Líkur benda til, að í þingkosningunum 1. og 2. desember skili Alþýðuflokkurinn Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum því fylgi, sem hann tók að láni í síðustu kosningum, svo að upp komi enn á ný hefðbundin valdahlutföll flokkanna.
Þetta er í stórum dráttum niðurstaða nýjustu skoðanakönnunar Dagblaðsins, sem birt er í dag. Hún kemur ekki á óvart, enda er hún að flestu leyti svipuð niðurstöðum kannana þeirra, sem Dagblaðið gerði í marz og júní.
Tilfærslur fylgis milli flokka virðast hafa verið meiri undir lok síðasta árs og fyrri hluta þessa árs en þær hafa verið síðari hlutann. Sveiflurnar voru þegar að baki í sumar og við var tekið hefðbundið jafnvægi.
Alþýðuflokkurinn var í júní kominn niður í tæp 13% atkvæða í skoðanakönnun Dagblaðsins og heldur þeirri stöðu í nýjustu könnuninni. Má sá flokkur mikið herða síg, ef hann ætlar að ná þeim 22%, sem hann fékk í síðustu kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist heldur vera að dala upp á síðkastið eftir að hafa verið með upp undir og um 50% kjósenda á sínu bandi, það sem af er kjörtímabilsins. En rúm 43% er samt gífurleg aukning frá tæpum 33% síðustu kosninga.
Talan 43% minnir á kosningasigur Sjálfstæðisflokksins áríð 1974, þegar vinstristjórn hafði um skeið verið við völd. Skoðanakönnunin bendir til, að sagan mundi endurtaka sig í þessu eins og svo mörgu öðru.
Sennilega hafa fyrri tölur okkar um fylgi Sjálfstæðisflokksins í sumar, rúm 49% og tæp 51%, endurspeglað óánægju kjósenda, fremur en fyrirhugað atferli þeirra í kjörklefa. Og spár annarra um 58% fylgi hljóta að teljast grín.
Nú sjá kjósendur fram á raunverulegar kosningar. Þar með dregur úr hinni ýktu mynd fyrri kannana, er óánægðir kjósendur skila sér með semingi til föðurhúsanna. Þess vegna er 43% trúlegri tala en 50% og hvað þá 58%.
Framsóknarflokkurinn virðist hafa búið við stöðugt fylgi síðari hluta ársins eftir að hafa áður bætt að nokkru upp fylgistapið í síðustu kosningum. Tölurnar sýna eins og í júní tæp 22%, mun hærra en tæp 17% kosninganna.
Sviptingar kjörtímabilsina virðast minnst hafa snert Alþýðubandalagið, ef við tökum meira mark á þessari síðustu könnun en hinni næst á undan. Tæp 22% könnunarinnar og tæp 23% síðustu kosninga sýna nánast óbreytt fylgi.
Fyrir síðustu borgarstjórnar- og alþingiskosningar náði Dagblaðið mjög góðum árangri í skoðanakönnunum. Skekkjan í hinni fyrri var að meðaltali 3 prósentustig og aðeins 2 í hinni síðari. Aðrir komust ekki með tærnar, þar sem Dagblaðið hafði hælana.
Ekki er ástæða til að ætla hinar nýju tölur jafn nákvæmar. Hugsanlegt er, að Dagblaðið hafi verið óeðlilega heppið í fyrra. Hitt skiptir þó meiru, að enn er hálfur annar mánuður til kosninga og margt getur gerzt.
Lesendur ættu því ekki að taka sjálfar tölurnar bókstaflega, heldur aðeins sem grófa endurspeglun ákveðinna pólitískra sveiflna. Sem slíkar ættu tölurnar að vera gagnlegar, enda er hófsemi í tiltrú jafnan bezt.
Fáir munu verða til að andmæla þeirri meginniður:stöðu, að fyrri kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem síðast kusu Alþýðuflokk, hafi nú margir hverjir snúið aftur til föðurhúsanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið