Farið

Frá Hlöðuvöllum yfir Farið að Fremstaveri.

Slóðin á kortinu sýnir göngubrúna yfir Farið við suðvesturhorn Einifells. Hestamenn fara á vaði um kílómetra norðar, við norðvesturhorn Einifells.

Seinni helmingur Eyfirðingavegar, sem lá frá Þingvöllum inn á Kjalveg sunnan Bláfells. Þetta er hlutinn frá Hlöðuvöllum til Bláfells. Að fornu og fram eftir öllum öldum var þetta að nokkru leyti gróið land, en varð á 20. öld að mestu sandblásin eyðimörk. Minjar um leiðina eru því að mestu foknar burt, nema undir Fagradalsfjalli. Væntanlega hefur Farið verið minna vatnsfall að fornu, en núna þarf að fara varlega yfir það. Þessi leið hafði þann kost umfram leiðir um byggðir Bláskógasveitar, að vatnsföll voru færri og vatnsminni á fjöllum. Þessa leið fór Árni Oddsson lögmaður vorið 1618 mikla þeysireið austan úr Vopnafirði til stuðnings föður sínum, Oddi Einarssyni biskupi, í deilum hans við Herluf Daa höfuðsmann.

Förum frá Hlöðuvöllum í 460 metra hæð suðvestur yfir Lambahraun og Rótarsand í Hellisskarð milli Högnhöfða að vestan og Kálfstinds að austan. Við förum sunnan við hólinn í miðju skarðinu og síðan niður með Högnhöfða. Þegar við komum niður úr skarðinu, sveigjum við til suðausturs og förum suður fyrir Svínafell. Þaðan förum við norðaustur að norðurhlið Sandfells, þar sem er horfin Norðlingatjörn, og síðan beint norður að Fagradalsfjalli. Þar má enn sjá miklar götur. Undir Einifelli förum við yfir Farið og síðan áfram til austurs undir Sandvatnshlíð að núverandi vegi yfir Kjöl suðvestan Bláfells. Við förum þvert yfir veginn að fjallaskálanum í Fremstaveri.

39,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.
Kiddakot: N64 25.783 W20 19.131.
Þriðja ríkið: N64 26.410 W20 18.140.
Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417.

Nálægir ferlar: Fremstaver, Hvítárvatn.
Nálægar leiðir: Hlöðufell, Skessubásavegur, Eyfirðingavegur, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Hellisskarð, Helludalur, Skjaldbreiður, Hagavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins