Erfðabreytt hræsni

Punktar

Jeremy Rifkin telur í Guardian, að tilraunir George W. Bush Bandaríkjaforseta til að þröngva erfðabreyttum matvælum upp á Evrópu muni ekki bara mistakast, heldur gera illt verra. Neytendur í Evrópu séu samkvæmt skoðanakönnunum staðráðnir í að forðast slík matvæli, hvað sem Heimsviðskiptastofnunin segir. Rifkin telur óviðeigandi, að Bush skuli vísa til fátæku ríkjanna, því að Bandaríkin séu miklu nízkari en Evrópa í þróunaraðstoð. Þar að auki segir hann, að nóg matvæli séu til í löndum þriðja heimsins. Þau þurfi ekki erfðabreytt matvæli, heldur betri notkun þeirra matvæla, sem fyrir eru. Hann segir, að erfðabreytt matvæli séu aðferð til að mjólka þróunarríkin með því að láta þau borga leyfisgjald til bandarískra fyrirtækja. Hann segir, að svokölluð “töfrahrísgrjón” séu gagnslaus í þriðja heiminum. Allt tal Bush um erfðabreytt matvæli sé einber hræsni.