Útgáfa íslenzkra bóka hefur staðið í stað í nokkra áratugi. Og margt bendir til þess, að hún sé nú byrjuð að dragast saman. Mörg forlög hafa hætt starfsemi. Því er spáð, að á þessum vetri komi út færri bækur en venja hefur verið. Þá hefur meðalupplag bóka hrapað úr 2000 eintökum í 1500 eintök og virðist vera á góðri leið með að nálgast 1000 eintök.
Útgáfumagn bóka á íslensku er engan veginn fullnægjandi fyrir sjálfstætt málsamfélag. Þýðingum á mikilvægum erlendum bókum fer stöðugt fækkandi. Þess vegna er sífellt að takmarkast aðgangur Íslendinga að hugsunum og hugmyndum nútímans, eins og þær birtast í fagurbókmenntum og fræðiritum. Íslendingar eru að þessu leyti að einangrast menningarlega.
Menn verða að kunna erlent tungumál til hlítar til þess að geta fylgzt með menningar- og þekkingarstraumum nútímans. Þetta eykur hættuna á því, að íslenzk tunga verði smám saman að víkja fyrir erlendum tungumálum. Sumir vísinda- og menntamenn segjast vera teknir að hugsa á ensku, vegna þess að langflestar bækur,sem þeir lesa, eru á því máli.
“Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort bækur eiga að koma út í landinu”, segir Örlygur Hálfdánarson, formaður Bóksalafélagsins, í bréfi til ríkisstjórnarinnar, þar sem hann rekur margvíslegt misrétti, sem hann telur bókaútgáfuna verða að sæta.
Þar við bætist, að prentkostnaður hér heima hefur hækkað gífurlega að undanförnu. Talið er, að sæmileg jólabók muni í ár kosta upp undir 2000 krónur, sem augsýnilega er þungur baggi á pyngju manna. Sumir útgefendur hafa reynt að láta prenta bækur sínar erlendis í samlögum við erlenda útgefendur. En ýmis ljón eru þar á veginum, bæði tollar og skortur á gjaldfresti, sem innflutningur á bókum á erlendum málum þarf ekki að sæta.
Þjóðfélagið hér er svo fámennt, að ekki er unnt að koma við þeirri fullkomnu prenttækni, sem einkennir erlenda bókaútgáfu, einkum vasabrotsbóka. Upplög bóka geta ekki orðið nógu há hér á landi til þess, að dæmi fullkominnar prenttækni gangi upp.
Segja má, að ekki séu hundrað í hættunni, þótt nokkrar bókaútgáfur hætti störfum. Og með enn meira kaldlyndi mætti segja, að íslenzkan sé hvort sem er orðin úrelt, svo að varnarbaráttan fyrir henni sé þýðingarlaus.
En þjóðin verður alténd að gera upp við sig, hver hún vill, að þróunin verði á þessu sviði. Á íslenzka smám.saman að lognast út af, þannig að fyrst standi aðeins eftir nokkrir tugir kerlingabóka á ári hverju og síðan ekki neitt, þegar tungumálaþekking þjóðarinnar eykst? Eigum við í aðgerðaleysi okkar að dæma íslenzka tungu ósamkeppnishæfa í heimi nútímans?
Um þessar mundir stefna Íslendingar óafvitandi til þessa örlagaríka dómsúrskurðar. Þess vegna er rétt, að menn reyni að gera sér grein fyrir ástandinu, svo að menn leggi ekki vitandi vits smám saman niður íslenzka tungu, heldur geri sér skynsamlega grein fyrir kostum og göllum þess verknaðar.
Jónas Kristjánsson
Vísir