Fellsströnd

Frá Knarrarhöfn á Fellsströnd um Klofning að Krossi á Skarðsströnd.

Leiðin fylgir þjóðvegum að mestu. Vestast á Fellsströnd undir Klofningi eru blautar mýrar og sund.

Þar voru lagðar hestagötur með lagi, sem lýst er í Árbók Ferðafélagsins 1947. “Hrís lagt undir, tyrft og hlaðið á ofan grjóti, helzt hellusteinum. Seig það smám saman niður í sundin, en þá var bætt grjóti á ofan. Mjóar brýr voru og gerðar úr hnausum yfir mýrar þessar og stráð síðan möl ofan á. Oft var erfitt að fá bændur til þessara starfa og varð stundum að beita hörðu til þess að fá verkið framkvæmt.”

Staðarfell er eitt af höfuðbólum landsins. Þar bjó Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu, ættföður Sturlunga. Þar bjó Hannes Hafstein, þegar hann var sýslumaður í Dölum.

Byrjum á þjóðvegi 590 við Knarrarhöfn á Fellsströnd. Förum suðvestur af veginum eftir slóð að Teigi og undir Skorravíkurmúla að eyðibýlinu Skorravík. Síðan áfram yfir Skorravíkurá að þjóðvegi 590. Förum með veginum vestur að Staðarfelli. Þar förum við norður á fjallið austan Háhamars og beint norður að Flekkudalsá, yfir ána og að Svínaskógi handan hennar. Þar komum við á þjóðveg 593 vestur Skarðsströnd og fylgjum honum vestur um Orrahól og Stóru-Tungu undir Tungumúla og áfram með þjóðvegi 590 um Ormsstaði og fyrir Klofning að Krossi í Villingadal.

46,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Skothryggur, Staðarfell, Ytrafell, Galtardalur, Dagverðarnes, Skeggaxlarskarð, Hvarfsdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson