Fávísir og hættulegir

Greinar

“Sérfræðingar” ríkisstjórnarinnar í skattamálum virðast ófáanlegir ofan af þeim misskilningi, að núverandi álagningarstofnar skeri úr um, hverjir hafi breiðu bökin og hverjir ekki.

Afleiðingin er meðal annars sú, að aldraðar ekkjur verða sérstaklega fyrir barðinu á ríkisstjórninni og “sérfræðingum” hennar. Þær búa nefnilega sumar hverjar einar í íbúðum sínum nálægt bæjarmiðju.

Þessar konur bera háa eignaskatta og fasteignagjöld, bæði af því að íbúðir þeirra eru tiltölulega stórar og af því að þær eru á stöðum, sem kerfið telur verðmæta.

Þær búa í þessum íbúðum vegna gamalla minninga frá þeim tímum, er íbúðirnar hýstu stórar fjölskyldur þeirra. Sumar hafa búið þar áratugum saman og eiga þar djúpar rætur.

Engum heilvita manni dettur í hug að hrekja þessar konur í eins herbergis íbúðir í Breiðholti. Það eru bara fávísir ráðherrar og hættulegir “sérfræðingar” þeirra, sem gera tilraunir til slíks með því að hækka eignaskatt ekknanna um 50%.

Fávísi kerfisþrælanna byggist á því, að þeir halda íslenzkan eignaskatt hliðstæðan erlendum eignaskatti. En erlendis á almenningur ekki eignir, heldur aðeins stóreignamennirnir.

Fólk, sem á sínar íbúðir, þótt stórar séu, er ekki eignafólk í íslenzkum skilningi. Það hefur bara lagt út í þennan herkostnað í baráttunni við verðbólguna.

Í rauninni ættu eignaskattar ekki að byrja fyrr en á eignum, sem eru umfram myndarlega sjálfseignaríbúð og sæmilegan bíl.

Fávísi kerfisþrælanna á eignaskatti á sér hliðstæðu í fávísi þeirra á tekjuskatti. Þeim finnst einkar athyglisvert, að hæsti jaðarskattur skuli ekki vera eins hár hér á landi og í mestu skattpíningarríkjum jarðar.

Þeir sjá ekki nógu djúpt til að skilja að hinn hái jaðarskattur á Norðurlöndum er miðaður við tekjur, sem eru margfalt hærri en þekkjast hér. Hann leggst á tekjur, sem skipta tugum milljóna á ári.

Hinn hái jaðarskattur á Norðurlöndum leggst aðeins á örlítið brot íbúanna. Hér á landi leggst hinn hái jaðarskattur hins vegar á alla, sem hafa heldur meira en meðaltekjur.

Íslenzkir jaðarskattar eiga því ekkert sambærilegt með norrænum jaðarsköttum. Hér á landi vantar öll hæstu þrepin í tekjuskattsstofninum.

Nú er það áreiðanlega bjarnargreiði að benda fávísum stjórnmálamönnum og hættulegum “sérfræðingum” þeirra á þetta atriði. Þeir munu bara reyna að finna ný skattþrep ofan á þau, sem fyrir eru.

Þar með er líka komið að mikilvægasta misskilningi kerfisþrælanna. Þeir halda, að breiðu bökin í þjóðfélaginu hafi tekjur, sem mældar séu á skattskýrslum.

Því miður er ástandið ekki þannig. Breiðu bökin eru einmitt breið, vegna þess að þau hafa árum saman komizt hjá því að telja fram tekjur sínar og komast enn hjá því.

Hækkun álagningar eykur ekki skattbyrði breiðu bakanna um svo mikið sem eina krónu. Hún eykur bara byrði hinna, sem ekki hafa aðstöðu eða geð til að koma tekjum sínum framhjá mælikvarða skattkerfisins.

En það er eins og að stökkva vatni á gæs að tyggja í sífellu ofan í fávísa stjórnmálamenn og hættulega “sérfræðinga” þeirra, að skattahækkun á borð við hina síðustu eykur misréttið í þjóðfélaginu, en minnkar það ekki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið