Fagridalur

Frá Kaldbak í Hrunamannahreppi til Brúarhlaða við Hvítárbrú.

Tengileið milli reiðleiða í Hreppum og Tungum. Áður var farið um Foss, en vegna girðinga hefur þjóðleiðin færzt upp fyrir Tungufell. Hún er dæmi um, að reiðleiðir færast stundum upp fyrir heimalönd, þegar þau lenda í eigu þéttbýlisbúa, sem ekki skilja fornan og nýjan umferðarrétt um eignarlönd. Reiðgatan er orðin mjög skýr, enda vikulega farin af Íshestum.

Skemmtilegt er að fara um Fagradal og útsýni er fjölbreytt af hálsinum ofan við Kluftir yfir lönd Kaldbaks og Hörgsholts. Á Kluftum var Huppa frá Kluftum, frægasta kýr landsins og formóðir allra kúa á landinu. Kluftir hafa lengi verið í eyði. Á þessari leið eiga engir bílar að geta verið á ferð.

Förum frá Kaldbak í 220 metra hæð suður heimreiðina að slóð vestur yfir túnið. Fylgjum henni á brú yfir Kluftá, um eyðibýlið Kluftir og upp úr efsta horni túngirðingarinnar. Þaðan er slóð yfir háls til Fagradals. Förum þá slóð og síðan þvert yfir dalinn og Litlu-Laxá inn á slóð frá Berghyl á vesturbakka árinnar. Við fylgjum þeirri slóð inn Fagradal og síðan beint norður á Tjarnheiði, um Fosstorfur og Selmýri. Við höldum beint áfram heiðina, förum í 340 metra hæð austan við Hlíðarfjall. Á Hádegishæð komum við á jeppaslóð, sem þræðir niður Hlíðarfjall í Tungufellsdal. Við förum reiðslóð til vesturs og suðurs. Förum yfir þjóðveg 30 um Hrunamannahrepp á mótum þess vegar og þjóðvegar 349 um Tungufellsdal. Fylgjum síðan þjóðvegi 30 að brúnni á Hvítá við Brúarhlöð.

18,5 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbaksland, Kaldbaksvað, Laxárgljúfur, Fjallmannaleið, Litla- Laxá, Laxárdalsvað.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Tjarnheiði, Hrunamannahreppur, Tungufellsdalur, Gullfoss.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Herforingjaráðskort