Eskidalsvað

Frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi um Eskidalsvað á Brúará að Skálholti.

Brúará er ein af vatnsmestu bergvatnsám á landinu. Hún var aðeins reið, þegar lítið var í ánni, því að hún getur verið vatnsmikil og straumþung, eins og kemur fram í frásögn Sturlungu af ferð Auðuns kols. Þá kusu menn frekar að fara um Laugarvatn og síðan Böðmóðsstaðavað eða Miklaholtsnesvað við Böðmóðsstaði eða Reykjavað við Syðri-Reyki, eins og Órækja gerði. Eskidalsvað fóru menn frekar í viðlögum eins og Auðunn kollur gerði. Nú er vaðið orðið nánast ófært vegna breytinga í ánni. Því fara menn fyrir norðan Mosfell og síðan yfir brúna við Spóastaði. Eskidalsvað er fram af Þórisstöðum, sunnan við Reykjanes.

Á nýársnótt 1242 reið Órækja Snorrason frá Þingvöllum með 500 manna liði til að hefna vígs Gissurar Þorvaldssonar á Snorra Sturlusyni, föður Órækju. Á Lyngdalsheiði hittu þeir Auðun koll, en létu hann lausan. Fór hann leið sína vestur, þar til leiti bar milli. Sneri þá aftur leiðinni þann veg, sem heiðin liggur lægra. Þegar þeir komu gegnt Reyðarmúla, tók að rökkva. Sneri Órækja leið sinni til Laugardals. Auðunn jók ferðina, sem hann mátti, hljóp heiðina þvert til Lyngdals ok svo austur fyrir ofan Svínavatn til Þórisstaða og fékk sér þar hest yfir Eskidalsvað. Var áin mikil, ok synti hann þar yfir. Síðan hljóp hann heim í Skálholt og varaði Gissur við ferð Órækju. Eskidalsvað var á svipuðum slóðum og ferja var síðar á Brúará yfir í Skálholtstungu.

Byrjum milli Þóroddstaða og Neðra-Apavatns við þjóðveg 37 í Laugardal. Þaðan förum við götu vestur á Selhæð og síðan suður yfir þjóðveg 35 hjá Mosfelli og áfram eftir heimreið að Þórisstöðum eða Reykjanesi. Frá þeim bæjum förum við beint að Brúará á Eskidalsvaði. Ef vaðið er ófært, þurfum við að sundríða eða fara upp að brúnni við Spóastaði. Af vaðinu komum við í land í Skálholtstungu og förum upp tunguna og Skálholtsmýrar í Skálholt. Ég hef þetta vað á listanum af sagnfræðilegum ástæðum, en mæli ekki með, að hestamenn noti það.

9,9 km
Árnessýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Lyngdalsheiði, Dráttarhlíð, Bakkagötur, Vörðufell, Iðubrú.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga