Fann Mathús Garðabæjar

Punktar

Fór upp í sveit og fann Mathús Garðabæjar falið að húsabaki með pínulitlu letri á útihurðinni. Nokkuð stór hverfismatstaður, notalegur, ekki ofskreyttur. Fiskur dagsins var þorskur á lágmarksverði í hádeginu, 1.990 krónur, hæfilega eldaður, aðeins of saltur. Nokkuð gott var líka andalæri, mikið steikt. Espresso var hins vegar óþægilega vont. Þarna voru afar og ömmur með barnabörn og slæðingur af verktökum með brilljantín í hárinu. Hingað koma auðvitað engir túristar. Snusaði aðeins og fann enga lykt af Flokknum. Mathúsið er helzt þekkt fyrir bröns um helgar, beikon, pönnukökur og bakkelsi. Steikarhlaðborð á sunnudagskvöldum.