á torgunum í kring er að verða yfirþyrmandi.
Við förum aftur út á Piazzetta og beinum athygli okkar að hinum frístandandi turni Markúsarkirkju.
Campanile
(Piazza San Marco. Opið 9:30-19. C2)
Turninn er frá 1902-1912, nákvæm eftirlíking af turni frá 1173, sem hrundi 1902. Hann er 98,5 metra hár, upprunalega innsiglingarviti, en síðar einnig ríkisturn og kirkjuturn. Fimm klukkur eru í turninum og gegndi hver sínu hlutverki á lýðveldistímanum, ein kallaði öldungaráðsmenn til fundar, önnur ríkisráðsmenn, hin þriðja tilkynnti aftökur og tvær gáfu upplýsingar um tíma.
Lyfta hefur verið sett í turninn fyrir ferðamenn til að auðvelda þeim að komast upp á útsýnispallinn, sem veitir frábært útsýni yfir Feneyjar. Oft er löng biðröð við lyftuna um hádaginn, svo að bezt er að vera þar sem fyrst að morgni eða síðla dags.
Turnhúsið er hannað af 16. aldar arkitektinum Jacopo Sansovino, sem einnig hannaði Libreria Sansovina hér til hliðar og hallirnar Ca’Grande og Palazzo Manin-Dolfin við Canal Grande. Öll þessi mannvirki eru í endurreisnarstíl þess tíma.
Úr turninum förum við yfir Markúsartorg framan við kirkjuna að tímaturninum, sem er felldur inn í húsaröðina norðan torgsins.
Torre dell’Orologio
(Piazza San Marco. Lokað vegna viðgerða. C2)
Turninn er þekktastur fyrir bronzstyttur Máranna tveggja á þakinu, sem hringja klukkunni á heilu tímunum, og stafa vinsældirnar mest af því, að þeir eru ekki í neinu að neðan. Efst á turnveggnum er lágmynd af vængjuðu ljóni heilags Markúsar. Þar fyrir neðan er líkneski af Maríu mey og hreyfilíkön af vitringunum þremur, sem færa jesúbarninu gjafir.
Merkasti hluti turnsins er þar fyrir neðan. Það er tímatalsklukka með gyllingu og bláum glerungi. Hún sýnir stjörnuhimininn og kvartilaskipti tunglsins.
Við göngum langsum yfir torgið að höllinni Ala Napoleonica við austurenda þess. Þar er gengið upp steintröppur í borgarlista- og -minjasafnið.
Museo Correr
(Piazza San Marco. Opið miðvikudaga-mánudaga 10-17. B2)
Málverkin í safninu eru í tímaröð, svo að unnt er að sjá, hvernig stíllinn breyttist með menningarskeiðunum. Tvö málverk Carpaccio eru einna þekktust: Ungur maður með rauðan hatt, og Tvær Feneyjafrúr. Í safninu eru einnig kort, vopn og myntir frá sögu Feneyja.
Í safninu er meðal annars stórt líkan af einkar skrautlegu hefðarskipi hertogans, Bucintoro. Það var meðal annars notað á hverjum uppstigningardegi til að flytja hertogann út á Adríahaf, þar sem hann fleygði gullhring í sjóinn og mælti: “Desponsamus te mare in signum veri perpetuique dominii” til marks um hjónaband sitt og hafsins og yfirráð Feneyja á hafinu.
Við ljúkum þessari gönguferð um næsta nágrenni Markúsartorgs með því að fá okkur kaffi á Florian eða Quadri.
Canal Grande
Breiðstræti og aðalgata borgarinnar er í rauninni fljót. Þar sem Canal Grande bugðar sig núna, var áður fyrr áll í Feneyjalóni. Á bökkum hans varð borgin til og frá upphafi hefur hann verið helzta samgönguæð hennar. Hann er varðaður um það bil 200 margra alda gömlum höllum á tæplega 4 kílómetra leið sinni um borgina.
Canal Grande er iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Almenningsbátar og leigubátar, lögreglubátar og sjúkrabátar, flutningabátar og útfararbátar, sorpbátar og gondólar eru sífellt á ferðinni fram og aftur. Á bökkunum bíður fólk eftir fari yfir vatnsgötuna eins og á rauðu ljósi í öðrum borgum.
Bátaleið 1 stanzar á flestum viðkomustöðum við Canal Grande. Flestar leiðarlýsingar hér eru miðaðar við bátastöðvarnar. Og fáir staðir í Feneyjum eru í meira en eins kílómetra göngufjarlægð frá einhverri bátastöðinni.
Við siglum frá járnbrautarstöðinni Santa Lucia, sem tengir Feneyjar við meginlandið, og ætlum til Markúsartorgs. Við förum auðvitað með leið 1, svokallaðri hraðferð, Accelerato, sem þekkist á því, að hún er hægari og kemur víðar við en aðrar leiðir. Fyrst förum við undir Ponte Scalzi.
Ponte Scalzi
(Canal Grande. A1)
Hér var áður smíðajárnsbrú yfir Canal Grande, en 1934 var þessi steinbrú lögð.
Brátt komum við að breiðum skurði vinstra megin, Canale di Cannaregio. Við hann, nálægt horninu er fyrsta höllin, sem við ræðum hér.
Palazzo Labia
(Fondamenta Labia. A1)
Labiarnir voru auðug kaupmannaætt, sem keypti sig inn í aðalinn á sautjándu öld. Höll þeirra er frá lokum aldarinnar.
Giambattista Tiepolo skreytti danssal hallarinnar veggmálverkum um miðja átjándu öld. Þau er unnt að sjá með því að fara á hljómleika í höllinni.
Framan við höllina er San Geremia, grísk krosskirkja, sem geymir jarðneskar leifar heilagrar Lúsíu.
Næst komum við að lágri og breiðri höll á hægri bakkanum.
Fondaco dei Turchi
(Salizzada dei Fondaco dei Turchi. Opið þriðjudaga-sunnudaga 9-13 . B1)
Býzönsk höll frá 13. öld, ein elzta og fegursta og lengi ein stærsta höllin við Canal Grande, tveggja hæða með turnum beggja vegna. Býzanski stíllinn sést vel á grönnum súlum og háum súlnabogum.
Á 17. öld komst hún í eigu Tyrkja og var vöruhús þeirra, gistiheimili og ræðismannssetur. Frá þeim tíma stafar nafn hennar. Fondaco er raunar afbökun úr arabiska orðinu funduk, sem þýðir krá eða gistihús.
Nú er náttúrusögusafn Feneyja í höllinni.
Aðeins lengra á leið okkar komum við að mikilli höll vinstra megin, merktri Casino Municipale á rauðu pelli yfir aðaldyrum.
Palazzo Vendramin Calergi
(Calle larga Vendramin. B1)
Þriggja hæða höllin er frá upphafi endurreisnartímans, hönnuð af Mauro Coducci og reist um 1500, afar stílhrein með rómönskum bogum og hringgluggum.
Hún er núna spilavíti á vegum borgarinnar, opið á veturna.
Aðeins ofar við Canal Grande komum við að kirkju og bátastöð á vinstri bakkanum.
San Stae
(Campo San Stae. Opið 9-12, 16-18. B1)
Marmarahvít hlaðstílskirkja frá upphafi 18. aldar með styttum skreyttri hásúlna-framhlið.
Í kórnum eru listaverk eftir Tiepolo og Piazzetta.
Frá bakkanum framan við kirkjuna er ágætt útsýni yfir Canal Grande til hallanna fyrir handan.
Enn höldum við áfram og komum hægra megin að voldugri og hvítri höll.
Ca’ Pesaro
(Calle Pesaro. Opið þriðjudaga-sunnudaga, Galleria 10-17, Museo 9-14 . B1)
Þetta er dæmigerð hlaðstílshöll, hönnuð af Baldassare Longhena, reist á síðari hluta 17. aldar í grófum stórgrýtisstíl að neðan og ríkulega skreyttri framhlið með súlum og súlnapörum.
Hún hýsir nú nútímalistasafnið, Galleria D’Arte Moderna og Austurlandasafnið, Museo Orientale. Í listasafninu eru meðal annars verk eftir Miró og Matisse, Klee og Kandinsky.
Handan Canal Grande sjáum við rauðgula glæsihöll.
Palazzo Fontana Rezzonico
(Strada Nova. B1)
Þessi höll er þekktust fyrir að vera fæðingarstaður Rezzonico greifa, sem varð síðar fimmti páfinn frá Feneyjum. Hún er tímalaus að stíl, minnir mest á býzanska stílinn með háum og grönnum rómönskum bogum, en samt engum bátasvölum á neðstu hæð. Aðalsmerki hennar er rauðguli liturinn.
Aðeins ofar, sömu megin er ein fegursta höll Feneyja, Gullhöllin.
Ca’ d’Oro
(Strada Nova. Opið 9-13:30. B1)
Blúnduhöll frá 15. öld í gotneskum stíl, með þakskeggsprjónum, s-laga bogum að arabískum hætti og flóknum marmaraskreytingum. Framhliðin var upprunalega máluð í rauðu og bláu og skreytt gulllaufum, sem gáfu henni nafn.
Höllin er núna málverkasafn. Þar eru meðal annars verk eftir Mantegna og Sansovino, Carpaccio og Tiziano, Giorgione og Guardi.
Aðeins ofar, sömu megin, er rauðgul höll.
Palazzo Sagredo
(Campo Santa Sofia. B1)
Blanda af býzönskum og gotneskum stíl. Háar og grannar súlur annarrar hæðar eru býzanskar, en oddbogar og blúndugluggar þriðju hæðar eru gotneskir.
Handan Canal Grande er fiskmarkaðshöll Feneyja.
Pescheria
(Campo della Pescheria. B1)
Sjálf höllin er 20. aldar stæling á gotneskum stíl. Jarðhæðin er opin í gegn og þar er meginhluti fiskmarkaðarins til húsa, þótt hann flói líka út í næstu götur.
Hann hefur verið á þessum stað í sex aldir og er enn líflegur sem fyrr. Skemmtilegast er að vera þar á morgnana, þegar húsfreyjur Feneyja gera innkaupin.
Við skoðum hann betur í síðari gönguferð. Við nálgumst nú sveigju á Canal Grande og komum að afar gamalli höll vinstra megin.
Ca’ da Mosto
(Calle della Posta. B1)
Ein af elztu höllunum, frá 13. öld, gott dæmi um býzanska hallarstílinn í Feneyjum.
Á átjándu öld var þetta fínasta hótelið í Feneyjum, meðal annars dvalarstaður Austurríkiskeisara.
Þegar við erum alveg að koma að Rialto-brú, er breið og ljósgul höll á vinstri hlið.
Fondaco dei Tedeschi
(Calle de Fontego dei Tedeschi. B1)
Ein stærsta höll Feneyja, byggð 1505, með 160 herbergjum á fjórum hæðum umhverfis lokaðan garð, fyrr á öldum verzlunarmiðstöð, vörulager og gistiheimili þýzkra kaupmanna.
Nú er hún aðalpósthúsið í borginni.
Andspænis höllinni, við hinn sporð Rialto-brúar er önnur umfangsmikil höll.
Palazzo Camerlenghi
(Ruga degli Orefici. B1)
Byggð 1528, einföld í sniðum, með háum býzönskum bogagluggum, löngum aðsetur fjármálaráðuneytis Feneyja. Jarðhæðin var notuð sem fangelsi.
Næst beinum við athygli okkar að brúnni miklu yfir borgarmóðuna.
Ponte di Rialto
(Canal Grande. B1)
Elzt og merkust þriggja brúa yfir Canal Grande, reist þar sem þungamiðja athafnalífsins hefur jafnan verið, miðja vega milli járnbrautarstöðvarinnar og Markúsartorgs. Á þessum stað hefur verið brú síðan í lok 12. aldar, en þessi brú er frá 1588-1591, hönnuð af Antonio da Ponte, sem sigraði í samkeppni við hina heimsfrægu Michelangelo, Palladio og Sansovino.
Brúin spannar fljótið í einum boga. Hvor brúarstöpull um sig hvílir á 6000 lóðréttum eikarbolum, sem voru reknir niður í botninn. Hún er svo breið, að hún rúmar tvær lengjur af sölubúðum með göngutröppum á milli og til beggja hliða.
Umhverfis brúna er mesta verzlunarlífið, tízkubúðir austan brúar og markaðsbúðir vestan hennar. Bakkinn suður frá vesturenda brúarinnar heitir Riva del Vin og er miðstöð gangstéttar-veitingahúsa í borginni. Frá brúnni er mikið og gott útsýni til suðurs eftir Canal Grande.
Við höldum áfram og komum næst að ljósri höll, sem er á vinstri hönd aftan við Rialto bátastöðina.
Palazzo Manin-Dolfin
(Calle larga Mazzini. B1)
Einföld og stílhrein endurreisnarhöll með grískum veggsúlnariðum, byggð af þekktasta arkitekti Feneyja, Sansovino, árin 1538-1540, heimili síðasta hertogans í Feneyjum, Ludovico Manin.
Við hliðina er rauðgul höll.
Palazzo Bembo
(Riva del Carbon. B1)
Fagurlega hönnuð gotnesk höll frá 15. öld með tvöföldum gluggaknippum í miðjunni.
Aðeins ofar, einnig vinstra megin, komum við að einna elztu og fegurstu höllum þessarar leiðar, Loredan og Farsetti.
Palazzo Loredan
(Riva del Carbon. B1)
Léttu tvíburahallirnar eru frá lokum 12. aldar eða upphafi 13. aldar. Loredan er sú bjartari, sem er vinstra megin, afar býzönsk að stíl, með háum og nettum skeifusúlnariðum, sem ná eftir endilangri framhlið tveggja neðstu hæðanna og mynda þar svalir.
Við hlið hallarinnar er tvíburahöll frá sama skeiði byggingasögunnar.
Palazzo Farsetti
(Riva del Carbon. B1)
Þessi er heldur breiðari og dekkri en tvíburahöllin við hliðina. Hún er líka frá upphafi 13. aldar, í tærum býzönskum stíl, skólabókardæmi um Feneyjaútgáfu þess stíls. Há og nett skeifusúlnariðin ná einnig hér eftir endilangri framhliðinni.
Borgarráð Feneyja er til húsa í þessum tveimur höllum.
Aðeins ofar komum við að svartflekkóttri marmarahöll.
Palazzo Grimani
(Calle Grimani. B2)
Dæmigerður endurreisnarstíll einkennir þessa höll, sem væri mjög fögur, ef framhliðin væri hreinsuð. Hún er afar formföst og nákvæm í hlutföllum með grískum súlum og rómverskum bogum, skörpum skilum milli hæða og miklu þakskeggi. Dyraumbúnaðurinn á jarðhæð, með stórum dyrum í miðju og minni dyrum til hliðar, er kenndur við Feneyjar.
Á hinum bakkanum, vinstra megin við San Silvestro bátastöðina, er höll með útskoti á jarðhæð.
Palazzo Barzizza
(Corte Barzizza. B1)
Býzönsk 13. aldar höll með upprunalegri framhlið.
Við förum heldur lengra og komum að þekktri höll frá endurreisnartíma.
Palazzo Corner-Spinelli
(Ramo del Teatro. B2)
Ein af elztu endurreisnarhöllunum, reist 1490-1510 og varð fyrirmynd annarra slíkra halla. Hún er úr grófum steini með djúpum fúgum að neðanverðu, en að ofanverðu tiltölulega fínleg og skrautleg.
Við lýsum ekki frekar höllum á þessum kafla samgönguæðarinnar og nemum næst staðar á kröppu beygjunni á Canal Grande, þar sem háskólahallirnar þrjár blasa við augum.
Ca’ Foscari
(Calle Foscari. A2)
Þetta er hæsta höllin af þremur sambyggðum í sama síðgotneska stílnum, reist á 15. öld, með blúnduverki í kringum flókna oddbogaglugga, þar á meðal fjögurralaufa gluggum ofan við súlnahöfuð. Allar hallirnar hafa dæmigerðan skrautgluggahluta á miðri framhliðinni, sem einkennir síðgotneska stílinn í Feneyjum.
Þessar gotnesku hallir eru núna háskólinn í Feneyjum.
Nokkurn veginn andspænis háskólanum er afar breið höll.
Palazzo Moro Lin
(Calle Ca’ Lin. B2)
17. aldar breiðsíðuhöll, sem stundum er kölluð þrettán glugga höllin, af því að gluggarnir eru þrettán á hverri hæð.
Nánast við hlið hennar er mikilúðleg höll.
Palazzo Grassi
(B2)
Þessi þunga, hvíta höll var reist 1730 í endurvaktri útgáfu af endurreisnarstíl.
Hún er núna notuð fyrir listsýningar, sumar hverjar afar athyglisverðar.
Andspænis henni á hinum bakkanum er sögufræg höll við hlið samnefndrar bátastöðvar.
Ca’ Rezzonico
(Fondamenta Rezzonico. Opið á sumrin 10-17, á veturna laugardaga-fimmtudaga 10-16. A2)
Afar skrauthlaðin og formföst framsíða ber vott um hlaðstíl arkitektsins Baldassare Longhena, sem reisti hana á síðari hluta 17. aldar.
Höllin er ekki síður skarti búin að innanverðu, þétt skipuð málverkum, veggmyndum og forngripum. Danssalurinn liggur eftir endilangri annarri hæðinni, með gylltum ljósakrónum og þrívíddarmálverkum í lofti, svo og útskornum húsbúnaði. Nokkur stofuloft eru með veggfreskum eftir Giambattista Tiepolo.
Höllin er núna minjasafn um Feneyjar 18. aldar. Þar eru meðal annars málverk eftir Pietro Longhi, Francesco Guardi, Canaletto og Giandomenico Tiepolo.
Örlitlu ofar, sömu megin, er önnur athyglisverð höll.
Palazzo Loredan dell’Ambasciatire
(Calle dei Cerchieri. A2)
Síðgotnesk höll með ívafi endurreisnarstíls, sendiráð austurrísk-ungverska keisaradæmisins um langt skeið.
Við höldum áfram og komum að Accademia bátastöðinni. Að baki hennar er gömul kirkja í nýju hlutverki.
Santa Maria della Carità
(Campo della Carità. B2)
Miðaldakirkja, sem var færð í núverandi mynd á 15. öld.
Hún og klausturhúsin að baki hennar rúma nú eitt af þekktustu listasöfnum heims, Accademia, sem sagt er frá í einni gönguferðinni um Feneyjar.
Hér er trébrú yfir Canal Grande.
Ponte dell’Accademia
(Canal Grande. B2)
Timburbrú, sem reist var til bráðabirgða 1932 og menn vildu ekki láta rífa, þegar á reyndi. Um hana er jafnan mikil umferð gangandi fólks milli hverfanna San Marco og Dorsoduro.
Frá brúnni er gott útsýni til beggja átta eftir Canal Grande, einkum í átt til kirkjunnar Santa Maria della Salute.
Rétt handan við nyrðri brúarsporðinn er fögur höll með gróðursælum garði.
Palazzo Francetti Cavalli
(Campo San Vidal. B2)
Fagurlega hönnuð, gotnesk glæsihöll í góðu ásigkomulagi.
Andspænis henni á hinum bakkanum er fögur marmarahöll.
Palazzo Contarini del Zaffo
(Calle Rota. B2)
Fagur marmari klæðir framhlið hallarinnar, sem er ein af fyrstu höllum borgarinnar í endurreisnarstíl, reist á síðari hluta 15. aldar. Litauðugur marmarinn gefur henni líflegan svip, þótt hún sé að öðru leyti formföst í sniðum.
Aðeins ofar komum við hægra megin að höll með steinfellumyndum.
Palazzo Barbarigo
(Campiello San Vio. B2)
Steinfellumyndir framhliðarinnar skera í augu þeirra, sem fara um Canal Grande. Þær eru í skörpum litum með mikilli gyllingu og fremur ungar, miðað við annað á þessum slóðum, frá 1887.
Aðeins ofar, handan Canal Grande, er umfangsmikil og frístandandi höll, sem ber nafn með rentu.
Ca’ Grande
(Fondamenta Corner Zaguri. B2)
Eitt þekktasta og bezta verk Sansovino, helzta arkitekts Feneyja í endurreisnarstíl, frá 1545. Að neðan er gróf þrívíddarhleðsla og að ofan samfelld og jöfn bogagluggaröð með súlnapörum á milli.
Handan Canal Grande er rómantísk höll.
Palazzo Dario
(Calle Barbaro. B2)
Framhlið hallarins er ekki sammiðja, heldur er gluggahlutinn úti í öðrum kantinum. Þetta er ein elzta höll borgarinnar í endurreisnarstíl, frá 1478. Hringgluggarnir með ytra hring minni hringglugga grípa athygli augans, einnig hin fagurlita marmaraklæðning.
Þjóðtrúin segir, að eigendur hallarinnar lendi í ógæfu, og rekur því til stuðnings dæmi, sem ná fram til ársins 1992.
Rétt hjá er höll með glerfellumynd á miðri framhlið.
Palazzo Salviati
(Calle Maggiore. B2)
Lítil höll í eigu glerlistasmiðju. Listaverkið á framhliðinni er fremur nýlegt.
Við höldum áfram og förum hjá Gritti hóteli á hinum bakkanum. Þegar við komum að Salute bátastöðinni, sjáum við andspænis okkur litla og granna höll á milli annarra, sem eru fyrirferðarmeiri.
Palazzo Contarini Fasan
(Calle dei Pestrin. B2)
Fegursta höll Feneyja er lítil og mjó, í gotneskum stíl, með afar fínlegu skrautvirki í svalariðum, arabískum oddbogum, gullin og hvít að lit.
Hún er stundum kölluð Höll Desdemónu eftir söguhetju í Kaupmanninum í Feneyjum eftir Shakespeare.
Andspænis höllinni er ein af þekktustu kirkjum borgarinnar.
Santa Maria della Salute
(Campo della Salute. B2)
Skrautleg hlaðstílsterta úr hvítum kalksteini, hönnuð af Longhena, reist 1631-1687. Hún stendur á bezta stað, við austurodda Dorsoduro hverfis, þar sem Canal Grande mætir Feneyjalóni, og blasir við úr öllum áttum. Hún er áttstrend og ofhlaðin skrauti, með sextán risavöxnum bókrollustoðum, sem þykjast styðja við stórt timburhvolf, er þarfnast slíks ekki.
Að innanverðu er kirkjan hófsamlegri. Hún hefur að geyma altaristöflu og loftmálverk eftir Tiziano og verk eftir fleiri kunna listamenn, svo sem Jacopo Tintoretto. Steinfellugólfið er óvenjulega fallegt, með ýmsum tilbrigðum í hringlaga mynztri.
Fyrir utan kirkjuna, á eyraroddanum er gamla tollbúðin í Feneyjum.
Dogana di Mare
(Punta della Dogana. B2)
Glæsilegt útsýni er frá eyraroddanum til turns Markúsartorgs, hertogahallarinnar, breiðbakkans Riva degli Schiavoni og eyjanna San Giorgio Maggiore og Giudecca. Núverandi tollbúð er frá síðari hluta 17. aldar. Á hornturni hennar bera tveir bronzrisar gullna kúlu, þar sem gæfugyðjan stendur á einum fæti og snýst eins og vindhani.
Hér er Canal Grande á enda og við tekur sjálft Feneyjalónið víðáttumikið. Lokið er yfirgripsmikilli ferð okkar um Canal Grande. Við tökum bátinn yfir til Markúsartorgs, þar sem við hefjum gönguferð um miðborgina.
Sestiere San Marco
Tanginn, sem Canal Grande sveigist umhverfis frá Rialto brú að Markúsartorgi, myndar hverfi, sem kennt er við kirkjuna San Marco og er hjarta miðborgarinnar. Við förum nú í hringferð um hverfið og raunar einnig lítillega inn í aðliggjandi hverfi.
Við hefjum ferð okkar við suðvesturhorn Markúsartorgs, göngum út af torginu tæpa 100 metra leið eftir Salizzada San Moisè, þar sem við komum að hliðargötunum Calle Vallaresso til vinstri og Frezzeria til hægri. Við göngum þá fyrrnefndu á enda, um 150 metra leið, þar sem hún kemur fram á bakka Canal Grande.
Calle Vallaresso
(B2)
Ein helzta gondólastöðin er þar sem gatan mætir bakkanum. Þar er oft mikill ys og þys og stundum raðir fólks, sem bíður eftir að kynnast einkennisfarartækjum Feneyja.
Merkar stofnanir eru hér á horninu, öðrum megin hinn kunni Harry’s Bar, sem Hemingway gerði frægan, og hinum megin hótelið Monaco, sem býður fjölmörg herbergi með útsýni yfir Canal Grande.
Í götunni eru einnig dýrar tízkuverzlanir og listmunaverzlanir, svo og eitt leikhús.
Við göngum götuna til baka og höldum áfram um 100 metra vegalengd eftir Frezzeria.
Frezzeria
(B2)
Ein helzta verzlunargata Feneyja frá fornu fari. Hún er dæmigerð fyrir slíkar götur í borginni. Nafnið stafar af, að þar voru í fyrndinni seldar örvar. Nú er þar mest um fataverzlanir.
Í hliðargötu út frá Frezzeria er veitingahúsið La Colomba.
Við snúum til baka og beygjum til hægri í Salizzada San Moisè, sem við göngum um 100 metra leið út á Campo San Moisè and lítum á kirkjuna.
San Moisè
(Campo San Moisè. Opið 15:30-19. B2)
Rækilega skreytt og þunglamaleg hlaðstílskirkja frá 1668. Hún væri ásjálegri, ef óhreinindin á framhliðinni væru hreinsuð.
Við förum yfir torgið og brúna handan þess og lítum niður eftir skurðinum.
Rio San Moisè
(B2)
Á horninu er ein af bátastöðvum gondólanna og ómerktur aðgangur að frægðarhótelinu Europa e Regina. Hér sitja ræðararnir löngum stundum og spila meðan þeir bíða eftir viðskiptavinum.
Frá brúnni höldum við áfram inn í breiðgötuna framundan.
Calle larga 22 Marzo
(B2)
Ein breiðasta og fjölfarnasta gata borgarinnar, með tízkuverzlunum og hótelum á báðar hendur. Við sjálfa götuna hægra megin er hótelið Saturnia og veitingastaðurinn Caravella. Mjó sund liggja til suðurs frá götunni til hótelanna Europa e Regina, Flora og Pozzi.
Í nágrenninu er hótelið og veitingahúsið Gritti.
Við tökum krók norður úr götunni eftir sundinu Calle delle Veste út á torgið Campo San Fantin, um 100 metra leið.
Campo San Fantin
(B2)
Nokkuð er af þekktum veitingahúsum við torgið og í næsta nágrenni þess. Frægasta stofnun torgsins er þó óperuhúsið Fenice.
Við skoðum leikhúsið nánar.
Teatro Fenice
(Campo San Fantin. B2)
Elzta leikhús borgarinnar og ein þekktasta ópera veraldar brann í ársbyrjun 1996. Það var frá 1792, í fölskum endurreisnarstíl, fremur einfalt að utan en hlaðið skrauti að innan, í rauðgulu, rauðu og gullnu. Áhorfendastúkur voru á fimm hæðum í hálfhring kringum sviðið og gólfið. Við hlið leikhússins er hótelið La Fenice et des Artistes og veitingahúsið La Fenice í sama húsi.
Frægast er leikhúsið fyrir frumflutning sögufrægra óperuverka á borð við La Traviata eftir Verdi, Tancredi og Semiramis eftir Rossini, I Capuleti ed i Montecchi eftir Bellini, Rake’s Progress efir Stravinsky og Turn of the Screw eftir Britten. Mörg verk eftir Richard Wagner voru sýnd hér, enda bjó hann lengi í Feneyjum.
Snemma á 17. öld urðu Feneyjar óperumiðstöð Ítalíu og héldu þeirri forustu í þrjár aldir. Í Feneyjum hætti óperan að vera einkamál aðalsins og varð að almenningseign. Þar náði óperettuformið flugi. Þar var líka jafnan lögð meiri áherzla á tónlistarþátt óperunnar en víðast annars staðar. Á 19. öld frumflutti Giuseppi Verdi mörg verka sinna einmitt hér í Teatro Fenice.
Við göngum Calle delle Veste til baka, beygjum til hægri eftir Calle larga 22 Marzo og síðan Calle delle Ostreghe í beinu framhaldi af henni í áttina að Campo San Maurizio, tæplega 400 metra leið. Á leiðinni förum við yfir nokkrar síkisbrýr.
Canals
Krókóttir skurðirnir fylgja oft útlínum hinna rúmlega 100 eyja, sem borgin var reist á. Þeir mynda samfellt samgöngukerfi í borginni, að verulegu leyti óháð samgöngukerfi göngugatna. Milli tveggja nálægra staða getur verið margfalt lengra að fara á landi en sjó eða öfugt. Bátaleiðirnar hafa svo það umfram gönguleiðirnar, að hinar síðarnefndu henta síður vöruflutningum.
Skurðirnir hreinsast af straumunum, sem myndast í þeim vegna mismunar á flóði og fjöru. Eigi að síður safnast fyrir í þeim mikið af úrgangi og leirkenndri leðju, sem þarf að hreinsa, svo að skurðirnir fyllist ekki og verði ófærir bátum. Er þá skurði lokað, dælt úr honum, lagðir teinar í botninn fyrir vagna, sem flytja leðjuna frá dæluprömmum út í flutningapramma.
Við höldum áfram til torgsins Campo San Maurizio, þar sem við sjáum skakkan turn Santo Stefano að húsabaki og höldum beint áfram eftir Calle dello Spezier inn á næsta torg, samtals um 100 metra leið.
Campo Santo Stefano
(B2)
Eitt stærsta torg borgarinnar, fyrr á öldum miðstöð kjötkveðjuhátíða og nautaats, en núna leikvöllur barna og kaffidrykkjustaður ferðamanna.
Frá suðurenda torgsins eru aðeins 100 metrar að Accademia-brú yfir Canal Grande. Torgið myndar því krossgötur gönguleiðanna milli Accademia, Markúsartorgs og Rialto-brúar, enda fer mikill flaumur fólks um torgið.
Við norðurenda torgsins er kirkja.
Santo Stefano
(Opið mánudaga-laugardaga 8-12 & 16-19, sunnudaga 7:30-12:30 & 18-20. B2)
14. og 15. aldar smíði, með bátskjalarlofti, útskornum loftbitum og gotneskum bogariðum. Nokkur málverk Tintorettos eru í kirkjunni. Turninn að kirkjubaki er með skakkari turnum borgarinnar.
Við förum um sundið Calle dei Frati meðfram vesturstafni kirkjunnar til næsta torgs, um 100 metra leið.
Campo Sant’Angelo
(B2)
Skakkur turn Santo Stefano gnæfir yfir torginu að húsabaki.
Við höldum áfram um 200 metra eftir Calle dello Spezier, Calle della Mandola og Calle della Cortesia til torgsins Campo Manin, þar sem við beygjum til hægri 100 metra leið eftir Calle della Vida, Calle della Locanda og Corte del Palazzo Risi að sívaliturni borgarinnar.
Palazzo Contarini del Bovolo
(Corte del Palazzo Risi. B2)
Léttur gormur Langbarðastigans er helzta einkenni þessarar 15. aldar hallar Contarini ættar. Í garðinum er slökunarstaður katta hverfisins.
Í húsasundi rétt hjá höllinni er veitingahúsið Al Campiello.
Við höldum sömu leið til baka um Calle della Locanda og Calle della Vida til Campo Manin, þar sem við beygjum til hægri og göngum merkta og krókótta leið í átt til Rialto-brúar. Rúmlega 200 metra frá torginu verður fyrir okkur San Salvatore á hægri hönd.
San Salvatore
(Opið 10-12 & 17-19. B1)
Kirkja í endurreisnarstíl frá upphafi 16. aldar með fagurlitu marmaragólfi og nokkrum verkum Tiziano.
Rétt hjá kirkjunni, nálægt Canal Grande, er veitingahúsið Antica Carbonera.
Handan kirkjunnar er Merceria, stytzta leiðin milli Rialto brúar og Markúsartorgs, um 500 metrar, ein helzta verzlunargata borgarinnar. Að þessu sinni förum við norður úr torginu eftir Merceria 2 Aprile tæplega 100 metra leið til helzta stefnumótatorgs borgarinnar.
Campo San Bartolomeo
(B1)
Að lokinni vinnu mæla Feneyingar sér mót hér á torginu til að undirbúa kvöldið. Styttan af leikskáldinu Carlo Goldoni á torginu miðju gegnir sama hlutverki og klukkan á Lækjartorgi gegndi fyrr á árum í Reykjavík. Á þessum slóðum er mikið um kaffibari.
Rétt hjá torginu er veitingahúsið Al Graspo de Ua.
Við torgið beygjum við til vinstri eftir Salizzada Pio X, rúmlega 50 metra að Rialto-brú til að skoða minjagripaverzlanir brúarsvæðisins.
Salizzada Pio X
(B1)
Kjötkveðjuhátíðargrímur eru ein helzta minjagripavara Feneyja. Þær eru gerðar eftir fyrirmyndum úr Commedia dell’Arte leikhúshefðinni. Kristall er önnur helzta minjagripavaran, yfirleitt handblásinn í gleriðjum Murano-eyjar. Hin þriðja eru blúndur frá eyjunni Burano og hin fjórða eru vörur úr handunnum marmarapappír. Allt þetta fæst í götusundunum við brúna.
Eftir að hafa gengið upp á Rialto brú til að skoða okkur um, snúum við til baka eftir Salizzada Pio X út á Campo San Bartolomeo, þar sem við beygjum til vinstri og förum um 250 metra leið eftir Salizzada di Fontego de Tedeschi og Salizzada San Giovanni Crisostomo til kirkjunnar San Giovanni Crisostomo.
San Giovanni Crisostomo
(Campo San Giovanni Crisostomo. Opið 8:15-12:15 & 15:30-18. B1)
Fremur lítil krosskirkja grísk, frá 1479-1504, í rauðbrúnum lit, skreytt málverkum eftir Giovanni Bellini og Sebastiano del Piombo. Hún er þægilegur áningarstaður í ys og þys gatnanna í kring.
Andspænis kirkjunni er veitingahúsið Fiaschetteria Toscana.
Við förum áfram leiðina yfir næstu brú, þar sem við beygjum til hægri eftir Salizzada San Canciano. Eftir 100 metra komum að Palazzo Boldú, þar sem við beygjum til hægri eftir Calle dei Miracoli, yfir brú og að kirkju á skurðbakkanum, tæplega 100 metra leið.
Santa Maria dei Miracoli
(Campo dei Miracoli. Opið mánudaga-laugardaga 10-12 & 15-18. C1)
Afar fögur smákirkja frá upphafi endurreisnartímans, hönnuð af Pietro Lombardo, fagurlega lögð marglitum marmara og öðrum fægðum steini að utan og innan. Einkum er vesturstafninn fagurlitur og skrautlegur með rómönskum bogagluggum og hringgluggum. Kirkjan er höfuðverk Lombardo, en við munum sjá fleiri verk hans í þessari gönguferð.
Nafn sitt dregur kirkjan af málverki Nicolò di Pietro af heilagri guðsmóður og barninu, sem er yfir altarinu. Myndin er talin valda kraftaverkum. Í tunnulaga kirkjuloftinu eru myndir af 50 englum og spámönnum. Kirkjan hefur nýlega verið gerð upp, svo að hún skartar sínu fegursta.
Við förum úr kirkjunni og göngum umhverfis hana, yfir brúna að baki hennar, beygjum síðan strax til hægri og göngum eftir Fondamenta Piovan og Calle larga Gallina að torginu fyrir framan San Zanipolo og Scuola di San Marco, þar sem er styttan af Colleoni, alls um 300 metra leið.
Colleoni
(Campo San Zanipolo. C1)
Riddarastyttan úr bronzi af Bartolomeo Colleoni sýnir vel kraft og hreyfingu atvinnuhermanns og stríðsgæðings hans. Hún er eftir Andrea Verrocchio og er frá 1481-1488.
Colleoni var frægur 15. aldar hershöfðingi málaliða, sem Feneyingar tóku á leigu til landhernaðar, því að sjálfum hentaði þeim betur sjóhernaður. Þeir stigu betur ölduna en þeir sátu hestana. Colleoni gagnaðist þeim vel og græddu báðir aðilar á þeim viðskiptum.
Colleoni arfleiddi að lokum Feneyjalýðveldi að tíunda hluta auðæfa sinna gegn því, að stytta yrði reist af sér fyrir framan San Marco.
Feneyingar játuðu þessu, en reistu hana ekki fyrir framan kirkjuna San Marco, heldur klúbbhúsið Scuola Grande di San Marco. Styttan hefur verið hér síðan og haldið minningu Colleoni á lofti, þótt ekki sé með sama hætti og hann sá fyrir sér.
Frá styttunni sjáum við vel framhlið klúbbhússins.
Scuola Grande di San Marco
(Campo San Zanipolo. C1)
Neðri hluti marmaraklæddrar framhliðarinnar og frumlegar þrívíddar-blekkimyndir hennar eru eftir arkitektinn fræga Pietro Lombardo og syni hans, 1485-1495. Efri hæðirnar eru eftir Mauro Coducci, einnig frá lokum 15. aldar.
Höllin var reist sem klúbbhús eins af sex karlaklúbbum borgarinnar. Flest listaverk hennar eru horfin á braut, en þó eru þar enn málverk eftir Tintoretto og Veronese.
Nú er höllin notuð sem sjúkrahús, Ospedale Civile, og er ekki opin almenningi.
Hornrétt á framhlið hallarinnar er vesturvirki kirkjunnar San Zanipolo.
San Zanipolo
(Campo San Zanipolo. Opið mánudaga-laugardaga 7:30-12:30 & 15:30-19. C1)
Önnur af tveimur helztu gotnesku kirkjunum í Feneyjum, rúmlega 100 metra löng og háreist eftir því, með einföldum og voldugum vesturstafni, reist síðast á 13. öld og fyrst á 14. öld sem klausturkirkja Dóminíkusa. Sjálfur dyraumbúnaður kirkjunnar er yngri, frá upphafi endurreisnartímans.
Fullu nafni heitir hún Santi Giovanni e Paolo, en jafnan stytt í munni Feneyinga. Kirkjan hýsir fræg listaverk, einkum eftir Pietro Lombardo, Giovanni Bellini og Paolo Veronese.
Innst við kór er gengið til vinstri inn í Capella del Rosario. Þar eru mörg málverk eftir Paolo Veronese, þar á meðal Tilbeiðsla fjárhirðanna, á norðurveggnum andspænis inngangi. Við fjöllum nánar um Veronese í annarri gönguferð, þegar við heimsækjum listasafnið Accademia.
Hér snúum við okkur fyrst að verkum Lombardo.
Pietro Lombardo
(San Zanipolo. C1)
Legsteinar 25 hertoga eru í kirkjunni, þar á meðal steinkista Pietro Mocenigo hægra megin við innganginn, þekkt listaverk frá 1481 eftir Pietro Lombardo. Vinstra megin við meginaltarið er steinkista Andrea Vendramin frá 1476-1478, einnig eftir Lombardo, sem á hér fleiri listaverk. Altarið sjálft er mikið yngra, eftir Baldassare Longhena, frá 17. öld.
Lombardo hannaði einnig neðri hluta óvenjulegrar framhliðar Scuola Grande di San Marco og alla skartkirkjuna Santa Maria dei Miracoli, sem við erum áður búin að skoða á þessari gönguferð. Hann gerði líka róðubríkina í Santa Maria Gloriosa dei Frari, sem við sjáum í annarri gönguferð um Feneyjar.
Lombardo var uppi 1435-1515 og vann einkum í Feneyjum. Hann var einn helzti frumkvöðull endurreisnarstílsins í Feneyjum, þegar þar var að syngja sitt síðasta vers síðgotneski stíllinn, sem hélt þar lengur velli en víðast annars staðar.
Næst snúum við okkur að listamanninum Bellini.
Giovanni Bellini
(San Zanipolo. C1)
Frægt altari eftir Bellini er inn af hægra hliðarskipi kirkjunnar, með nokkrum málverkum í gullnum skrautramma. Stóru málverkin í miðröð sýna þrjá helga menn. Fyrir ofan eru málverk úr ævi Krists og fyrir neðan málverk úr ævi heilags Vincentíusar.
Í annarri göngu heimsækjum við Accademia-safnið með mörgum verkum Bellini, einkum málverk af heilagri guðsmóður með jesúbarninu og öðru helgu fólki. Frægt guðsmóðuraltari hans er í Santa Maria Gloriosa dei Frari, og Pièta í Museo Correr, sem við skoðum hvort tveggja í öðrum gönguferðum um borgina. Einnig málverk í San Giovanni Crisostomo, sem við sáum fyrr á þessari göngu.
Giovanni Bellini var uppi 1430-1516, sonur Jacopo Bellini, bróðir Gentile Bellini og mágur Andrea Mantegna, sem allir voru miklir málarar. Hann var einn af helztu einkennismálurum upphafsskeiðs endurreisnartímans, undir áhrifum frá mági sínum Mantegna, en sýndi mildari mannlegar tilfinningar í verkum sínum. Þau eru nákvæm og vönduð, sýna næmt samspil ljóss og skugga.
Við yfirgefum kirkjuna og förum meðfram suðurhlið hennar, göngum yfir torgið og förum inn sundið Calle Bressane, yfir brú og síðan eftir Calle Trévisagna og beygjum svo á næsta horni til hægri eftir Calle lunga Santa Maria Formosa og komum eftir samtals 250 metra leið að torginu Campo di Santa Maria Formosa.
Campo di Santa Maria Formosa
(C1)
Eitt helzta markaðstorg Feneyja, óvenju stórt í sniðum í landþröngri borginni. Umhverfis það eru litlar verzlanir, fagrar hallir og kirkjan Santa Maria Formosa. Þótt torgið sé í næsta nágrenni Markúsartorgs, er það ekkert ferðamannalegt. Mannlífið á torginu ber með sér feneyskan hverfissvip eins og það sé heimur út af fyrir sig.
Við beinum athygli okkar að kirkjunni.
Santa Maria Formosa
(Campo di Santa Maria Formosa. C1)
Hönnuð 1492, en var heila öld í byggingu, svo að hún er misjöfn að stíl. Hliðin að torginu, með bogadregnum kórbökum, er allt öðru vísi en kantaður stafninn að skurðinum. Kirkjuturninn er yngri, frá 1688, með þekktu afskræmisandliti í lágmynd.
Þekktasta listaverkið í kirkjunni er altari í syðri kór eftir Paolo il Vecchio með miðjumálverki af heilagri Barböru og hliðarmálverkum af helgum mönnum. Barbara var verndardýrlingur hermanna. Önnur málverk eftir Paolo eru í listasafninu Accademia.
Við förum kringum kirkjuna að austanverðu og göngum yfir brú að dyrum Stampalia-safnsins.
Fondazione Querini Stampalia
(Campiello Querini. Opið mánudaga-laugardaga 10-12 & 14:30-23:30. C1)
Höllin var hönnuð og reist á 16. öld.
Þar er núna málverka- og bókasafn Querini-ættarinnar, meðal annars verk eftir Giovanni Bellini og Giambattista Tiepolo.
Við förum yfir brúna til baka og tökum næstu brú til vinstri, förum meðfram Rio del Rimedio, beygjum til hægri í Calle del Rimedio og síðan til vinstri í Calle dell’Angelo og loks til hægri í Calle Canonica, sem leiðir okkur til Markúsartorgs, samtals tæplega 500 metra leið. Þessari gönguferð er lokið.
Castello
Riva degli Schiavoni, breiði lónsbakkinn frá hertogahöllinni til austurs í átt að borgargarðinum, er sá hluti hverfisins Castello, sem flestir ferðamenn kynnast. Að baki hans eru róleg og fáfarin húsasund og hinar fornu skipasmíðastöðvar borgarinnar.
Við skoðum hluta hverfisins í annarri gönguferð, svæðin við San Zanipolo og Santa Maria Formosa. Í þessari ferð skoðum við aðra hluta hverfisins.
Við hefjum gönguna á Molo, bakkanum fyrir framan hertogahöllina, göngum til austurs yfir Ponte della Paglia út á Riva degli Schiavoni.
Riva degli Schiavoni
(C2)
Vesturhluti bakkans er viðkomu- og endastöð margra áætlunarbáta á Feneyjasvæðinu. Ferðamenn koma margir hverjir hér að landi og ganga inn á Markúsartorg. Oft er því margt um manninn á vesturenda bakkans, á leiðinni milli báta og torgs. Hér eru ferðavöruvagnar og gangstéttarkaffihús.
Hér hefur jafnan verið mikið um skip og báta. Fyrr á öldum var þetta löndunarsvæði kaupmanna frá ströndinni handan Adríahafs, Dalmatíu, þar sem nú eru Slóvenía, Króatía og Bosnía. Feneyingar höfðu mikil áhrif á þeim slóðum. Þeir kölluðu íbúana Schiavoni og af því er nafn breiðbakkans dregið.
Bakkinn liggur í mjúkum sveig að lóninu og veitir gott útsýni til eyjarinnar San Giorgio Maggiore og skipaumferðarinnar á lóninu. Hann er mikið notaður til gönguferða og skokks. Hann tengir saman Bíennalinn og miðborgina. Oft eru þar sett upp tímabundin listaverk í tengslum við Bíennalinn og aðrar listsýningar í borginni.
Við göngum framhjá Danieli hótelinu, þar sem veitingahúsið Rivetta er að hallarbaki, förum áfram bakkann yfir brú og framhjá Paganelli hótelinu að Londra hótelinu. Fyrir framan það er riddarastytta.
Vittorio Emanuele II
(Riva degli Schiavoni. C2)
Engin borg á Ítalíu er borg með borgum án þess að þar sé riddarastytta af Vittorio Emanuele II, fyrsta konungi sameinaðrar Ítalíu. Hér fyrir framan Londra hótelið er feneyska útgáfan. Hana gerði Ettore Ferrari árið 1887.
Við förum nokkur skref til baka og inn í sund vinstra megin við Paganelli hótelið. Eftir 100 metra leið komum við þar inn á lítið torg framan við Zaccaria kirkjuna.
San Zaccaria
(Campo San Zaccaria. Opið 10-12 & 16-18. C2)
Byggð 1444-1515 í blöndu síðgotnesks stíls og endurreisnarstíls við nunnuklaustur af reglu Benedikts. Antonio Gambello hóf gerð framhliðarinnar í síðgotneskum stíl og Mauro Coducci lauk henni í endurreisnarstíl.
Að innanverðu eru veggir kirkjunnar þétt skipaðir málverkum. Í nyrðra hliðarskipi er guðsmóðurmynd eftir Giovanni Bellini.
Við förum vestur eftir norðurenda torgsins og beygjum síðan til hægri eftir Campo San Provolo og Fondamenta dell’Osmarin. Þar komum við að skurði, sem við förum yfir á tveimur brúm. Samtals er þetta tæplega 300 metra leið. Með bakkanum handan síðari brúarinnar liggur leið að kirkju með óvenjulega skökkum turni.
San Giorgio dei Greci
(Rio dei Greci. Opið 9-13 & 14-17. C2)
16. aldar kirkja með afar höllum turni. Hún er grísk rétttrúnaðarkirkja með innri kvennasvölum og íkonabrík milli kórs og kirkjuskips.
Í þessu hverfi er veitingahúsið Arcimboldo.
Við förum til baka út að brúnum tveim, sem við fórum yfir, beygjum þar til hægri og förum eftir Calle della Madonna og Salizzada dei Greci yfir brú og áfram meðfram kirkjunni San Antonio eftir Salizzada Sant’Antonin að torginu Campo Bandera e Moro, að Bragora kirkjunni, samtals um 400 metra leið.
San Giovanni in Bragora
(Campo Bandiera e Moro. Opið 8-11 & 17-18. C2)
Einföld gotnesk kirkja frá 1475-1479.
Hún er búin mörgum listaverkum frá síðgotneskum tíma og frá upphafi endurreisnar. Þar á meðal er gotneskt guðsmóðuraltari eftir Bartolomeo Vivarini og endurreisnarmálverk við háaltari eftir Cima da Conegliano af skírn Krists.
Rétt hjá kirkjunni er veitingahúsið Corte Sconta.
Úr suðurenda torgsins göngum við tæpra 100 metra leið á Calle del Dose til Riva degli Schiavoni, þar sem við beygjum til vinstri eftir lónsbakkanum. Við göngum eftir bakkanum yfir tvær brýr, samtals tæplega 400 metra leið, unz við komum að skurðinum Rio dell’Arsenale, sem liggur að herskipasmíðastöðinni gömlu. Við getum tekið krók með skurðinum til að skoða inngang stöðvarinnar.
Arsenale
(D2)
Turnarnir tveir við innganginn að Arsenale eru frá 16. öld. Þeir eru hluti virkisveggs með skotraufum. Við komumst ekki inn í stöðina sjálfa, því að hún er ennþá talin vera hernaðarsvæði, þótt hún sé í eyði. Við getum hins vegar siglt um hana endilanga með því að taka okkur far með 23. eða 52. leið áætlunarbáta borgarinnar.
Herskipasmíðastöðin var hornsteinn sjóveldis Feneyinga, stofnuð á 12. öld. Hún varð stærsta skipasmíðastöð veraldar, með 16.000 manna starfsliði. Hún var fyrsta færibandaverksmiðja Evrópu og gat árið 1574 fullsmíðað galeiðu á meðan Hinrik III af Frakklandi var í borginni í matarveizlu, sem tók 24 klukkustundir.
Ef við nennum ekki að taka krókinn að Arsenale, getum við farið yfir brúna á lónsbakkanum og skoðað safnið í húsinu á horninu handan brúarinnar. Það er flotasögusafnið Museo Storico Navale, opið mánudaga-laugardaga 9-13. Þar má sjá fróðlega skipasmíðasögu Feneyinga.
Ef við höfum ekki mikinn tíma, getum við látið þessa skoðun nægja, snúið hér við og gengið lónsbakkann til hertogahallarinnar. Að öðrum kosti höldum við áfram eftir lónsbakkanum, yfir næstu brú og komum þar að mjóu hornhúsi milli Riva degli Sette Martiri og Via Garibaldi.
Alls er þetta um 200 metra leið.
Ca’ Giovanni Caboto
(Via Garibaldi. D2)
Hornhúsið var heimili feðganna Sebastian og Giovanni Caboto, sem fundu Labrador 1497 í upphafi landafundatímans. Þeir voru þá í þjónustu Englandskonungs.
Via Garibaldi er ein fárra breiðgatna í borginni, mynduð 1808 með því að fylla skurð.
Við göngum Via Garibaldi á enda, tæplega 500 metra leið, þar sem langur garður liggur suður frá götunni.
Garibaldi
(Viale Garibaldi. D2)
Í enda garðsins hér við götuna er minnisvarði ítölsku frelsishetjunnar Garibaldi eftir listamanninn Augusto Benvenuti frá 1895.
Við göngum áfram Via Garibaldi að skurðinum Rio di Sant’Anna, förum sunnan hans í beina stefnu á brúna Ponte de Quintavalle, um 500 metra leið.
Ponte de Quintavalle
(D2)
Frá brúnni er ágætt útsýni um breiðan og rólegan Canale di San Piero og skakkan turn kirkjunnar að baki hans.
Við göngum norður eftir bakkanum Calle drio il Campanile til kirkjunnar, um 300 metra leið.
San Pietro di Castello
(Campo San Pietro. D2)
Hér var einna fyrst byggð í Feneyjum og erkibiskupssetur allan sjálfstæðistíma borgarinnar. Kirkjan var dómkirkja Feneyja frá upphafi til 1807, þegar Markúsarkirkja tók við. Núverandi kirkja er frá miðri 16. öld, en skakki turninn eftir Mauro Coducci er eldri, frá 1482-1488.
Gamla erkibiskupshöllin er milli kirkju og turns.
Við förum til baka suður með bakkanum, yfir brúna Ponte de Quintavalle og áfram eftir Fondamenta Sant’Anna unz við komum að Calle Tiepolo, sem við göngum suður að skurðinum Rio di San Giuseppe. Við beygjum þar til hægri, förum yfir næstu brú og göngum suður að görðunum, þar sem alþjóðlegi bíennalinn er haldinn. Alls er þetta um kílómetra löng ganga.
Giardini Pubblici
(D2)
Garðarnir eru víðáttumiklir beggja vegna Rio dei Giardini. Hérna megin heita þeir Giardini Pubblici og þar er bíennalinn til húsa. Hinum megin heita þeir Parco delle Rimembranze.
Við göngum úr görðunum út á lónsbakkann og förum hann langleiðina til baka til hertogahallarinnar, um hálfs annars kílómetra leið. Milli skurðanna Rio della Pietà og Rio dei Greci komum við að framhlið kirkju. Við getum líka sleppt því að skoða þessa kirkju og tekið almenningsbát beint frá bátastöðinni Giardini við vesturenda garðanna.
La Pietà
(Riva degli Schiavoni. Opið 9:30-12:30. C2)
Endurreist 1745-1760, með framhlið frá 1906, upprunalega kirkja munaðarleysingjahælis, en núna einkum notuð fyrir tónleika, sem haldnir eru að minnsta kosti mánudaga og fimmtudaga árið um kring.
Hælið varð frægt fyrir kóra og frægast fyrir kórstjórann Antonio Vivaldi, sem samdi hér ótal óratóríur, kantötur og önnur verk fyrir kóra. Kirkjan er raunar stundum kölluð Chiesa di Vivaldi eftir honum, enda skipa verk hans heiðursess í dagskránni.
Vivaldi var frægasti tónsnillingur Feneyja, uppi 1678-1741. Hann lærði til prests og starfaði fyrri hluta ævinnar sem kórstjóri Pietà munaðarleysingjahælisins. Hann samdi rúmlega 770 tónverk, þar á meðal 46 óperur, flestar þeirra frumfluttar í Feneyjum.
Uppáhaldshljóðfæri hans var fiðlan. Hann notaði hana mikið sem einleikshljóðfæri í verkum sínum.
Við ljúkum þessari gönguferð með því að fara tæplega 300 metra leið eftir bakkanum frá kirkjunni til Palazzo Ducale.
Dorsoduro
Sunnanverður tanginn milli Canal Grande að norðanverðu og Feneyjalóns að sunnanverðu. Nafnið þýðir, að jarðvegur er hér þéttari og traustari en víðast annars staðar í borginni. Þungamiðja hverfisins er listasafnið Accademia og brúin, sem er fyrir framan safnið og tengir hverfið við meginhluta miðborgarinnar.
Á sjálfum tanganum vestan við Accademia er rólegt íbúðahverfi vel stæðra Feneyinga og útlendinga. Austan við safnið er fjörugra hverfi miðstéttafólks og allra austast við hafskipahöfnina er verkamannahverfi. Suðurbakkinn við lónið er vinsæll slökunarstaður með útikaffihúsum, þar sem fólk sameinar sólskinið, útsýnið og sjávarloftið.
Við byrjum gönguna austast, við bátastöðina Salute, fyrir framan kirkjuna.
Santa Maria della Salute
(Campo della Salute. Opið 8:30-12 & 15-17. B2)
Skrautleg hlaðstílsterta úr hvítum kalksteini, hönnuð af Baldassare Longhena, reist 1631-1687. Hún stendur á bezta stað, við austurodda Dorsoduro hverfis, þar sem Canal Grande mætir Feneyjalóni, og blasir við úr öllum áttum. Hún er áttstrend og ofhlaðin skrauti, með sextán risavöxnum bókrollustoðum á þaki.
Að innanverðu er kirkjan hófsamlegri. Hún hefur að geyma altaristöflu og loftmálverk eftir Tiziano og verk eftir fleiri kunna listamenn, svo sem Jacopo Tintoretto. Steinfellugólfið er óvenjulega fallegt, með ýmsum tilbrigðum í hringlaga mynztri.
Baldassare Longhena var einn helzti hlaðstílsarkitekt Feneyja á 17. öld. Hann hannaði líka höllina Ca’Pesaro og byrjaði á Ca’Rezzonico.
Við göngum beint inn í hverfið vestan við kirkjuna. Af kirkjutorginu förum við á trébrú milli San Gregorio kirkju og klausturs.
San Gregorio
(Campo della Salute. B2)
Þetta eru leifar voldugs klausturs heilags Gregoríusar, sem lagt var niður fyrir löngu. Kirkjan er einföld og látlaus múrsteinskirkja í gotneskum stíl.
Við göngum meðfram kirkjunni eftir Calle Abazia og Calle Bastion, yfir brú og áfram Calle San Cristoforo að Guggenheim safninu, alls um 300 metra leið.
Collezione Peggy Guggenheim
(Calle San Cristoforo. Opið miðvikudaga-mánudaga 11-18. B2)
Merkilegt nútímalistasafn í garði og höll, sem aldrei varð nema jarðhæðin ein. Þar eru verk eftir Jackson Pollock, Pablo Picasso, Joan Miró, Constantin Brancusi, Max Ernst, Wassily Kandinsky, Piet Mondrian, Giorgio de Chirico, Kasimir Malevich og Marino Marini.
Peggy Guggenheim var mikill listvinur og framúrstefnukona, þegar hún safnaði verkum málaranna, sem síðar urðu einkennismálarar síðari hluta 20. aldar. Það er hressandi að skoða safn hennar, þegar maður er orðinn þreyttur á aldagamalli list, sem hvarvetna verður á vegi manns í borginni.
Ráðgert er að flytja hluta safnsins í gömlu tollbúðina, Dogana di Mare, við Salute kirkjuna. Þá verður unnt að sýna mun fleiri verk, sem nú eru í geymslum þess.
Við höldum áfram frá safninu nokkur skref út á Fondamenta Venier.
Rio della Torreselle
(Fondamenta Venier. B2)
Friðsæll skurður á gönguleiðinni milli Salute og Accademia.
Við skurðinn er veitingahúsið Ai Gondolieri. Í nágrenninu er hótelið og veitingahúsið Agli Alboretti.
Við göngum eftir skurðbakkanum og síðan beint áfram eftir Calle della Chiesa og Piscina Fornier, framhjá listasafninu Collezione Cini, sem er stundum opið og oftast ekki, og áfram eftir Calle Nuova Sant’Agnese að vesturhlið Accademia, alls rúmlega 300 metra leið. Við göngum norður fyrir safnið til að komast að innganginum.
Accademia
(Campo dei Carità. Opið mánudaga-laugardaga 9-14, sunnudaga 9-13. B2)
Helzta og stærsta listasafn borgarinnar er til húsa í klaustri og klausturkirkjunni Santa Maria della Carità. Það sýnir þróun feneyskrar málaralistar frá býzönsku og gotnesku upphafi til endurreisnar og hlaðstíls. Þar sem feneysk málaralist skipar eitt fremsta sætið í listasögu þessara tímabila, er Accademia með merkustu málverkasöfnum veraldar.
Merkustu verkin úr aflögðum kirkjum og klaustrum borgarinnar hafa verið flutt hingað, svo og ýmis helztu einkennisverk feneyskrar listasögu. Uppsetningin er í tímaröð, svo að auðvelt er að átta sig á þróun feneyskrar málaralistar. Rúmt er um málverkin, svo að tiltölulega auðvelt er að njóta þeirra, einkum þó á vel björtum degi.
Safnið stækkaði við brottflutning akademíunnar sjálfrar, Accademia di Belle Arti, svo að unnt er að sýna verk, sem áður lágu í geymslum. Hér eru verk eftir hina býzönsku Paolo Veneziano og Lorenzo Veneziano, endurreisnarmennina Jacopo Bellini, Gentile Bellini og Giovanni Bellini, Palma og Tiziano, svo og hlaðstílsmálarana Giambattista Tiepolo og Giandomenico Tiepolo.
Við staðnæmumst hér einkum við verk eftir snemm-endurreisnarmanninn Carpaccio, síð-endurreisnarmanninn Tintoretto og hlaðstílsmanninn Veronese. Við tökum þá í tímaröð.
Vittore Carpaccio
(Accademia. B2)
Carpaccio var uppi 1486-1525, kom sem málari í kjölfar Bellini-feðga, notaði skarpa teikningu og milda liti, svo og mikla nákvæmni í útfærslu. Málverkið í safninu frá Canal Grande hefur mikið sagnfræðilegt gildi fyrir utan það listræna, því að hann málaði meira að segja texta skiltanna á húsunum nákvæmlega. Þar má líka sjá Rialto-brú eins og hún var á blómaskeiði Feneyja.
Verk hans má meðal annars einnig sjá í safninu í Ca’d’Oro og í Museo Correr.
Annar höfuðmálari í Accademia er Tintoretto.
Jacopo Tintoretto
(Accademia. B2)
Tintoretto var uppi 1518-1594, helzti málari Feneyja á fægistíls-blómaskeiði endurreisnartímans. Hann notaði mikið dimma myndfleti með lýstum flötum, sterka liti og litaandstæður. Málverk hans eru flest trúarleg.
Í Accademia eru nokkur málverk hans, en heillegast safn þeirra er í Scuola Grande di San Rocco. Risaverk hans um Paradís og nokkur fleiri eru í veizlusal hertogahallarinnar. Verk hans eru víða í kirkjum hverfisins Cannaergio, þar sem hann var búsettur.
Veronese er þriðji málarinn, sem við ræðum sérstaklega, keppinautur Tintoretto.
Paolo Veronese
(Accademia. B2)
Veronese var uppi 1528-1588, einn helzti upphafsmaður svonefnds fægistíls, sem var lokaskeið endurreisnartímans í listum. Hann fæddist í Verona, en vann mest í Feneyjum. Myndir hans eru bjartar og afar litskrúðugar og sumar hverjar risastórar og flóknar, með raunsæjum smáatriðum. Meðal þeirra er Gestaboð í húsi Leví, risastórt málverk í Accademia.
Verk hans má sjá víðar í Feneyjum, meðal annars í hertogahöllinni og safninu í Ca’Rezzonico.
Við yfirgefum Accademia, göngum austur fyrir safnið og göngum Rio terrà Antonio Foscarini niður á lónsbakkann, rúmlega 300 metra leið.
Þar er kirkja á hægri hönd.
Gesuati
(Fondamenta Zattere ai Gesuati. Opið 8-12 & 17-19. B2)
Dómíníkönsk munkakirkja frá fyrri hluta átjándu aldar, mikið skreytt að innanverðu.
Þekktust er hún fyrir loftfreskur Giambattista Tiepolo með samspili ljóss og skugga. Í kirkjunni eru líka altarismyndir eftir Tintoretto og Tiziano.
Við athugum nánar loftmyndirnar eftir Tiepolo.
Giambattista Tiepolo
(Gesuati. B2)
Svifstílsmálarinn Giambattista Tiepolo var uppi 1696-1770, meira en heilli öld á eftir Veronese, langsíðastur hinna frægu málara Feneyinga. Verk hans eru svanasöngur feneyskrar myndlistar. Hann naut mikillar hylli í heimaborg sinni, en vann einnig töluvert við erlendar hirðir, þar á meðal hjá Karli III Spánarkonungi.
Tiepolo notaði ljós og skugga eins og flestir fyrri málarar Feneyja, en lagði meiri áherzlu en aðrir á milt samspil pastel-lita. Loftfreskurnar í Gesuati eru dæmigerð verk hans, sem og málverkið af heilagri guðsmóður og englunum.
Verk eftir hann má meðal annars einnig sjá í safninu Accademia hér í nágrenninu, í kirkjunni San Polo og í söfnunum í Palazzo Labia og Ca’Rezzonico.
Við göngum út á lónsbakkann framan við kirkjuna.
Zattere
(A2)
Lónsbakkinn eftir endilangri suðurhlið hverfisins Dorsoduro, andspænis eyjunni löngu og mjóu, Giudecca, er vinsæll slökunar- og kaffidrykkjustaður í sólskini og sjávarlofti. Fyrr á öldum var bakkinn helzta salthöfn Evrópu.
Við höldum til vesturs 200 metra eftir bakkanum unz við komum að næstu brú, yfir Rio di San Trovaso. Við beygjum til hægri meðfram skurðinum, 100 metra eftir Fondamenta Nani. Handan skurðarins sjáum við gondólasmiðju.
Squero di San Trovaso
(A2)
Elzta gondólasmiðja borgarinnar, í húsakynnum, sem minna á Týról. Vinnusvæðið sést aðeins úr þessari átt, yfir skurðinn.
Við höldum áfram tæplega 200 metra eftir bakkanum, yfir næstu brú og til baka um 100 metra eftir hinum bakkanum, þar sem við komum að kirkju.
San Trovaso
(Campo San Trovaso. Opið mánudaga-laugardaga 8-11 & 16:30-18:30, sunnudaga 8:30-13 . A2)
Reist 1590, með tveimur framhliðum, þekkt fyrir málverk eftir Tintoretto.
Hægra megin við altarið er litskært málverk hans af Tilbeiðslu vitringanna.
Við snúum til baka til norðurs eftir skurðbakkanum og beygjum síðan til vinstri eftir Calle della Toletta, Sacca Toletta, Fondamenta Toletta og Sottoportego Casin yfir á torgið Campo San Barnaba. Alls er þetta um 500 metra leið.
Campo San Barnaba
(A2)
Rólegt markaðstorg í miðju Dorsoduro. Í götunum í kring er töluvert um skemmtilegar verzlanir, þar sem meðal annars er hægt að kaupa minjagripi lægra verði en við helztu ferðamannastaðina. Í Calle dei Botteghe handan brúarinnar við kirkjustafninn er til dæmis ágæt grímubúð.
Skömmu áður en komið er að torginu er merkt leið um sund til veitingahússins Antica Locanda Montin. Frá torginu sjálfu er stuttur spölur til veitingahússins La Furatola.
Eftir að hafa litið inn í Calle dei Botteghe, göngum við til baka að brúnni, en beygjum þar til vinstri eftir Fondamenta Rezzonico, sem er 100 metra löng og liggur að hallarsafni við Canal Grande.
Ca’ Rezzonico
(Fondamenta Rezzonico. Opið á sumrin 10-17, á veturna laugardaga-fimmtudaga 10-16. A2)
Baldassare Longhena reisti höllina í hlaðstíl á síðari hluta 17. aldar.
Hún er skarti búin að innanverðu, þétt skipuð málverkum, veggmyndum og forngripum. Danssalurinn liggur eftir endilangri annarri hæðinni, með gylltum ljósakrónum og þrívíddarmálverkum í lofti, svo og útskornum húsbúnaði. Nokkur stofuloft eru með veggfreskum eftir Giambattista Tiepolo.
Hún er núna minjasafn um Feneyjar 18. aldar. Þar eru meðal annars málverk eftir Pietro Longhi, Francesco Guardi, Canaletto og Giandomenico Tiepolo.
Við höldum til baka eftir bakkanum að annarri brú, Ponte dei Pugni eða “Slagsmálabrú”, þar sem hefðbundið var fyrr á öldum, að klíkur fengju að slást. Við förum ekki yfir brúna, heldur beygjum til hægri eftir Rio terrà Canal og síðan til vinstri eftir Rio terrà della Scoazzera inn á stórt torg, alls rúmlega 300 metra leið.
Campo di Santa Margherita
(A2)
Notaleg miðstöð mannlífs í vesturhluta Dorsoduro-hverfis, óreglulegt og þorpslegt torg, umkringt sérkennilegum verzlunum í 14. og 15. aldar húsum.
Við göngum úr suðurenda torgsins að sundi milli kirkju og klausturs inn á torgið Campo dei Carmini og virðum fyrir okkur kirkjuna.
Santa Maria dei Carmini
(Campo dei Carmini. Opið 7:30-12 & 16:30-19. A2)
14. aldar kirkja, töluvert breytt á síðari
