Stundum detta íslenzk stjórnvöld niður á skemmtilegar lausnir á vandamálum, sem gætu virzt óleysanleg. Einkum á þetta við um deilumál, þar sem fjölmennur minnihluti er harðlega andvígur skoðunum meirihlutans.
Nokkuð traustur meirihluti þjóðarinnar er andvígur hundahaldi í þéttbýli og bruggun og sölu áfengs öls. Skoðanakannanir hafa leitt í ljós, að þessi meirihluti helzt óbreyttur ár eftir ár.
Hins vegar benda niðurstöður skoðanakannana til þess, að meirihlutamennirnir hafi ekki meiri samanlagða sannfæringu en minnihlutamennirnir hafa. Bjarni Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, hefur hvað ölið snertir sett fram athyglisverða túlkun skoðanakannana einmitt í þessum dúr í Dagblaðinu.
Alténd er í báðum þessum málum ljóst, að minnihlutinn er fjölmennur og harðákveðinn í afstöðu sinni. Þess vegna þarf að taka tillit til hans eins og venja er í lýðræðisríkjum, þótt meirihlutinn fái meiru að ráða.
Stjórnvöld hafa reynt að leysa bæði þessi vandamál með því að láta sjónarmið meirihlutans gilda á yfirborðinu, en veita minnihlutanum um leið ýmsa undankomumöguleika. Þetta veldur því, að báðir deiluaðilar eru tiltölulega ánægðir með sinn hlut.
Bruggun og sala áfengs öls er bönnuð hér á landi og sömuleiðis er hundahald í þéttbýli yfirleitt bannað. Þar með hefur meirihlutinn á báðum þessum sviðum haft sitt fram og getur verið tiltölulega ánægður.
Hins vegar geta menn yfirleitt haft hunda í þéttbýli þrátt fyrir bannið. Í Reykjavík verða menn þó að fara mjög gætilega og láta lítið bera á hundum sínum. Lögreglan virðist ekki hafa afskipti af öðrum hundum en þeim, sem valdið hafa vandamálum.
Í mörgum byggðum í nágrenni Reykjavíkur er bannið mun mildara. Þar getur hver sem er fengið undanþágu gegn banninu og látið skrá hunda sína opinberlega gegn nokkuð háu gjaldi. Þeir, sem eru hræddir um hunda sína í Reykjavík, geta auðveldlega flutt sig um set í einhvern svefnbæinn í nágrenninu.
Og menn geta líka haft sinn áfenga bjór þrátt fyrir bannið. Menn geta í fyrsta lagi keypt hann af farmönnum, sem undanþágu hafa. Í öðru lagi geta menn bruggað hann sjálfir úr ágætum hráefnum, sem fást í flestum matvöruverzlunum. Og í þriðja lagi geta þeir hellt örlitlu kláravíni út í venjulega ölið. Reynir Hugason verkfræðingur skýrði þetta ýtarlega í Dagblaðinu nýlega og rakti kostnað hverrar leiðar fyrir sig.
Hvort sem um hunda eða áfengan bjór er að ræða, þurfa menn að hafa örlítið fyrir hlutunum, ef þeir vilja komast undan hinu formlega banni. Þessi fyrirhöfn gæti dregið úr fjölda þeirra, sem annars mundu hafa hunda og áfengt öl. Bannmenn á þessum sviðum þurfa því ekki endilega að vera óánægðir með undanþágurnar.
Hliðstæð tilfelli eru fleiri. Formlega séð eru prestar kosnir hér. En biskupsskrifstofan hefur með vaxandi árangri beitt sér fyrir því, að ekki sé nema einn prestur í kjöri í hverjum kosningum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið