Eyfirðingavegur

Frá Skógarhólum með suðurjaðri Skjaldbreiðar að skála á Hlöðuvöllum.

Þetta er gamli Eyfirðingavegurinn. Nú á tímum taka hestamenn krók eftir jeppaslóð frá Gatfelli suður fyrir Söðulhóla og síðan norðaustur með Tindaskaga að Kerlingu. Fjölfarin reiðleið að fornu og nýju. Ein fegursta reiðleið landsins, umlukt bröttum fjöllum. Úr Goðaskarði er fögur fjallasýn til Skjaldbreiðar og Tindaskaga. Útsýnið verður enn tröllslegra, þegar við nálgumst bratta Skriðuna. Á þeim slóðum orti Jónas Hallgrímsson um Skjaldbreið, “fjallið allra hæða val”.

Hlöðuvellir eru gróðurlendi, góður áningarstaður. Þar skorti fyrrum vatn á sumrin, en Ferðafélag Íslands hefur borað eftir vatni við skálann. Hrikaleg fjöll gnæfa að völlunum úr öllum áttum. Tignarlegast er Hlöðufell, 1190 metra hár móbergsstapi með grágrýtiskolli, hömrum girtur. Uppgöngugil er við skálann og er gengið upp með því að vestanverðu. Vegurinn lá áður áfram austur um Hellisskarð og síðan suður fyrir Svínafell og þaðan norðaustur að Fagradalsfjalli. Yfir Farið sunnan Einifells og þaðan undir Sandvatnshlíð austur á núverandi Kjalveg við Bláfell.

Förum frá Skógarhólum með þjóðvegi 52 sunnan og austan undir Ármannsfelli, unz við komum á Hofmannaflöt. Þaðan förum við norðaustur Eyfirðingaveg vestan við Fremra-Mjóafell, um Biskupsflöt og austur Goðaskarð og áfram austan við Innra-Mjóafell norðaustur að Gatfelli. Þar beygjum við meira til austurs yfir Skjaldbreiðarhraun um Söðulhólagjá í átt að Kerlingu sunnan Skjaldbreiðar. Förum milli Kerlingar og norðurenda Tindaskaga, síðan yfir Þjófahraun austur að Skriðu og norðaustur með Skriðu og Skriðuhnjúk vestanverðum í 520 metra hæð og þaðan austur á Hlöðuvelli suðvestan við Hlöðufell. Þar er fjallaskáli í 460 metra hæð.

11,1 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.779 W21 04.807.
Skjaldborg: N64 22.153 W20 45.369.
Dalbúð: N64 22.100 W20 45.290.
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði, Kálfstindar.
Nálægar leiðir: Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði, Skógarkot, Lyngdalsheiði, Hrafnabjörg, Biskupavegur, Klukkuskarð, Skessubásavegur, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið, Hlöðufell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson